Þriðjudagur 14. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

Jón Ívar segir hættuna af COVID ofmetna: „Ekki heillavænlegt að keyra á hræðsluáróðri“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Grein sem Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla í Boston, birti í Morgunblaðinu í dögunum vakti talsverða athygli en í henni gagnrýndi hann íslensk stjórnvöld fyrir hertar aðgerðir á landamærum vegna kórónuveirunnar. Sú grein vakti bæði hrifningu og harða gagnrýni.

Í Morgunblaðinu í dag er birt nýr pistill eftir Jón Ívar og gefur hann ekkert eftir. Hann segir að sé dánartíðni COVID skoðuð þá kemur í ljós að hættan sé minni en látið er. Hann segist skrifa greinina til að skýra atriði sem hafi miskilist í fyrri grein.

„Fyrst vil ég kynna til sögunnar tvö mikilvæg hugtök sem eru e.t.v. ekki á allra vörum; case fatality rate (CFR) og infection fatality rate (IFR). CFR sýnir hversu margir sem hafa greinst deyja. IFR gefur hins vegar raunhæfari mynd, því það sýnir hversu margir sem sýkjast deyja. Ísland er í öfundsverðri stöðu (takk DeCode) því við höfum mótefnamælt stærri hluta þjóðarinnar en flestir og vitum því nokkuð vel hversu margir hafa raunverulega sýkst,“ segir Jón Ívar.

Hann heldur áfram og segir Ísland einstakt hvað þetta varðar. „Við höfum líka greinargóðar upplýsingar um Covid-tengd andlát. Það er sennilega einstakt á alþjóðamælikvarða. Vegna þess er hægt að reikna út með nokkurri vissu raunverulega dánartíðni hérlendis (IFR), sem er eins og áður sagði 0,21% (95% vikmörk 0,1025-0,39305). CFR hérlendis er hins vegar 10/2107 (0,47%). Glæný rannsókn Decode sýnir reyndar Covid IFR upp á 0,3%, en 0,1% hjá yngri en 70 ára. WHO áætlaði 3,2% dánartíðni í mars, sem var klárlega ofmat. Til samanburðar er dánartíðni (IFR) inflúensu 0,1-0,2% og er það þrátt fyrir tilvist bóluefnis. Covid er meira smitandi en inflúensa og með aðeins hærra IFR og því hættulegri sýking,“ segir Jón Ívar.

Lægri dánartíðni hjá hraustum

Jón Ívar segir mikilvægt að horfa á aldur þeirra sem falla frá. „Það sem skiptir mestu máli varðandi raunverulega dánartíðni (IFR) er samsetning þýðis m.t.t. aldurs og áhættuþátta. Covid er mjög alvarlegur sjúkdómur hjá eldra fólki og viðkvæmum hópum. T.d. sýnir nýleg rannsókn þar sem tekin eru saman gögn frá mörgum löndum (m.a. Íslandi) að IFR fyrir 0-34 ára er 0,01% (1/10.000) og 35-44 ára 0,06% (1/1.666). Hins vegar er IFR fyrir aldurshópinn 75-84 ára 7,3% og fyrir 85 ára og eldri 27,1%. Þetta tekur ekki inn í myndina áhættuþætti. Þannig myndi hraustur ungur einstaklingar hafa enn lægri dánartíðni, en eldri einstaklingur með undirliggjandi sjúkdóma enn hærri dánartíðni,“ segir Jón Ívar.

Hann segir að nú smitist hlutfallslega fleira ungt fólk. „Það er hlutfallslega fleira yngra fólk að smitast í þessari bylgju og það skýrir sennilega að mestu að hún virðist vægari. Nýleg rannsókn frá Oxford-háskóla byggð á gögnum Medical Research Council Biostatistics Unit á Englandi sýnir líka að IFR hefur farið lækkandi í sumar, en á tímabilinu júní til ágúst 2020 lækkaði IFR úr u.þ.b. 0,7% niður í 0,3% og virðist enn á niðurleið. Það er ekki ólíklegt að þetta sé a.m.k. að hluta vegna þess að nú séu hlutfallslega fleiri ungir og hraustari einstaklingar að sýkjast.

- Auglýsing -

Gæta meðalhófs

Jón Ívar segir að þrátt fyrir þetta sé mikilvægt að hafa í huga að ekki er vitað um alla afleidda kvilla COVID. „Þetta gefur tilefni til ákveðinnar bjartsýni og skýrir e.t.v. að hluta þá staðreynd að á meðan tíðni smita á heimsvísu hefur verið í línulegum vexti, hefur kúrfa dauðsfalla verið flöt. IFR er einn af þeim þáttum sem þarf að taka tillit til þegar teknar eru ákvarðanir um samfélagslegar aðgerðir út frá heildrænu sjónarmiði. Vissulega eru afleiddir kvillar Covid líka mikilvægir og þarf að rannsaka það betur. Það er hins vegar ekki heillavænlegt að keyra á hræðsluáróðri til lengdar því fólk á Íslandi er skynsamt og vel upplýst og ef gögn styðja ekki skilaboðin þá fjarar smám saman undan samstöðunni. Það er líka mikilvægt að stjórnmálamenn taki ákvarðanir sínar byggðar á nýjustu og bestu upplýsingum,“ segir hann.

Jón Ívar segist alls ekki vera mótfallinn smitvörnum innanlands. „Það er áfram mjög mikilvægt að halda áfram aðgerðum innanlands, þ.e.a.s. iðka smitvarnir, vernda viðkvæma hópa o.s.frv. Mér finnst raunar sums staðar að ekki hafi verið nægilega langt gengið, t.d. ættu þeir sem sinna aðhlynningu á hjúkrunarheimilum alltaf að vera með grímu í vinnunni. Það var ekki gert lengi vel en vonandi hefur það breyst. Hins vegar þykja mér aðgerðir á landmærum ekki í samræmi við þá stöðu sem við erum í nú og utan meðalhófs. Það gæti því miður verið of seint að breyta um stefnu þar því skaðinn er e.t.v. að mestu skeður, en þó skora ég á stjórnvöld að endurmeta þær ákvarðanir. Ég tek það skýrt fram að ég er ekki að tala fyrir því að opna landamærin upp á gátt, heldur að halda áfram með tvöfalda skimun í bili og taka upp heimkomusmitgát í stað sóttkvíar,“ segir hann.

Bandaríkin víti til varnaðar

Hann segir það víðsfjarri að hann sé talsmaður stefnu Bandaríkjamanna. „Loks vil ég að gefnu tilefni taka fram eftirfarandi. Ég er alls ekki fylgjandi því stefnuleysi sem hefur verið uppi í Bandaríkjunum gagnvart Covid. Þvert á móti er það víti til varnaðar. Þó að lífið sé komið í nokkuð eðlilegt horf í mínu umhverfi og hjá vinum og kollegum víðs vegar um Bandaríkin á það alls ekki við alls staðar og margir eiga um sárt að binda þar enda eru Bandaríkin stórt land með fólki sem býr við misjafnar aðstæður,“ segir Jón Ívar.

- Auglýsing -

Hann segir svo að lokum: „Það er mikilvægt að litið sé heildrænt yfir sviðið og að opna umræðuna. Ég hef persónulega engra hagsmuna að gæta, nema það að ég vona að teknar séu ákvarðanir sem eru heillavænlegar fyrir okkar frábæra land og þjóð. Við vitum að það er óraunhæft að við komum til með að búa í veirufríu landi og neikvæð umræða sem elur á ótta er ekki heillavænleg til langframa. Ég tel að nýjustu gögn bendi til að dánartíðni Covid hafi verið ofmetin, en við erum nú að ganga í gegnum eitt mesta efnahagsáfall sögunnar og því afar mikilvægt að hlúa að innviðum, andlegri heilsu og lágmarka skaðann fyrir sem flesta.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -