Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Sigga Dögg telur ýmislegt vanta upp á umræðu um BDSM: „Masterclass í valdadýnamík“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur, eða Sigga Dögg eins og hún er alltaf kölluð, var í einlægu og opinskáu helgarviðtali Mannlífs um liðna helgi. 

Sigga Dögg hefur verið í þungamiðjunni á heitri og oft óvæginni samfélagsumræðu undanfarið. Í viðtalinu fer hún um víðan völl; ræðir þeytivindu samfélagsmiðla, bergmálshella og fræðir blaðamann um hluti tengda kynfræðslu, BDSM og það hvernig hún nálgast börn og unglinga sem eru uppfullir af forvitni og áhuga.

Hér má lesa viðtalið í heild sinni.

Sigga Dögg nefnir til sögunnar atriði sem hún segir ekki hafa komið upp í nýlegu fjaðrafoki og umræðu varðandi BDSM. Hún segir það ef til vill til marks um það hversu takmörkuð þekkingin á BDSM sé í raun.

„Það er umræðan um að vera switch. Það eru rosalega margar konur sem eru switchar. Það er verið að tala rosalega mikið um valdadýnamík, en þú lærir nánast ekkert um valdadýnamík fyrr en þú mætir í BDSM og ferð að setja þig inn í dom, sub og switch. Það er bara masterclass í valdadýnamík. Að skilja hana og heyra upplifun fólks; það finnst mér sjúklega áhugavert.

Þegar við hugsum um dom og sub, þá er auðveldasta útskýringin að einn er yfir og hinn er undir. En sá sem er yfir, hann er ekki beint yfir-yfir, af því að sá sem hefur völdin er í raun og veru sá sem er undir. Því þú getur ekki verið yfir nema þú vitir hvað má gera við þann sem er undir og sá sem er undir semur reglurnar; þetta má, þetta má ekki. Það er svolítið á ábyrgð þess sem er yfir að virða það, vita það og fylgjast með þeim sem er undir. Fylgjast með svipbrigðum, tékka inn, tékka á líðan, og svo að sá sem er undir noti öryggisorðin sín. Þannig að þetta eru samskipti á báða bóga, svo það að halda að einn sé yfir og megi bara gera allt – það er alls ekki svo. Að sá sem er undir verði bara að þola hvað sem er – það er alls ekki svo. Svo á sér oft stað rosalega fallegt fyrirbæri sem kallast after-care; þá er hlúð að, tenging, passað upp á. Þannig að þetta er ekki bara: ég kem, geri við þig og fer. Það er ekki dýnamíkin.

- Auglýsing -

Hjá sumum er þetta mjög skýrt; „Ég er bara yfir, ég fer bara í dom-hlutverk.“ Aðrir eru bara í sub-hlutverki. Þar líður þeim vel. Það að vera dom krefst gífurlegrar athygli; þú þarft að fylgjast svo vel með ástandi þess sem er sub-inn, til þess að geta lesið í allt og passað upp á, og þú átt svolítið að reyna að hafa stjórn á aðstæðum. Þú átt að reyna að gera allt sem í þínu valdi stendur til þess að sub-inum líði vel, af því að þú vilt fara í leikinn sem var búið að ákveða. Það gerir þetta að mjög áhugaverðri dýnamík.

Fólki hugnast kannski ekki að farið sé í lýsingar á því sem fólk er að gera; það finnst þeim óþægilegt af því að það kannski tengir bara ekkert við þetta. Ég skil það mjög vel. Áður en ég kynnti mér BDSM þá skildi ég hvorki upp né niður í þessum heimi. En ég fór og setti mig inn í það og fór í mjög mikinn lærdóm þar til þess að skilja. Og BDSM hefur verið þvílíkt mikið rannsakað. Það er til dobía af rannsóknum, af því að það eru svo margir sem spyrja hvað þetta sé, afhverju þetta sé heillandi, hvað sé að þessu fólki… þannig að það er mjög áhugavert.

„Hvenær viltu gefa eftir vald og hvenær viltu stjórna?“

Svo ertu með fólk sem er switch og það þýðir að þú getur verið bæði dom eða sub, allt eftir kannski aðstæðum eða leikfélaga. Þá mátarðu bæði hlutverk. Á öllum svona BDSM námskeiðum og fræðslu sem ég hef sótt mér, þá er fólk hvatt til þess að máta báðar hliðar, hvort sem maður finnur sig í því eða ekki. Þannig að sama hvort það sé eins og þetta margumrædda breath play námskeið eða bindingar eða eitthvað svoleiðis – þótt þú segist ekki tengja við að láta binda þig, þá ertu samt beðinn um að upplifa og finna hvernig er að vera hinum megin og þiggja þetta. Hvort sem þú svo leikur þannig með það eða ekki. Mér fannst það mjög áhugavert og hafði ekki dottið það í hug.

- Auglýsing -

En svo eru einmitt sumir sem svissa á milli, allt eftir manneskjunni. Þá skiptir ekkert máli hvort þú ert kona, karl eða kynsegin, eða hvort þú ert að leika með konu, karli eða kynsegin. Þetta er bara okkar dýnamík og það er svolítið okkar að tala um það. Ég hef reyndar hitt fleiri konur sem eru switchar, heldur en karla. Það þarf ekkert að þýða neitt. En það finnst mér áhugavert. Hvenær viltu, innan gæsalappa, gefa eftir vald og hvenær viltu stjórna?“

 

Valdaleikir

Þegar blaðamaður veltir fyrir sér hlutfalli karlmanna í dom-hlutverki annarsvegar og sub-hlutverki hinsvegar hugsar Sigga Dögg málið en nefnir svo til sögunnar þjónustu sem er í boði víða erlendis.

„Þar geturðu víða keypt þjónustu svokallaðrar dómínu, dominatrix á ensku. Þá geturðu keypt þjónustu bara eins og við sjáum í sjónvarpsþáttum; þetta hefur verið í Billions og fleiri þáttum. Þar sem menn í streitufullum störfum fara og kaupa þjónustu dómínu, þar sem þeir vilja þá láta gera ákveðið við sig; sumir kalla þetta að niðurlægja, sumir kalla þetta valdaleiki. Þeir borga fyrir þetta. Það er til. Ég veit ekki til þess að slíkt sé til hérna á Íslandi, að þú getir borgað fyrir dómínu. Þetta myndi teljast til kynlífsvinnu, sem er náttúrulega ólögleg á Íslandi.

„Hæ, nennirðu að domma mig á laugardaginn?“

Ég hef tekið eftir því innan BDSM samfélagsins að það er rosa virkt samtal, að ég upplifi, að ef þú ert karlmaður og segist vera dom, þá er ekkert leikið svo glaðlega með það. Þá er ekkert svona: „Hæ, nennirðu að domma mig á laugardaginn?“ Þetta er meira þannig að viðkomandi þurfi að eiga í einhverju sambandi við manneskjuna sem hann ætlar að fara inn í þennan leik með. Við þurfum að þekkjast, kynnast vel og vera með ákveðið traust og ákveðinn grunn. En þeir kannski koma svolítið til dyranna þarna: „Þetta er það sem ég fíla, svona er ég, þetta er mín dýnamík; ertu til í þetta eða ekki?“

Sumir kannski upplifa að það sé verið að stilla fólki svolítið upp, en mér finnst ákveðinn heiðarleiki í því að segja bara: „Ég veit hver ég er, ég þekki mig, svona tjái ég ástina mína, svona upplifi ég mig í kynlífi og ég vil að þú getir tekið upplýsta ákvörðun.“ Ekki: „Ef þú elskar mig þá gerirðu þetta fyrir mig,“ heldur: „Tökum upplýsta ákvörðun í byrjun samtalsins.“

Ég man eftir því að vinkona mín var á Tinder og hún sagði við mig: „Ó mæ god, það er einhver gaur hérna að senda mér og hann er strax bara „fílarðu BDSM?“, þú veist, við erum búin að segja fjórar setningar við hvort annað – slakaðu á! Mér finnst þetta ógeðslega gróft.“

Ég sagði bara: „Veistu það, mér finnst þetta ógeðslega heiðarlegt. Ef hann vill bara spjalla við fólk sem fílar BDSM þá er bara flott hjá honum að vinsa þig strax út. Þetta eru þín viðbrögð, ég held að þú hafir ekkert erindi í að tala við þennan mann.“

Síðan er náttúrulega líka hluti af þessari umræðu hvar sé öruggt rými og hvernig eigi að skapa það.“

 

Afsprengi ofbeldis og nauðgunarmenningar?

En hvað segir Sigga Dögg við þeirri staðhæfingu að sumir vilji meina, í umræðunni undanfarið, að BDSM sé afsprengi ofbeldis- og nauðgunarmenningar? Að það sé beintengt kynjamisrétti?

„BDSM sem formlegt hugtak, er í rauninni yngra en iðkunin. Það að þessu hafi verið skeytt saman kemur í rauninni upp úr bókmenntum – bók eftir Marquis de Sade, sem er ekki frábær bók og er í raun bara uppfull af ofbeldi. Ég komst ekki í gegnum hana. Justine heitir þekktasta bókin hans, og svo er The 120 days of Sodom. Hann var sadisti og er ekki einhver til eftirbreytni. Oftast er þessi sadismi talinn koma frá honum, og þessu svo skeytt saman; þessu BDSM-i. En við sjáum til dæmis að bindingar, sem er stór hluti af BDSM hjá mörgum, eru bara margra alda gamalt fyrirbæri og er stór og rík hefð í Japan, til dæmis. Sama með hýðingar, flengingar og bara allskonar valdaleiki. Valdaleikir sem kannski eru undirstaða og kjarni BDSM.

„Að láta af stjórn og að stjórna – og að stíga inn í það“

Ég held að einhvers konar valdadýnamík sé bara í eðli mannsins, ef það er hægt að tala um það. Að gefa og sleppa. Að stjórna og láta af stjórn. Ég held að við séum í eðli okkar flest switch að einhverju leyti. Ég held að við höfum öll gott af báðu; þekkingu á báðu og að leyfa okkur bæði. Að láta af stjórn og að stjórna – og að stíga inn í það. Við erum þarna að leika með einhverja ákveðna grunnþætti í okkur. Sem leyfir okkur kannski bara að sjá nýjar hliðar á okkur sjálfum. Þá verðum við líka að hafa þekkingu á því hvað við erum að leika með, hvað það felur í sér, hvernig við tölum um það eftirá og hvernig við vinnum úr því sem kemur upp.“

 

Hér má lesa viðtalið við Siggu Dögg í heild sinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -