Fimmtudagur 25. júlí, 2024
12.8 C
Reykjavik

Dularfull veikindi herja áfram á flugfreyjur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við höfum allar verið með svakalegan þrýsting í höfði, eins og það sé að springa,“ segir flugfreyja hjá Icelandair sem telur eiturgufur í farangursrými orsök alvarlegra veikinda hennar. Fleiri úr sömu áhöfn veiktust. Sambærileg mál komu upp fyrir tveimur árum en rannsókn á þeim málum er enn ólokið. Einn af fleiri þáttum sem kannaðir hafa verið er hvort eiturgufur hafi borist inn í farþegarými með inntökulofti en það er tekið inn í gegnum hreyfla flugvélanna.

Óvinnufær í tvö ár

Mannlíf hefur heimildir fyrir því að einn þeirra flugliða sem veiktist árið 2016 sé enn óvinnufær og að minnsta kosti þrjú alvarleg tilfelli hafi komið upp nú í sumar. Flugfreyja hjá Icelandair sem er búin að vera í veikindaleyfi síðan í sumar eftir að hafa veikst í flugi féllst á að segja sögu sína nafnlaust. Hún segir lækna ganga út frá því að eiturgufur í inntökulofti valdi veikindunum, enda séu fleiri einstaklingar úr sömu áhöfn óvinnufærir. Slík flugatvik séu þekkt í flugheiminum. Eftir því sem Mannlíf kemst næst er þetta vandamál bundið við tvær af eldri flugvélum flugfélagsins. Þá hefur Mannlíf ekki fengið veður af kvörtunum farþega vegna sambærilegra mála.

Atvik flugfreyjunnar átti sér stað í hefðbundnu morgunflugi frá Bandaríkjunum, hún segist hafa verið úthvíld og flugið verið rólegt og þægilegt. Hún minnist þess að hafa orðið vör við dofa í tám en ekki hugsað frekar út í það. Síðan sofnaði hún en tekur það skýrt fram að slíkt hafi aldrei áður komið fyrir sig í vinnunni. Hún hafi fundið fyrir mikilli þreytu og annað stafsfólk haft orð á því að hún virtist „detta út“ og að höfuð hennar hafi hangið fram á bringuna.

Sofnaði undir stýri

Við komuna til Keflavíkur hafi hún farið upp í rútu og sofið alla leið til Hafnarfjarðar. Þegar þarna er komið sögu gerði flugfreyjan sér ekki grein fyrir því að eitthvað væri að. Hún settist upp í bíl og ók af stað heim en ekki vildi betur til en svo að hún sofnaði undir stýri og keyrði út af. Eiginmaður hennar sótti hana og keyrði á sjúkrahús til skoðunar þar sem hún virtist ekki vera með sjálfri sér. Teknar voru blóðprufur og að lokinni skoðun var hún send heim.

- Auglýsing -

Daginn eftir sáu aðstandendur konunnar að eitthvað mikið var að. Hún gat ekki haldið uppi samræðum, talaði hægt og fann fyrir miklum svima og sljóleika. Henni var í kjölfarið ekið á bráðadeild. Þetta ástand kom og fór næstu daga og vikur. Flugfreyjan hefur verið óvinnufær síðan í ágúst og sömu sögu er að segja af tveimur öðrum flugliðum úr sömu flugáhöfn.

„Við höfum allar verið með svakalegan þrýsting í höfði, eins og það sé að springa. Ég á mjög erfitt með að höndla áreiti úr umhverfinu og get ekki farið á fjölfarna staði s.s. matvöruverslanir. Taugalæknirinn minn segir að miðtaugakerfið sé í lamasessi og ég má í raun ekkert gera. Mér er ráðlagt að vera heima í slökun svo að einkennin verði ekki krónísk,“ segir flugfreyjan og bætir við að Flugfreyjufélag Íslands sé að vinna í málinu fyrir sína skjólstæðinga. Berglind Hafsteinsdóttir, formaður félagsins, vildi ekki tjá sig um málið þegar blaðamaður leitaði eftir því.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -