Þriðjudagur 16. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Dísella missti röddina sama dag og hún fór í mikilvægt inntökupróf: „Það kom ekki píp út úr mér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dísella Lárusdóttir hefur í mörg ár starfað hjá Metropolitanóperuhúsinu í New York og fékk í vor ásamt Grammy-verðlaun ásamt samstarfsfólki fyrir uppsetningu Metropolitan-óperunnar á verki Philips Glass, Akhnaten. Dísella hefur þó mest verið heima frá því að Covid-faraldurinn skall á og hér býr fjölskyldan. Í viðtali við Reyni Traustason talar hún meðal annars um tónlistina, verðlaunin, ráðlegginginum sem hún vildi ekki fara eftir og skrýtna tímabilið.

Hjördís Elín Lárusdóttir; betur þekkt sem Dísella: Óperusöngkonan sem hefur staðið á sviðinu úti í hinum stóra heimi og tekið þátt í ævintýrum fyrir framan áheyrendur ólst upp í Mosfellsbæ, dóttir Sigríðar Þorvaldsdóttur leikkonu og Lárusar Sveinssonar tónlistarmanns. tTompetleikara. Systurnar eru þrjár: Hún, Ingibjörg og Þórunn.

„Við hlæjum oft að því að við fengum ekki snuð; við fengum munnstykki,“ segir Dísella en þær systur lærðu á trompet og það er elsta barn Dísellu, sonurinn Bjartur Lárus, farið að gera. „Hann er kominn með framtennurnar þannig að hann er kominn á trompet. Eins mun fara fyrir hinum börnunum mínum. Þau munu öll fara á trompet. Það er gott að læra að lesa nótur, læra músík og vera í skólahljómsveit. Mér finnst það vera gott og heilbrigt fyrir börn að læra þetta.“ Jú, Dísella var í skólahljómsveit og spilaði þar á trompetið sitt. Svo fór hún að læra á píanó.

Hún var undirleikari hjá Reykjalundarkórnum á sínum tíma, þar sem faðir hennar var stjórnandi, og þegar kórfélagar sungu lag þar sem ekki var krafist undirleiks söng Dísella sópranrödd. Faðir hennar sagði að hún væri með fína rödd og að hún ætti að læra söng. „Þannig að ég fór að læra söng.“

Faðir hennar lést svo árið 2000. „Hann var ekki nema 58 ára gamall. Það var mikið sjokk fyrir okkur. Hann var mjög hraustur að við héldum. Þetta var mjög skyndilegt. Hann eiginlega datt niður á fimmtudegi og var dáinn á þriðjudegi. Hann vaknaði aldrei. Hjartaáfall.“

Dísella ákvað að leggja sönginn fyrir sig. „Ég var byrjuð að syngja með Gunnari Þórðarsyni á Broadway sem var dásamlegur tími. Alveg hrikalega skemmtilegt. Ég segi stundum að það sé svolítið þeim tveimur að kenna, það voru Gunnar Þórðar og pabbi sem ýttu mér út í þetta. Pabbi var svo hvetjandi og svo var Gunnar að gefa mér vinnu sem söngkonu. Það var lykilatriði í þessu öllu saman. Ég var til 2002 að mig minnir á Broadway og tók þátt í söngvakeppninni tvisvar, hvort sem það var bakrödd eða til að taka þátt í keppninni sjálf, og kynntist æðislegu fólki. Þetta var mjög skemmtilegt tímabil. Ég ákvað síðan að fara alveg út í klassíska sönginn. Ég ætlaði mér alltaf að fara til Austurríkis eins og pabbi hafði gert. Það var draumurinn. Líka upp á tungumálið. Og ég fór í inntökupróf. Ég hafði aldrei upplifað ofnæmi en daginn sem inntökuprófið var haldið var ég algjörlega raddlaus. Það kom ekki píp út úr mér. Ég mætti samt en þetta var allt ferlega óþægilegt. Þetta var einhvers konar barkabólga. Ég komst ekki inn í skólann sem var allt í lagi. Ég fór þá til Ameríku en ég var algjör bjáni að reyna ekki aftur. Það var bara hugsunarhátturinn þá. Ég mögulega skammaðist mín og skildi ekki hvað hafði gerst og var hrædd um að þetta myndi gerast aftur.

Ég endaði á að fara til Bandaríkjanna í nám sem kostaði fullt af peningum og ég er ennþá að borga. En fyrir vikið endaði ég á að vera í Bandaríkjunum og fara þessa leið að fara í Metropolitankeppnina og komst þar inn.“

Dísella fékk þá fyrsta samning sinn við Metropolitan-óperuhúsið sem var staðgengilssamningur. „Það var einhver önnur ráðin en ég var til vara. Þannig eru allar sýningar á Met. Ég fékk þetta staðgengilshlutverk fyrir Philip Glassóperuna Satyagraha og er hlutverkið sópranhlutverkið í þeirri óperu. Við gerðum þá óperu og svo átti að gera hana nokkrum árum seinna og þá vildu þeir heyra í mér aftur. Þá var ég búin að eignast Bjart.“

Tækifærunum fjölgaði og talar Dísella um óperusöngkonu sem átti að koma fram í einni óperunni og átti Dísella að vera til vara. „Það vill svo til að stjórnandinn var búinn að nefna nokkrum sinnum við stelpuna, sem ég var staðgengill fyrir, að hún lagaði eitthvað en hún lagaði það aldrei. Hann var orðinn svolítið ergilegur við hana og okkur var svissað; ég fékk hlutverkið og eftir það fór ég að fá meira að gera. Ég þurfti alveg að vinna mig upp stigann. Kannski minni hlutverk.“

Hlutverkin eru mun fleiri.

Hægt er að lesa forsíðuviðtalið í heild sinni í vefútgáfu blaðsins með því að klikka hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -