Laugardagur 27. apríl, 2024
8.8 C
Reykjavik

Rússar sprengdu upp minningarathöfn: „Allir þorpsbúarnir eru dánir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heilt þorp var þurrkað út í eldflaugaárás rússneska hersins.

Þann fimmta október síðastliðinn gerði rússneski herinn eldflaugaárás á verslun og kaffihús í þorpinu Hroza í Kharkiv-héraði í Úkraínu. Þorpsbúar voru viðstaddir minningarathöfn fyrir úkraínska hermanninn Andriy Kozyr, sem lést fyrr í stríðinu. Hafði hann verið grafinn í Dnipopetrovsk-héraði en sonur hans ákvað að láta jarða hann aftur í heimaþorpi sínu. Í árásinni drápu Rússar 52 þorpsbúa og er því um að ræða eina mannskæðustu árásina frá því að stríðið hófst. Blaðamenn frá Ukrainska Pravda og Babel heimsóttu Hroza og ræddu við nokkra nágranna og skyldmenni fórnarlambanna.

Samkvæmt blaðamanni frá Babel, sem heimsótti þorpið tveimur dögum eftir árásina, voru alls þrjár götur í þorpinu og um 100 hús en kaffihúsið og verslunin, sem urðu fyrir árásinni, var í miðju þorpinu. Næstum því ekkert er eftir af húsunum. Þeir fáu þorpsbúar sem lifðu af voru fljótir að koma blómum og minningarljóskerum fyrir á leikvelli í þorpinu. Loftið lyktaði af dauða, samkvæmt Babel.

Lítill kirkjugarður er um fjögur hundruð metrum frá miðju þorpsins en yfirvöld hyggjast stækka garðinn um 50 prósent til að koma öllum líkunum fyrir.

Yevhen, 43 ára íbúi Hroza missti báða foreldra sína í árásinni. Sagði hann blaðamönnum að hann hafði viljað mæta í minningarathöfn Kozyrs en hafi ekki komist og hafi verið heima við þegar eldflaugin sprakk. Foreldrar hans höfðu hins vegar ekki í hyggju að vera viðstödd athöfnina. „En þið vitið hvernig þetta er í þorpinu. Þau samþykktu að mæta en ætluðu bara að vera í hálftíma. Þegar uppi er staðið, reyndist þetta þeirra síðasta ferðalag.“

Samkvæmt Yevhen fattaði hann um leið og eldflaugin sprakk, að hún hefði hitt verslunina. „Ég greip frænda minn og bróður og sagði þeim að nú yrðum við að fara. Við komum þangað og allir lágu í einu horni. Það voru engir veggir, allt hafði hrunið og aðeins voru rammar byggingarinnar eftir. Ég vissi hvernig foreldrar mínir voru klæddir og sagði við bróður minn „Leitum“. Ég sá kunnuglegan jakka. Ég gekk upp að honum, færði hellu og þarna lágu þau. Mamma og pabbi með handlegginn yfir henni.“

- Auglýsing -

Olha, íbúi Hroza, sem missti tvær tengdadætur, sagði að eina ástæðan fyrir því að hún fór ekki á vökuna hafi verið sú að hún þurfti að sjá um barnabörnin en bæði eru þau yngri en sjö ára. Þegar árásin var gerð sat hún á bekk nærri heimili sínu, ekki langt frá versluninni.

„Það heyrðist ekki flaut, ekkert. Veistu hvernig þetta er venjulega? Flugskeyti flýgur yfir þér og heyrir í því, vegna þess að það hvinur í því eins og í flugvél. Í þetta skipti, bara sprenging. Ég greip börnin og fór með þau niður í kjallara. Og allir guðforeldrar barnanna, allir vinir okkar, allir þeirra voru þarna,“ sagði Olha.

„Allir þorpsbúarnir eru dánir, eins og enginn þeirra hafi nokkru sinni verið til. Heilu fjölskyldurnar dóu. Fjölskylda Andiy [Kozyr] var meðal þeirra. Enginn þeirra er eftir,“ sagði Alla, fyrrum nágranni hermannsins sem var verið að minnast. Þegar árásin var gerð, var hún stödd í sjúkrahúsi í Kharkiv en tengdadóttir hennar var í athöfninni. Þegar Alla fréttir af árásinni reyndi hún að hringja í hana en enginn svaraði.

- Auglýsing -

Hægt er að lesa meira um þessa hrottalegu árás hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -