Mánudagur 15. júlí, 2024
14.8 C
Reykjavik

Segir þingkonu hafa hótað kostanda: „Grafalvarlegt að kjörnir fulltrúar taki þátt í slíkum fasisma“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Frosti Logason segir alþingiskonu hafa hótað kostanda að hlaðvarpsþætti hans, Harmageddon, eftir að formaður Samtakanna 22 mætti í viðtal.

Á YouTube er komið myndskeið sem sýnir brot úr nýlegum Harmageddon-þætti Frosta Logasonar en þar heldur hann því fram að alþingiskona „gangi erinda ofstækisfólks“ með því að hóta einum af kostendum þáttarins, í kjölfar viðtals sem Frosti tók við Eld Ísidor Deville, formann Samtakanna 22.

Í myndskeiðinu byrjar Frosti á að sýna frétt frá Fréttin.is þar sem birt er ljósmynd af átta „aktivistum“ sem sagðir eru berjast gegn málfrelsi Samtakanna 22.

„Það er búið að vera mjög áhugavert að fylgjast með því er Samtökin 22 voru að reyna að halda málþing núna nýverið, þá fóru allar vélarnar í gang frá Samtökunum 78, meðal annars,“ segir Frosti og bætir við: „Eins og segir í fréttinni þá hafa Samtökin 22 staðið í ströngu að undanförnu við að verjast hatursárásum fólks sem kemur úr öfgahóp sem tilheyrir hinsegin samfélaginu og Samtökunum 78. Hópur þessi, sem segist berjast fyrir einstaklingsfrelsinu, berst nú af hörku við að þagga niður í Samtökunum 22 og hefur reynt að hefta málfrelsi þeirra með öllum ráðum. Hópurinn hafði sig mikið í frammi með hótunum og svívirðingum í garð þeirra sem leigja sali víðs vegar um borgina síðastliðna helgi en málavextir eru þeir að tveir salir sem Samtökin 22 höfðu fengið leigða með góðum fyrirvara, voru afbókaðir af staðarhöldurum, daginn fyrir málþing þeirra, vegna stöðugra hótana frá öfgahópnum. Annars vegar var viðburðinum aflýst hjá Þjóðminjasafninu og hins vegar hjá Reiðhöllinni í Víðidal.“

Frosti segir ennfremur að hópur þessi hafi sakað Samtökin 22 um hatursboðskap „án þess að geta vísað í beint hatur og hefur ekki viljað taka umræðuna eða tjá sig frekar um hatrið þegar eftir því hefur verið leitað.“ Segir hann því næst frá því að hann hefði boðið Eldi Ísidor Deville, formann Samtakanna 22 í viðtal til að reyna að átta sig á því „um hvað málið snýst.“ Eldur mætti í settið að sögn Frosta og fór yfir „þessa stórfurðulegu atburðarás þegar aðilar frá Samtökunum 78, samtökum sem eiga tilverurétt sinn að þakka stjórnarskrárvörðum réttindum sem snúa að funda og félagafrelsi í landinu, veittust með offorsi gegn frelsi annarra til að funda og ræða málefni sín og hagsmuni.“

Frosti segir að um sé að ræða fólk sem kalli sig aktivista sem berjist fyrir mannréttindum, einstaklingsfrelsi og því að fólk fái að vera eins og það er. „Fólk sem fær að flytja sinn boðskap í grunnskólum landsins þar sem öll okkar börn eru skyldug til að mæta en þetta sama fólk geti svo ekki sofið rótt yfir því að einhverjir sem eru ósammála þeim fái að viðra sín sjónarmið á málþingi þar sem enginn hefur verið neyddur til að mæta.“

- Auglýsing -

Hinn umdeildi þáttastjórnandi segir að Brotkastið, fyrirtæki Frosta sem heldur utan um ýmsa hlaðvarpsþætti á borð við Harmageddon og Götustrákar, hafi einnig mátt kenna á sama hópi. „Og þetta fólk beitir hörku. Við hér á Brotkastinu höfum fengið að kynnast því. Skömmu eftir að ég birti viðtal mitt við Eld, var byrjað að veitast að fyrirtækjum sem hafa unnið sér það eitt til saka að hafa keypt af okkur auglýsingar. Einn kostanda Harmageddon, sem er strangheiðarlegur viðskiptamaður og ekki í stríði við neinn, á enga óvini og hatar engan, lendir allt í einu í því að yfir hann hellast svívirðingar, skammir og hótanir um tekjumissi, fyrir það eitt að vera í viðskiptasambandi við Harmageddon á Brotkasti. Og þá erum við ekki bara að tala um bláhærða aktivista í leit að tilgangi í annars vonlausu lífi. Við erum líka að tala um kjörna fulltrúa á hinu háa Alþingi, sem hafa ákveðið að ganga erinda þeirra sem hata tjáningarfrelsið. Já, hugsið ykkur það. Kostandi Harmageddon fékk símhringingu frá Alþingiskonu sem virtist ganga það eitt til að reyna að hrella hann frá því að gera áframhaldandi viðskipti við efnisveituna Brotkast. Við erum að tala um kjörinn fulltrúa sem ákveður að beita áhrifum sínum til þess að reyna að skrúfa fyrir súrefni fyrir sjálfstætt starfandi hlaðvarpsveitu úti í bæ.“

Bætti Frosti við að hvorki hann né Brotkast hafi aldrei verið sakað um hatursáróður eða hatursboðskap. „Og hefði ég einhvern tíma gerst sekur um slíkt, þá væri það leikur einn að draga mig fyrir dómstóla þar sem að slík athæfi eru hreinlega bönnuð með lögum. En ég ræddi vissulega við Eld um hans sjónarmið og Eldur kann að halda því fram að trans konur eigi ekki að fá að keppa í íþróttagreinum líffræðilegra kvenna eða að karlar sem skilgreina sig sem konur í aðdraganda afplánunar fangelsisdóma eigi ekki að fara í kvennafangelsi. Og hann er líka þeirrar stórhættulegu skoðunar að börnum eigi að hlífa við óafturkræfum meðferðum við kynama og kynáttunarvanda. Og þetta eru hugsanlega mál sem einhverjum kunni að finnast óþarfi að ræða en það er algjörlega óþolandi að ofstækisfólk fái að stjórna því. Og það er grafalvarlegt að kjörnir fulltrúar á Alþingi taki þátt í slíkum fasisma. Því þetta er ekkert annað.“ Bendir Frosti í kjölfarið á að þetta séu sömu aðferðir og alræðissinnar á tuttugustu öldinni notuðu til að komast til valda og til að halda völdum. „Ef þú gengur ekki í takt við okkur munum við sjá til þess að þú eigir ekkert, megir ekkert og verðir ekkert. Við munum einangra þig og dæma til útlegðar og viti menn, allt var þetta gert með ofboðslega góðum ásetningi, til að hreinsa samfélög af óæskilegum hugmyndum og skapa þannig fyrirmyndarríki. Í dag erum við með tjáningafrelsisákvæði í stjórnarskrá svo að svona vitleysa fái ekki að endurtaka sig en þarf líka til hugrekki þeirra sem vita betur. Ef enginn þorir að standa í lappirnar gagnvart ofstækinu, mun það halda áfram að valta yfir okkur.“

Að lokum tekur Frosti fram að kostandinn sem fékk símtalið frá þinkonunni, hafi ákveðið að tvöfalda styrktarupphæðina til Harmageddon og „halda ótrauður áfram.“ „Það gerir hann þrátt fyrir að hafa nú þegar tapað viðskiptum vegna þessara ofsókna. Það krefst mikils hugrekkis að taka afstöðu með málfrelsi í dag en það marg borgar sig.“

- Auglýsing -

Myndskeiðið má sjá hér að neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -