Sunnudagur 21. apríl, 2024
4.8 C
Reykjavik

„Þið eruð allir eins“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árni Sigurgeirsson var ættleiddur frá Indónesíu af íslenskum foreldrum þegar hann var fjögurra mánaða gamall. Hann hefur aldrei þekkt annað en íslenskt umhverfi, hefur aldrei komið til Indónesíu, og segir það því hafa verið nokkuð skondið þegar hrópað var á hann að koma sér heim þegar hann var á gangi á Laugaveginum.

 

„Ég svaraði sallarólegur að ég væri nú einmitt að drífa mig heim í Garðabæinn,“ segir hann og glottir. „Það þaggaði mjög snögglega niður í þeim sem æpti.“

Árni ólst upp í Mosfellsbænum til sautján ára aldurs, bjó skamma hríð í Kópavogi en flutti síðan til Akureyrar, þar sem hann fór í Verkmenntaskólann og síðan í nám í lögfræði, og þar bjó hann til 2011 þegar hann flutti til Reykjavíkur. „Þannig að það má eiginlega segja að ég hafi búið hálfa ævina á Akureyri,“ útskýrir hann.

Alltaf skilgreindur út frá húðlitnum

Spurður um uppvaxtarárin í Mosfellsbæ, hvort hann hafi orðið fyrir fordómum þar sem barn, segist hann auðvitað hafa fundið fyrir þeim stundum og þá aðallega þegar hann var að keppa í handbolta.

„Það var enginn í mínum árgangi ættleiddur,“ segir hann. „Enda var það ekki orðið algengt á þeim tíma. Ég var eini brúni strákurinn í bekknum og á þeim tíma gerði ég mér enga grein fyrir því hvað fordómar voru, en það kom fyrir að maður varð fyrir einhverju fordómatengdu aðkasti. Ég var mikið í íþróttum og alltaf einn af hópnum en þegar kom að keppnisleikjum í handboltanum var maður oft kallaður ýmsum nöfnum, bæði af krökkum í hinum liðunum og foreldrunum á línunni. Það var reyndar tekið fyrir þetta á endanum en það var þó nokkuð algengt að leikmenn hins liðsins væru hvattir af áhorfendum til að „taka svarta blettinn úr umferð“ og svo framvegis. Maður var alltaf skilgreindur út frá húðlitnum á vellinum. Sem betur fer voru þjálfarar og aðrir foreldrar fljótir að bregðast við og þetta varð smám saman minna áberandi.“

- Auglýsing -

Árni er þrjátíu og sex ára þannig að þetta tímabil sem hann er að vísa til var fyrir um það bil tuttugu og fimm árum en hann segir svona framkomu sumra ekki hafa breyst mikið. Þó sjái hann stóran mun á kynslóðum hvað þetta varðar.

„Þetta var og er aðallega miðaldra fólk,“ fullyrðir hann.

„Maður finnur ekki mikið fyrir fordómum frá ungu fólki í dag en þegar ég var unglingur fór þetta að aukast og þá urðu fordómar annarra leikmanna meira áberandi. Kannski einhver misskilinn töffaraskapur til að reyna að brjóta mann niður en að sjálfsögðu á svona orðræða aldrei að líðast.“

- Auglýsing -

Naut stuðnings frá vinahópnum

Höfðu foreldrar þínir áhyggjur af því að þú yrðir fyrir aðkasti vegna húðlitarins? „Nei, ég varð allavega ekki mikið var við það,“ segir Árni. „Ég var mikil félagsvera og átti stóran vinahóp og það kom í veg fyrir að það væru miklir fordómar í gangi hjá jafnöldrum mínum. Þegar ég var svona tíu, ellefu ára fóru hins vegar eldri strákar að taka mig fyrir, bíða eftir mér eftir skóla og ráðast á mig en það entist ekki lengi þar sem við í mínum vinahóp vorum bæði stærri og stæltari en þeir.“

„Oft í verslunum er fólk til dæmis að tala um mann í kringum mann og gerir ráð fyrir því að maður sé útlendingur og skilji það ekki.“

Spurður hvort hann finni meira fyrir fordómum eftir að hann varð fullorðinn segir Árni að hann hafi að minnsta kosti farið að gera sér betur grein fyrir því hvað fordómar væru.

„Maður lendir í ýmsu,“ segir hann. „Oft í verslunum er fólk til dæmis að tala um mann í kringum mann og gerir ráð fyrir því að maður sé útlendingur og skilji það ekki. Það er enn þá aðallega eldra fólk sem er að hnýta í mann, en ég reyni alltaf að tækla þetta með húmor og falla ekki í sömu gryfju og það.“

Alltaf ókunnugt fólk

Þetta hlýtur samt að hafa áhrif á þig, eða hvað? „Jú, jú, þetta hefur þau áhrif að þú gerir þér grein fyrir að þú ert öðruvísi,“ segir Árni.

„Þótt ég sé auðvitað Íslendingur og hafi aldrei litið öðruvísi á það, þá er ég ekki fæddur hér og það gerir það að verkum að ég stend svolítið út. Ég veit að ég á ekki að hugsa þannig, en þetta áreiti síast inn og vekur þessa hugsun. En það minnkar nú sem betur fer með aldrinum að maður taki þetta inn á sig. Ég hef líka verið svo heppinn að ég hef aldrei fundið fyrir neinum fordómum varðandi vinnu eða slíkt. Þetta er alltaf fólk sem þekkir mig ekki. Eitt fyndnasta atvik, allavega svona eftir á, sem ég hef lent í var þegar ég var að koma út af veitingastað og lenti inn í hóp af fólki frá Asíu sem var á leið í rútu sem beið fyrir utan. Þá kom að mér mjög reiður leiðsögumaður og skipaði mér að koma mér upp í rútuna. Ég vissi ekki alveg hvað væri í gangi þannig að ég byrja að stíga upp í rútuna en áttaði mig þegar ég sá að hún var full af Kínverjum og spurði leiðsögumanninn á íslensku hvað hann væri að meina. „Nú, ertu ekki frá Kína?“ spurði hann og þegar ég sagðist vera Íslendingur fussaði hann bara og sagði: „Þið eruð allir eins.“ Baðst ekki einu sinni afsökunar.“

Hatursorðræða aukist óhemju mikið

Aðspurður hvort honum finnist fordómar og hatursorðræða vera að aukast á Íslandi svarar Árni að það sé enginn vafi á því.

„Þetta hefur vaxið óhemju mikið,“ segir hann ákveðinn. „Og auðvitað þarf að taka harðar á þessu af löggjafanum. Ég hef séð að fjölmiðlar eru heilmikið að strika svona orðræðu út í kommentakerfunum og mér finnst mjög jákvætt að þeir taki þátt í því að kveða þetta niður. Það er svo auðvelt, með tilkomu Netsins og samfélagsmiðla, að búa til einhverja múgsefjun og hún er hættuleg. Þess vegna er svo mikilvægt að kæfa þetta í fæðingu með skilvirkum hætti.“

Árni Sigurgeirsson var ættleiddur frá Indónesíu af íslenskum foreldrum þegar hann var fjögurra mánaða gamall.

Árni segist aðspurður hafa töluverðar áhyggjur af uppgangi nasisma hérlendis, svona hópar komi reyndar og fari með reglubundnu millibili en það sé hins vegar umhugsunarefni að þeir séu farnir að skipuleggja sig miklu betur og setja fram stefnu sem eigi að höfða til ráðvilltra unglinga sem séu að leita að málstað til að berjast fyrir.

„Það er ekki eingöngu útlendingastefna í anda Hitlers sem þeir setja fram á heimasíðu sinni,“ útskýrir hann.

„Nú eru þeir komnir með náttúruverndarstefnu, atvinnustefnu og svo framvegis og eru að herja á hópa sem hafa átt erfitt uppdráttar í æsku og leita að samþykki samfélagsins. Við höfum séð að þetta getur spilast mjög hratt og það þarf að bregðast hratt við. Innflytjendastefna þeirra er mjög grimm og það er ljóst að ásetningur þeirra er þjóðhreinsun. Mér fannst það samt mjög skondið að þeir undanskilja þá sem eru ættleiddir í þessari innflytjendastefnu. Taka fram að þeir sem séu ættleiddir ógni ekki kynþætti norræna mannsins, það er frekar skrýtið en ágætt fyrir mig þar sem ég á fjögur börn,“ segir Árni og skellihlær. „Gott að vita að ég sé ekki að menga norræna kynstofninn.“

Mynd / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -