2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Naloxon í nefúðaformi væntanlegt til landsins

Forsvarsmenn Frú Ragnheiðar – skaðaminnkunar hafa bent á mikilvægi þess að koma lyfinu naloxon til einstaklinga sem nota vímuefni í æð og þeirra sem eru háðir opíóðum.

Naloxon er lyf sem notað er til að endurlífga fólk sem hefur ofskammtað af ópíóðum lyfjum eins og oxýkódon, contalgin og fentanyl. Núna er naloxon eingöngu aðgengilegt á heilbrigðisstofnunum og í sjúkrabifreiðum á Íslandi. Þar sem fólk í neyslu sé yfirleitt fyrst á vettvang þegar ofskömmtun á sér stað segja forsvarsmenn frú Ragnheiðar að gefa eigi fíklum lyfið naloxone, þjálfa það í notkun þess og auk þess að þjálfa það í endurlífgun. Þannig geti það brugðist við og bjargað félögum sínum og ástvinum úr ofskömmtun.

Ólafur Einarsson, verkefnastjóri lyfjamála hjá Landlækni.

Ólafur Einarsson, verkefnastjóri lyfjamála hjá Landlækni, segir að embættið mæli ekki gegn því að fleiri hafi aðgang að lyfinu. „Eins og staðan er í dag er lyfið Naloxon eingöngu til sem stungulyf fyrir notkun á sjúkrahúsum. Það er reyndar til í blöndum líka en með öðrum ábendingum. Það er Lyfjastofnunar að meta umsóknir um markaðsleyfi lyfja og best að Lyfjastofnun svari um hvers vegna lyf eða form eru eða eru ekki á markaði hér á landi. Við í lyfjateymi embættisins höfum ekki mælt gegn því að til væri t.d. nefúði sem fleiri hefðu aðgang að, eina „hættan“ gæti hugsanlega falist í því að fíklar yrðu djarfari ef þeir vissu að til væri möguleg björgunarleið sem þeir gætu stólað á. Við lítum svo á að best sé að aðgengi sé sem minnst að sterkum verkjalyfjum fyrir þá einstaklinga sem eiga við alvarlegan fíknivanda að stríða. Jafnframt er nauðsynlegt að draga úr ávísuðu magni þessara lyfja til að sem fæstir ánetjist þeim,“ segir Ólafur.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að naloxon sem stungulyf, eða sambærileg lyf undir öðru heiti, hafi verið á markaði á Íslandi frá því á níunda áratugnum. Naloxon í nefúðaformi sé tiltölulega nýlegt lyfjaform lyfsins og ekki verið markaðssett á Íslandi hingað til frekar en annars staðar í Evrópu. „Það er hins vegar væntanlegt innan skamms og verður fyrst um sinn afgreitt á undanþágu hingað til lands frá Danmörku, að líkindum síðari hluta aprílmánaðar.

AUGLÝSING


Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. Mynd: Inga Hrönn Sveinsdóttir

Naloxon í nefúðaformi verður einnig lyfseðilsskylt en ekki er þar með sagt að aðeins verði hægt að nálgast eina pakkningu lyfsins gegn lyfjaávísun í hvert sinn. Í reglugerðum um ávísun og afhendingu lyfja í apótekum er t.a.m. gert ráð fyrir því að hægt sé að ávísa lyfjum beint til lækna, starfs þeirra vegna, eða annarra viðbragðsaðila svo sem lögreglunnar. Þá er lyfjafræðingum í apótekum jafnframt heimilt að afgreiða og afhenda lyfseðilsskyld lyf, án þess að lyfseðli sé framvísað, í neyðartilvikum. Þessi heimild, sem stundum er vísað til sem neyðarréttar lyfjafræðinga, stendur ávallt opin og er lyfjafræðingi falið að framkvæma faglegt mat hverju sinni hvort um neyðaraðstæður sé að ræða. Þessu til viðbótar er ekkert í lögum eða reglum sem gilda um ávísun lyfja eða afgreiðslu og afhendingu lyfja í lyfjabúð sem kemur í veg fyrir að læknir ávísi umræddu lyfi til fíkla eða aðstandenda þeirra til að grípa til í neyð. Er þetta sambærilegt við ávísun og notkun adrenalínpenna sem t.d. er gripið til þegar bráðaofnæmiskast kemur upp.

Lyfseðilsskyldan undirstrikar hins vegar að lyfið skuli notað með varúð og ýtrustu leiðbeiningum fylgt. Naloxon kemur í veg fyrir að ópíóíðalyf nái til móttaka í líkamanum og getur notkun þess því valdið fráhvörfum. Á hinn bóginn virkar naloxon alla jafna skemur en ópíóíðalyfin og því getur skapast lífshættulegt ástand á nýjan leik þegar virkni naloxonsins fjarar út. Mikilvægt er því að ekki verði litið á naloxon-nefúða sem forvörn eða lyf sem veiti falskt öryggi. Það skyldi þannig einungis nota til bráðameðferðar við ofskömmtun ópíóíða þar til unnt er að koma sjúklingi undir læknishendur.

Þess má svo geta að Lyfjastofnun efnir í byrjun næstu viku til fundar með viðbragðsaðilum á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal frá bráðamóttöku Landspítala og lögreglunni. Fyrirhugað er að ræða notkun lyfsins hér á landi og hvernig stuðla megi að góðu aðgengi að því fyrir þá sem til þess þurfa að grípa,“ segir Rúna.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is