Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

„Mér leiðist aldrei“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Unnur Magna er ljósmyndari á uppleið; listræn og fagleg. Henni finnst erfitt að skilgreina hvers konar ljósmyndari hún er, en segir að hún hafi verið listræn alla tíð og að ljósmyndun haldi sér á tánum.

Hvernig ljósmyndari ertu? „Mér finnst alveg svakalega erfitt að skilgreina mig þar sem ég elska mismunandi verkefni. Ætli það megi ekki segja að ég sé ljósmyndari fólksins, þar sem ég tek mest myndir af fólki og viðburðum í lífi fólks. Hef mikið myndað brúðkaup og portrett. Þar að auki tek ég myndir af fallegri náttúru og bara því sem fangar athygli mína hverju sinni á ferð um bæinn eða landið.“

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að læra ljósmyndun? „Mig langaði að sameina áhugamálið mitt og starfsframa. Þegar maður vinnur við áhugamálið sitt, eitthvað sem manni er virkilega kært og efst í huga allan daginn, er alltaf gaman að mæta í vinnuna. Þar að auki þurfti ég að næra sköpunarkraftinn og fá listræna útrás. Mér finnst stórkostlegt að geta skapað eitthvað fallegt, hvort sem það er fyrir mig sjálfa eða annað fólk. Ljósmyndun heldur mér á tánum og mér leiðist aldrei.“

„Ætli það gefi mér ekki mest að blanda saman ljósmyndun og mannlegum samskiptum við mismunandi fólk, á mismunandi aldri, úr mismunandi áttum.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að mynda? „Ljósmyndir sem segja einhverja sögu eða vekja einhverja tilfinningu koma efst í hugann. Mér finnst bara skemmtilegt að mynda – punktur. En svona í fullri alvöru þá finnst mér skemmtilegast að mynda fólk, mér finnst fólk mjög áhugavert. Ætli það gefi mér ekki mest að blanda saman ljósmyndun og mannlegum samskiptum við mismunandi fólk, á mismunandi aldri, úr mismunandi áttum. Skemmtilegust eru síðan ekta augnablikin; þegar maður fangar ekta tilfinningar, hverjar sem þær eru. En að því sögðu þá finnst mér líka götuljósmyndun og seríu-ljósmyndun mjög áhugavert listform, mig langar að gera meira af því.

Síðan er ákveðin þerapía fólgin í því að vera einhvers staðar að mynda fallegt landslag eða pínulitlu smáatriðin í veröldinni sem því miður ekki allir sjá, það er svona mitt jóga. Back to basics-filmuljósmyndun finnst mér líka mjög skemmtileg og ég á gamla Olympus-filmuvél sem góður félagi gaf mér. Það er eitthvað ótrúlega skemmtilegt við það að framkalla sjálfur í myrkrakompu og góð tilbreyting frá þessu digital, en það er tímafrekt. Ég þyrfti samt sem áður að koma mér upp svoleiðis aðstöðu.“

Mynd / Aldís Pálsdóttir.

Hvaðan færðu innblástur? „Aðallega úr umhverfinu hverju sinni, ljósi og skuggum, stundum verkum annarra ljósmyndara, stundum úr áhugaverðum samræðum, listasýningum eða fallegum blöðum. Ef mig virkilega vantar innblástur eða á erfitt með að finna hann, þarf ég stundum að jarðtengja mig og þá leita ég svara við sjóinn. Þú gætir fundið mig í fjöru við íhugun einhvern daginn.“

- Auglýsing -

Hefur ljósmyndum alltaf heillað? „Alveg frá því að ég man eftir mér hafa ljósmyndir heillað mig, ætli áhuginn hafi ekki fyrst kviknað þegar National Geographic kom inn um lúguna á æskuheimilinu og maður rýndi í ljósmyndirnar og allt það stórkostlega sem það blað stendur fyrir. Auk þess hef ég alla tíð verið listræn og mjög meðvituð um umhverfið, liti, form og myndbyggingu.“

Hvaða ljósmyndarar eru í uppáhaldi? „Steve MacCurry, Irving Penn, Mary Ellen Mark og Vivian Meyer.“

Hvar fást myndirnar þínar? „Hafi fólk áhuga á að kaupa af mér mynd eða ráða mig í verkefni má endilega hafa samband við mig í gegnum heimasíðuna mína, www.unnurmagna.com.“

- Auglýsing -
Mynd / Unnur Magna

„Þessi mynd var tekin á æskuslóðum mínum, í Laugardalnum í Reykjavík. Hún var tekin í ljósaskiptunum á digital-vél, þegar farið var að rökkva og loftið var rakt. Biðukolla finnst mér út af fyrir sig ótrúlegt listaverk náttúrunnar, þegar ég sá þessa þá var það fegurðin í ófullkomleikanum sem fangaði mig, en oft er það þannig að ég leita uppi fegurðina í því ófullkomna. Mér fannst henta betur að hafa hana svarthvíta. Mér þykir mjög vænt um þessa mynd og fyrir mér er hún áminning um það að það þarf ekki allt að vera fullkomið til að vera fallegt,“ segir Unnur um myndina fyrir ofan.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -