Laugardagur 7. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Þar kom það!

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Skerðing leikskólaþjónustu hefur verið til umræðu í Reykjavík. Áformað er að draga úr sveigjanleika fyrir fjölskyldufólk. Aðgerðin myndi að líkum bitna verst á viðkvæmum hópum samfélagsins. Hún gæti valdið bakslagi í jafnréttisbaráttunni. Þessu er formaður skóla- og frístundaráðs ósammála. Hann fullyrti, í beinni sjónvarpsútsendingu, að engar rannsóknir sýndu að skert leikskólaþjónusta gæti dregið úr framgangi kvenna á vinnumarkaði. Þar kom það!

Konur á vinnumarkaði

Kynjajafnrétti mælist reglulega mest á Íslandi. Um 67% nýútskrifaðra háskólanema hérlendis eru konur. Konur ná árangri í háskólanámi en framgangurinn er síðri á vinnumarkaði. Við stöndum framarlega í alþjóðlegum samanburði en eigum enn talsvert í land.

Vinnumarkaður hérlendis er kynskiptari en vinnumarkaðir nágrannaþjóðanna. Hérlendis er engin kona forstjóri kauphallarfyrirtækis. Samkvæmt Jafnvægisvog FKA eru einungis 22% framkvæmdastjóra kauphallarfyrirtækja konur. Konur í stjórnmálum eru talsvert færri en karlar. Konum reynist enn torvelt að standa jafnfætis körlum á vinnumarkaði.

Síðustu ár hefur kynbundinn launamunur mælst 10 prósent hérlendis, samkvæmt launakönnun VR. Heildarlaun karla eru hærri en kvenna og karlar þiggja aukin starfstengd hlunnindi. Niðurstöðurnar byggja á samanburði starfsfólks sem vinnur sömu vinnu, hefur sama vinnutíma, sömu reynslu og sambærilega menntun.

- Auglýsing -

Mælingar sýna einnig að langflestir karlar sinna fullu starfi en einungis 65% kvenna. Þá sýna rannsóknir að eftir því sem börnum fjölgar, eykst vinnutími karla, en vinnutími kvenna skerðist. Má ætla að barneignir dragi úr atvinnuþátttöku kvenna og möguleikum þeirra á fullri vinnu – enda fjölskylduábyrgð enn að meirihluta á herðum kvenna.

Barneignir og framgangur

Rannsóknir sýna jákvæð áhrif barneigna á launaþróun karla, en neikvæð áhrif á launaþróun kvenna. Vinnandi konum er gjarnan falin minni ábyrgð í kjölfar barneigna en karlar hljóta aukinn framgang.

„Það er með ólíkindum að heyra Samfylkingarkarlinn afneita rannsóknum og tölfræði um stöðu kvenna á vinnumarkaði.“

- Auglýsing -

Þeim körlum sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs hefur farið fækkandi. Konur taka aukið fæðingarorlof og fjarvistir þeirra frá vinnu eru lengri. Þetta sýnir opinber tölfræði og fjöldi rannsókna. Samhliða hafa hundruð barna setið föst á biðlistum síðustu ár eftir leikskólavist í Reykjavík. Hundruð foreldra komust ekki aftur á vinnumarkað í kjölfar barneigna. Illa hefur tekist að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Eftir sitja konur gjarnan með fjölskylduvandann á herðunum. Mæður taka enn á sig mesta ábyrgð barnauppeldis – því betur má fórna kvennalaunum en karlalaunum.

Það er með ólíkindum að heyra Samfylkingarkarlinn afneita rannsóknum og tölfræði um stöðu kvenna á vinnumarkaði. Að frátöldum þeim rannsóknum sem að ofan eru taldar mætti kynna sér rannsóknir sem einmitt sýna hvernig aukið framboð barnagæslu greiðir leið kvenna á vinnumarkaði. Skert þjónusta geri hið gagnstæða.

Sveigjanleg og góð leikskólaþjónusta er til hagsbóta fyrir fjölskyldur í borginni. Hún styður við framgang kvenna á vinnumarkaði og hefur jákvæð áhrif á þroska barna, sérstaklega þeirra sem koma frá heimilum í vanda. Það staðfestir prófessor í þroskasálfræði og aðstoðarrektor kennslumála við Háskóla Íslands. Þar höfum við það.

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu. > 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -