Fimmtudagur 18. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

,,Nei, ég get ekki látið þetta flakka“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eyrún Ósk Jónsdóttir hefur gefið út níu bækur, skrifað leikrit og kvikmyndahandrit og vinnur nú að skáldsögu og leikriti þar sem fjallað er um meðvirkni. Fjármögnun er á Karolina Fund undir nafninu Requiem. Við báðum Eyrúnu að deila með okkur nokkrum skemmtilegum staðreyndum um sjálfa sig.

1. Ég er mikill ofurhetjuaðdáandi og er með lítið ofurhetjusafn inni á baðherbergi hjá mér. Ég hef horft á allar Marvel-myndirnar nokkrum sinnum, bæði í þeirri röð sem þær komu út, og í þeirri tímaröð sem þær gerast. Ég hágrét yfir Endgame og hrópaði upp yfir mig í bíói: ,,Já, ég vissi það!“ þegar Captain America tók Mjölni upp, svo fólk sneri sér við í sætum sínum til að gá hver væri eiginlega með þessi læti. Þegar sonur minn var yngri átti ég í alvöru erfitt með það þegar hann lét Ironman eða Spiderman leika við Superman eða Batman, því augljóslega eru þeir ekki til í sama veruleika. Ég á mér draum um að skrifa einhvern tíma ofurhetjusögu og á örugglega eftir að láta verða að því einhvern tíma.

2. Ég hef gefið út níu bækur, skrifað leikrit og kvikmyndahandrit og í hverri og einustu bók og leikriti er að finna einhverjar dagsannar sögur úr mínu lífi, sem ég hef laumað inn sem skáldskap. Stundum hef ég hugsað með mér: nei, ég get ekki látið þetta flakka, þetta er of persónulegt og of satt, en svo hef ég látið það flakka og aldrei hefur neinn spurt mig hvort þær sögur væru sannar.

3. Ég iðka búddisma daglega. Ég er alin upp í búddatrú og hef alltaf verið trúuð. Ég kyrja búddíska möntru, Nam mjóhó renge kjó, á hverjum degi og er með búddískt altari inni í borðstofu hjá mér. Ég tek virkan þátt í starfi búddistasamtakanna SGI, þá sérstaklega í starfi þeirra í þágu friðarmála. Ég hef tekið þátt í undirbúningi Friðargöngunnar á Þorláksmessu og kertafleytingunnar á Tjörninni í minningu Hírósíma og Nagasakí, með samstarfshópi friðarhreyfinganna í einhver tuttugu ár og hef skrifað mikið um friðarmál og bann við kjarnorkuvopnum. Nýjasta ljóðabókin mín mun fjalla að stórum hluta um friðarmál, ást og kærleika.

4. Ég og kærasti minn höfum ásett okkur að prófa allar sundlaugar landsins. Í fyrrasumar keyrðum við meira en 700 kílómetra upp á hálendið og gengum svo aðra 10 kílómetra bara til þess að fara í sund í heitri laug sem heitir Strútslaug. Síðan keyrðum við aftur í sjö tíma til þess að fara í sund í Krossneslaug á Vestfjörðum. Þegar við vorum í sundi birtust nokkrir háhyrningar og léku sér í sjónum rétt fyrir framan okkur. Kærastinn minn tekur svo myndir af sundlaugunum sem við höfum farið í og heldur úti sérstökum Instagram-reikningi bara utan um sundferðirnar.

 „Ég er með nokkrar furðulegar fóbíur. Ég er skíthrædd við dúkkur og trúða.“

5. Ég er með nokkrar furðulegar fóbíur. Ég er skíthrædd við dúkkur og trúða. Ég á mjög erfitt með að einhver beini að mér leikfangabyssu og ég er líka veðurhrædd. Þá hef aldrei getað gist ein neins staðar. Ég er myrkfælin og sef með svefngrímu því áður en ég fór að gera það vaknaði ég stundum um miðja nótt og taldi mig sjá einhverjar verur í svefndrunganum og vaknaði iðulega öskrandi. Síðan ég fór að sofa með svefngrímu er ég hætt að vakna öskrandi og sef nú alla nóttina. Þegar ég flutti fyrst ein í eigin íbúð var ég fljót að fá mér hund til að verja mig gegn draugum og skrímslum. Þetta var að vísu pínulítill „pommi“ (pomeranian) en hann gerði sitt gagn í baráttunni við fjörugt ímyndunarafl mitt.

6. Í vor samdi ég skáldsögu sem ég stefni á að gefa út snemma á næsta ári og samhliða henni leikrit um sama efni: „Guðrún vaknar í eigin jarðarför en kann ekki við að trufla með því að láta vita að hún sé á lífi.“ Hér er ég að skoða meðvirkni ofan í kjölinn og hefur það verið áhugavert ferli því meðvirkni er eitthvað sem ég þekki vel sjálf. Þetta er dálítið svartur húmor, leikritið er svolítið absúrd á köflum en um leið mjög persónulegt og tilfinningaþrungið. Nú erum við á fulla að æfa en ég leik hlutverk Guðrúnar, og leikstjóri er Hildur Kristín Thorstensen. Við munum við frumsýna 31. ágúst og erum að klára lokafjármögnun fyrir verkefnið á Karolina Fund en þar er hægt að kaupa miða og er allur stuðningur vel þeginn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -