Þriðjudagur 14. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

Magnús læknir segir Íslendinga verða að velja unga fólkið fram yfir frelsið: „Við vitum hver hættan er af ferðalögum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Sköpum aðstöðu til að unga fólkið geti stundað skóla, hitt félaga sína og fengið að þroskast með eðlilegum hætti. Sköpum þá stöðu að þeir sem eru eldri eða hafa sjúkdóma þurfi ekki að óttast að hitta þá sem eru þeim kærastir. Sköpum þá stöðu að við getum sem samfélag notið þess að njóta saman.“

Þetta skrifar Magnús Karl Magnússon, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti deildarinnar, á Facebook-síðu sinni um COVID-faraldinn. Pistilinn hefur vakið talsverða athygli og er ljóst að margir eru sammála honum. Magnús lýsir meðal annars mikilvægi þess fyrir samfélagið að ná aftur sama andrými og skapaðist í sumar. Nú þurfi að hugsa um unga og gamla í samfélaginu.

Magnús segir að ekkert land hafi komist klakklaust úr COVID. „Mánuðir líða og enn lætur veiran ekki deigan síga. Það er skrítið að hugsa að fyrir átta mánuðum síðan gátu fáir ímyndað sér að veira myndi lama samfélög okkar, leggja hundruðir þúsunda að velli og stöðva ferðalög um heiminn. En við höfum á þessum átta mánuðum líka lært ótal margt. Það hefur ekkert samfélag getað lifað klakklaust með veirunni án þess að draga verulega úr öllum samskiptum, loka á samkomur, draga úr skólahaldi. Ef slíkt er ekki gert hefur þurft að horfa upp á búsifjar sem siðuð samfélög geta ekki sætt sig við,“ segir Magnús.

Hann minnir á góðan árangur Íslands um tíma. „Það hafa nokkur ríki náð ótrúlega góðum árangri í að útrýma veirunni að minnsta kosti tímabundið. Við náðum þessum árangri, Nýja Sjáland, Færeyjar og allnokkur önnur ríki. Það er mögulegt. Andrýmið sem skapaðist við þennan árangur var áþreifanlegt. Slíkt andrými skiptir sennilega mestu máli fyrir þá sem stjórna minnstu í samfélagi okkar, ungu kynslóðina sem sækir skóla, kynslóðin sem nærist meira á samskiptum en nokkrir aðrir. Andrýmið var einnig áþreifanlegt þeim eldri, kynslóðinni sem einangraðist meira en nokkrir aðrir meðan samfélagið lokaðist,“ segir Magnús.

Hann segir mikilvægt að læra af reynslunni, sem hefur sýnt hættuna af ferðalögum í þessu ástandi. „Hér á landi höfum við borið þá gæfu að hafa safnað gögnum um hegðun veirunnar betur en margir aðrir. Við höfum safnað fleiri sýnum en flestir. Við höfum kafað ofan í ferðalag veirunnar frá einum einstaklingi til annars, bæði með hjálp smitrakningar og með því að skoða fingrafar veirunnar sjálfrar með aðferðum sameindalífvísinda. Í dag vitum við að það er mögulegt að skapa andrými, að minnsta kosti tímabundið. Við vitum hvernig við getum skimað þá sem koma frá öðrum landsvæðum. Við vitum hver hættan er af ferðalögum. Við vitum hve lúmsk veiran er og hve hæglega ein sýking getur dreifst um allt. Þetta höfum við séð síðustu vikur. Við verðum því að bera gæfu til að læra af þessari þekkingu,“ segir Magnús.

Hann segir skelfilegt að hugsa til afkomubrests bæði í ferðaþjónustunni og menningarstarfi. Nú verði samt að hugsa um unga fólki sem og það eldra. „Nú er haustið að skella á. Skólar farnir af stað. Við stöndum nú frammi fyrir mikilvægum ákvörðunum. Frelsi er hugtak sem okkur öllum þykir vænt um. Ferðafrelsi er eins og annað frelsi; frelsi eins nær aldrei lengra en svo að það megi skaða frelsi annarra. Ferðafrelsi er líka það að geta farið úr húsi. Það er sorglegt til þess að hugsa til þess að mikilvæg störf í ferðaiðnaði séu í hættu. En á sama tíma hafa tónlistar- og leikhúsfólk þurft að horfa upp á hrun og tekjuleysi allt frá upphafi faraldurins. Og við sem samfélag mun fátækari að hafa ekki fengið að njóta þeirra,“ segir Magnús og heldur áfram:

- Auglýsing -

„Nú skulum við hugsa um þá sem venjulega stjórna ekki öllu í okkar samfélagi. Sköpum aðstöðu til að unga fólkið geti stundað skóla, hitt félaga sína og fengið að þroskast með eðlilegum hætti. Sköpum þá stöðu að þeir sem eru eldri eða hafa sjúkdóma þurfi ekki að óttast að hitta þá sem eru þeim kærastir. Sköpum þá stöðu að við getum sem samfélag notið þess að njóta saman. Við allar ákvarðanir, hvort sem þær byggja á hagfræðilegum, lýðheilsufræðilegum eða einhverjum öðru mælikvörðum skulum við láta vafann falla með þeim yngstu og elstu. Þetta mun líða hjá á endanum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -