Í gær var skjálftahrina við Öskju. Mældist stærsti skjálftinn 3,5 að stærð og átti hann upptök sín í Dyngjufjöllum í norðvesturhluta Öskju. Í samtali við mbl.is segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur að skýr teikn séu á lofti sem enda muni með eldgosi:
„Við erum náttúrulega búin að vera að bíða eftir henni. Hún er búin að vera að þenja sig í raun frá 2012 því þá bræddi hún af sér ís um hávetur, sem er nú eiginlega ekki mögulegt nema að þú bætir hita út í vatnið.“
Breskir vísindamenn hafa bent á að í Öskju sé léttari kvika, en þeir hafa sett upp þétt og nákvæmt mælanet á svæðinu. Ármann segir að fari sú kvika af stað:
„Ef eitthvað svoleiðis fer af stað þá verður náttúrulega sprengigos, en hvort það verður lítið eða stórt, það vitum við ekki.“
Mælingar hafa sýnt breytingar á landrisi á svæðinu. Þrír mælar eru staðsettir á svipuðum slóðum. Tveir hafa mælt breytingar, einn engar. Samkvæmt Ármanni er þessi munur á mælingum ekki óvenjulegur enda Askja frábrugðið öðrum eldfjöllum sem fræðingarnir glími við.
Askja árið 1875
Askja er megineldstöð sem liggur á hálendinu norðan við Vatnajökul. Öskjufallið frá Dynjufjallagosi, árið 1875, hafði gífurleg áhrif á Austurland og olli því að fjöldinn allur fluttist búferlum til Vesturheims. Talið er að askan hafi átt upptök sín úr gígnum Víti.