Fimmtudagur 11. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Þröstur Leó lætur stórútgerðirnar heyra það: „Það er sannarlega skítapakk“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þröstur Leó Gunnarsson talaði íslensku er hann flutti eldræðu í YouTube-myndbandi í gær í tilefni Sjómannadagsins sem haldinn var hátíðlegur í gær.

Íslendingar héldu Sjómannadaginn hátíðlegan í gær með prompi og prakt. Í flestum sjávarplássum landsins ef ekki öllum voru hátíðarhöld í tilefni dagsins og var höfuðborgin ekki undanskilin í þeim efnum. Skemmtiatriðin voru allskonar og það sama má segja um ræðurnar sem haldnar voru í gær. Ein þeirra vakti þó meiri athygli en aðrar en það er ræða leikarans og sjómannsins Þrastar Leós Gunnarssonar sem hann flutti á YouTube í gær. Ræðuna kallar hann Ávarp óþekkta sjómannsins en er hún gerð í nafni samtakanna Við fólkið í landinu.

Í ávarpinu gagnrýnir Þröstur yfirvöld og útgerðarisa á borð við Samherja, meðal annars vegna þess að þeir eiga allan kvótann á meðan strandveiðimenn hrekjast í land. Þá skálar hann einnig fyrir „frelsinu sem er horfið og gleymt.“ Má með sanni segja að Þröstur hafi gefið útgerðarisunum rækilega á baukinn.

Hér fyrir neðan má lesa ávarpið í heild sinni en fyrir neðan textann má horfa á þessa mögnuðu eldræðu.

„Ágætu landsmenn og félagar mínir á sjó – og ekki síður þeir sem eru í landi, þeir sem hafa hrakist í land og þeir sem eru að reyna að draga fram lífið á strandveiðum, allir þeir sem þrá að starfa sem sjómenn og hafa til þess reynslu og getu en eiga ekki neinn kvóta, mega ekki róa því þeir eiga ekki fiskinn … sem ætti auðvitað ætti að eiga sig sjálfur, en sem er nú skráður og þinglýstur sem eign Samherja og félaga. Gleðilegan sjómannadag þið öll.

Skálum fyrir draumi okkar um frelsið út á sjó. Skálum fyrir drauminum um að geta fiskað og með tímanum stækkað bátinn og jafnvel eignast vinnslu í landi, byggt saman upp betra þorp eða betri bæ .. betra land. Skálum fyrir frelsinu sem er horfið og gleymt. Það var gefið öðrum en ykkur.

- Auglýsing -

Skálum fyrir þeim tíma þegar maður gat rifið kjaft og þótt maður væri rekinn gat maður alltaf fundið annað pláss. Skálum fyrir þeim tíma þegar sjómenn létu í sér heyra og áttu öflug félög sem höfðu áhrif, beygðu sig ekki fyrir valdi stórútgerðarinnar sem í dag ræður öllu. Fjandinn hirði það pakk. Ef hann hefur lyst á því. Það er illur yfirboðari sem kúgar fólk með launatékkanum, hótar fólki að svipta það lífsafkomunni. Það er sannarlega skítapakk,

Skálum fyrir öllum þeim sjómönnum sem byggðu upp fiskveiðar hringinn í kringum landið, tóku þátt í því að lyfta Íslandi upp úr fátækt og opnuðu fyrir nútímanum; frelsuðu fólk frá örbirgð, hleyptu inn framförum og velsæld. Skálum fyrir öllum þeim sjómönnum sem fórnuðu lífi sínu við að teygja sig eftir betri afkomu fyrir sig og sitt fólk … og í leiðinni fyrir samfélagið allt. Leiðinlegt að enginn sjómaður hafi fengið veiðirétt, aðeins útgerðarmenn. Það svíður í hjartað, er bölvað óréttlæti. Að framlag þeirra hafa verið einskis virt. Kynslóð fram að kynslóð, sjómenn sem byggðu upp sjávarbyggðir um allt land. Skálum fyrir þeim sem börðust svo við gætum fært út landhelgina, tryggt að afraksturinn af fiskimiðunum færi til að byggja hér upp gott og heilbrigt samfélag. Það er ekki við þetta fólk að sakast þótt allt hafi farið á annan veg, að aðeins örfáir hafi eignast fiskimiðin og noti þau nú til að auðgast og auka enn völd sín … og séu að breyta Íslandi í verstöð sem þau eiga ein. Verstöð þar sem við erum bara verbúðarfólk og verðum að standa og sitja eins og þau segja.

Skálum líka fyrir stjórnmálafólkinu sem studdi sjómenn. Skálum fyrir þeim tíma að sjómenn voru á framboðslistum flokka. Skálum fyrir hugmyndinni um stjórnmálafólk sem vinnur fyrir almenning en ekki aðeins fyrir hin valdamiklu og ríku. Skálum fyrir sjávarútvegsstefnu sem þjónar samfélaginu en ekki aðeins örfáum auðmönnum. Látum okkur dreyma á sjómannadaginn um stjórnvöld sem endurheimta fiskimiðin og gefa þjóðinni þau aftur svo arðurinn af þeim geti orðið grunnur að góðu samfélagi. Látum okkur dreyma. Látum okkur dreyma á sjómannadaginn um hátíðarhöld sem ekki eru kostuð af Brim eða Samherja, þar sem þetta er hátíðisdagurinn okkar og baráttudagurinn okkar en ekki þeirra sem hafa sölsað undir allt erfiði okkar. Sjómannadagur sem stórútgerðin heldur hátíðlegan er dagur sem fagnar ástandinu eins og það er; fagnar því að fiskimiðin hafi verið einkavædd, að þau séu eign manna sem nota auð sinn til að auka völd sín og auka þannig enn auð sinn. Þeir fagna því að hafa beygt fólk undir sig, fagna því að hafa þaggað niður í sjómönnum.

- Auglýsing -

Sjómannadagur stórútgerðarinnar er sigurhátíð hinna fáu yfir fjöldanum. Sá dagur er ekki okkar dagur. Þess vegna sit ég hér og bölva. Þetta þurfti ekki að fara svona. Kerfið sem við búum við er mannana verk og þess vegna gætum við haft það allt öðruvísi, haft það eins og við viljum … og eins og þjóðin vill; því þjóðin vill svo sannarlega ekki að örfáar fjölskyldur eigi fiskimiðin og reki sjávarútveginn eins og alræðisríki hinna fáu og freku. Þjóðin á sama draum og við sjómenn, að þegar við siglum út á sjó séum við að sigla inn frjálsan heim þar sem allir eru jafnir og hafa sömu tækifæri en ekki inn í myrka veröld þar sem einn á allt en hinir ekkert. Gleðilegan sjómannadag kæru vinir. Ekki sjómannadag stórútgerðarinnar heldur daginn okkar. Ef við stöndum saman munum við geta glaðst innilega á komandi sjómannadögum. Og á öllum dögum. Skál fyrir því.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -