Kynfræðslan í Þjóðleikhúsinu

Leikritið Kynfræðslan, sem kemur úr smiðju hinna ærslafullu Pörupilta, verður ekki á fjölum Borgarleikhússins á næsta leikári, eins og það hefur verið síðustu fjögur ár. Vildi Borgarleikhúsið rýma fyrir öðrum verkum. Pörupiltar voru þó ekki lengi heimilislausir þar sem þeir hafa nú samið við Þjóðleikhúsið, þar sem Kynfræðslan verður sett upp á komandi leikári, á sama stað og Pörupiltar settu upp sína fyrstu sýningu.

Leikkonan Alexía Björg Jóhannesdóttir, sem skipar Pörupilta ásamt leikkonunum Maríu Pálsdóttur og Sólveigu Guðmundsdóttur, segir piltana vera hæstánægða með þessar breytingar.

„Við erum alsælar að vera komnar aftur í Þjóðleikhúsið þar sem við byrjuðum með fyrstu sýninguna okkar fyrir mörgum árum og líka að fá að halda áfram að fræða og skemmta unglingum,“ segir Alexía, en Pörupiltarnir eru búnir að bralla ýmislegt saman í um tíu ár.

Kynfræðslan er í uppistandsformi og er ætluð fyrir unglinga, til að fræða og styrkja krakka, efla og afhelga umræðu um kynlíf. Verkefnið hefur verið styrkt af Reykjavíkurborg síðan það fæddist fyrir fimm árum, en Alexía segir þá Pörupilta þurfa að fylgjast vel með til að uppfæra efni sýningarinnar í takt við tíðarandann.

„Já, við erum alltaf að uppfæra sýninguna á hverju ári enda alltaf eitthvað nýtt í umræðunni þegar kemur að kynlífi og kynfræðslu.“

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is