Laugardagur 7. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Sameinast um breytingar á örorkufrumvarpi: „Þetta snýst um að enginn öryrki verði skilinn eftir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokka í velferðarnefnd Alþingis hafa lagt fram sameiginlegar breytingartillögur við frumvarp ríkisstjórnarinnar um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu. Breytingartillögurnar hafa verið birtar á vef Alþingis og jafnframt nefndarálit með nánari útskýringum.

„Þetta snýst um að enginn öryrki verði skilinn eftir,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingar, sem er fyrsti flutningsmaður breytingartillögunnar. „Þess vegna höfum við í stjórnarandstöðunni sameinast, fulltrúar allra flokka, um að leggja til breytingartillögur við örorkufrumvarp ríkisstjórnarinnar. Með breytingunum verjum við kjör öryrkja sem búa einir, tryggjum að enginn lækki beinlínis í tekjum og gætum betur að sjálfsákvörðunarrétti öryrkja á vinnumarkaði svo dæmi séu nefnd.“

Aðrir flutningsmenn eru þau Arndís Anna K. Gunnarsdóttir þingmaður Pírata, Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins, Guðbrandur Einarsson þingmaður Viðreisnar og Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins.

„Þetta er risastórt velferðarmál sem varðar ekki aðeins alla öryrkja Íslands heldur einnig vinnandi fólk sem getur misst starfsgetu í framtíðinni, ef það veikist til dæmis eða lendir í slysi.“

„Alvarlegir ágallar á málinu sem verður að laga“

Þingmenn Samfylkingarinnar og Flokks fólksins hafa gagnrýnt margt í frumvarpi ríkisstjórnarinnar og sagst ekki munu hleypa málinu óbreyttu gegnum Alþingi. „Ljóst er að frumvarpið í núverandi mynd þarfnast ítarlegra endurbóta og dugar skammt til að uppræta sárafátækt meðal örorkulífeyrisþega,“ skrifaði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, nýlega í grein á Vísi.is. „Fólk með skerta starfsgetu er sett í niðurlægjandi stöðu á vinnumarkaði með refsikenndum ákvæðum sem hljóta að ýta undir streitu og vanlíðan,“ skrifaði Jóhann Páll í grein á Vísi þar sem hann gagnrýndi nokkur af ákvæðum frumvarpsins, m.a. þau er fjalla um hlutaörorkulífeyri og virknistyrk.  

- Auglýsing -

Nokkrar breytingar á frumvarpi félags- og vinnumarkaðsráðherra hafa verið lagðar til í velferðarnefnd eftir að þessi gagnrýni kom fram. Þannig stendur nú til að hlutaörorkulífeyrir verði nokkuð hærri en lagt var til í upphafi og að mælt verði fyrir um að öryrkjar í atvinnuleit geti tekið að sér tilfallandi störf án þess að svokallaður virknistyrkur, nýr greiðsluflokkur, falli samstundis niður að fullu.

„Þetta er til marks um að barátta ÖBÍ og okkar í stjórnarandstöðu fyrir breytingum á málinu er að skila árangri, og mér finnst líka Steinunn Þóra Árnadóttir formaður velferðarnefndar hafa haldið vel á spilunum og tekið tillit til athugasemda,“ segir Jóhann. „En það eru samt enn þá mjög alvarlegir ágallar á málinu sem verður að laga. Og þá felst ákveðinn slagkraftur í því að stjórnarandstaðan sameinist um lágmarkskröfur – sem eru svo hófstilltar og í raun sjálfsagðar að við trúum ekki öðru en að meirihlutinn á Alþingi geti fallist á þær.“

Fimm breytingar og kostnaður undir milljarði á ári

- Auglýsing -

Stjórnarandstaðan leggur til fimm breytingar á frumvarpinu og áætlaður kostnaður er undir milljarði á ári. Í stuttu máli eru breytingartillögurnar eftirfarandi:

  1. Hnykkt á því að enginn öryrki sem hefur þegar fengið örorkumat verði þvingaður í svokallað samþætt sérfræðimat.
  2. Alþingi fái skýrslu um útfærslu á samþættu sérfræðimati sem á að koma í stað örorkumats en er enn algjörlega óútfært.
  3. Fjárhæð heimilisuppbótar hækki svo tryggt verði að enginn öryrki verði skilinn eftir.
  4. Öryrki í atvinnuleit fái aukið svigrúm til að leita sér að starfi við hæfi án þess að svokallaður virknistyrkur falli niður.
  5. Skerðing á örorkulífeyri vegna fjármagnstekna maka verði afnumin.


Breytingartillögurnar eru útlistaðar nánar í meðfylgjandi greinargerð.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -