Dómsmálaráðuneytið neitar að svara öllum spurningum Mannlífs um fund namibískra embættismanna og Brynjars Níelssonar. Mannlíf kærir synjunina.
Sjá einnig: Namibíumenn æfareiðir: Brynjar ritari sendur í stað dómsmálaráðherra
Þrettán dögum eftir að Mannlíf óskaði eftir minnisblaði um fund Brynjars Níelssonar, aðstoðamanns Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra og upplýsingum um fundinn, barst loksins svar úr ráðuneytinu. Kom svarið eftir að Mannlíf hafði send nokkrar ítrekanir og vísaði í upplýsingalög 140/2012. Fjalar Sigurðarson, upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins skrifaði svarið fyrir hönd dómsmálaráðherra en svarar þó ekki öllum spurningum Mannlífs. Neitar Fjalar að svara um innihald fundarins og að afhenda minnisblöð af fundinum og vísar hann í 10 gr. laga um upplýsingamál nr. 140/2012 en þar segir meðal annars að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir.
Hér er svarið:
Dómsmálaráðuneytinu barst ósk í gegnum forsætisráðuneytið með litlum fyrirvara, frá embættismönnum frá Namibíu, um að hitta dómsmálaráðherra. Ráðherra var ekki viðlátinn þennan dag og því mættu tveir skrifstofustjórar ráðuneytisins og einn staðgengill skrifstofustjóra, ásamt aðstoðarmanni ráðherra á fundinn. Fundurinn stóð yfir í rúma klukkustund.
Hvað varðar innihald fundarins og minnisblöð af honum er vísað í 10 gr. laga um upplýsingamál nr. 140/2012
10. gr. Takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna.
Heimilt er að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um: […] 2. samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir.
Á þetta fellst Mannlíf ekki enda er varla um að ræða upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni sem ekki má líta dagsins ljós. Hefur Mannlíf því kært synjun dómsmálaráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.