Föstudagur 26. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Lilja Sigurðardóttir – Bækurnar hafa selst í rúmlega milljón eintökum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bók Lilju Sigurðardóttur, Helköld sól, er á forvalslistanum til Petrona-verðlaunanna sem eru bresk verðlaun fyrir bestu norrænu glæpasöguna á ensku. Á forvalslistanum eru 12 bækur og þar af þrjár íslenskar, bók Lilju og bækur Sólveigar Pálsdóttur og Óskars Guðmundssonar. Íslendingur hefur unnið þessi verðlaun en það var Yrsa Sigurðardóttir árið 2015.

„Það er vitaskuld heiður að vera á forvalslistanum en nú um miðjan mánuð er sá listi skorinn niður í örfáar tilnefningar og svo er sigurbókin valin úr þeim,“ segir Lilja. „Sigurvegarinn fær boð um að tala á Crime-Fest hátíðinni í Bristol, einhver smáræðis peningaverðlaun og svo flottan verðlaunagrip. Ég verð að segja að hver svo sem sigurvegarinn verður þá eru allar bækurnar á forvalslistanum þess umkomnar að vinna.“

Nýjasta bók Lilju heitir Drepsvart hraun og segist Lilja í henni nudda sér ofurlítið utan í yfirnáttúrulega hluti þar sem barn segist vera horfin systir aðalpersónunnar endurfædd. „Þetta er vitaskuld undarlegt og þarfnast rannsóknar og fljótlega fellur grunur á foreldra barnsins um að þau viti eitthvað meira um hvarf systurinnar. Daníel lögreglumaður lendir líka í furðulegum hlutum þegar Lady Gúgúlú, dragdrottningin sem leigir hjá honum, lætur sig hverfa fyrirvaralaust á flótta undan dularfullum mönnum.“

Lilja Sigurðardóttir
Lilja fékk í vikunni í hendur eintök af bókunum sínum á arabísku.

The Times og The Sunday Times

Drepsvart hraun er tíunda bók Lilju. Bækurnar hafa verið þýddar á ýmis tungumál og segist rithöfundurinn halda að þau séu 18 og hafa bækurnar selst í rúmlega milljón eintökum.

Ýmsir erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um bækurnar og má nefna góðan dóm sem birtist í Times í september.

Nú á dögunum valdi The Sunday Times Red as Blood – Blóðrauðan sjó –  eina af fimm bestu glæpasögum ársins.

- Auglýsing -

„Ég er heppin með það að fá almennt góða dóma og reyndar mjög góða dóma í útlöndum. Nú á dögunum valdi The Sunday Times Red as Blood – Blóðrauðan sjó –  eina af fimm bestu glæpasögum ársins og aðalgagnrýnandi Times segir að ég sé um það bil að vera einn af hans uppáhaldshöfundum. Þetta er gaman og gleður mig auðvitað þar sem ástæðan fyrir því að ég stend í þessu er löngun til að skemmta fólki með skrifunum mínum. En ég veit svo sem ekki hvað svona gagnrýni gerir fyrir mann í raun og veru. Útgefendur eru alltaf himinlifandi því það er hægt að setja brot úr dómum á bókarkápurnar og sjálfsagt eykur þetta söluna eitthvað.“

Lilja ferðast mikið til útlanda vegna bókanna. „Nú þegar þær koma út í mörgum löndum þá fylgja þessu miklar kynningarferðir. Covid hægði nú samt sem betur fer á þessu og margir viðburðir eru nú á netinu. En nú í ár er ég búin að ferðast til dæmis til Englands, Skotlands, Kanada og tvisvar til Frakklands.“

Lilja Sigurðardóttir
Lilja er þaulvön því að tala á sviði um bækurnar sínar og hefur verið önnum kafin í kynningarferðum.

 

- Auglýsing -

Spenna getur verið margs konar

Hvers vegna að skrifa spennusögur? „Vegna þess að það er svo gaman. Á meðan ég hef gaman af þessu og einhver nennir að lesa þá held ég þessu áfram.“

Hvað þarf að hafa í huga til að skrifa spennusögu?

„Ég hef það alltaf að leiðarljósi að reyna að skrifa sögu sem ég myndi sjálf vilja lesa. Að öðru leyti gildir það sama um spennusögur og aðrar sögur: Að færa lesandanum einhverja upplifun og afþreyingu.“

Forvitnilegir hluti og ráðgátur geta líka skapað spennu.

Hvernig er hin fullkomna spennusaga?

„Góður söguþráður, góðar persónur og svo auðvitað spenna. Spenna getur hins vegar verið margs konar. Hún þarf ekki endilega að vera taugatrekkjandi. Forvitnilegir hluti og ráðgátur geta líka skapað spennu.“

Hefur Lilju dreymt eitthvað sem hefur svo ratað í bók?

„Já, fyndið að þú spyrjir um það því að mig dreymdi ákveðna hluti sem ég notaði í nýju bókina mína. Ég get ekki sagt of mikið um það til að ljóstra ekki upp einhverju úr bókinni en það snýst um hættulegt vopn og vopnaframleiðendur. Mig dreymdi að ég væri stödd í borg þar sem svona vopn hafði verið notað.“

Hvernig er að einbeita sér svona að glæpum og óhugnaði við vinnu sína?

„Það er bara ágætt. Ég veit ekki hvað skal segja. Ég er fremur blíðlynd og glöð manneskja að eðlisfari en hef óskaplega gaman af glæpasögum. Það er einhvers konar fíkn alveg frá því ég var lítil. Ég hef gaman af því að byggja upp sögurnar og ímynda mér hluti. Það er skapandi orka sem beinist í þennan farveg.“

Oftast er það einhvers konar sambræðingur af einhverju sem ég hef lesið eða heyrt.

Hvernig og hvar fær Lilja hugmyndir?

„Alls staðar að. Ég fylgist mikið með fréttum og líka heimsfréttunum og stundum smellur eitthvað í hausnum á mér sem væri geggjuð saga. Oftast er það einhvers konar sambræðingur af einhverju sem ég hef lesið eða heyrt. Svo hrekk ég stundum upp við það að einhvers staðar milli svefns og vöku fæ ég einhverja hugdettu eða finnst eins og ég heyri raddir þegar persónurnar tala við mig. Þetta er mjög skrýtið en oft hjálplegt.“

Lilja segist vera í fjóra mánuði að skrifa bók. „Svo þarf að laga eitthvað smávegis til samkvæmt ábendingum ritstjóra og lesa svo prófarkir svo að ferlið að koma bókinni í horf er um það bil hálft ár allt í allt.“

Hvað óttast glæpasagnahöfundurinn mest?

„Ég óttast nú ekki margt og glæpasögur hræða mig ekki. En ég á stundum bágt með draugasögur og draugamyndir þó ég trúi í raun ekki á drauga. Það er eitthvað við það sem er óáþreifanlegt sem setur mann í erfiða stöðu. Það er hið óþekkta sem er ógnandi.“

 

Moldarblandinn og brasandi

Lilja er spurð hver sé erfiðasta lífsreynsla sem hún hefur gengið í gegnum og hvernig hún tókst á við hana.

Það að vera lesbísk er líka mín stærsta gleði í lífinu.

„Ég veit ekki hvað ég ætti að nefna sem staka lífsreynslu en ætli ég myndi ekki segja að á heildina litið hafi það mótað mig mest og reglulega og orðið mér til hindrunar að vera hinsegin. Það er þó mun minna í dag en á árum áður og tekið skal fram að það að vera lesbísk er líka mín stærsta gleði í lífinu.“

Lilja segir að þetta hafi áhrif á skrif sín.

„Ég held að hinsegin persónur og þeirra hugðarefni poppi meira upp í mínum sögum en mörgum öðrum og trílógían mín, Gildran, Netið og Búrið, var með lesbíur í aðalhlutverkum. Einn breskur gagnrýnandi sagði líka að bækurnar mínar væru „camp“ þó ég sjái það ekki beinlínis sjálf.“

Lilja Sigurðardóttir
Lilja á hálendinu með Dr. Árna.

Hvernig er lífsstíllinn þegar vinnunni sleppir?

„Hann er mjög moldarblandinn og brasandi. Ég hef gaman af því að sinna garði og heimili. Við konan mín, Margrét Pála Ólafsdóttir, búum uppi við Elliðavatn á nokkuð rúmu landi og höldum hænur og hundinn Dr. Árna. Þeim lyndir ágætlega hundinum og hænunum og sýna hvert öðru verðskuldaða virðingu þó að hundurinn sé afbrýðisamur yfir matnum sem hænurnar fá. Hann er með góða matarlyst, blessaður, eins og eigendurnir. Svo er flutt inn til okkar lítil fjölskylda, barnabarn konunnar minnar, maðurinn hennar og lítil dóttir, svo að fjölskyldulífið er skemmtilegt á meðan við erum heima. Ég er líka nýkomin með gróðurhús og er að gera tilraunir með að rækta matjurtir og ávexti. Svo erum við með annan fótinn úti í Skotlandi þar sem konan mín rekur einn leikskóla og ég nota friðinn til að skrifa.“

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -