Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Ættfræðin nýjasta vopn lögreglunnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ættfræðigagnabankar sem byggja á lífsýnum njóta sívaxandi vinsælda erlendis. Lögregla hefur í auknum mæli nýtt sér upplýsingasöfnin til að leysa sakamál, sem er umdeilt.

 

Það vakti gríðarmikla athygli þegar stúlkubarn fannst í ruslagámi á iðnaðarsvæði í Bjølsen í Ósló 11. ágúst 1990. Stúlkan var kölluð „gámabarnið“ í fjölmiðlum en þrátt fyrir tilraunir lögreglu tókst ekki að hafa uppi á þeim sem hafði látið hana í sorpið. Í vikunni tilkynntu stjórnendur sjónvarpsþáttarins Åsted Norge hins vegar að þeim hefði tekist, með aðstoð ættfræðinnar, að hafa uppi á móður stúlkunnar. Ingrid sem var um síðir ættleidd mun að öllum líkindum hitta konuna sem fæddi hana, á næstu misserum.

Samkvæmt Åsted Norge mun þetta vera í fyrsta sinn sem sakamál er leyst með aðstoð ættfræðigagnabanka en vestanhafs hefur færst í vöxt að lögregluyfirvöld nýti sér aðstoð ættfræðinga og einkarekinna ættfræðigagnabanka til að hafa uppi á brotamönnum. Þannig tókst t.d. loksins að hafa uppi á svonefndum „Golden State Killer“ árið 2018 eftir að rannsóknarlögreglumaður á eftirlaunum bar saman lífsýni úr morðingjanum við erfðaupplýsingar á vefsíðunni GEDmatch. Böndin bárust að Joseph James DeAngelo en ættingi hans hafði nýtt sér vefsíðuna. Lögreglu tókst að afla lífsýna frá DeAngelo og staðfesta að þar færi maðurinn sem hefði framið að minnsta kosti 13 morð, fleiri en 50 nauðganir og yfir 100 innbrot.

Ættfræðigagnabankar eru í þessu samhengi vefsíður sem einstaklingar geta nýtt sér til að finna náskylda og fjarskylda ættingja. Ferlið fer þannig fram að einstaklingur safnar lífsýnum hjá sjálfum sér með viðeigandi tækjum, sendir þau inn til greiningar og getur síðan nálgast upplýsingar sínar og samanburð við aðra á vefsíðunum. Síðurnar eru ólíkar að því leyti að sumar bjóða bæði upp á greiningu og samanburð en aðrar geyma bara niðurstöður erfðaprófanna sem notendur senda inn.

Löglegt en siðlaust?

Ættfræðigagnabankarnir hafa notið vaxandi vinsælda síðustu ár en stærstu bandarísku vefsíðurnar eru Ancestry með 15 milljón notendur og 23andMe með 10 milljón notendur. Fyrirtækin á bak við síðurnar eru hins vegar afar umdeild, þá ekki síst vegna notkunar lögreglu á þeim gögnum sem fyrirtækin varðveita.

- Auglýsing -

Sérfræðingar eru sammála um að upplýsingasöfnin sem fyrirtækin lúra á séu mjög gagnleg fyrir lögreglu, enda fer þeim málum sífellt fjölgandi þar sem ættfræðin, til viðbótar við erfðafræðina, hefur komið við sögu við lausn gátunnar. Þeir benda hins vegar á að fæstir sem senda erfðaupplýsingar sínar inn til greiningar, oftar en ekki sér til skemmtunar, geri sér grein fyrir að upplýsingar kunni að verða notaðar til að klófesta bróður, frænku eða afa. Þá geri fólk ráð fyrir því að þegar um er að ræða heilbrigðisupplýsingar sé kveðið á um að fyrirtækin leiti samþykkis áður en upplýsingarnar séu notaðar í öðrum tilgangi eða deilt með þriðja aðila.

Hvað lagalegu hliðina varðar eru menn ekki á eitt sáttir um lögmæti þess að nota gögnin en sumir hafa bent á að lögreglu hafi löngum verið heimilt að safna og rannsaka erfðaefni sem fólk skilur eftir sig, svo sem sígarettustubba og hár. Þannig væri hægt að færa rök fyrir því að þar sem fólkið setur erfðaupplýsingar sínar sjálfviljugt inn í opna gagnabanka, geti það ekki vænst trúnaðar. Hins vegar hefur verið kallað eftir gegnsæi hjá lögregluyfirvöldum, það er að þau upplýsi hvaða upplýsingasöfn þau noti, hvernig og hversu mikið.

Lestu umfjöllunina í heild í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -