Föstudagur 19. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Andleg stjórnmál

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

 

Tveir helstu stjórnmálaleiðtogar síðustu aldar voru báðir andlegir kennarar, Martin L. King og Gandhi. Þeir tilheyrðu sitthvorri „trúarhreyfingunni“ en skilaboð þeirra voru hin sömu – af andlegum toga. Raunar lögðu þeir líf sitt að veði fyrir boðskap sem er miklu stærri en þeir. Þeir töluðu um kærleikann til að yfirvinna hatur, um skort á andlegri tengingu sem mein mannkyns og þeir háðu sína stjórnmálabaráttu án ofbeldis, á grundvelli ahimsa (non-violence) eins og það er skrifað á sanskrít sem er hugmyndafræði úr yogaheimspekinni. Þeir unnu stjórnmálasigra og sneru samfélögum með því sem heitir á ensku: inspire – eða að vera in spirit – í anda. Á íslensku tölum við um andagift. Andlegur styrkur þeirra gerði þeim kleift að hefja sig upp yfir hefðbundnar átakalínur stjórnmálanna, yfir ofbeldi og andúð á andstæðingnum, en standa jafnsterkt í sínum sannleik. Báðir viðurkenndu þeir sína eigin mennsku og breyskleika, sem er styrkur – en ekki veikleiki. Gandhi sagði aðspurður að það hefði verið litla röddin innra með honum sem leiddi sjálfstæðisbaráttu Indlands. Litla röddin er andinn. Guð. Æðri máttur. Alheimurinn. Ljósið. Hvað sem fólk vill kalla það.

Ég hef lengi fylgst með og tekið þátt í pólitík. Lengur en mín andlega vegferð hefur staðið. Nú fylgist ég með íslenskum stjórnmálum úr fjarlægð og á samfélagsmiðlum. Þau eru ekki mikið ólík heima en að heiman, stjórnmálin. Við finnum öll fyrir því að eitthvað þurfi að breytast, en stundum eigum við erfitt með að setja fingurinn á það. Fyrir mér felst lausnin ekki í því að fara meira til vinstri, meira til hægri, meiri átök eða rífast meira, í meiri isma – kommúnisma eða kapítalisma. Fleiri spjallþætti þar sem líst er yfir andúð á andstæðingnum. Það viðheldur sömu hringrás. Lausnin felst í að fara í hjartað. Lausnin felst í því að fara dýpra.

Það sér það hver maður að íslensk stjórnmál bera þess merki að vera eins og illa funkerandi fjölskylda. En eru stjórnmálin eitthvað annað en speglun á samfélagið sem maður býr í hverju sinni? Samtalið er takmarkað – það er baknag, dómharka og átök eru milli. Milli lína og innan lína. Egóið getur verið býsna stórt í stjórnmálum – það fer ekki í manngreinar- eða stjórnmálaálit þó að kærleikurinn sé að mínu mati samhyggjumegin. Á samfélagsmiðlum erum við ekki mikið skárri. Skömmumst og dæmum hvort annað. Hverju skilar það? Heyrir einhver í svona látum? Sér einhver mennskuna í hvort öðru? Sjáum við ljósið í hvort öðru? Eða erum við upptekin af því að dæma? Ef kærleikurinn myndi fá að stýra þessum samskiptum, samfélagsmynstri og hvernig við lifum saman, hvernig myndi hann hafa þetta?

Það er ekki auðvelt svar og ég ætla ekki að þykjast hafa það. En kærleikurinn myndi eflaust ekki yppa öxlum yfir fátækt þúsunda barna, yfir stríðum eða afneita áhrifum og alvarleika þess hvernig maðurinn hefur farið með jörðina með tilheyrandi loftslagsbreytingum. Samfélög þar sem kerfin eru uppbyggð þannig að það hyllir fjármagni stöðugt og í raun meira eftir því sem einstaklingar eða fyrirtæki þénast meira. Það er eitthvað í grundvallaratriðum rangt við slíkt kerfi. Hvað varð um nægjusemi? Hvernig var hægt að byggja upp öll lagaleg kerfi án þess að átta sig á hversu háður maðurinn er jörðinni og öðrum vistkerfum? Hvenær misstum við djúpa lotningu fyrir jörðinni? Hvenær varð það ríkjandi þáttur í samfélögum og ismi – að verða aftengd hjartanu? Það væri töff að vera aftengd sálinni og trúa bara á sjálfsviljann?

Á sama tíma erum við ekkert endilega svo hamingjusöm, þrátt fyrir mikil ytri gæði. Rannsókn eftir rannsókn staðfestir til að mynda mikinn kvíða, þunglyndi og streitu innan vestrænna samfélaga. Hamingjan felst ekki í ytri lífsgæðum eins og Viktor Frankl sýndi vel fram á í bókinni Leitinni að tilgangnum eina, sem lagði sig fram við að finna fegurðina í óbærilegum aðstæðum og að mæta hatri með fyrirgefningu. Tilvist þjáningar er talsverð í vestrænum lífsgæðasamfélögum, er þá ekki málið að leita í rótina heldur en að vökva blómin? Því hvað er gott samfélag? Er það samfélag þar sem mælikvarðinn er settur á að vera með mesta hagvöxtinn? Getur verið að lausnirnar felist ekki í fleiri ismum og samfélagsstrúktúr per se?  Getur það verið að fókusa á vellíðan sé mun mikilvægari þáttur við að byggja upp gott samfélag? Er það ekki frekar samfélag sem lifir í vitund hjartans, sem einkennist að samkennd, kærleika og skilning.

- Auglýsing -

Í gegnum það kerfi sem við höfum nú alið, lýðræðislega ferla og þrískiptingu ríkisvalds er vettvangur stjórnmálanna það kerfi sem tekur ákvarðanir um samfélagsskipan. Og það er okkur öllum í hag að reyna brjótast út úr þeim hegðunarmynstrum sem þar ríkja. Þrátt fyrir ýmis stríð sem eru háð sem telja má réttlætanleg í dag, þá einkennir þau oft réttlát reiði. Ekki að ósekju. Það er líka partur af þroska okkar sem manneskjum að taka ábyrgð, hvort sem við streitumst á móti eða ekki – þá gilda lögmálin um orsök og afleiðingu, heimurinn sér hvort eða er alltaf. En réttlát reiði og jafnvel hatur eitrar bara þann sem hatar. Myndi kærleikurinn ekki líka segja: fyrirgefið þeim, þeir vita ekki hvað þeir gera? Margir eru algjörlega ómeðvitaðir um hegðun sína. Fljóta sofandi að feigðarósi. Og að lokum þá er þetta bara ekkert persónulegt. Hvernig vekjum við einstaklinga til vitundar?

Getum við umbreytt réttlátu reiðinni í tilfinningu og líðan á hærra orkustigi? Í að fagna kærleika, samstöðu, umburðarlyndi og fyrirgefningu. Í að senda fólki ást sama hvað? Getum við bætt í mýktina og fegurðina, samfara því að standa í sannleikanum? Því hver getur verið mótfallinn því að búa í samfélagi sem ætlar að opna hjartað meira, efla samkennd og mórölsk gildi? Hver getur lýst sig andsnúinn því? Ef það þarf til að knúsast, taka hjarta hugleiðslur saman, biðja saman eða fara í hópmeðferð í sálfræðitíma til að bæta hlustun og samtal eða hvað eina annað –þá ber að fagna því. Það er ekki kjánalegt eða veikleiki. Þvert á móti. Í því felst mikill styrkur: að láta kaldhæðninni og rætni, láta af varnarkerfum og verða berskjölduð. Styrkur í því að láta af takmörkuðum viðhorfum og vera tilbúinn að skoða mynstur sem hjálpa ekki lengur. Að brjótast út úr mýtunni um sterka stjórnmálamanninn sem elur á ótta og skorti og beitingu ytra valds. Þroski mannsins og verkefni nútímans kalla á það.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -