Fimmtudagur 12. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Ofurhlauparinn Sigurjón Ernir: ,,Kólesteról er ekki óvinurinn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í hlaðvarpsþætti hans er ofurhlauparinn og frumkvöðullinn Sigurjón Ernir Sturluson. Í viðtalinu segir hann frá því að heilsa hans hafi hrakað mikið þegar hann gerði tilraun með að borða samkvæmt ráðleggingum landlæknis. Alla jafna borðar Sigurjón hreina fæðubeint frá náttúrunni, en gerði tveggja vikna tilraun þar sem hann lét ráðleggingar landlæknis ráða för:

„Ég gerði skemmtilega tilraun þar sem ég tók tvær vikur og snarbreytti matarræðinu og fór því miður að borða eftir ráðleggingum landlæknis. Ég sem íþróttamaður á að fá 70 prósent af orkunni minni frá kolvetnum samkvæmt því. Kolvetni vekja líkamann og búa til sveiflur í blóðsykri. Þannig að ég náði ekki að leggja mig á daginn eins og ég er vanur og var vaknandi á næturnar og var kannski vakandi í 2 tíma og náði mér ekki niður. Ég setti á mig sílesandi blóðsykursmæli til að sjá hvað væri í gangi og þá sá ég hvað var í gangi í líkamanum. Blóðsykurinn var í miklu ójafnvægi og ég var í raun aldrei í fastandi ástandi og þess vegna gat líkaminn ekki hvílst vel. Simona kærastan mín horfði bara á mig fjara út eftir því sem dagarnir liðu. Ég gat ekki einbeitt mér í tölvuvinnu, langaði ekki lengur að æfa og átti mjög erfitt með endurheimt eftir æfingar. Eins sorglegt og það er, þá eru þetta ráðleggingar  bæði fyrir almenning og íþróttafólk. Ég passaði mig að fara alveg eftir leiðbeiningunum og var að borða brauðið, hrísgrjónin, kartöflurnar, Cheerios og fleira. Ef þú ert að borða beint frá náttúrunni lítur það matarræði allt öðruvísi út” segir Sigurjón, sem telur löngu tímabært að breyta þessum ráðleggingum:

„Munurinn á svefngæðum, stöðu insúlíns, þríglýseríði í blóði og fleiri hlutum var í raun sláandi. Þríglýserið fór úr 0,6 í 1,6 á tveimur vikum. Fitubrennsla í álagsprófi hjá Greenfit fór úr 90% niður í 59% á þessum tveimur vikum og svo framvegis. Um leið og ég skipti svo aftur yfir í hreint fæði beint frá náttúrunni fór líkamsstarfsemin aftur í jafnvægi. Ég er alls ekki að segja að það þurfi allir að borða eins og ég, en það er orðið mjög augljóst að þessar ráðleggingar eru verulega úreltar og eru ekki til þess fallnar að hámarka heilsu. Við erum hönnuð til að borða náttúrulega fæðu og það er alveg augljóst að forfeður okkar voru ekki að háma í sig kolvetni daginn út og inn.”

Í þættinum ræða Sölvi og Sigurjón um lífsstílssjúkdóma og tengsl þeirra við breytt matarræði á Vesturlöndum, þar sem fita var gerð að versta óvininum:

„Það er eitthvað rangt við þá hugmyndafræði að fitur séu óvinurinn og að hátt kólesteról sé stórhættulegt. Mér líður aldrei betur en þegar kólesterólið mitt er hátt. Ég hef ekki orðið veikur þannig að ég liggi í rúminu í 5-6 ár og ég hef allan þann tíma verið með hátt kólesteról. Líkaminn framleiðir kólesteról og við höfum horft framhjá hlutverki þess í líkamsstarfseminni. Ef einstaklingur er allt of lágur í kólesteróli er eiginlega öruggt að viðkomandi er ekki við góða heilsu. Oxað kólesteról er klárlega ekki gott fyrir okkur og það eykur bólgumyndun. Öll fita er ekki eins. Ég veit að ég er ekki læknir, en ég hef kafað ansi djúpt í þetta. Ég hreinlega trúði því ekki að ég væri að fara að deyja af því að ég væri með hátt kólesteról og öll mín líðan síðustu ár gengur þvert á það. Það átti að setja mig á lyf, en ég vildi það ekki, en bað um að fá skoðun hjá Hjartavernd þar sem ég fékk skuggaefni og kalkstuðull var mældur. Þá sérðu hvað er að gerast í æðunum og hjá mér voru engar stíflur og allt tandurhreint. Svo hef ég séð það sama hjá fleiri einstaklingum. Hátt kólesteról, en skínandi góðar æðar. Nú eru að koma fram fleiri og fleiri rannsóknir sem benda til þess að bólgumyndun og sykur séu vandamálið, en ekki hátt kólesteról.”

Sig­ur­jón, sem rekur líkamsræktarstöðvar og vinnur við að aðstoða fólk við allar hliðar heilsu, seg­ir að drif­kraft­ur­inn komi ekki síst frá löng­un til að geta hjálpað öðru fólki. Með því að æfa sig í að leggja mikið á eig­in herðar geti maður aðstoðað aðra:

- Auglýsing -

„Það sem ger­ist er að á end­an­um leit­ar fólk til þín ef það finn­ur að þú ert sterk­ur. Við höfum gleymt því að hugsa um ná­ung­ann og ekki síst fólkið sem byggði þetta land upp. Við erum hætt að leggja hluti á börn og ung­linga sem hjálpa þeim að verða sterk­ir ein­stak­ling­ar. Það getur auðvitað verið þunn lína hvenær farið er yfir strikið, en börn sem ólust upp í sveit á Íslandi þurftu að ganga í alls kyns verk sem hjálpuðu þeim að axla ábyrgð og læra á lífið. Að mínu mati erum við farin að ala upp ein­stak­linga í dag sem kunna  of lítið á lífið þegar þau eru orðin full­orðin. Börn­um og ung­ling­um líður ekki illa í öguðu um­hverfi. Þvert á móti verða til alls kon­ar vanda­mál ef það verður of mikið aga­leysi. Það er eng­um hollt að lífið sé alltaf þægi­legt og auðvelt. Við lifum í þeim heimi í dag að allt er ótrúlega þægilegt og við þurfum ekki lengur að hafa reglulega fyrir hlutunum. Það að þjást og líða illa er ekkert að fara drepa þig.“

Sig­ur­jón seg­ir í þætt­in­um frá því hvernig ástríða hans fyr­ir hreyf­ingu byrjaði strax þegar hann var barn:

„Ég ólst upp við aðstæður sem voru á köfl­um mjög krefjandi og ég fann fljótt að hreyf­ing var mitt meðal. Þegar eitt­hvað bjátaði á vissi ég að mér myndi líða bet­ur ef ég myndi hreyfa mig. Ég gerði þessa teng­ingu strax sem barn og notaði hreyf­ingu bein­lín­is til að slá á van­líðan. Hvort sem það var körfu­bolt­inn sem ég æfði eða önn­ur hreyf­ing. Ég ákvað strax á unga aldri að axla mikla ábyrgð og vildi bera ábyrgð á bæði mér og bróður mín­um,” segir Sigurjón, sem hefur vakið athygli fyrir ótrúlegar þrekraunir þegar kemur að hlaupum:

- Auglýsing -

„Þegar maður bygg­ir sig upp í ár­araðir til að þola hluti, er ým­is­legt mögu­legt. Maður bygg­ir hægt og ró­lega bæði upp lík­amann og haus­inn til að þola meira og meira. En það er ekki hægt að fara alla leið á hausn­um ef lík­am­inn fylg­ir ekki og öf­ugt. Lengsta hlaupið mitt er 160 kíló­metr­ar, en mesta áskor­un­in var hlaup í Frakklandi sem var rúm­lega 150 kíló­metr­ar með meira en 9 þúsund metra hækk­un. Það sem ger­ist í of­ur­hlaup­um eins og þess­um er að maður fer í gegn­um all­an skalann af til­finn­ing­um og stund­um meira en maður vissi að væri hægt. Fólk lær­ir jafn­vel meira á sjálft sig í einu svona hlaupi en á mörg­um árum í líf­inu sjálfu. Þú ferð í gegn­um allan tilfinningaskalann, lær­ir að koma þér út úr aðstæðum og þar fram eft­ir göt­um.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Sigurjón og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -