Þriðjudagur 23. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Reykjavíkurborg sökuð um kaup á svartri vinnu fyrir tugi milljóna: „Aldrei greitt með peningum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Reykjavíkurborg hefur keypt „svarta“ þjónustu af tónlistarmönnum á undanförnum áratug fyrir tugi milljóna samkvæmt heimildarmönnum Mannlífs sem hafa starfað í félagsmiðstöðvum og skólum borgarinnar á undanförnum áratug. Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, vísar þessu á bug.

Í félagsmiðstöðvum og skólum um allt land eru reglulega haldin böll, árshátíðir og ýmiss konar skemmtanir. Á þessar skemmtanir eru fengnir margir af þekkustu og dýrustu tónlistarmönnum Íslands. Heimildarmenn sem Mannlíf ræddi við, sem hafa starfað í félagsmiðstöðvum og skólum í Reykjavík undanfarin áratug, segja það heyra til undantekninga að ekki sé borgað með seðlum og að gerður sé reikningur fyrir viðskiptunum. Þeir hafi sjálfir talið seðla og afhent tónlistarmönnunum þá í umslögum.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir í svari til Mannlífs að þetta sé rangt.

„Engar svartar greiðslur eru á vegum borgarinnar. Hart gengið eftir lögmætum gögnum/reikningum. Allir reikningar sem berast borginni fara í gegnum tvöfalt samþykktarferli. Greiðslufrestur er 30 dagar almennt og greitt í gegnum bankalínu. Allt sem borgin greiðir fer í gegnum greiðslu- og samþykktarkerfi bókhalds og er því rekjanlegt. Aldrei greitt með peningum. Allt á vegum borgarinnar fer þessa leið. Launa-/verktakamiðar eru sendir út fyrir öllu slíku í jan. ár hvert.“. Helgi segir að svar sitt byggist á fyrirspurnum til grunnskólastjóra, framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva, fjármálastjóra skóla- og frístundasviðs, borgarbókara og borgargjaldkera um málið.

„Foreldrafélög grunnskóla hafa eigin fjárhag og kennitölu. Í nokkrum tilvikum hafa nemendafélög eigin fjárhag og kennitölu. Hafi tónlistarmenn tekið við greiðslu frá nemendafélögum eða foreldrafélögum með eigin kennitölu, þau eru ekki framtals- eða skattskyld, það er þá tónlistarmanns að telja þær tekjur fram hjá sér og skila sköttum af þeim. Það er því athafnleysi tónlistarmanna sem í slíkum tilvikum gerir tónlistargreiðslur „svartar“ og varðar ekki Reykjavíkurborg,“ sagði Helgi að lokum.

Heimildarmenn Mannlífs segja að nemendur standi fyrir margs konar fjáröflunum undir umsjón og hvatningu starfsmanna félagsmiðstöðva og skóla á hverju skólaári til að eiga efni á því að fá þekkta tónlistarmenn til að spila á böllum. Meirihluti vinnu sem fer í skipulagningu og framkvæmd fjáraflanna sé í höndum starfsmanna borgarinnar. Yfirleitt sé einungis hægt að greiða fyrir hinar ýmsu fjáröflunarleiðir með seðlum eða klinki og gildi slíkt hið sama um miða á böll. Þó hafi í einhverjum tilfellum á undanförnum árum verið hægt að borga með Aur í nokkrum félagsmiðstöðvum. Þá hafi starfsmenn borgarinnar yfirumsjón með nemendafélögum í skólum Reykjavíkur. Hóflegt mat heimildarmanna Mannlífs er að hver og ein félagsmiðstöð í Reykjavík sé að borga 200 þúsund krónur að meðaltali fyrir tónlistarmenn á hverju ári. Samkvæmt heimasíðu Reykjavíkurborgar eru starfandi 25 félagsmiðstöðvar í dag. Því má áætla að kringum fimm milljónir séu greiddar svart af hálfu Reykjavíkurborgar á ári hverju til tónlistarmanna á vegum félagsmiðstöðva.

Mannlíf hafði samband við tónlistarmenn sem eru vinsælir hjá ungu fólki í dag til að spyrjast fyrir hvað þeir myndu taka fyrir að spila á balli í hálftíma. Verðin sem Mannlíf fékk uppgefin voru allt frá 300 þúsund krónum upp í 600 þúsund krónur. Tónlistarmaðurinn sem nefndi 600 þúsund sagði þó að hann væri líklega til að taka lægri upphæð fyrir ball í félagsmiðstöð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -