Trúður með tár

SÍÐAST EN EKKI SÍST Það var auðvitað ákveðinn léttir að finna að ekkert lát er á eftirspurninni eftir skoðunum hvítra, gagnkynhneigðra, miðaldra karlmanna í íslensku samfélagi. Þessa ályktun dró ég einfaldlega út frá því að vera beðinn um að láta mínar upptendruðu skoðanir í ljós á þessum vettvangi sem ég auðvitað þáði, ykkur öllum til heilla og farsældar.

Eins og nánast allir vita þá höfum við, þessi hugumprúði meirihlutahópur, búið yfir einstakri færni til þess að leiðbeina öðrum um refilstigu lífsins. Alvöruþrungnir á svip stjórnum við samfélögum, hagkerfum, heiminum og frímúrarareglunni. Að auki höfum tekið að okkur úrlausn vandamála fyrir konur og fjölmarga minnihlutahópa á borð við innflytjendur og hinsegin fólk og bara alla sem hafa vit á því að hlusta þegar við látum viskuna streyma frá okkur. Og ef svo ólíklega vill til að okkur verði á í messunni, þá kunnum við þá list öllum betur að þegja, stinga undir stól og bíða af okkur storminn.

Í seinni tíð hefur reyndar örlað á neikvæni og vantrú í okkar garð. Það er illskiljanlegt í ljósi þess að orð okkar eru upphaf alls og að sjálf sólin skín út um hinn endann. Þetta hljóta allir að sjá og reyndar mætti fólk gera meira af því að þakka okkur fyrir að vera svona æðislegir.

Í því ljósi sem frá okkur stafar var það okkur því mikið áfall fyrir skömmu að komast að því að einn af okkar bröttustu samfélagsrýnum, Halldór Jónsson, reyndist vera að grínast þegar hann var að leiðbeina veröldinni í samskiptum kynjanna. Enn sárara var svo að enginn skyldi skilja grínið góða og það bara vegna þess að það var hlaðið kven- og mannfyrirlitningu eins og gerist fyndnast. En allt kom fyrir ekki og okkar manns biðu þau skelfilegu örlög að vera misskilinn grínari. Bara trúður með tár, eins og titrandi lauf í vindi.

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is