Þriðjudagur 3. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Katrín Júlíusdóttir greindist með sortuæxli í haust: „Óttinn var á köflum lamandi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Katrín Júlíusdóttir sigraðist á sortuæxli í eyra síðastliðið haust og segist svo þakklát að hafa sigrað meinið, að um hana fari straumur.

Fyrrverandi ráðherra Samfylkingarinnar og rithöfundurinn Katrín Júlíusdóttir greindist með sortuæxli í eyra síðastliðið haust en náði, eftir tvær aðgerðir, að sigrast á því. Segir hún frá því í fyrsta skipti í færslu á Facebook en þar fer hún yfir árið sem senn er á enda.

„Gleði, ferðalög, lamandi ótti, djúpt þakklæti og vinátta einkenndu árið hjá okkur fjölskyldunni. Við fjöllan áttum að mestu dásamlegt ár þar sem við ferðuðumst mikið m.a. til New Orleans sem er ævintýraleg borg. Ég fékk loks nýtt hné og get nú gengið verkjalaus eftir áratuga bras. Bjarni sendi frá sér bókina Dúnstúlkan í þokunni sem hefur fengið frábærar viðtökur og er tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Stórkostlegt verk satt best að segja. Ég fékk mína fyrstu bók útgefna í Bretlandi nú í byrjun des og hafa viðtökurnar verið yndislegar.“ Svona hefst færsla Katrínar en svo kemur frásögnin af sortuæxlinu en hún segir að greiningin hafi verið fjölskyldunni áfall, skiljanlega en hún seigr að óttinn hafi verið lamandi á köflum. Þá segir hún að eiginmaður hennar, rithöfundurinn Bjarni M. Bjarnason, hafi farið í viðtal í Kiljuna, aðeins degi fyrir seinni aðgerðina „með þrumuský óvissunnar yfir sér.“

„En mitt í þessari glansmynd allri, sem við höfum verið dugleg að segja frá á samfélagsmiðlum, greindist ég með sortuæxli á eyra í haust. Var það okkur mikið áfall og því er ekki að neita að óttinn var á köflum lamandi. Missti ég nánast málið um tíma, átti svo erfitt með að tala um þetta, því hef ég litlu deilt utan nánasta hrings fyrr en núna. Fór í tvær aðgerðir þar sem eyrað var skorið og byggt upp auk þess sem eitill var fjarlægður í þeirri seinni. Bjarni minn og strákarnir voru með mér í þessu og stóðu keikir þó óttinn byggi með þeim ekki síður en mér. Bjarni fór t.d. í viðtal við Egil í Kiljunni daginn fyrir seinni aðgerðina – með þrumuský óvissunnar yfir sér. Ég fékk því að dást að mínum heittelskaða í sjúkrarúmi á LSH. Við vorum síðan viðstödd þegar Bjarni var tilnefndur tveim dögum eftir seinni aðgerðina. Þar brostum við í einlægri gleði – enn með þrumuský óvissunnar yfir okkur. Svona er lífið marglaga og myndirnar sem við birtum segja ekki alla söguna. EN við fengum svo bestu fréttirnar nú í des. Allt meinið náðist!!“

Katrín segist ætla nú að hlúa að líkama og sál og að hún sé afar þakklát fyrir heilbrigðisstarfsfólkinu á Íslandi. Þá sé hún einnig mjög þakklát fyrir lífið sjálft.

Í lokaorðum sínum segir Katrín að eftir að hún hafi fengið gleðifréttirnar um að æxlið væri farið, hafi slaknað á líkamanaum um stund og að um hana hafi farið „straumur þakklætis af slíkri dýpt að erfitt er að lýsa.“

- Auglýsing -

„Daginn eftir að ég fékk bestu fréttirnar slaknaði um stund á öllum líkamanum og um mig fór straumur þakklætis af slíkri dýpt að erfitt er að lýsa – líkist því helst að fá nýfætt barn í fangið. Við erum rík af vinum og erum svo þakklát fyrir allt renneríið af vinum hér heima hjá okkur, ástina, gleðina, knúsin og samtölin. Fjöllan í Lyngásnum fer því full auðmýktar, þakklætis og tilhlökkunar inn í nýtt ár. Takk fyrir allt elsku vinir og fjölskylda, megi nýtt ár verða ykkur gjöfult og ástríkt. Hlökkum til fjörugra samverustunda.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -