Laugardagur 14. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Að deyja tvisvar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst

 

Vitur maður (nánar tiltekið kvensjúkdómalæknirinn minn) spurði mig einu sinni hvort ég vissi ekki örugglega að maður deyr tvisvar sinnum. Ég vissi það reyndar ekki svo hann útskýrði málið. Það er fyrra skiptið, þegar við sem lífvera endum æviskeið okkar og líkaminn hættir að starfa. En svo er það dauðinn hinn síðari. Hann á sér stað þegar síðasta manneskjan sem man okkur deyr. Þegar við erum ekki aðeins grafin heldur einnig gleymd. Að eilífu. Með öllu.

Ég hef reglulega hugsað til þessa samtals. Í því ljósi hef ég líka velt því fyrir mér hvort að í dag sé staðan orðin sú að stundum deyi fólk sínum seinni dauða áður en sá fyrri bankar upp á. Hvort sífellt fleiri gleymist með öllu áður en þeir kveðja þessa jarðvist í líffræðilegum skilningi. Einmanaleiki dregur fleiri til dauða en offita. Það er jafnóhollt að vera einmana og að reykja 15 sígarettur á dag. Einmanaleiki og félagsleg einangrun eru lífshættuleg fyrirbæri, ekki bara andlega heldur einnig líkamlega.

Ráðuneyti einmanaleika tók til starfa í Bretlandi í ársbyrjun 2018 til að vinna gegn þeim dapurlega raunveruleika sem hversdagsleiki allt of margra er. Ég las einu sinni viðtal við þarlenda eldri konu sem viðurkenndi að hún pantaði oft óþarfadót úr vörulistum, einfaldlega til þess að geta kannski spjallað smávegis við póstburðarmanninn þegar hann kæmi með sendinguna.

Við lifum á sjálfhverfum tímum. Aðaláherslan er á að við sjálf fáum sem mest út úr hverjum degi. „Lifa og njóta“ og breiða út boðskapinn í gegnum ótal tækniforrit sem hafa gert okkur kleift að eiga samskipti við fólk á fjölbreyttari hátt en áður. Á sama tíma erum við nánast hætt að tala saman og það hefur gleymst að samfélagið er mikilvægara en samfélagsmiðlar.

Það eina sem er víst í þessu lífi er að við munum deyja. Öll vonumst við eftir hamingjuríku lífi fram að því og flesta langar til að eiga langa ævidaga. Að taka þátt í samfélaginu og vera raunverulega til staðar er hlutverk okkar allra. Enginn kýs að vera einmana.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -