Miðvikudagur 17. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Streita, kvíði og þunglyndi algeng hjá aðstandendum vímuefnasjúklinga

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðstandendur einstaklinga með vímuefnaröskun – hvort sem það voru foreldrar, makar, uppkomin börn eða systkini – skora allir mjög hátt í streitu, kvíða og þunglyndi.

Þetta er niðurstaða Jónu Margrétar Ólafsdóttur, aðjúkt við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, sem hefur undanfarna tvo áratugi unnið með einstaklingum með áfengis- og vímuefnaröskun. Hún og Hjalti Björnsson, áfengis-og vímuefnaráðgjafi, eru með Lifandi ráðgjöf og eru með aðstöðu hjá Lækninga- og sálfræðistofunni. Þar koma í meðferð og ráðgjöf til þeirra bæði einstaklingar sem nota áfengi eða önnur vímuefni sem og aðstandendur þeirra.

„Það sem ég hef rekist á í klínískri vinnu minni í gegnum árin er að aðstandendum líður illa hvort sem það er maki, barn/börn, foreldri/foreldrar eða systkini þess sem er í neyslu. Ég ákvað í doktorsrannsókn minni að skoða fjölskylduna í heild. Ég tók undirkerfin sem eru parasambandið, samband foreldra og barna og systkinasambandið og notaði til þess tvær rannsaóknaaðferðir, spurningalista og viðtöl. Ég fékk að koma í fjölskyldunámskeið hjá SÁÁ og leggja spurningalista fyrir um það bil 200 manns sem öll áttu það sameiginlegt að eiga fjölskyldumeðlim með vímuefnaröskun. Ég varð að bera niðurstöður mínar saman við aðrar rannsóknir til þess að sjá hvort það að búa við vímuefnaneyslu aðstandanda á heimili hefði raunverulega mælanleg áhrif. Ég gat borið saman hvort einstaklingar upplifðu meiri streitu, kvíða og þunglyndi en þeir sem ekki búa við slíkt með því að bera saman við rannsókn Embættis landlæknis „Heilsu og líðan Íslendinga“.

Það má geta þess að þegar ég var að byrja að rannsaka þetta þá var horft á mig og sagt að það vissu nú allir að þetta hefði áhrif. Ég vissi það líka en maður verður að mæla það og þessar mælingar voru ekki til hér á landi og þetta er í rauninni fyrsta rannsóknin sem nær til allrar fjölskyldunnar í þessum málaflokk hér á landi. Það er búið að rannsaka margt erlendis varðandi þetta en það var alls staðar rannsóknargat þegar kom að systkinum; það var ekki hægt að finna rannsóknir á systkinum einstaklinga með vímuefnaröskun, líðan þeirra og upplifun. Í heimildavinnunni sem tengdist systkinum varð ég því að líta til rannsókna út frá öðrum geðröskunum en vímuefnaröskun þannig að það var svolítið gaman að geta lagt til þekkingu í fræðasamfélagið til þess að fylla upp í það rannsóknagat.“

Jóna Margrét segir að fyrir utan það að einstaklingar upplifi meiri streitu, kvíða og þunglyndi en fólk sem hefur ekki búið við vímuefnaneyslu í fjölskyldu þá upplifi aðstandendur þeirra sem eru í neyslu jafnframt minni samskipti og fjölskylduánægju í eigin fjölskyldu en ella. „Til dæmis geta fullorðin börn og systkini einstaklinganna upplifað minni samskipti og fjölskylduánægju í eigin fjölskyldum sem þau eignast á fullorðinsárum vegna þess að þau fara með erfiðar tilfinningar í farteskinu inn í sín fullorðinsár og hafa kannski alist upp við óvirk og óeðlileg samskipti í grunnfjölskyldunni.“

Texti: Svava Jónsdóttir   Myndir: Aðalheiður Alfreðsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -