Fimmtudagur 11. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Íslenskur dómari opnar sig um Arnars-málið og KSÍ: „Sverta ímynd knattspyrnunnar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslenskir knattspyrnudómarar eru gríðarlega óánægir með störf KSÍ.

Eins og Mannlíf hefur fjallað um ríkir mikið ósætti í dómarastéttinni í fótbolta og beinist það ósætti að sýndarmennsku KSÍ þegar kemur að hvernig komið er fram við dómara. Sambandið setti af stað herferð sem notast við myllumerkið #TakkDómarar en hegðun þjálfara og leikmanna í garð dómara hefur líklega aldrei verið verri en á þessu tímabili. Herferðinni var ætlað að minna fólk á að sýna dómurum þakklæti og virðingu fyrir störf þeirra í þágu fótbolta. 

Nokkrum dögum eftir að herferðin hófst missti Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, algjörlega stjórn á skapi sínu í viðtölum eftir tapleik þar sem hann talaði í tæpar tíu mínútur um dómara leiksins og dómarastéttina sem heild með hætti sem ekki hafði sést áður hérlendis. KSÍ gerði hins vegar enga athugsemd við hegðun Arnars en hann var hvorki dæmdur í bann né gert að greiða sekt. Þetta kom mörgum á óvart því sumir bjuggust við því að Arnar yrði mögulega dæmdur í tveggja leikja bann.

Málið er fordæmisgefandi og virðist vera að þjálfarar og leikmenn megi segja nánast hvað sem er um dómara svo framarlega sem þeir ásaki þá ekki um vísvitandi svindl. Dómarar eru orðnir dauðþreyttir og reiðir á aðgerðarleysi KSÍ og samkvæmt heimildum Mannlífs eru nokkrir reynslumiklir dómarar að íhuga að hætta eftir tímabilið og hefur þetta mál spilað hlutverk í því. 

Mannlíf tók viðtal við dómara sem hafði ýmislegt að segja um stöðu mála. Hann vildi ekki koma fram undir nafni enda málið viðkvæmt en dómarinn er starfandi og reynslumikill.

„Ég veit svo sem ekki hvar þú hefur heyrt þetta en þetta er alveg rétt hjá þér. Það er frekar mikil óánægja með þetta innan hópsins,“ sagði dómarinn um umfjöllun Mannlífs um Arnars-málið og KSÍ. „Þessu var hent af stað einhverjum tveimur vikum fyrir leikinn fræga í Kópavogi og búnir til einhverjir bolir og eitthvað dót sem allir áttu að hita upp í. Rosa fínt og flott. Svo er ekkert gert í þessu. Þjálfarinn má alveg segja að dómarinn sé lélegur, það er allt í góðu. En að tala nokkur ár aftur í tímann og eyða tíu mínútum í að sturta yfir dómgæslu eins og hún leggur sig í landinu. Það er það sem allir eru brjálaðir út í. Síðan þá hefur enginn farið í þennan bol.“

- Auglýsing -

„Það sem við höfum rætt um okkar á milli er að það hefði náttúrulega átt að vísa því til aganefndar og hefði átt að fara í farveg þar,“ sagði dómarinn um hvað dómarastéttin telur að hefði átt að gera í málinu. „Því að þetta er eitthvað sem heitir vanvirðing við knattspyrnuna í heild sinni. Sverta ímynd knattspyrnunnar held ég að þeir kalli þetta. Menn eru mest fúlir yfir því.“

„Fyrst að ekkert var gert þarna þá er búið að opna einhverja ormagryfju. Það er búið að segja „Þetta má.“. Það er búið að gefa ákveðið fordæmi að þetta sé í lagi. Þarna hefði verið frábær punktur til þess að segja „Við vorum að starta herferð. Þetta er eitthvað sem við ætlum að taka á, við ætlum ekki að líða þetta.“. Það hefði verið svo frábær punktur á þessum tímapunkti af því að þau fengu þetta upp í hendurnar að geta gert eitthvað í málinu.“

„Allt eru þetta toppmenn og allir eru þeir að reyna vinna leikinn og maður þarf að bera virðingu fyrir því að menn eru sinna sinni vinnu og partur af því er að láta heyra í sér,“ sagði dómarinn um hvort þjálfarar og leikmenn séu erfðir í samskiptum. „Það er kannski erfitt að taka eina persónu út, það er kannski frekar heildin og heildarbragurinn á þessum ágæta bekk er svolítið erfiður. Það er svolítið krefjandi. Þeir sem eru að fjalla um þetta, þeir sjá þetta alveg þetta mynstur. Þetta er ekkert bara bundið við einn mann heldur eru þetta tveir til þrír í viðbót,“ og vísar dómarinn þar í varamannabekk Víkings. „Svo fer hugsar maður þegar það fer svona mikið púður í að úthúða dómaranum í tíu mínútur, hvar er þá fókusinn á leikinn og leikmennina? Ef þú eyðir 30-40% af púðrinu í að öskra á dómara þá skiluru ekki eftir nema 60-70% fyrir leikinn.“

- Auglýsing -

„Hún gæti verið betri og það er alltaf verið að fjölga leikjum,“ sagði dómarinn þegar hann var spurður út í nýliðun í stéttinni. „Því miður eru ekki að koma nógu margir inn. Því miður og það eru ekki að koma inn kvenndómarar, eins og margoft hefur komið fram. Við erum að sjá menn í efstu deild sem eru einhverjir komnir yfir fimmtugt. „Gappið“ þarna á milli til að sækja menn niður í 1. deild er alltof stórt og þegar maður horfir á þessa ungu dómara þá eru því miður ekki nógu margir sem eru að skila sér upp.“

Þá gagnrýndi hann einnig knattspyrnufélög landsins.

„Það eru örfáir klúbbar á landinu sem eru að standa sig í að búa til dómara og kannski þeir sem heyrist mest í, það kemur minnst frá þeim.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -