Mánudagur 15. júlí, 2024
12.8 C
Reykjavik

Tomasz þvertekur fyrir ásakanir um líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tomasz Þór Veruson segist aldrei hafa beitt fyrrverandi kærustur sínar líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi, í aðsendri grein sem hann skrifar á Vísi. Í byrjun árs komu fram ásakanir tveggja fyrrverandi kærasta á hendur honum. Önnur þeirra var Vilborg Arna Gissurardóttir, pólfari.

Ásakanir á hendur Tomaszi komu fyrst fram í hópi áhugakvenna um fjallamennsku og útivist. Í hópnum, sem ber heitið Fjallastelpur – umræðuhópur um útivist á Íslandi fyrir konur, steig fyrrverandi kærasta hans fram í pistli og greindi þar frá ofbeldi sem hún sagðist hafa orðið fyrir af hálfu Tomazsar. Eftir það sagðist Vilborg Arna í færslu á Facebook að hún hafi verið í sömu sporum og konan, en þau Vilborg og Tomasz voru í ástarsambandi um tíma.

„Þyngsti bakpokinn og hæsta fjallið að klífa. Heimilisofbeldi og hvers kyns ofbeldi í öllum sínum birtingarmyndum er þungt farg að bera fyrir þolendur slíkra mála, fjölskyldur og alla þá sem tengjast á einn eða annan hátt,“ skrifaði Vilborg í færslu sem hún birti um málið.

„Af hverju að skrifa núna?“ „Til hvers að segja frá og leiðrétta?“ „Nú þegar rykið er sest og umræðan fallin í gleymsku.“ 

Þetta sagði ég þegar ég var hvattur til að stíga fram og nota röddina sem við öll höfum. Svarið er þó ekki flókið. Á meðan árasir, ofbeldi, sögusagnir og lygar grassera í minn garð fæ ég ekki rými til að halda áfram með líf mitt. Og hingað erum við komin,“ segir Tomasz í upphafi pistilsins á Vísi.

Gekkst við ásökunum

Eftir að ásakanirnar komu fram hætti hvert fyrirtækið á fætur öðru samstarfi sínu við Tomasz og fyrirtæki hans. Hann gekkst við ásökununum fljótlega eftir að Vilborg Arna steig fram.

- Auglýsing -

„Undanfarna daga hefur verið fjallað um mig og fyrri sambönd mín á samfélags- og fréttamiðlum vegna andlegs ofbeldis og óviðeigandi framkomu af minni hálfu í garð ástvina. Ég gengst við þeim og á mér þar engar málsbætur,“ segir í þeirri færslu Tomaszar.

Í þeirri grein sem hann ritar á Vísi í dag þvertekur hann hins vegar fyrir að hafa beitt konurnar líkamlegu ofbeldi. Hann segist hafa beðist afsökunar á andlegu ofbeldi en öðru ekki.

Ég skilgreindi framhjáhald og óheiðarlega framkomu mína í garð ástvina sem andlegt ofbeldi og gerðist sekur um það í báðum samböndum. Ég baðst afsökunar á því. Ég baðst ekki afsökunar á líkamlegu ofbeldi, kynferðisofbeldi eða kúgunartilburðum enda er ég ekki sekur um neitt slíkt.

- Auglýsing -

Tomasz segist telja nauðsynlegt að hann útskýri mál sitt betur, þar sem bæði blaðamenn og almenningur hafi bersýnilega skilið játningu hans á þann veg að hann væri þar með að gangast við öllum þeim ásökunum sem bornar hefðu verið fram.

Lýsir framhjáhöldum og rifrildum

Tomasz lýsir samböndunum við konurnar tvær í löngu máli í pistli sínum. Hann lýsir sambandinu við Vilborgu þannig að skipst hafi á skin og skúrir. Hann segir að eftir framhjáhald af hans hálfu og tíð rifrildi hafi þau slitið sambandi sínu og sambúð árið 2017. Eftir það segist hann hafa starfað hjá ferðaþjónustufyrirtæki Vilborgar, en þá hafi allt verið gott þeirra á milli og vinátta ríkjandi. Samstarfið hafi gengið vel allt þar til undir lokin, í lok árs 2020, þegar samskipti voru orðin stirð og rifrildi um fjármál tíð. Tomasz segist hafa gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir fyrirtækið til þess að tryggja fjárhagslegt öryggi þess. Hann segir það hafa tekið langan tíma að losna undan því eftir að samstarfinu lauk og lýsir því einnig að illa hafi gengið að innheimta ógreidd laun.

Tomasz lýsir sambandinu við hina konuna, sem hófst eftir að sambandinu við Vilborgu lauk, þannig að þau hafi þegar öllu var á botninn hvolft ekki átt samleið. Sambandið hafi byrjað afar vel en fljótlega hafi tekið að halla undan fæti. Um afar óheilbrigt samband hafi verið að ræða.

Ásakanir um ofbeldi

Í færslunni sem konan skrifaði á Facebook í byrjun árs sakar hún Tomasz um andlegt ofbeldi og á tímum bæði líkamlegt og kynferðislegt. Hún segir hann sífellt hafa sakað sig um framhjáhald, hann hafi fylgst með henni á samfélagsmiðlum og ekki viljað að hún færi í vinnuferðir. Hún segir hann reglulega hafa hótað sjálfsvígi ef hann var óánægður með eitthvað. Hún lýsir því að hafa ekki mátt birta myndir af Tomaszi á samfélagsmiðlum, en hún hafi seinna komist að því að það hafi verið vegna þess að hann átti í samböndum við aðrar konur sem þau þekktu bæði úr fjallasamfélaginu. Hún segist hafa passað að gera allt rétt og eftir hans höfði til þess að halda honum góðum.

Tomasz segir konuna sífellt hafa sakað hann og Vilborgu um að eiga í leynilegu ástarsambandi, þar sem þau störfuðu enn saman. Hann segir þau hafa verið ótrú hvort öðru sem leitt hafi til vantrausts á báða bóga. Sambandi þeirra hafi síðan lokið árið 2019.

Frá þeim tíma og allt til dagsins í dag hef ég aldrei hitt hana og aðeins einu sinni talað við hana í síma, þegar hún hringdi í mig um miðja nótt um haustið sama ár,“ segir hann í pistlinum.

Sögurnar um þetta fyrra samband mitt dreifðust hratt og voru í umferð allt til janúar á þessu ári. Eyrún sá um að segja frá og ég sá um að staðfesta. Hef ég ávallt gengist við þeim. Á þeim tíma hefur þó aldrei verið minnst á það ofbeldi sem ég á að hafa beitt og er lýst með jafn ítarlegum hætti og raun ber vitni í umræddri Facebook færslu hennar í janúar á þessu ári.

 

Segir færsluna afbökun á sannleikanum

Um færsluna á Facebook segir hann eftirfarandi:

Sagan er að nokkru leyti afbökun á sannleikanum og að sumu leyti hrein og klár lygi. Lögmaður minn hefur gefið höfundi frásagnarinnar tækifæri til þess að leiðrétta hana en hún hefur ekki brugðist við. Ég hef íhugað að fara í meiðyrðamál en þar sem dómsmál eru tímafrek hef ég ákveðið að byrja á því að koma sjálfur á framfæri leiðréttingu.

Tomasz þvertekur fyrir að hann hafi hrökklast úr starfi leiðsögumanns hjá tveimur fyrirtækjum, líkt og kom fram í færslu konunnar.

Ég starfaði út tímann minn hjá Ferðafélaginu og lét af störfum eftir að verkefni mínu lauk. Einnig hefur framkvæmdastjóri félagsins staðfest það, að mér hafi ekki verið sagt upp störfum né að kvartanir hafi nokkurn tímann borist honum eða félaginu í minn garð.

Segist aldrei hafa beitt líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi

Hvað varðar ásakanir um ofbeldi segir Tomasz:

Að lokum, ofbeldið. Ég er sakaður um að hafa beitt andlegu-, líkamlegu-, og kynferðislegu ofbeldi. Eins og áður sagði þá hef ég skilgreint framhjáhald mitt og óheiðarlega og meiðandi framkomu mína í tengslum við það sem andlegt ofbeldi. Ég hef og mun ávallt gangast við því. Ég hef hins vegar aldrei beitt líkamlegu ofbeldi eins og haldið er fram og þá hef ég heldur ekki beitt kynferðislegu ofbeldi eða neytt viðkomandi til að gera kynferðislega hluti með mér eins og haldið er fram. Þessar ásakanir höfðu aldrei komið fram fyrr en í umræddri Facebook færslu.

 

Lýsir miklu fjárhagslegu tjóni

Tomasz segir ásakanirnar hafa valdið sér og fyrirtæki sínu miklu tjóni, enda hafi meirihluti þeirra sem skráðir hafi verið í verkefni á árinu 2022 óskað eftir endurgreiðslu innan 48 klukkustunda eftir að frásögnin var birt.

Frásögnin sem birt var í fjölmennum hópi kvenna á Facebook tileinkuðum útivist endaði á ósk um að sniðganga mig sem og fyrirtækið mitt fyrir fullt og allt. Hjá fyrirtækinu störfuðu fimm leiðsögumenn, þrjár konur og tveir karlmenn sem átti nú að sniðganga líka fyrir störf þeirra fyrir fyrirtækið og tengsl þeirra við mig. Fagfólk sem hefur starfað af krafti og mikilli hugsjón við að byggja upp áhuga á útivisti og fjallamennsku meðal Íslendinga.

Hann segir því fólki, ásamt viðskiptavinum fyrirtækisins hafa verið gefnir afarkostir.

Ég þurfti að leita aðstoðar fagaðila við að vinna úr fyrstu dögunum eftir að færslan birtist þar sem ég vissi að ég gæti ekki gert það af sjálfsdáðum. Gott fólk í heilbrigðiskerfinu hjálpaði mér gífurlega mikið og er ég því mjög þakklátur,“ segir Tomasz.

Getur ekki gengist við ásökunum eða sögusögnum

Ég hef sannarlega misstigið mig í nánum samböndum og mun ég aldrei gera lítið úr því. Ég hef gengist við hegðun minni og trúnaðarbresti í garð ástvina minna á þessum tíma og endurtekið beðist afsökunar og leitað mér aðstoðar fagfólks. Ég get hins vegar ekki gengist við þeim ásökunum eða sögusögnum sem nú ganga í skjóli #MeToo byltingarinnar og ekki eru sannar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -