Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Gylfi Þór er til staðar fyrir aðra: „Fólk er ekki að koma hingað til að leggjast upp á kerfið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Staðan í húsnæðismálum er þung en alls ekki ómöguleg. Fólk á flótta dvelur í skammtímahúsnæði í allt að átta vikur og það er það húsnæði sem við erum að vinna í að fjölga. Töluverður fjöldi fólks ætti að öllu óbreyttu að vera á útleið úr þessum skammtímarýmum og annað hvort út á leigumarkað á eigin vegum eða til sveitarfélaganna en samningar standa yfir við sveitarfélögin.

Bæði þarf að fjölga þeim sveitarfélögum sem eru í samræmdri móttöku og eins að endursemja við þau sem fyrir eru en þessir samningar liggja allir á borðinu og unnið er að kappi að klára undirritun,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðastjóri teym­is um mót­töku flótta­fólks frá Úkraínu, en í frétt RÚV í morgun kom fram að ríkið skoði að taka á leigu 10 hús sem gætu hýst allt að 600 flóttamenn.

„Ríflega helmingur þeirra sem koma hingað til lands í leit að vernd eru frá Úkraínu eða um 1900 af þeim 3.300 sem hafa komið hingað til á árinu. Næst mesti fjöldinn er frá Venesúela, eða um 700, og um 160 hafa komið frá Palesínu. Þess má geta að um 80% þeirra sem koma frá Venesúela eru komin í vinnu tveimur til þremur árum frá komu sinni hingað til lands. Það er þá fólk sem greiðir sína skatta og skyldur hér á landi. Það er geysilega hátt hlutfall og sýnir okkur að fólk er ekki að koma til að leggjast upp á kerfið eins og stundum hefur verið látið í veðri vaka.“

Er Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins meðal annars að bæta við sálfræðingum í móttökumiðstöðinni okkar í Domus.

Yfir 100 milljónir á flótta

Gylfi Þór hittir margt af þessu fólki.

„Almennt séð er ástand þess ágætt. Hins vegar er því ekki að leyna að nú þegar stríðið í Úkraínu ágerist og dregst á langinn þá er að koma hingað fólk sem upplifað hefur hörmungar á eigin skinni og í því sjónarmiði er Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins meðal annars að bæta við sálfræðingum í móttökumiðstöðinni okkar í Domus ásamt öðrum aðgerðum sem við erum að grípa til.

- Auglýsing -

Það er í þessu eins og öðrum störfum sem snúa að fólki að viðbragðið þarf að vera lifandi og taka breytingum miðað við aðstæður hverju sinni og við því erum við að bregðast.“

Flóttamönnum og hælisleitendum sem hingað koma hefur fjölgað mikið. Hversu mörgum að mati Gylfa Þórs getum við og ættum við að taka á móti?

„Á Íslandi er næga vinnu að fá og sífellt hamrað á því að hér vanti vinnuafl. Fólkið sem hingað kemur í leit að vernd vill að langstærstum hluta aðlagast samfélaginu, fá vinnu, setja börn í skóla og taka þátt í uppbyggingu samfélagsins. Í dag eru yfir 100 milljónir á flótta í heiminum og það er siðferðisleg skylda okkar að taka á móti fólki. Við skulum heldur ekki gleyma því að við erum aðilar að alþjóðasamfélaginu og lögum sem gilda um að aðstoða fólk í neyð.“

Þetta eru ekki fallegar sögur.

- Auglýsing -

Hvað er það versta sem Gylfi Þór hefur upplifað varðandi þetta starf?

„Í þeim störfum sem ég velst í þá slær mig fátt út af laginu svo ég á erfitt með að meta hvað sé það versta. Hins vegar er oft erfitt að heyra sögur fólks og það sem það hefur upplifað í sínu heimalandi eða á flóttanum. Þetta eru ekki fallegar sögur og eitthvað sem gæti hent okkur öll. Íslendingar hafa verið á flótta líka og við skulum ekki gleyma sögunni.

Þriðjungur þjóðarinnar flúði héðan til Brasilíu og Kanada og mormónar flúðu líka land vegna ofsókna í sinn garð. Við gætum horft á það að fólk flýi héðan ef til Kötlugoss kæmi og svo mætti lengi telja. Vonandi þurfum við þó aldrei að flýja vegna stríðsátaka.“

Gylfi Þór Þorsteinsson

Starfsmaður á skóflu

Gagnrýnisraddir hafa verið uppi um þennan mikla fjölda sem hingað leitar og að breyta þurfi útlendingalögunum og hefur frumvarp um breytingar á útlendingalögum frá árinu 2016 verið lagt fram í fimmta sinn.

Hver er skoðun Gylfa Þórs á því?

„Persónulega hef ég ekki kynnt mér nýtt frumvarp dómsmálaráðherra, enda er ég bara starfsmaður á skóflu. Mitt hlutverk er að passa upp á að gripið sé til þeirra aðgerða sem hægt er varðandi móttöku þeirra sem hingað koma. Ég læt aðra um pólitíkina.“

Ég held að fólk telji að þessi hópur sé stærri en hann raunverulega er.

Hvað með að sumir komi hingað á fölskum forsendum og misnoti kerfið? Hvað þarf að gera í því að mati Gylfa Þórs?

„Eftir því sem ég best veit er það nú í ágætis horfi. Ef fólk kemur hingað á fölskum forsendum eða er að misnota kerfið þá eru stofnanir eins og meðal annars lögregla sem hafa úrræði til að grípa til. Ég held að fólk telji að þessi hópur sé stærri en hann raunverulega er.“

Gylfi Þór Þorsteinsson

Á útkíkkinu

Gylfi Þór var í Covid-faraldrinum umsjónarmaður sóttvarnarhúsa í Reykjavík. Hann þótti þá líka standa eins og klettur við hlið þeirra sem á aðstoð þurftu að halda. Hvað stendur upp úr hvað þann tíma varðar?

„Covid-tíminn kenndi manni ýmislegt, ekki síst hvað þjóðin var tilbúin að leggja á sig og í raun standa saman þegar á reyndi. Auðvitað var fólk þreytt þegar Covid virtist engan enda ætla að taka, og er enn að láta á sér kræla, en sem betur fer er sjúkdómurinn ekki að leggjast eins þungt á fólk og hann gerði.

En þetta slípaði líka til viðbrögð og bjó til ný sem við munum alltaf geta litið til og nýtt okkur ef á þarf að halda. Það var ýmislegt sem gerðist á þessum tíma sem mun koma fólki á óvart; sem betur fer var margt af því fest á filmu og verður í heimildarmynd sem ég veit að sýnd verður á RÚV snemma á næsta ári.

Ég held að þar séu hlutir sem eiga eftir að koma mörgun á óvart, bæði hversu mikil vinna var unnin bak við tjöldin af hópi fólks og ekki síst hvað margir áttu um sárt að binda. Það gleymist oft finnst mér í dag í umræðunni hversu margir létust og eins hinir sem enn eru að glíma við eftirköst.“

Upplifað erfiðleika og sorgir eins og margir.

Gylfi Þór er til staðar fyrir aðra.

„Ég er svo heppin að ég hef fengið að upplifa ýmislegt í mínu lífi sem ég hef getað tekið með mér í þágu annarra og upplifað erfiðleika og sorgir eins og margir. Ég hef alltaf litið á það sem lærdóm og reynt að byggja eitthvað gott úr því.

Það er auðveldara að sjá myrkvið þegar eitthvað bjátar á en að sjá ljósið. Ljósið er samt það eina sem vísar okkur veginn; það er alltaf ljóstýra einhvers staðar á leiðinni. Maður þarf bara að fylgja henni.

Undanfarin ár hef ég valist í þetta hlutverk og er alltaf ráðinn tímabundið í þrjá til sex mánuði svo ég þarf alltaf að vera á útkíkkinu eftir hugsanlegu starfi. Nú er ég ráðinn í þetta til áramóta. Hvað tekur við að því loknu veit ég ekki; kannski er vilji og þörf á mér lengur eða kannski þarf ég að leita á önnur mið. Það hlýtur að koma í ljós. Það reynir aðeins á að vita ekki hver borgar mér laun inn í framtíðina en er á meðan er.“

Ég var stöðugt að fá aðra til að moka fyrir mig vegna anna.

Hvað gerir svo Gylfi Þór þegar vinnunni sleppir? Hver eru áhugamálin?

„Ég var í hestamennsku en hef þurft að gefa hana á bátinn; ég var ekki auðveldur leigjandi í hesthúsinu þar sem ég var stöðugt að fá aðra til að moka fyrir mig vegna anna. Hestarnir voru þar af leiðandi ekki hreyfðir eins oft og ég vildi og þá var betra að koma þeim fyrir hjá öðrum sem gátu sinnt þeim. Ég reyni þó að nýta þann tíma sem gefst í eitthvað skemmtilegt og hef sett stefnuna á að fara á skíði í vetur; eitthvað sem ég hef ekki gert síðan ég var unglingur en í huganum er ég ennþá unglingur svo ég er viss um að ég hef engu gleymt hvað varðar það sport.

Svo hef ég gaman að því að ferðast um landið og erlendis. Ég náði að fara í fimm daga til York á Englandi á árinu sem var mjög skemmtilegt og borgin frábær. Ég ferðaðist aðra fimm daga innanlands og þá var fríið upptalið. Ég næ kannski að ferðast meira á næsta ári.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -