Laugardagur 9. nóvember, 2024
8.8 C
Reykjavik

Sonur meints fórnarlambs um lækningaleyfi Skúla: „Vægast sagt einkennilegt og afar óþægilegt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sonur meints fórnarlambs Skúla Tómasar Gunnlaugssonar læknis á Landspítalanum segir það afar óþægilegt að læknirinn hafi fengið endurnýjun á lækningaleyfi sínu. Þá segir hann seinagang í ákæruferlinu óásættanlegt.

Beggi Dan, sonur Dönu Jóhannsdóttur, sem er einn níu meintra fórnarlamba Skúla Tómasar Gunnlaugssonar, segir það „vægast sagt einkennilegt og afar óþægilegt“ að Skúli hafi fengið endurnýjun á starfsleyfi sínu frá Landlæknisembættinu. Skúli er grunaður um að hafa valdið ótímabærum dauða níu sjúklinga á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á árunum 2018 til 2020. Lögreglurannsókn á sex dauðsföllum lauk fyrir þó nokkru og verið send í ákæruferli.

Mannlíf ræddi við Begga og spurði hann út í nýjust fréttirnar, að Skúli Tómas hafi fengið endurnýjun á starfsleyfi sínu en hann starfar nú sem læknir á Landspítalanum.

„Það að Skúli Tómas sé kominn með lækningaleyfi á meðan mál hans er í ákærumeðferð er vægast sagt einkennilegt og afar óþægilegt,“ segir Beggi í skriflegu svari til Mannlífs. Og bætir við: „Ég vona innilega að stjórnendur Landspítala muni sýna ábyrgð í þessu máli og gæta þess að Skúli sinni ekki sjúklingum á meðan mál hans er á borði saksóknara. Það kæmi mér hins vegar á óvart ef svo yrði þar sem stjórnendur spítalans hafa eindregið stutt Skúla í þessu máli. Aðrir læknar, meðal annars fyrrverandi forstjóri Landspítalans, hafa einnig verið duglegir við að lýsa yfir stuðningi við Skúla vin sinn, þrátt fyrir að vera ekki með neinar upplýsingar um málið. Það finnst mér vekja upp ansi margar spurningar sem einhver gáfaðri en ég þarf að svara, því ég skil þetta bara alls ekki.“

Beggi segir að rannsókn lögreglu hafi tekið langan tíma enda málið flókið. „Rannsókn málsins hjá lögreglu tók langan tíma og var lengi að fara af stað en það þarf að hafa það hugfast að þetta er mjög viðamikið og flókið mál og ég get vel ímyndað mér að það hafi verið áskorun fyrir lögregluna að rannsaka það. Hins vegar finnst mér seinagangurinn í ákæruferlinu hjá saksóknara óásættanlegur.“

Bætir hann við að fjölskylda hans hafi ítrekað haft samband við Embætti saksóknara en aldrei fengið almennilega svör.

- Auglýsing -

„Málið fór frá lögreglu til saksóknara í apríl í fyrra og þar hefur málið sofið vært síðan. Við fjölskyldan höfum ítrekað haft samband við Embætti saksóknara en svarið sem við fáum eru að „þetta muni taka einhvern tíma til viðbótar“ sem er augljóslega ekkert svar. Mér finnst seinagangurinn með ólíkindum og á sama tíma finnst mér mjög óeðlilegt og ónærgætið að gefa okkur aðstandendum engin svör um framgang mála.“

En hvernig líður fjölskyldunni?

„Við erum með þykkan skráp og vön álagi en þetta er virkilega farið að taka á. Biðin eftir því að fá svör frá saksóknara er erfið og þögn embættisins er yfirþyrmandi. Okkur er hent út í horn og haldið í fullkomnri óvissu.“

- Auglýsing -

Aðspurður hvort hann sé búinn að vera í samskiptum við fjölskyldur annarra meintra fórnarlamba Skúla, segist hann ekki hafa haft mikil samskipti.

„Ég hef verið í sambandi við eina fjölskyldu sem hefur svipaða sögu að segja og við en ég veit í rauninni mjög lítið um aðra aðstandendur því miður.“

Að lokum segist Beggi vilja hvetja saksóknara til þess að bjóða fjölskyldunni „raunveruleg svör“:

„Ég vil hvetja saksóknara til að upplýsa okkur um stöðu mála og bjóða okkur upp á raunveruleg svör. „Þetta er í vinnslu“ er ekki nógu gott svar til fjölskyldu í sárum sem bíður eftir réttlæti. Við þurfum gegnsæi og ábyrgð í þessu ferli. Fjölskyldur þeirra sem hafa misst ástvini sína eiga það skilið að vita hvað er í gangi og hvenær við getum átt von á niðurstöðu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -