Fimmtudagur 16. maí, 2024
7.8 C
Reykjavik

Fólk flýr vegna innbrota

|||
|||

Innbrotahrina erlendra glæpagengja stöðvuð. Þýfið var flutt úr landi eða hent. Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir dæmi um að fólki hafi liðið illa á heimilum sínum eftir innbrot og flutt.

Innbrotsþjófur náðist á mynd í húsi einu á höfuðborgarsvæðinu þegar innbrotahrinan stóð sem hæst. Innbrotið náðist á upptöku öryggismyndavélar og gerði húseigandi myndina opinbera. Töluverð umræða skapaðist um málið. Skúli segir þjófinn hafa verið hluta af erlenda innbrotsgenginu sem lögreglan handtók.

„Við náðum að stöðva þá sem stóðu að stórum hluta þessara innbrota. Þetta voru sjö einstaklingar frá Austur-Evrópu og einn sem hafði verið búsettur hér lengi og var með íslenskt ríkisfang. Einn var 16 ára og hefur verið sendur til síns heima en aðrir hafa verið úrskurðaðir í farbann, gæsluvarðhald og bíða ákæru,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er búið,við sjáum ekki þessa hópa lengur.“

Skúli segir lögreglu hafa tekist að endurheimta hluta af þýfi við húsleitir og handtökur. Ljóst sé að þjófarnir hafi flutt eitthvað úr landi og selt hluta þess. Það sem þjófarnir töldu ekki fást mikið fyrir hentu þeir. Tilfinningalega tjónið er mest, að mati Skúla. „Það eru dæmi um að fólk hafi ekki getað búið í húsum sínum lengur, selt það og flutt.“

„Það eru dæmi um að fólk hafi ekki getað búið í húsum sínum lengur, selt það og flutt.“

Innbrotahrina gekk yfir höfuðborgarsvæðið fyrir jól og inn í árið. Helst var brotist inn á heimili fólks, sérstaklega fjölgaði innbrotum í sérbýli í Garðbæ, Kópavogi, Grafarvogi og Mosfellsbæ. Skúli segir lögregluna hafa greint af aðferðunum að herjað var skipulega á ákveðin hverfi. Aðferðirnar við innbrotin og verksummerki voru svipuð. Farið var inn bakatil hjá fólki þegar enginn var heima yfir hábjartan dag. Farið var inn í svefnherbergi og stolið skartgripum, peningum og minni raftækjum.

Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu

„Verksummerki sýndu greinilega að fleiri en einn var á ferðinni. Okkur grunaði strax að um væri að ræða erlenda brotamenn því við vorum með myndir af brotamönnum sem enginn okkar kannaðist við. Þýfi var heldur ekki að ganga kaupum og sölum. Við fundum reyndar þýfi hjá skartgripasala sem hafði keypt það í góðri trú,“ segir Skúli.

Ábendingar leiddu til handtöku
Slíkur var faraldurinn að lögreglan bað fólk að vera á varðbergi og fylgjast með mannaferðum. Árangurinn var góður og bárust lögreglunni ábendingar sem leiddu til þess að þjófagengið var handtekið í tveimur umfangsmiklum aðgerðum í Setbergshverfinu í Hafnarfirði og í Garðabæ. Átta til níu lögreglubílar voru notaðir við aðra handtökuna. Þýfi fannst á vettvangi auk muna sem stolið var úr sumarbústöðum á Vesturlandi og því ljóst að þjófarnir voru sökudólgarnir í innbrotum þar.

„Ég var mjög ánægður með það hvernig lögreglan stóð sig við handtökurnar. Þessir einstaklingar áttu enga möguleika á því að komast burt og voru handteknir á hlaupum,“ segir Skúli. Þegar þjófarnir voru handteknir voru tilkynningar um innbrot í sérbýli, einbýlishús og ráðhús, orðnar 70 talsins.

En hvernig á að komast hjá því að kaupa þýfi?

„Yfirleitt er það þannig að fólki er að bjóðast verðmætir hlutir á ótrúlega lágu verði. Þegar þannig háttar til þá á fólk að vera á varðbergi, gæti verið um þýfi að ræða. Fólk má ætla að um sé að ræða þýfi,“ segir Skúl aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Hér má sjá þróun innbrota í fyrirtæki/verslanir/stofnanir og heimili. Eins og myndin sýnir þá fjölgaði innbrotum talsvert á þessu ári. En hrinunni lauk snarlega þar sem grafið fer niður. Innbrot hafa verið á svipuðu róli síðustu árin og hefur lögreglan séð það verra, svo sem á árunum eftir hrun.

 

Ungliðapúki í Hveragerði

Stjórn framboðsins Okkar Hveragerði er ekki beint í skýjunum eftir að ungir sjálfstæðismenn í bænum keyptu lén framboðsins í lok mars.

Okkar Hveragerði er nýr listi skipaður fólki úr Samfylkingunni, Bjartri framtíð og óháðra sem ætlar fram í sveitarstjórnarkosningunum í lok mánaðar. Frambjóðendurnir stofnuðu Facebook-síðu Okkar Hveragerði 28. mars síðastliðinn. Daginn eftir tryggði stjórn Asks, félags ungra sjálfstæðismanna í Hveragerði sér hins vegar  lénið www.okkarhveragerdi.is og vísaði allri umferð þaðan yfir á vefsíðu Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði.

„Það kom okkur mjög spánskt fyrir sjónir að lénið væri virkilega laust á þessum tímapunkti og kom þá upp í einhverjum félagsmönnum örlítill ungliðapúki sem vildi setja fútt í kosningabaráttuna,“ segir Laufey Sif Lárusdóttir, formaður Asks. Hún bendir á að Askur og fleiri í Hveragerði hafi notað slagorð nýja framboðsins í sínu starfi í gegnum tíðina.

Laufey bendir líka á að undarlegt sé að stjórn framboðsins Okkar Hveragerði hafi ekki tryggt sér lénið fyrr. ,,Í nútímasamfélagi er þetta eitt af því fyrsta sem maður gerir við stofnun fyrirtækis eða pólitísku framboði. Þú finnur nafn og kannar hvort lénið sé laust. Ef maður gerir það ekki þá gerir einhver annar það,“ segir hún.

Spurð hvort stjórn framboðsins Okkar Hveragerði hafi haft samband við stjórn Asks til að þess að fá lénið segir hún svo ekki vera.

Aðalmynd: Laufey Sif Lárusdóttir segir fútt komið í kosningabaráttuna í Hveragerði.

 

Karlmenn mega allt – en samt mjög fátt

|||||
|||||

Trans mennirnir Alexander Björn Gunnarsson og Davíð Illugi Hjörleifsson Figved fengu úthlutað kvenkyni við fæðingu en létu leiðrétta kyn sitt og lifa nú loksins sem þeir sjálfir. Þeir segja mikinn mun á kröfum sem samfélagið gerir til kynjanna. Konur eigi að vera stilltar en karlmenn megi hafa hátt.

„Konur eiga að vera settlegar og ekki láta mikið fyrir sér fara. Ég er þannig frá náttúrunnar hendi en nú er meiri pressa á mig að vera sýnilegri og taka meira pláss. Ég upplifi það mjög sterkt að það voru gerðar miklu meiri kröfur til mín, áður en ég kom út sem strákur, að haga mér vel, standa mig vel og vera 110% fullkominn. Í dag er ég yfirleitt lesinn sem karlmaður og þá er mér alveg fyrirgefið ef ég geri mistök, því allir geri mistök. En ef maður er stelpa þá gera ekki allir mistök,“ segir Alexander. Alexander verður þrítugur í sumar og var mjög opinskár í fjölmiðlum um sitt kynleiðréttingarferli. Hann bloggaði til að mynda um typpið á sér á sínum tíma og hefur lagt sín lóð á vogarskálar þess að opna umræðu um transfólk.

Alexander Björn.

„Maður á bara að þegja og ekki vera fyrir,“ segir sessunautur Alexanders, Davíð Illugi eða Illugi eins og hann er oftast kallaður. Illugi er áratug yngri en Alexander en hann hefur verið búsettur í Noregi í um átta ár. Hann hefur spilað tölvuleiki um árabil og finnur vel fyrir kynjamisrétti og -mun í þeim heimi.

„Þegar að fólk leit á mig sem stelpu og ég skaut manneskju í byssuleik þá varð allt kreisí af fögnuði því fólk bjóst ekki við neinu af stelpu. En ef ég skýt fáa í byssuleik núna verð ég bara skammaður og dissaður, það þykir ekki nógu gott. Í tölvuleikjaheiminum eru karlmenn sem spila tölvuleiki kallaðir gamers, en konur heita gamer girls. Það var alltaf verið að adda mér þegar var litið á mig sem stelpu og alltaf verið að tala um útlitið mitt en ég fann að ég var ekki einn af hópnum. Strákarnir voru ekkert að spá í taktíkinni minni í leiknum og buðu mér í alls kyns teymi bara af því að ég var stelpa. Svo var mikið talað um kynlíf og ég spurður oft hvort ég ætti kærasta,“ segir Illugi, en Alexander fann ekki mikið fyrir kynferðislegri áreitni þegar hann lifði lífinu sem kona

„Ég kom út sem lesbía þegar ég var 16 ára og hef alltaf verið á karlmannlegri hlið, útlitslega séð. Karlmenn töluðu aldrei mikið um útlitið mitt en fann ég meira fyrir því að þeir komu til mín og sýndu mér gellur. En ég hef séð svo mörg dæmi um kynferðislega áreitni í kringum mig og það er fáránlegt að karlmenn leyfi sér svona hluti,“ segir Alexander.

„Já, eins og áreiti á vinnustað,“ skýtur Illugi inn í. „Það að þú þurfir að umbera að karlmaður sem er yfirmaður þinn sé að káfa á þér á vinnustað þar sem þú þarft að vera á hverjum degi er hræðilegt. Það er mjög algengt og konur bara taka því. Ég hef oft orðið vitni að slíku og stundum langar mig að fara til kvenna og segja þeim að standa upp fyrir sér sjálfum.“

Og Alexander bætir við: „Ég held að konur upplifi sig oft vanmáttugar og varnarlausar gagnvart karlmönnum.“ Illugi segir að það tengist uppeldinu.

„Þær eru bara aldar upp þannig. Karlmenn mega vera eins og þeir eru. Þeir mega vera háværir og haga sér eins og fífl. Ég er rosalega oft fúll yfir því að vera karl. Stundum þoli ég það ekki en svo er ég líka mjög glaður að hafa geta upplifað þá hlið að vera kvenmaður. Það gerir mig að betri manneskju. Pældu í því ef ég hefði byrjað að skilgreina mig sem karlmann þegar ég var fjögurra ára og hefði verið alinn upp sem karlmaður. Ég hefði orðið allt önnur manneskja en ég er núna. Ég er ánægður að hafa upplifað hlið kvenmanna svo ég sé ekki þessi manneskja sem maður er alltaf að forðast,“ segir hann og Alexander slær á létta strengi. „Já, það hjálpar mér mikið í samskiptum við aðrar stelpur og kærustuna mína. Bara það að vita hvernig það er að vera með túrverki. Ég held að það myndi hjálpa rosalega í mörgum samböndum,“ segir hann og hlær.

„Það er jákvætt að vita um líkamlegu hlutina en líka þá samfélagslegu,“ bætir Illugi við.

Hluti af karlmennsku er að vera með mótþróa

Davíð Illugi.

Okkur er tíðrætt um þessi rótgrónu, samfélagslegu gildi að karlmenn megi allt og hafi leyfi til að taka mikið pláss. Fyrir stuttu spratt upp bylgja í kjölfar #metoo sem gekk um samfélagsmiðla undir kassamerkinu #karlmennskan. Það átak reis ekki nærri því jafnhátt og forveri þess, og á mikið inni, en þá kom í ljós að karlmönnum leyfist alls ekki allt, eitthvað sem hugtakið eitruð karlmennska nær mjög vel utan um.

„Karlmenn mega margt en það er samt mjög þröngt skilgreint hvað þeir mega. Við megum til dæmis ekki vera í kjólum. Það virðist að við megum gera það sem við viljum á hlut kvenna en ekki á hlut annarra karla,“ segir Alexander.

„Hluti af karlmennskunni er að vera með mótþróa. Ef það er verið að biðja karlmenn um að opna sig þá skilja þeir ekki að þeir geti það og vilja það ekki. Þeir hafa verið aldir upp svo lengi við það að þeir megi ekki opna sig og tala um tilfinningar. Þetta hefur með uppeldi og kynjahlutverk að gera,“ segir Illugi og Alexander er sama sinnis.

„Þetta á eftir að taka mjög langan tíma. Margir karlmenn eru aldir upp við það að gráta ekki, verða ekki veikir, sýna ekki tilfinningar. Sem betur fer virðast bara eldri kynslóðirnar vera enn í þeim pakka. Mér finnst þetta vera hægt og rólega að breytast með yngri kynslóðina. Strákar sem til dæmis vilja vera með naglalakk mega það þótt það sé „stelpulegt“. Við erum í millibilsástandi núna þar sem gamlar hefðir og yngri kynslóðin, með ný gildi og venjur, mætast.“

Illugi bætir því við að karlmönnum þyki auðveldara að opna sig fyrir honum, því þeir halda að hann sé hommi, og þá sérstaklega á skemmtistöðum eftir nokkra drykki. „Gagnkynhneigðir, sískynja karlmenn koma oft til mín og byrja að tala um tilfinningar. Þeim líður eins og það sé meira viðurkennt frá manneskju eins og mér sem er ekki gagnkynhneigður, sískynja karlmaður,“ segir Illugi.

„Ókei, ég lendi aldrei í því,“ segir Alexander.
„Ég lendi oft í því en ég djamma mjög mikið,“ segir Illugi og brosir.
„Ég djamma aldrei,“ segir Alexander og glottir.

„Það koma menn til mín á djamminu og opna sig. Sumir hafa kannski aldrei talað um tilfinningar en það er viss þjálfun að gera það. Ég gat það ekki áður en nú er ég rosalega opin manneskja. Karlmenn hafa almennt mjög sjaldan þá þjálfun,“ segir Illugi og bætir við að talað sé niðrandi um karlmenn sem tali um tilfinningar, sem hjálpi alls ekki.

„Þú ert hommi ef þú talar um tilfinningar. Þú ert stelpa, í niðrandi meiningu. Það er mesta óvirðing gagnvart karlmennsku að líkja henni við eitthvað kvenlegt. Karlmennska er svo mikilvæg hjá karlmönnum en í flestum tilvikum er hún það því þeim finnst að hún eigi að vera mikilvæg.“

Alexander skýtur inn í að það sé mikilvægt að útrýma þessari niðrandi orðræðu, bæði fyrir konur og karlmenn. „Þessi orðræða um að eitthvað sé kerlingarlegt, að einhver slái eins og stelpa, að einhver sé hommalegur, hefur svo slæm áhrif á sjálfsmyndina hjá konum, stelpum, hommum og börnum. Það hefur mjög sterk áhrif að tala um það sem þú ert í niðrandi tilgangi. Það er bara hreint út sagt hræðilegt.“

Vilja ekki vera ógnandi karlmenn

Alexander og Illugi hafa að sjálfsögðu ekki farið varhluta af #metoo þar sem athygli var beint að kynferðislegri áreitni og ofbeldi gagnvart konum. Þeir fagna þessu átaki, eins og öðrum þar á undan, en segja að á sama tíma skapi þetta ákveðinn vanda fyrir karla.

Alexander og Illugi segja mikinn mun á því hvaða kröfur séu gerðar til kynjanna.

„Það er óþægilegt fyrir konur ef karlmaður gengur á eftir þeim í myrkri. En það er líka óþægilegt fyrir okkur sem karlmenn að hafa áhyggjur af því að konunni líði illa. Ég vil ekki að fólk sé hrætt við mig. En ég skil að fólk vilji hafa varann á. Það eru konur sem er ráðist á í myrkri og það eru karlmenn sem gera það,“ segir Alexander.

„Mér fannst óþægilegt að ganga í myrkri þegar það var horft á mig sem kvenmann og ég var skíthræddur. Núna er ég það ekki. Sem manneskja sem hefur upplifað að vera kona, en er nú maður, þá er ég alltaf að passa mig á að vera ekki þessi ógnandi manneskja sem lætur konum líða svona,“ segir Illugi.

„En þessar bylgjur, eins og #metoo, mega ekki deyja. Við þurfum að halda áfram að ýta undir þær og ekki leyfa þeim að deyja út,“ segir Alexander og Illugi er því hjartanlega sammála.

„Það að barátta verði svona hávær finnst mér æðislegt. Við erum ekki komin mjög langt í kynjajafnrétti þó að við viljum trúa því. Þegar svona byltingar fæðast þá verður fólk háværara og fólk meðtekur eitthvað smávegis af því sem baráttufólkið segir. Svo kemur önnur barátta og fólk meðtekur örlítið meira og svo framvegis. En þá má ekki hætta. Við verðum að vera hávær.“

Óþægilegt að brosa og vinka til barna

Þeir Alexander og Illugi eru báðir miklar barnagælur en finna sterkt fyrir því að litið sé öðruvísi á þeirra samskipti við börn eftir að fólk byrjaði að upplifa þá sem karlmenn.

„Ég er með eina neikvæða sögu í kollinum,“ segir Alexander djúpt hugsi. „Ég var að koma úr ræktinni og var að bíða eftir strætó. Þá kom hópur af leikskólakrökkum og einn strákur vinkaði mér. Ég brosti og vinkaði en þá kom leikskólakennari og stóð á milli okkar. Ég fann fyrir því að þetta mætti ekki og að samstundis kviknaði grunur um að ég væri barnaperri,“ segir hann og Illugi, sem vinnur á leikskóla, kinkar kolli.

„Ég elska börn. Ef fólk spurði mig hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór sagði ég alltaf pabbi. Fólk hélt að ég væri að meina að mig langaði að vera eins og pabbi minn en mig langaði bara að vera faðir. Ég brosi alltaf til barna þegar ég sé þau og nú finn ég svo sterklega fyrir því að ég held því inni því ég vil ekki að einhver haldi að ég sé barnaperri. Það er mjög skrýtið, því áður var það ekki þannig,“ segir Illugi og vísar í tímann áður en hann lét leiðrétta kyn sitt.

„Það hefur vissulega neikvæðar hliðar að vera karlmaður og vinna á leikskóla. Ef barn myndi segja eitthvað sem myndi hljóma eins og ég hefði gert eitthvað rangt þá væri tekið öðruvísi á því en ef um konu væri að ræða,“ segir Illugi.

„Það væri tekið alvarlegra á því,“ segir Alexander. „Og ég skil alveg af hverju.“

Þurfti að vera karlmannlegasti karlinn á svæði

Alexander hefur ætíð verið mjög opinn með sitt kynleiðréttingarferli og vakti bloggið hans um ferlið, phalloiniceland.tumblr.com, mikla athygli.

Vegferðir Alexanders og Illuga að því að gera sér ljóst að þeir væru í raun karlmenn, þó að þeir hefðu fengið úthlutað kvenkyni við fæðingu, voru mjög ólíkar.

„Ég vissi ekki að það væru til trans gaurar þannig að ég kom fyrst út sem lessa,“ segir Illugi. „Ég vildi vera mjög karlmannlegur og var mjög upptekinn af því. Ég til dæmis elska söngleiki en hefði aldrei nefnt það á þessu tímabili. Skilurðu mig?“ spyr hann Alexander sem brosir kankvíslega.
„Upp að vissu marki. En ég var alltaf mjög opinn með það að ég elska söngleiki,“ segir Alexander og hlær.

„Það er samt ímynd sem fólk hefur um að karlmenn eigi ekki að elska söngleiki. Eða ballet. Ég elska ballet. Og á þessu tímabili þegar ég var mjög upptekinn af því að vera karlmannlegur, eða stereótýpan af karlmennsku. Ég byrjaði að vera háværari, því karlmenn mega vera háværari en konur, tala djúpri röddu og hnykkla vöðvana í speglinum. Þangað til ég byrjaði á hormónum. Þá byrjaði mér að vera skítsama um karlmennsku,“ segir Illugi og Alexander skýtur inn í að vissulega hafi hann upplifað slíkt tímabil þar sem hann í raun aðhylltist einhvers konar ofurkarlmennsku, þótt það hafi verið mun styttra tímabil en hjá Illuga.

„Ég hafði ekki alveg jafnmiklar áhyggjur af þessu en það tengist örugglega því að ég upplifði mig ekki alltaf sem strák. Ég upplifði mig sem stelpu en síðan breyttist það yfir í að ég upplifði mig sem strák. Það er frekar lýsandi fyrir það hve flæðandi kynvitund getur verið. Í um það bil ár upplifði ég að ég þyrfti að vera karlmannlegasti karlmaðurinn á svæðinu og mátti til dæmis ekki horfa á bleikan lit og því um líkt.“

Laminn fyrir að vera trans maður

Við stöldrum aðeins við þá staðreynd að þeir báðir séu trans menn, en trans menn hafa verið minna áberandi í samfélaginu en trans konur síðustu ár. Af hverju halda þeir að svo sé?

„Á meðan það er svona mikil trans fóbía í samfélaginu þá er líklegt að þeir sem geta falið sig geri það. Það er engin ástæða fyrir okkur að koma í viðtöl og segjast vera trans menn, nema sú staðreynd að við viljum vera sýnilegri og við viljum opna umræðuna,“ segir Alexander.

Illugi hefur fundið fyrir fordómum gegn trans fólki á eigin skinni, í bókstaflegri merkingu. „Ég hef verið laminn fyrir að vera trans, með hnúajárni. Ég lenti á spítala. Það er brútal,“ segir hann og það tekur greinilega mikið á hann að rifja það upp. „Fólk heldur að við séum komin langt, sem er rétt. Við erum komin langt í hinsegin baráttunni. Samt er mikið sem þarf enn að vinna í. Samkvæmt regnbogakortinu þar sem farið er yfir hve langt lönd eru komin í réttindum hinsegin fólks í lagalegum skilningi, stöndum við mjög illa. Það eru til dæmis engin lög sem banna það að hinsegin manneskja sé rekin úr starfi út af því að hún er hinsegin,“ segir hann og bætir við að fordómarnir birtist í ýmsum myndum.

„Ég er ekki laminn á hverjum einasta degi en það hefur gerst og ekki bara einu sinni. Svo eru þessi litlu atriði endalaust. Fólk heldur að það megi spyrja mig um allt sem tengist minni kynhneigð, og jafnvel kynlífi. Þannig að ég þarf alltaf að vera búinn undir að fá alls kyns spurningar um það.“

Sjö milljarðar og eitthvert kyn

Þeir Alexander og Illugi eru reyndar báðir sammála um að það sé ekki hægt að skipta heiminum í tvær fylkingar út frá kyni.

„Fyrir kynþroska eru allir eins, fyrir utan kynfærin. Hins vegar tengist allt einhverju kyni í samfélaginu. Og ef það tengist ekki kyni þá tengist það kynfærunum þínum. Kyn er hins vegar svo persónubundið. Þú ert bara þitt kyn. Ég vil meina að það séu til jafnmörg kyn og það eru manneskjurnar eru í heiminum. Það er enginn annar með þín sérkenni,“ segir Illugi.

Illugi er búsettur í Noregi og er mjög virkur innan tölvuleikjasamfélagsins. Hann hefur verið laminn fyrir að vera trans og segir mikla fordóma í samfélaginu í garð trans fólks.

„Það eru til sjö milljarðar og alls konar kyn. Hver er sitt eigið kyn. Við erum til dæmis báðir trans gaurar, en erum ekki á nokkurn hátt eins. Heilinn okkar vill svo mikið flokka í hlutum. Því færri flokka sem þú ert með, því þægilegra er það fyrir heilann. Þannig að ef þú getur flokkað allan heiminn í tvo flokka þá er það mjög einfalt. En hvernig er hægt að setja rúmlega sjö milljarða manna í tvo kassa? Við flokkum til dæmis ávexti í einn flokk en bananar og epli eru samt ekki eins. Ég vil meina að þessir tveir flokkar kynja séu yfirflokkar og síðan séu margir undirflokkar, skörun og alls konar,“ segir Alexander.

Þolir ekki karlmennsku

Það myndi taka okkur marga daga að ná utan um hugtakið karlmennska, birtingarmyndir karlmennskunnar og hvað sé til ráða til að útrýma eitraðri karlmennsku. En áður en ég kveð þá Illuga og Alexander verð ég að spyrja hvaða merkingu þeir leggi í sína eigin karlmennsku í dag.

„Ég reyni að vera rosalega góður pabbi,“ segir Alexander en hann á átta mánaða stúlku með unnustu sinni. „Það vill svo skemmtilega til að mér finnst gaman að fara í ræktina og lyfta þungum lóðum. Svo finnst mér gaman að þrífa, baka og elda,“ segir hann og Illugi tekur við.

„Núna get ég sagt að ég þoli ekki karlmennsku. Ég vil ekki vera þessi karlmaður sem öðrum finnst ógnandi. Ég er skíthræddur við eitraða karlmennsku. Ég leik mér að því að vera ekki karlmannlegi karlinn í kringum karlmenn. Ég tala oft um eitthvað sem karlmenn myndu aldrei tala um til að sjá viðbrögðin frá öðrum karlmönnum. Meðan karlmennskan er enn eitruð þá verður mér illa við hana.“

Hvað er eitruð karlmennska?

Hugtakið eitruð karlmennska er notað í sál- og kynjafræði og vísar til vissra viðmiða karlmannlegrar hegðunar í Norður-Ameríku og Evrópu, sem tengjast samfélagsskaða og þeim skaða sem karlmenn sjálfir verða fyrir. Hefðbundnar staðalímyndir karlmanna sem æðri vera sem og kvenhatur og hinseginfælni geta verið álitnar sem eitraðar sökum þess að þær ala á ofbeldi, þar með talið kynferðislegu ofbeldi og heimilisofbeldi.

Aðrir eiginleikar sem fylgja þessum staðalímyndum eru að karlmenn séu tilfinningalega lokaðir, en tengsl eru á milli þess og sálfræðilegra vandamála karlmanna, streitu og misnotkun á ávanabindandi efnum. Aðrir eitraðir eiginleikar eru mikil vinnusemi karlmanna og að þeir þurfi að sjá fyrir fjölskyldunni. Þessari eitruðu karlmennsku hefur oft verið kennt um að ofbeldi meðal karlmanna er talið eðlilegt. Stundum hefur því verið fleygt fram að eitruð karlmennska sé leið feðraveldisins til að skaða karlmenn.

Úr orðabókinni Hinsegin frá Ö til A

Að vera sís/sískynja
Sís er lýsingarorð og forskeyti sem er notað um fólk sem upplifir sig á þann hátt að það tilheyri því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Sís kona er til dæmis kona sem var úthlutað kyninu „stelpa“ við fæðingu og er sátt við það. Orðinu er oft stillt upp sem andheiti við orðið trans.

Að vera trans
Trans er regnhlífarheiti yfir fólk sem er með kynvitund sem samræmist ekki því kyni sem því var úthlutað við fæðingu.

Kynvitund
Kynvitund segir til um hvernig fólk vill lifa og vera í sínu kyni. Kynvitund vísar ekki til kynfæra, líffræði eða útlits heldur upplifunar fólks af eigin kyni. Allir hafa kynvitund því allir upplifa kyn sitt á einhvern hátt.

Kynhneigð
Kynhneigð segir til um hverjum fólk getur laðast að, orðið skotið í eða ástfangið af.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Sjö manna fjölskylda flúði stressið og flakkaði um Spán

||||||
||||||

„Við sem foreldrar berum ábyrgð á menntun barnanna og það er það sem ég vil gera með því að ferðast með þau um heiminn, og auðvitað allt Ísland, og kenna þeim í gegnum lífið, ekki í gegnum bækur, tölvur og fyrirlestra, mötun á námsefni og eyðufyllingar,“ segir Ágústa Margrét Arnardóttir.

Ágústa á fimm börn með eiginmanni sínum, Guðlaugi Birgissyni. Fyrr á þessu ári ákváð fjölskyldan að rífa sig upp frá heimili sínu á Djúpavogi og flakka um Spán í fimm vikur. Fjölskyldan hefur leyft almenningi að fylgjast með ferðum sínum á Facebook-síðunni Whattodoin og sneri nýverið aftur heim til Íslands. Ágústa segir að aðdragandinn að ferðinni hafi í raun verið langur. Elsta dóttir þeirra hjóna, Vigdís, fæddist árið 2006 og í kjölfarið eignuðust þau þrjú börn á rétt rúmlega þremur árum. Á sama tíma stofnaði Ágústa hönnunar- og framleiðslufyrirtæki og Guðlaugur byrjaði að kaupa sig inn í útgerð þar sem hann starfaði sem skipstjóri.

Börnin upplifðu alls kyns ævintýri.

Hraðinn bitnaði á fjölskyldunni

„Ég fékk mikið hrós fyrir dugnaðinn og eljuna, var þessi týpíska ofurkona sem hélt ég gæti allt. Ég elska að vinna mikið, elskaði reksturinn minn og börnin, og allt sem ég var að gera og langaði svo ógeðslega mikið að gera allt og láta allt ganga, en það var engan veginn að gerast, þetta var bara allt of mikið. Hraðinn og álagið bitnaði á fjölskyldunni og andlegri og líkamlegri heilsu minni auk þess sem upprunaleg markmið mín og lífssýn voru bara í dvala, nánast gleymd,“ segir Ágústa en meðal markmiða hennar í lífinu var að ferðast með börnunum og eyða meiri tíma með þeim. Hún segist hafa verið með einhvers konar fjölskylduferð í bígerð lengi en alltaf litið á skólagöngu barnanna sem hindrun.

„Svo gerðist það að sonur minn var kominn á algjörar villigötur, hafði illa stjórn á sér, brást reiður og illa við ýmsu og fúnkeraði bara ekki vel. Hann var settur í prógramm sem sneri að lærdómnum og hegðun í skólanum,“ segir Ágústa. Í framhaldinu varði hún tæpum fjórum mánuðum með syni sínum í skólanum, í 95% kennslustundanna, frímínútum, tómstundum og öðru.

„Ég hlustaði á ótal fyrirlestra, hljóðbækur, las rannsóknir og annað. Líf okkar allra gjörbreyttist þarna og sýn mín á menntakerfið og allt lífið breyttist algjörlega. Og eitt af því sem ég lærði á þessu er að skólaganga barnanna minna er ekki hindrun í að við sem fjölskylda ferðumst eða förum okkar leiðir í menntun þeirra.“

Fengu aldrei pásu frá hvert öðru

7 manna fjölskylda á ferðalagi.

Það var svo áhugi Ágústu á heimakennslu og menntun sem varð til þess að þau ákváðu að kasta sér ofan í djúpu laugina og ferðast, en Ágústa skipulagði ferðina í meira en ár. Þau sögðu börnunum frá ferðinni á aðfangadagskvöld í fyrra og tveimur og hálfum mánuði síðan fóru þau af stað á vit ævintýranna.

„Við höfum alltaf verið mjög samheldin fjölskylda og mikið saman en að vera saman í fimm vikur á stað þar sem við þekktum enga og vorum hvorki í skóla, tómstundum, vinnu, né hittum vini eða fjölskyldu var allt annað en við erum vön. Helstu kostirnir við svona lífsstíl eru að við kynnumst mun nánar og betur en hér heima, því það er engin truflun, ekki hægt að forða sér eða sækja í aðra ef eitthvað bjátar á. Auk þess hefur maður ótakmarkaðan tíma til að sjá „mynstur“ í börnunum og sjálfum sér – hvað er stressandi, hvað er slakandi, hvað hefur góð og hvað hefur vond áhrif. Og ókostirnir eru kannski að það er aldrei „friður“, við fáum aldrei pásu frá hvert öðru, sem hefur líka áhrif. Ef einn var í vondu skapi hafði það áhrif á alla og ef börnin eru pirruð, þreytt, svöng, leið eða eitthvað þá láta þau það bitna hvert á öðru,“ segir Ágústa og heldur áfram.

„Þetta var oft ofsalega erfitt og snéri þá aðallega að dagsformi hvers og eins. Hér heima get ég laumað mér í kaffi til vinkonu, þau leikið við vini eða heimsótt ömmu og afa, farið í göngutúr ein, kveikt á sjónvarpi eða farið tölvur ef það er þreyta og pirringur í gangi en þarna var ekkert svoleiðis í boði. Við reyndum alltaf að setja dagana upp sem streytulausasta og þægilegasta fyrir alla en það sem hentar 1 árs barni, 3 ára, 8, 10 og 11 ára sem og foreldrum á fertugsaldri er ekkert alltaf það sama. Málamiðlanir voru stór partur af ferðinni og að gefa öllum svigrúmið sem þeir þurftu þótt það væri nánast ekkert svigrúm eða tími. Maður metur tímann allt öðruvísi eftir svona ferð.“

Sáu fátækt og fjölbreytileika

Ógleymanleg ferð.

Fjölskyldan ætlaði fyrst að leigja íbúð í tvo til þrjá mánuði en vegna breytinga í útgerðinni hjá Guðlaugi þurfti þau að stytta dvölina niður í fimm vikur. Þá voru þau búin að festa íbúðina og þurftu að greiða fyrir hana 450 þúsund krónur. Flugið var hins vegar talsvert ódýrara en þau voru vön fyrir sjö manna fjölskyldu.

„Flugið fyrir okkur sjö kostaði um 120 þúsund krónur með millilendingu og gistingu í Gatwick á leiðinni út og 102 þúsund krónur í beinu flugi heim. Ég var búin að kynna mér staðsetningar og verð á nauðsynjum vel þannig að á svæðinu sem við vorum var allt meira en helmingi ódýrara en hér heima. Við leigðum bíl, fórum á söfn, í hellaferð og í garða sem kostuðu og þar húrraðist kostnaðurinn upp en þessu er alveg hægt að sleppa. Við nýttum okkur mikla ókeypis afþreyingu eins og almenningsgarða og ströndina og það er alveg endalaust hægt gera eitthvað án þess að taka upp budduna,“ segir Ágústa aðspurð um hvort þetta ævintýri hafi ekki kostað skildinginn. Hún segist aðhyllast mínimalískan lífsstíl og er ánægð með að leyfa börnunum sínum að upplifa ýmislegt sem kennir þeim virði peninga.

„Börnunum, sérstaklega þessari ellefu ára, finnst við oft lifa eins og fátæklingar en hún hefur þó lært það af þessu að það þarf að forgangsraða og hafa fyrir hlutunum. Í ferðinni upplifðu þau svo að gista á geggjuðu 4 stjörnu hótelinu niður í 0 stjörnu rottuholu, þau sáu fátækt, betlara og miklu meiri fjölbreytileika fólks en hér heima. Ég vil að þau kynnist þessu frekar en biðröðum í Disney-garðinum og peningaplokki í alls konar over prized-görðum og skemmtunum. Ég hef samt ekkert á móti því og allt í lagi að upplifa það líka, en við bjuggum oft til bestu stundirnar með nesti í almenningsgörðum og það var æði.“

Heimurinn opnaðist

En hvað stóð upp úr á þessu fimm vikna ferðalagi?

Lífið er ljúft á ströndinni.

„Það sem stendur upp úr er áhrifin á börnin, hvernig þau upplifðu hlutina, hvað þeim fannst merkilegt, hvernig þau þroskuðust og lærðu. Það var mikill munur á þeim fyrstu dagana og þá síðustu, veröldin stækkaði og heimurinn opnaðist einhvern veginn fyrir þeim. Í byrjun fannst mér þau bara frekar áhugalaus og hugmyndasnauð, vildu til dæmis alltaf fara í sama garðinn og á sama veitingastaðinn frekar en að kanna svæðið og prófa eitthvað nýtt. Þetta pirraði mig en svo fattaði ég að þau höfðu engin viðmið, þau vissu ekkert hvað var handan við hornið, þau eru alin upp í pínulitlum bæ þar sem allt er alltaf eins, rútínan, viðburðir, fólk, staðir og dýr. Þannig að við fórum meira og meðvitað að kanna ný svæði, prófa nýja hluti, tala meira um allt sem mögulegt er í heiminum og leyfa lífinu að koma okkur á óvart án þess að hafa plön eða vera afturhaldsöm. Þetta skilaði sér í því að undir lokin var þessi 10 ára farinn að skipuleggja ferð til Týndu borgarinnar, 11 ára til Hawaii og við hin roadtrip um Bandaríkin. Þetta opnaði heiminn fyrir þeim, og okkur,“ segir Ágústa og bætir við að ferðin hafi haft góð áhrif á fjölskylduna í heild.

„Við erum klárlega samheldnari, það er meira umburðarlyndi eða alla vega þekking og skilningur á hinum.“

Sápukúlustuð.

Allir tilbúnir að koma heim

En hvernig var svo að koma aftur í raunveruleikann á Djúpavogi?

„Við vorum síðustu dagana í Barcelona, borgin var troðin af fólki, mikil umferð, hraði og allt miklu dýrara en á hinum stöðunum og miklu heitara og óþægilegra veður. Það voru því allir frekar tilbúnir að koma heim, spenntir og ánægðir. Þannig að heimferðin og allt eftir það hefur gengið vel. Við fundum svo rosalega vel hvað útivera, birta og gróður er ólýsanlega miklivægt þannig að nú er markmið að halda þessum „úti“ lífsstíl áfram, en hingað til hef ég verið kuldaskjóða og nenni alls ekki út í vondu veðri eða myrkri. En nú þurfum við bara að læra að lifa með því, því það er líklegra að ég geti breytt um hugarfar en veðurfar.“

Fjölskyldan heldur úti vefsíðu samfara fyrrnefndri Facebook-síðu, þar sem hún ætlar að fara vel og vandlega yfir ferðalagið á næstunni. Ágústa mælir hiklaust með svona flótta úr hversdagsleikanum fyrir hvern sem er.

Skemmtileg mynd.

„Já, maður verður svo samdauna samfélaginu og fer ósjálfrátt í farveginn sem hinir eru í eða farveginn sem í boði er ef maður er alltaf á sama staðnum, sérstaklega litlum stöðum. Að fara í burtu, núllstilla allt, tengjast á annan hátt og upplifa annað er góð byrjun til að rjúfa rútínuna sem maður er í ef maður kýs það.“

Myndir / Úr einkasafni

Leikkonur fljúga á vit ævintýranna

Útskrift flugfreyja hjá Icelandair fór fram í vikunni. Meðal þeirra sem útskrifuðust voru leikkonurnar María Heba Þorkelsdóttir og Laufey Elíasdóttir og mega því flugfarþegar búast við því að njóta flugsins með þessum tveimur kjarnakonum í nánustu framtíð.

María Heba er ein ástsælasta gamanleikkona ársins og hlaut meðal annars Edduverðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni Okkar eigin Osló. María er hins vegar líka mjög slungin dramaleikkona, eins og þekkt er með gamanleikara, og hefur til að mynda leikið í sjónvarpsþáttunum Föngum, Pressu og Hamrinum sem og kvikmyndinni Eiðum.

Laufey er hluti af leikhópnum RaTaTam sem setti síðast upp verkið Ahh… sem hlaut einróma lof gagnrýnenda. Þá ættu kvikmyndahúsagestir einnig að kannast við hana úr kvikmyndunum Brúðguminn, Desember og Vonarstræti.

Þær María Heba og Laufey eru langt því frá að vera fyrstu leikkonurnar til að bregða sér í hlutverk flugfreyja þar sem landsþekktar listakonur hafa áður látið ljós sitt skína í háloftunum, þar á meðal Edda Björgvinsdóttir, Helga Braga Jónsdóttir, Heiða Ólafsdóttir og Svandís Dóra Einarsdóttir.

Aðalmynd / Leikkonan María Heba / Ljósmyndari: Aldís Pálsdóttir

Mikilvægt að gleyma tímanum og símanum

||
Ingibjörg Halldórsdóttir

Ingibjörg Ýr Óskarsdóttir starfar sem ljósmóðir en segir áhugann á starfinu hafa kviknað í sveitaheimsókn þegar hún sá afkvæmi í fyrsta skipti koma í heiminn.

„Ég var í heimsókn í sveit hjá langömmusystur minni þegar ég sá lamb fæðast. Frænka mín aðstoðaði kindina við að koma lambinu í heiminn og mér fannst þetta magnað.”

„Þetta var mín fyrsta upplifun af því að sjá afkvæmi fæðast og ég er viss um að það kviknaði á einhverjum ljósmóðurfrumum inni í mér við sauðburðinn.”

„Ég var samt ekki ákveðin í að verða ljósmóðir fyrr en ég var á þriðja árinu mínu í hjúkrun. Þá var ég í verknámi á fæðingardeild fjórðungssjúkrahúsins á Akureyri og ljósmæðurnar þar leyfðu mér að fylgjast með fæðingu. Eftir að ég gekk út af spítalanum eftir að hafa séð þessa fyrstu fæðingu þá vissi ég að það væri ekki aftur snúið, ég vissi hvað ég vildi verða, ég ætlaði að verða ljósmóðir.”
Ingibjörg segir ljósmóðurstarfið ákaflega fjölbreytt. „Margir halda að ljósmæður séu eingöngu í því að taka á móti börnum en raunin er sú að þær sinna líka konum og fjölskyldum á meðgöngu, í sængurlegu og ungbarnavernd. Ljósmæður sinna einnig allskyns fræðslu og forvarnarstarfi sem kemur að heilsu kvenna, barna og fjölskyldunnar í heild.
Órjúfanleg tengsl verða til á fyrstu mínútunum eftir að barn fæðist og mikilvægt er að aðskilja ekki foreldra og barn nema þörf þykir. Ingibjörg segir mikilvægt að foreldrarnir gleymi tímanum og símanum og njóti þess að skoða og kynnast barninu sínu fyrstu klukkustundirnar og njóti stundarinnar.

„Þetta er mögnuð stund sem kemur ekki aftur.”

Það er gott er að minna sig á að hver og ein fæðing er einstök og upplifun kvenna af fæðingu er líka mismunandi. Að koma barni í heiminn er erfitt en erfitt á jákvæðan hátt og erfiðleikarnir breytast yfirleitt í þína stærstu og fallegustu stund sem þú munt muna um ókomna tíð, augnablikið sem þú varðst mamma.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson.

Ofurfínt hús skapar ekki hamingjusamt heimili

Eva Laufey Hermannsdóttir Kjaran er fyrir löngu orðin þjóðþekkt en hún haslaði sér fyrst völl sem ástríðubakari.

Fimm árum síðar hefur hún gefið út tvær matreiðslubækur og tíunda sjónvarpsþáttaröðin nú þegar í pípunum. Hún segir það sjálfskipaða kröfu að vilja vera fullkomin öllum stundum.

„Ég er langt frá því að vera fullkomin en ég viðurkenni að áður en ég eignaðist seinni dóttur okkar leið mér oft eins og ég væri hamstur á hjóli. Ég veit hreint út sagt ekki hvað gerðist en ég róaðist mjög mikið. Eftir að hafa verið stanslaust á út opnu, í vinnu, að klára BS í viðskiptafræði, mæta í ræktina, vera dugleg mamma og góð eiginkona, passa að elda alltaf góðan mat og halda heimilinu í standi. Með öðrum orðum, reyna að vera fullkominn öllum stundum. Vera alltaf á trilljón en á sama tíma alltaf að biða eftir því sem gerist næst, að njóta ekki þess að vera á staðnum með fólkinu mínu, róleg í eigin skinni.

„Mér fannst ég of oft vera alveg við það að bræða úr mér en í raun var ég bara í keppni við sjálfa mig.”

Satt best að segja veit ég ekki hvað gerðist en dag einn fór ég að hugsa um þetta. Ætli það hafi ekki verið þegar ég sat með eldri stelpu minni inn í herberginu hennar í staðinn fyrir að leika við hana þá nýtti ég frekar tímann til þess að taka til en að leika við hana, sem er auðvitað alveg þveröfugt við það sem maður ætti að gera. Maðurinn minn hefur hjálpað heilmikið til við að róa mig í þessum efnum. Hann segir að þegar ég verð eldri að þá muni ég ekki hugsa til þess hversu hrein herbergin hafi verið heldur frekar hugsa til stundanna saman með stelpunum. Ofurfínt hús er ekki það sem skapar hamingjusamt heimili og það gildir í öllu.

„Ætli ég hafi ekki bara sætt mig við það að vera alls ekki fullkomin og með því móti hafi allt róast.”

Svo lengi sem ég sinni því sem ég geri vel og fólki mitt finni að ég elski það heitt, þá skiptir annað engu máli þó svo að heimilið eða annað bíði. Það má strauja eða bóna gólfið seinna. Í dag gæti ég ekki verið þakklátari því ég veit að það eina sem skiptir máli er dagurinn í dag. Ég er satt best að segja svo dauðfegin að vera ekki eins stressuð og ég var um að allt yrði að vera tipp topp öllum stundum en þvílíkur léttir að vera laus við þá kvöð. Ég er farin að taka miklu betur eftir öllum hlutum og hugsa á hverju kvöldi um eitthvað þrennt sem veitti mér mikla ánægju yfir daginn. Þetta hef ég látið heimilisfólkið mitt gera sömuleiðis og ég trúi því að með þessum hætti komi maður í veg fyrir að hugsa um eitthvað neikvætt sem átti sér stað eða í besta falli minni mann á hvað lífið er skemmtilegt.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.

Texti / Íris Hauksdóttir

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Förðun / Björg Alfreðsdóttir

Nístandi frá upphafi til enda

Leikritið Fólk, staðir, hlutir segir frá leikkonunni Emmu sem er alkahólisti og lyfjafíkill. Áhorfendur fylgjast svo með ferðalagi hennar í gegnum tólf sporin í leit að sátt við sjálfa sig.

Verkið er skrifað af hinu margverðlaunaða leikskáldi Duncan Macmillan en leikrit hans hafa notið gríðarlegra vinsælda um heim allan.

Þetta er þriðja leikverkið sem sett er upp eftir skáldið hér á landi en það fyrsta, Andaðu sló eftirminnilega í gegn þegar það var sett upp í Iðnó. Duncan skrifaði jafnframt leikgerð að verkinu 1984 sem sýnt var í Borgarleikhúsinu fyrr í vetur.

Titillinn, Fólk, staðir, hlutir vísar í það sem fíklum beri að forðast eftir að hafa leitað sér hjálpar. Þrennan sem triggerar fíknina. Það er óhætt að segja verkið tali beint inn í íslenskan samtíma því biðlistar hafa aldrei verið lengri eftir meðferðarúrræðum.

Fíknisjúkdómar fara ekki í manngreiningarálit en helmingur leikhópsins fer með fleira en eitt hlutverk. Þannig mynda sögupersónurnar hliðstæður af hinu fjölbreytta litrófi mannlífsins.

Vesturport hefur fyrir löngu skapað sér sérstöðu og þó umfjöllarefnið sé þungt og viðkvæmt í vöfum notar hópurinn húmor óspart til þess að koma sögunni skemmtilega frá sér. Leikstjórinn Gísli Örn Garðarson hefur fyrir löngu sannað snilli sína og bregst honum ekki bogalistinn fremur venju.

Hirðleikmyndahönnuður hópsins, Börkur Jónsson hannaði leikmyndina en hún er ílöng og vekur ósjálfrátt hugrenningartengsl við töfluhylki. Þórður Orri Pétursson sá um að flóðlýsa innantómt hylkið ásamt því að láta blikkljós og aðrar ljósalausnir endurspegla líðan fíkilsins hverju sinni. Tónlistin magnaði svo atburðarrásina og aðskildi snöggar skiptingar á milli atriða. Garðar Borgþórsson sá um hljóðmynd og búninga hannaði Katja Ebbel Fredriksen.

Mest mæðir á aðalleikkonunni Nínu Dögg Filippusdóttur en hún leikur fíkilinn Emmu sem neydd er í meðferð. Í afneitun sinni reynist Emma afar óþekkur sjúklingur en smám saman flysjast lygalögin af fjölbreyttum frásögnum hennar. Áhorfendur fylgjast með neyslunni, fráhvörfunum og meðferðardvölinni þar sem Emma líður vítiskvalir.

Leikur Nínu er hreint út sagt stórfenglegur en hún túlkar þessa margræðu og eldkláru konu af mikilli sannfæringu og öryggi.

Samleikur þeirra Nínu og Björns Thors var töfrandi og trúverðugur en í upphafi kynna þeirra er hann fíkill sem neitar að yfirgefa meðferðarstofnunina en tekur við starfi meðferðarfulltrúa eftir því sem líður á leikritið.
Hannes Óli Ágústsson skapaði sömuleiðis eftirminnilegan karakter sem hinn kómíski meðferðarfulltrúi er annaðist Emmu í fyrstu innlögn sinni. Þær Edda Björg Eyjólfsdóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir leika bæði hjúkrunarfræðinga og fíkla og gera báðar vel. Jóhann Sigurðsson og Sigrún Edda Björnsdóttir fara með hlutverk foreldra Emmu en auk þess túlkar Jóhann tvo ólíka fíkla. Sigrún fer sömuleiðis með hlutverk læknis og meðferðarfulltrúans sem leiðir Emmu í gegnum sporin tólf. Sigrún var sannfærandi að venju og samtal mæðgnanna í lokin hreint út sagt ógleymanlegt.

Umfjöllunina er að finna í 17.tbl Vikunnar.

Svona gerirðu fullkomið hátt tagl

Hárgreiðslumaðurinn Kahh Spence er gestur Denise Bidot í nýjasta þætti af YouTube-seríunni The Beauty Lounge á vegum tímaritsins Cosmopolitan.

Í þættinum kennir Kahh áhorfendum að gera fullkomið, hátt tagl. Þá fer hann einnig yfir það hvernig á að fela teygjuna með hárlokk. Það sem kemur einna mest á óvart er hve ótrúlega einfalt það er.

The Beauty Lounge með Denise Bidot er vinsæll þáttur á YouTube-rás Cosmopolitan og er nýr þáttur ávallt frumsýndur á miðvikudögum. Hér fyrir neðan má sjá þáttinn þar sem farið er vel og vandlega yfir taglgerð:

Spánn vinnur Eurovision ef marka má Google

|
|

Lönd eins og Ástralía, Spánn, Ítalía, Hvíta-Rússland, Ísrael, Frakkland og Noregur gætu náð langt í Eurovision, ef marka má hve oft er leitað að framlögum þessara landa í leitarvél Google.

Google safnaði þessum leitargögnum einnig í fyrra og náði að sjá fyrir hvaða lönd skipuðu sér í efstu sæti og hver bæri sigur úr býtum, en það var eins og margir vita Portúgalinn Salvador Sobral.

Nú er hægt að glugga í gögn Google fyrir Eurovision-keppnina í ár, sem fer fram í næstu viku. Samkvæmt þeirra gögnum er mest leitað að framlagi Spánar, en það eru þau Amaia og Alfred sem flytja lagið Tu canción fyrir landið sitt. Hinn hvít-rússneski Alekseev með lagið Forever er í öðru sæti og þriðja sætið vermir ítalska lagið Non mi avete fatto niente sem flutt er af Ermal Meta & Fabrizio Moro.

Á botninum á þessum lista er því miður að finna Ara okkar Ólafsson með lagið Our Choice, en einnig Rúmeníu, Georgíu og Svartfjallaland.

Sjá einnig: Það sem býr á bak við brosið.

Þess má geta að margir af þeim sem leita eru búsettir í löndum sem mega ekki einu sinni kjósa í Eurovision. Þannig eru margir í Papúa Nýju Gíneu og Vanuatu sem leita að hinni áströlsku Jessicu Mauboy og fjöldinn allur af fólki í Suður-Ameríku sem leitar í gríð og erg að spænska framlaginu.

Hin ísraelska Netta Barzilai er talin sigurstrangleg í veðbönkum, og hefur verið lengi, en hún er í fjórða sæti á þessum lista frá Google. Annars sigurstranglegur keppandi, Norðmaðurinn Alexander Rybak, er í sjötta sæti, en Frakkar ná að troða sér á milli þessara tveggja flytjenda.

Sjá einnig: Alexander Rybak heillaði Eurovision-heiminn á fyrstu æfingu.

En þetta eru ekki einu gögnin sem Google tekur saman. Leitarvélin greinir einnig hvar mestur áhugi er fyrir Eurovision út um allan heim. Þar trónir Ísland á toppnum og er langt á undan þeirri þjóð sem skipar annað sætið, sem er Kýpur. Í þriðja er Eistland, því fjórða Malta og svo er það Grikkland sem vermir fimmta sætið. Minnstur áhugi fyrir keppninni er í Brasilíu, Bandaríkjunum, Argentínu, Mexíkó og Kanada.

Í gögnunum sést einnig að áhugi fyrir Eurovision stigmagnast í maí, en mestur áhugi á keppninni samkvæmt Google var í maí árið 2014 þegar dragdrottningin Conchita Wurst færði Austurríksimönnum sigurinn.

Magnea glímir við fæðingarþunglyndi: Erfiðast að elska sjálfa mig

|||
|||

„Ég viðurkenndi ekki þunglyndi mitt strax. Ég átti mjög erfitt með það en eini sem fékk að sjá það var maðurinn minn. Ég reyndi allt til að fela það. Ég vildi bara hafa það fyrir mig. Þegar ég var komin rúmlega tuttugu vikur þá var ég komin á lyf við vanlíðan,“ segir Magnea Hildur Jónsdóttir.

Magnea eignaðist dóttur sína Talíu Líf, fyrir tæplega tveimur árum síðan. Magnea byrjaði að finna fyrir fæðingarþunglyndi á meðgöngu og hefur talað opinskátt um það á Snachat-reikningi sínum undir nafninu magnea8.

Magnea og litla Talía Líf.

„Ég var bara ekki að höndla þessar breytingar og ég var með mjög slæman bjúg sem varð sífellt verri. Ég er svo þrjósk að ég lét mig hafa það lengur en ég átti að gera. Ég passaði ekki lengur í neina skó nema einhverja ljóta inniskó úr Rúmfatalagernum sem ég tróð mér í. Ég fékk meðgöngusykursýki sem greindist allof seint og ég þurfti að fara í mikið tjékk seinni hluta meðgöngunnar,“ segir Magnea. Ekki bætti úr skák að hún lenti í óhappi á fyrri hluta meðgöngunnar.

„Það versta var að ég datt á leið í vinnuna í steyptum tröppum. Ég var rétt komin sautján vikur á leið og skall í tröppuna með hnakkann undir, mitt bakið og grindina í. Ég var það þrjósk að ég lét ekki kíkja á mig né athuga með barnið,“ segir Magnea, sem hélt áfram að mæta í vinnu þó hana verkjaði.

„Ég sé eftir því en málið var að ég vildi ekki lýta út eins og einhver aumingi því það sást ekkert á mér. Þannig hugsaði ég allt, að ef það sést ekki þá er ekkert að mér, sem var svo rangt og ég er enn þann dag í dag að læra það. Að sýna tilfinningar og elska mig, sem mér finnst erfiðast af þessu öllu.“

Brotnaði niður og gafst upp

Magnea segir að hversdagurinn sinn hafi einkennst af hæðum og lægðum í baráttunni við fæðingarþunglyndi.

„Stundum vil ég bara ekki gera neitt, bara liggja uppi í rúmi og sofa eða bara vera ein og ekki tala við neinn. Ég er nánast alltaf þreytt sama hvað. Það er kannski svona mánuður síðan ég hætti að segja við sjálfa mig: Ég legg mig bara þegar ég kem heim, á hverjum einasta morgni. Ég gerði það sjaldan en þetta var eitthvað sem ég sagði við sjálfa mig til að komast í gegnum daginn,“ segir Magnea. henni er eitt atvik sérstaklega minnisstætt þegar hún fer yfir þennan tíma í sínu lífi.

„Þegar stelpan mín var ekki orðin tveggja mánaða var ég ein heima með hana og hún byrjar að gráta um sjö leytið um kvöld. Ekkert sem ég gerði var nógu gott til að fá hana til að hætta að gráta. Þetta var ekkert venjulegur grátur, það var hreinlega eins og einhver væri að drepa hana. Maðurinn minn var að vinna og foreldrar mínir í heimsókn. Ég hreinlega brotnaði bara gjörsamlega niður og gafst upp. Ég hringdi í manninn minn og spurði hann hvort hann gæti komið heim. Ég var grátandi í símanum og sagði að ég gæti ekki huggað hana. Hann kom heim stuttu seinna og spurði mig að því versta sem hægt er að spyrja grátandi móður: Hristirðu hana? Ég missti andlitið. Ég myndi aldrei meiða litla barnið mitt, sama hvað. En hann sá eftir þessu. Hann hélt bara að eitthvað hræðilegt hafi gerst. Hann átti lika erfitt á þessum tima, hann var að vinna svo mikið og var mikið frá, hann varð paranojaður yfir öllu. Sem bætti ekki mína andlegu líðan.“

Skömmin var mikil

Magnea segist hafa verið mjög góð í að fela fæðingarþunglyndið frá ljósmæðrum í kringum fæðingu litlu hnátunnar.

„Ég man eftir því þegar ljósmóðir kom heim að athuga með okkur mæðgur. Hún spyr mig hvernig mér liði. Litla systir mín sat í sama sófa og eina sem ég hugsaði var að ég ætti bara að segja að allt gengi vel og að ég hefði það fínt. Ég vildi ekki að systir mín myndi vita hvernig mér liði. Þá myndi mamma min vita það og þá myndi hún byrja að tala við mig, sem hefði ekki verið slæmt, en skömmin var bara svo mikil og mig langaði ekki að mistakast,“ segir Magnea, sem tárast nánast við tilhugsunina.

„Þegar ég hugsa um þetta núna langar mig að gráta því ég hefði þurft svo mikið á því að halda að tala við einhvern. En þrjóskan og skömmin var svo mikil hjá mér. Ég var, og er, mjög klár að setja upp grímu og láta eins og ekkert sé að.“

Erfið fæðing frumburðarins

Hér leikur Talía Líf á alls oddi. Lífsglöð stúlka.

Magnea er 28 ára gömul og býr í Kópavogi ásamt unnusta sínum, litlu Talíu Líf og kettinum þeirra. Hún vinnur sem stuðningsfulltrúi á einhverfudeild í grunnskóla í Kópavogi og er nú hægt og bítandi að koma andlegu heilsunni í lag eftir þennan erfiða tíma.

„Ég reyni að borða hollt, taka lyf og hætta að vera svona neikvæð, og þá sérstaklega við mig. Gera eitthvað sem mér finnst gaman að gera og að hreyfa mig eitthvað. Ég set mér markmið, til dæmis að labba sex þúsund skref á hverjum degi. Og segja við mig að þetta tekur tíma, margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Magnea sem stefnir á frekari barneignir í framtíðinni.

„Það sem ég ætla mér núna er að koma mér í mitt fyrra horf líkamlega og andlega. Númer 1, 2 og 3 er að læra að elska sjálfa mig aftur. Og já, þrátt fyrir þetta allt saman þá langar mig í annað barn, en kannski eftir svona tvö ár,“ segir Magnea, en fæðing frumburðarins tók á.

„Stelpan mín kom mánuði fyrr í heiminn og það sem situr í mér er að það fór ekki eins og ég hefði viljað að það færi. Mamma mín var í útlöndum með systkinum mínum hja ömmu minni en hún átti að vera með inni á fæðingardeildinni. Stelpan var skökk og ég festist í níu í útvíkkun og endaði í bráðakeisara. Ég þurfti að vera svæfð vegna blóðflögugalla hjá mér. Stelpan endaði inná vökudeild því hún átti erfitt með að anda og taka næringu. Hún blánaði þrisvar sinnum en ég sá það aldrei gerast. Maðurinn minn sá það hins vegar í eitt skipti. Við vorum inni á spítala í tíu daga og var hún á vökudeild í átta daga þar til hún fékk loksins að koma til okkar og vera með okkur í tvær nætur áður en við fengum að fara heim. Ég var undir eftirliti vegna hás blóðþrýstings og svo ég myndi ekki fá blóðtappa.“

Engin skömm að líða illa

Magnea er þakklát fyrir þann stuðning sem hún hefur fengið eftir að hún opnaði á sína vanlíðan.

„Þrjóskan í mér lokaði á allt og alla. Maðurinn minn stendur 100% við bakið á mér í dag og hefur gert seinustu mánuði. Mamma mín og tvíburasystir eru mér líka allt.“

Eins og áður segir opnar Magnea á sinn raunveruleika á Snapchat, en af hverju?

Magnea er dugleg að snappa um sinn raunveruleika.

„Að því að mér leiddist, mig langaði að sýna hvernig dagarnir væru hjá mér. Hvað ég borða. Hvernig það er að vera með stelpuna enn á brjósti þó hún sé að verða 2ja ára. Margir spyrja af hverju ég hætti ekki bara með hana á brjósti en það er ekki svo auðvelt, ekki eftir það sem ég upplifði fyrir og eftir meðgöngu. Mér fannst hún ekki vera mín fyrst en ég elska þessar stundir okkar. Lífið er ekki alltaf dans á rósum og ég nota stundum kassamerkið #enginglansmynd. En ég snappa líka um mat og hef gaman af því að elda og baka. Svo snappa ég líka mikið af stelpunni minni,“ segir Magnea.

Áður en ég sleppi henni verð ég að spyrja að því hvað hún vill segja við foreldra sem glíma við fæðingarþunglyndi.

„Það er engin skömm að líða illa, það er betra að tala um það hvernig manni líður en að halda því fyrir sig sjálfan. Sama hversu erfitt það er.“

Myndir / Úr einkasafni

Plöntur sem hreinsa andrúmsloftið

Grænar plöntur njóta mikilla vinsælda um þessar mundir, enda einstaklega sniðugar til að lífga upp á rými. En plöntur eru ekki aðeins augnayndi, heldur hafa margar hverjar góð áhrif á andrúmsloftið. Við tókum saman upplýsingar um nokkrar plöntur sem bæði gleðja augað og bæta loftgæði heimilisins.

 

 

Friðarlilja

Einstaklega falleg planta og auðveld í umönnun. Friðarliljan er samkvæmt NASA öflugasta plantan þegar litið er til hreinsunar andrúmsloftsins og aukins súrefnisflæðis innandyra. Við mælum með að minnsta kosti einni friðarlilju á hvert heimili.

 

 

 

 

 

Best á baðherbergið 

Bergfléttan hefur notið mikilla vinsælda á íslenskum heimilum undanfarið. Hún er sérlega

gagnleg inni á baðherbergi þar sem hún hreinsar meðal annars formeldanhýð og svífandi saurgerla úr loftinu.

 

 

 

Fíkus

Fíkusinn er þeim eiginleikum gæddur að hafa hljóðeinangrandi áhrif. Hann er því tilvalinn á skrifstofuna eða í önnur stór rými.

 

Indíánafjöður

Einstaklega auðveld í ummönnun og vilja sumir meina að Indíánafjöður sé ódrepandi planta. Hún hefur mjög jákvæð áhrif á loftgæði, en getur verið hættuleg sé hún innbyrt. Því skal varast að hafa hana í rýmum sem gæludýr eða ung börn hafa aðgang að.

 

Pálmi

Frábær leið til að jafna rakastig heimilisins eða skrifstofunnar. Pálma er hægt að fá í ýmsum stærðum og gerðum en allir eiga þeir það sameiginlegt að stuðla að auknu súrefnisflæði. Þeir krefjast heldur ekki mikillar umönnunar og eru því góður kostur fyrir þá sem hafa hug á að fjárfesta í sinni fyrstu plöntu.

 

 

 

Þessi grein birtist fyrst í 16.tölublaði Vikunnar

Alexander Rybak heillaði Eurovision-heiminn á fyrstu æfingu

Tónlistarmaðurinn Alexander Rybak keppir fyrir Noregs hönd í Eurovision í næstu viku með lagið That’s How You Write a Song. Margir muna kannski eftir því að Alexander rústaði keppninni árið 2009 með laginu Fairytale og þurfti Jóhanna okkar Guðrún að sætta sig við annað sætið með lagið Is It True?

Lítil spenna hefur verið fyrir þessu nýjasta útspili Alexanders og fór myndbandið við lagið, og raunar lagið sjálft, misvel ofan í Eurovision-spekinga. Því hefur Alexander ekki verið talinn líklegur til að blanda sér í toppbaráttuna, fyrr en eftir fyrstu æfingu sína í gær.

Er það mál manna að æfingin hafi gengið stórvel og eru aðdáendur og spekúlantar afar ánægðir með sviðssetningu norska atriðisins. Alexander mundar að sjálfsögðu fiðluna og með honum á sviðinu eru nokkrir hressir dansarar. Ekki skemmir fyrir að Norðmenn bjóða upp á smá gullregn, sem hefur aldrei þótt leiðinlegt í Eurovision.

„Nokkrir blaðamenn hafa nú þegar spáð honum sigri. Hann á allavega mikla möguleika á að gera það gott,“ skrifar William Lee Adams hjá Wiwibloggs eftir fyrstu æfinguna. Mandy Pettersen hjá aðdáendasíðunni ESC Norge tekur í sama streng.

Sjá einnig: Segja atriði Ara gamaldags

„Þetta er enn ferskara og flottara en í undankeppninni. Mjög gott rennsli hjá Noregi.“

Sjálfur segir Alexander vera hæstánægður með æfinguna í samtali við NRK, norska ríkissjónvarpið.

„Það er eins og ég hafi losnað við fjörutíu kíló af herðunum. Tilfinningin sem ég fékk þegar ég horfði á þetta er það sem ég lifi fyrir,“ segir hann og bætir við að það sé ekkert aðalatriði að komast áfram í úrslit, hann sé sáttur við þá vinnu sem hefur nú þegar farið í atriðið.

Sjá einnig: Golfkúlur, innkaupakerrur og stigar bannaðir á Eurovision

Eurovision-keppnin fer fram dagana 8., 10. og 12. maí næstkomandi. Alexander freistar gæfunnar í seinni undanriðlinum þann 10. maí og ef allt gengur að óskum kemst hann í úrslitin þann 12. maí.

Mynd / Thomas Hanses (Eurovision.tv)

Svona líta leikararnir í Handmaid’s Tale út í alvörunni

|||||||||
|||||||||

Fyrstu tveir þættirnir úr annarri seríu af The Handmaid’s Tale voru frumsýndir á Hulu og í Sjónvarpi Símans í síðustu viku, en beðið hefur verið eftir þessari seríu með mikilli eftirvæntingu eftir velgengni þeirrar fyrri.

Þættirnir eru byggðir á samnefndri skáldsögu eftir Margaret Atwood frá árinu 1985 og fjallar um örlög ambátta sem neyddar eru til að ganga með börn háttsettra hjóna einhvern tímann í framtíðinni.

Persónurnar í þáttunum eru einstaklega vel túlkaðar af hinum ýmsu leikurum, og eru gervin meistaralega vel unnin. Vefmiðillinn Cosmopolitan fer vel yfir það hvernig nokkrar af aðalpersónunum líta út í raun og veru, og er áhugavert að sjá það.

Offred/June (Elisabeth Moss)

Aunt Lydia (Ann Dowd)

Ofwarren/Janine (Madeline Brewer)

Ofglen/Ofsteven/Emily (Alexis Bledel)

Serena (Yvonne Strahovski)

Luke (O-T Fagbenle)

Ofrobert/Alma (Nina Kiri)

Sylvia (Clea DuVall)

Beth (Kristen Gutoskie)

Efnislitlar gallabuxur á 17 þúsund krónur

Bandaríska tískufyrirtækið Camar er búið að setja í sölu glænýja týpu af gallabuxum sem eru hugsanlega ekki fyrir alla.

Buxurnar eru afar efnislitlar og hanga bókstaflega saman á saumunum. Þær myndu því líklegast ekki vera mikið notaðar á norðlægum slóðum eins og Íslandi, en þessi efnispjatla sem kölluð er gallabuxur er seld á 168 dollara, eða rétt rúmlega sautján þúsund krónur.

Grín hefur verið gert að buxunum á samfélagsmiðlum eins og sést hér fyrir neðan:

En sem betur fer er Camar duglegt á Instagram og stingur uppá aðstæðum þar sem vel er hægt að nota buxurnar.

Til dæmis í tívolíi:

Nú, eða á ströndinni:

BRING IT ON ? #day2 #carmardenim #saturdaze

A post shared by CARMAR Denim (@carmardenim) on

Jafnvel í góðri gönguferð:

Desert heats got nothing on us ?? #carmardenim #day3 #slayallday

A post shared by CARMAR Denim (@carmardenim) on

Möguleikarnir eru endalausir!

Þú gætir grætt fúlgur fjár með því að veðja á Our Choice

Aðeins nokkrir dagar eru í að Eurovision-keppnin hefjist þar sem Evrópulönd og Ástralía keppa um hvaða lag og flytjandi er bestur.

Fyrri undanúrslitin eru þann 8. maí, þar sem Ari Ólafsson er meðal keppenda með lagið Our Choice, þau seinni þann 10. maí og úrslitin loks þann 12. maí.

Keppnin fer fram í Lissabon í Portúgal eftir að Portúgalinn Salvador Sobral kom, sá og sigraði í fyrra. Portúgal kemst því sjálfkrafa áfram í úrslitin ásamt stóru þjóðunum fimm sem greiða talsvert fé fyrir keppnina, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Spáni.

Veðbankinn William Hill heldur utan um líkurnar þegar kemur að Eurovision, eins og svo margir aðrir veðbankar, en samkvæmt tölum frá William Hill lítur út fyrir að hin ísraelska Netta Barzilai beri sigur úr býtum þann 12. maí. Önnur lönd sem eru sigurstrangleg samkvæmt líkum veðbankans eru Búlgaría, Frakkland, Ástralía og Eistland.

Það lítur alls ekki vel út fyrir gestgjafana Portúgala, en samkvæmt líkunum verður fulltrúi þeirra, Cláudia Pascoal, einhvers staðar fyrir miðju þegar að kosningu lýkur þarnæsta laugardagskvöld.

Við Íslendingar eigum ekki eftir að hrósa sigri, ef marka má líkur William Hill, en Ari Ólafsson er meðal sjö fulltrúa sem lenda í neðstu sætunum, og komast ekki upp úr undanriðlunum. Hin löndin sex sem sitja eftir á botninum eru Króatía, Slóvenía, Svartfjallaland, Rúmenía, San Marínó og Sviss.

Hér eru þau tíu lönd sem verða efst í Eurovision samkvæmt líkum William Hill þann 30. apríl:

1. Ísrael 6/4
2. Búlgaría 6/1
3. Frakkland 9/1
4. Ástralía 10/1
5. Eistland 12/1
6. Noregur 20/1
7. Svíþjóð 20/1
8. Belgía 25/1
9. Grikkland 33/1
10. Spánn 33/1

Þess má geta að öll lögin í seinni undanriðlinum eiga eftir að æfa í Lissabon þegar þessar tölur eru teknar saman, og því gæti þessi listi breyst mikið næstu daga. Flytjendur sem keppa í fyrri undanriðlinum luku fyrstu æfingu í gær.

Mynd / Eurovision.tv

Sjö ávanar para sem lifa frábæru kynlíf

||
Mynd úr myndabanka

Því er oft haldið fram að kynlífið sitji á hakanum í langtíma samböndum, enda þarf að vinna að því að halda neistanum lifandi í svefnherberginu.

Í grein á vefsíðunni Huffington Post tala kynlífsþerapistar um sjö ávana para sem hafa verið saman lengi en lifa enn mjög góðu kynlífi.

1. Þau leyfa sér að verða spennt saman, jafnvel þegar ekki á að stunda kynlíf

Stephen Snyder, kynlífsþerapisti í New York, segir að pör sem ná að halda neistanum lifandi lengi stríði oft hvort öðru á almannafæri þegar ekki er hægt að stunda kynlíf.

„Fyrir ástríðufyllstu pörin er kynlíf bara toppurinn á ísjakanum. Þau njóta þess að örva hvort annað, jafnvel þegar ekki er möguleiki að stunda kynlíf eða fá fullnægingu,“ segir Stephen.

2. Þau prufa nýja hluti á hverju ári

Pör sem kunna að halda hitastiginu háu í svefnherberginu eru sífellt að leita nýrra leiða til að stunda kynlíf og njóta hvors annars.

„Eitt par sem við unnum með sagði: Á hverju ári verðum við meira kinkí,“ segir Celeste Hirschman, kynlífsþerapisti. „Þú þarft að hafa vilja til að vera frumlegur til að kynlífið sé frábært til lengri tíma litið og festist ekki í viðjum vanans. Talið sóðalega. Prófið eitthvað nýtt. Gerið það sem þið þurfið til að halda kynlífi fersku og skemmtilegu og kynlífið þitt verður sjóðheitt löngu eftir að aðrir brenna út,“ bætir hún við.

3. Þau hugsa vel um sig

Pör sem lifa geggjuðu kynlífi skilja að gott sjálfstraust er hluti af því. Þess vegna passa þau vel uppá sig sjálf og rækta sig sjálf, jafnmikið og þau rækta sambandið.

„Stórkostlegt kynlíf snýst ekki bara um samband þitt við makann. Það snýst líka um samband þitt við þig sjálfan. Þú verður að hugsa um þig. Það getur þýtt að taka frá tíma fyrir dekur, að koma vel fram við líkamann, komast yfir skömm eða sektarkennd í svefnherberginu eða læra eitthvað nýtt, eins og hvernig á að láta fullnægingu endast lengur,“ segir Vanessa Marin, kynlífsþerapisti.

Það er svo mikilvægt að hlæja saman.

4. Þau hlæja í svefnherberginu en líka utan þess

Stundum gerast fyndnir hlutir þegar tveir líkamar slást saman í hita leiksins. Svo ekki sé minnst á öll fyndnu hljóðin sem fylgja kynlífi. Þess vegna er mikilvægt fyrir pör að geta hlegið saman, að sögn kynlífsþerapistans Kimberly Resnick Anderson.

„Húmor er frábært frygðarlyf. Hlæjið á meðan þið stundið kynlíf. Pör sem skilja streituna eftir á svefnherbergisþröskuldinum og njóta kynlífs sem athafnar sem er skemmtileg og tímabundinn flótti úr raunveruleikanum eru fullnægðari en þeir sem geta ekki skipt um gír og skilið streitu, reiði og óánægjuna í daglega lífinu eftir frammi.“

5. Þau fróa sér í kynlífi

Sálfræðingurinn og kynlífsþerapistinn Shannon Chavez segir að sjálfsfróun sé skemmtilegri þegar aðrir eru með. Þá er það frábært tækifæri fyrir makann að sjá hvernig best sé að fullnægja elskhuga sínum.

„Pör sem fróa sér saman, haldast saman,“ segir Shannon.

6. Þau kanna fantasíur hvors annars

„Pör sem hafa verið lengi saman og lifa æðislegu kynlífi vita að hver manneskja er með sjálfstætt, erótískt ímyndunarafl,“ segir fyrrnefnd Celeste Hirschman. Hún bætir við að þessi pör geri það sem þarf til að uppfylla fantasíur hvors annars og leggi mikið á sig til að gleðja elskhugann.

7. Þau kyssast og snertast yfir daginn til að sýna væntumþykju

Shannon Chavez segir það skipta miklu máli að pör sýni hvort öðru ást sína á öllum tímum sólarhringsins, hvort sem það er á sófanum yfir fréttunum eða yfir fyrsta kaffibollanum á morgnana. Innilegir kossar og snerting er mjög mikilvæg.

„Þegar þið snertið hvort annað eruð þið nánari og sýnið hvort öðru meiri ást. Þetta sýnir að þið viljið vera náin maka ykkar. Í stuttu máli er fólk sem snertir, heldur í hendur, kyssir, nuddar, strýkur og kjassar hvort annað án þess að búast við kynlífi rólegra, meira kynferðislega örvað og tengdara í sambandi.“

Oft getur lítill koss eða faðmlag gert kraftaverk.

Harry prins hættir í kolvetnum til að léttast fyrir brúðkaupið

Meghan og Harry

Rúmlega tvær vikur eru þar til Harry prins og leikkonan Meghan Markle játast hvort öðru í konunglegu brúðkaupi sem beðið er eftir. Herlegheitin fara fram 19. maí næstkomandi, og verða að sjálfsögðu í beinni útsendingu í sjónvarpi, og ef marka má frétt Daily Mail vill Harry vera í toppformi þegar hann kvænist Suits-stjörnunni.

Sjá einnig: Allt sem við vitum um konunglega brúðkaupið.

Samkvæmt fréttinni er Harry búinn að fjarlægja öll kolvetni úr mataræði sínu, fyrir utan kínóa, ávexti og grænmeti. Þá er hann líka búinn að draga úr kjötneyslu og drekkur safa reglulega til að passa línurnar.

„Þau eru búin að kaupa háklassa safavél og hún lætur hann drekka ávaxta- og grænmetissafa. Hún lætur hann líka draga úr kjötneyslu,“ segir heimildarmaður Daily Mail.

Harry hefur misst rúmlega þrjú kíló síðan hann breytti um mataræði, en Meghan hefur talað opinskátt um að hún treysti á kolvetnasnautt fæði til að halda sér í góðu formi.

Sjá einnig: Sendi giftingar- og trúlofunarhringana í pósti við skilnaðinn.

Vissulega hefur lágkolvetna mataræði þau áhrif að fólk léttist en margir næringarfræðingar mæla frekar með því að fólk borði rétt tegund af kolvetnum í litlu magni, frekar en að sneiða algjörlega framhjá þeim. Þá hafa safakúrar einnig verið þekktir fyrir að láta kílóin renna af fólki, en oft er þetta þyngdartap tengt við tapi á vöðvamassa en ekki fitu. Hins vegar mæla margir næringarfræðingar með því að sleppa vissum fæðutegundum í takmarkaðan tíma til að gefa líkamanum hvíld inná milli.

Glæsilegt og rómantískt einbýli í Þingholtunum

Í Þingholtunum, nánar tiltekið á Fjölnisvegi, stendur þetta glæsilega og rómantíska einbýlishús. Húsið er á þremur hæðum og hver hæð hefur sinn sjarma, en húsið er 290,7 fermetrar að stærð. Rýmið nýtist vel og skipulagið verður eins best verður á kosið.

Tvær stórar og glæsilegar samliggjandi stofur eru í húsinu sem gerir húsið afar skemmtilegt til að taka á móti gestum. Einnig er þar rúmgóð borðstofa sem laðar að. Hvíti liturinn er allsráðandi í húsinu, hurðar hvítar með gylltum hurðarhúnum og listar í loftum sem gera mikið fyrir rýmið. Í elhúsinu er sérsmíðuð, stílhrein, sprautulökkuð innrétting sem kemur vel út með svörtum borðplötum.

Stórfenglegt útsýni

Húsið hýsir fjögur rúmgóð herbergi sem njóta sín vel. Parketlagður stigapallur er í húsinu og þaðan er hægt að ganga út á svalir sem bjóða upp á stórfenglegt útsýni yfir borgina. Hvað er rómantískara en að vakna á fallegum sumarmorgni og horfa yfir Þingholti þar sem þau skarta sínu fegursta, þannig er tilfinning þegar staðið er úti á svölunum á Fjölnisveginum. Einnig er geymsluris yfir rishæð og kemur sér ákaflega vel.

Lóð til suðurs

Aðkoman og aðstaðan við eignina er til fyrirmyndar, hiti er í innkeyrslu og stéttum og einnig er yfirbyggt bílaport sem er mikill kostur. Húsið að utan var viðgert og málað árið 2014. Húsinu fylgir stór ræktuð lóð sem snýr í suður þar sem sólarinnar nýtir og er tilvalin fyrir garðveislur og gleði. Lóðin er um 631,9 fermeter að stærð með trjágróðri. Einnig fylgir eigninni tvöfaldur bílskúr sem er um 39,6 fermetrar að stærð., þar er sá möguleiki fyrir hendi að gera stúdíóíbúð.

Þetta glæsilega og rómantíska einbýli í Þingholtunum er til sölu hjá fasteignasölunni Fasteignamarkaðinum. Það er ekki á hverjum degi að sem að eign sem þessi er í boði í hjarta miðborgarinnar.

Fjölbreytt og mikið úrval náttúrulegra Aloe vera hágæða vara hjá Alvogen

Náttúrulegar munnhirðu- , húð- og bætiefnavörur sem innihalda Aloe vera í hágæðaflokki. Aloe vera-plantan er græðandi, róandi, bólgueyðandi, sótthreinsandi og næringarrík.

Vörurnar koma frá fyrirtækinu Optima sem er þekkt fyrir heilsuvörur og nýtingu gæðaefna frá náttúrulegum innihaldsefnum. Allar Aloe vera vörurnar eru með gæðastimpla og vottaðar af IASC fyrir gæði (The Internati­onal Aloe Science Council) fyrir gæði í framleiðslu á Aloe vera hráefninu.

Aloe Vera gel.

Meðal þeirra vara sem í boði eru:

Aloe Vera gel mýkir
og endurnýjar

Mýkir hjálpar til við að endurnýja þurra og -skemmda húð. Hentar vel til að bera á húðslit, ör, þurra, skorpnaða eða brennda húð.

Gelið er úr 100% lífrænu Aloe vera, inniheld-ur ekki SLS (Sodium Lauryl Sulfate), lanolin eða paraben og er ekki prófað á dýrum. Framleitt úr hreinu Aloe vera hlaupi og í því næst hámarks-næringarvirkni Aloe vera. Aloe vera hlaupið sem er notað í Aloe vera gelið er með alþjóð-legan stimpili frá „The Aloe Science Council“ fyrir gæði og hreinleika.

_____________________________________________________________

Aloe Vera hrásafi inniheldur yfir 75 tegundir næringarefna

Aloe Vera hrásafi.

Hrásafi sem er 99,9% hreinn úr Aloe vera
plöntunni.

Aloe vera er án efa einn fullkomnasti næringar-drykkur náttúrunnar. Aloe vera safinn inni-heldur yfir 75 tegundir næring–arefna: vítamín, steinefni, amínósýrur, ensím og jafnvel B-12- vítamín sem sjaldan finnst í jurtum.

Með djúsnum fylgir 25 ml glas, 1-2 glös af hrein-um Aloe vera safa á dag getur haft marga kosti fyrir heilsuna eins og að:

  • Hjálpa til við ýmsar meltingatruflanir.
  • Hjálpa til við að styrkja ónæmiskerfið með
    andoxunarefnum.
  • Hafa bólgueyðandi eiginleika sem getur hjálpað til við magaverki.
  • Hjálpa til við að detoxa líkamann, stuðla að góðri heilsu og auka venjulegar -þarma-hreyfingar.
  • Hjálpa til að viðhalda heilbrigðum
    meltingarvegi.

_____________________________________________________________

Sensitive Aloe Vera tannkrem fyrir vegan lífsstíl.

Sensitive Aloe Vera tannkrem

fyrir vegan lífsstíl

Hágæða tannkrem sem er milt, náttúrulegt og hentar fólki sem kýs vegan lífsstíl. Varan er ekki prófuð á dýrum, inniheldur ekki SLS
(Sodium Lauryl Sulfate) og engin gerviefni (litarefni og bragðefni). Ásamt þessu hafa neyt-endur þann valkost að geta valið tannkremið með eða án flúors.

Tannkremið er fullt af náttúrulegum innihaldsefnum svo sem tea tree-olíu
sem hjálpar til við að berjast gegn bakter-íum, silica sem er náttúrulegt
steinefni og not–að til að koma í veg fyrir tannskemmdir.

_____________________________________________________________

Aloe Vera Gentle Action-töflur
– fyrir meltingartruflanir.

Aloe Vera Gentle Action-töflur
– fyrir meltingartruflanir

Skammtímalausn á hægðatregðu og meltingartruflunum.

Töflurnar eru úr 95% ekta lífrænu Aloe vera sem náttúru-lega inniheldur vítamín, steinefni, ensím, amínósýrur og fjölsykrur. Aukalega er bætt við magnesíum, rabba-bara, lakk-rís og anís sem eru þekkt náttúruleg innihaldsefni sem hafa ýmsa kosti fyrir melt-inguna og einnig vingjarnlegu bakteríuna Lactobacillus acidophilus sem hefur jákvæða eiginleika á magaflóruna.

Mælt er með 2 töflum á dag fyrir neytendur með meltingartruflanir:

  • Hjálpar við ýmsar meltingatruflanir.
  • Hefur bólgueyðandi eiginleika sem getur hjálpað við
    verkjum í maga.
  • Góður valkostur fyrir fólk sem vill prófa náttúruleg innihaldsefni.

_____________________________________________________________

Aloe Vera Charcoal tannkrem
– tann­hvíttandi og án flúoríð.

Aloe Vera Charcoal tannkrem
– tann­hvíttandi og án flúoríð

Djúphreinsandi, tannhvíttandi og náttúrulegt tannkrem án flúoríð.

Tannkrem með einstökum viðarkolum (Charcoal) og -íslenskum fjalla-grösum. Þau hafa þann einstaka eiginleika að djúphreinsa og losa óhreinindi. Tannkremið er svart á lit og freyðir vel við notkun, rispar
ekki tennur né eyðir gler-ungnum.

Varan er ekki prófuð á dýrum, inniheldur ekki SLS (Sodium Lauryl Sulfate) og engin gerviefni (litarefni og bragðefni).

Inniheldur aðeins náttúruleg inni-haldsefni: Aloe Vera, Charcoal, Tea tree olíu, Silica, Íslensk fjallagrös, Escin, Menthol, Steviu, Xylitos og Sorbitol.

Fæst í öllum helstu
apótekum og heilsuhúsum.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Alvogen.
Myndir / úr einkasafni Alvogen

 

Fólk flýr vegna innbrota

|||
|||

Innbrotahrina erlendra glæpagengja stöðvuð. Þýfið var flutt úr landi eða hent. Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir dæmi um að fólki hafi liðið illa á heimilum sínum eftir innbrot og flutt.

Innbrotsþjófur náðist á mynd í húsi einu á höfuðborgarsvæðinu þegar innbrotahrinan stóð sem hæst. Innbrotið náðist á upptöku öryggismyndavélar og gerði húseigandi myndina opinbera. Töluverð umræða skapaðist um málið. Skúli segir þjófinn hafa verið hluta af erlenda innbrotsgenginu sem lögreglan handtók.

„Við náðum að stöðva þá sem stóðu að stórum hluta þessara innbrota. Þetta voru sjö einstaklingar frá Austur-Evrópu og einn sem hafði verið búsettur hér lengi og var með íslenskt ríkisfang. Einn var 16 ára og hefur verið sendur til síns heima en aðrir hafa verið úrskurðaðir í farbann, gæsluvarðhald og bíða ákæru,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er búið,við sjáum ekki þessa hópa lengur.“

Skúli segir lögreglu hafa tekist að endurheimta hluta af þýfi við húsleitir og handtökur. Ljóst sé að þjófarnir hafi flutt eitthvað úr landi og selt hluta þess. Það sem þjófarnir töldu ekki fást mikið fyrir hentu þeir. Tilfinningalega tjónið er mest, að mati Skúla. „Það eru dæmi um að fólk hafi ekki getað búið í húsum sínum lengur, selt það og flutt.“

„Það eru dæmi um að fólk hafi ekki getað búið í húsum sínum lengur, selt það og flutt.“

Innbrotahrina gekk yfir höfuðborgarsvæðið fyrir jól og inn í árið. Helst var brotist inn á heimili fólks, sérstaklega fjölgaði innbrotum í sérbýli í Garðbæ, Kópavogi, Grafarvogi og Mosfellsbæ. Skúli segir lögregluna hafa greint af aðferðunum að herjað var skipulega á ákveðin hverfi. Aðferðirnar við innbrotin og verksummerki voru svipuð. Farið var inn bakatil hjá fólki þegar enginn var heima yfir hábjartan dag. Farið var inn í svefnherbergi og stolið skartgripum, peningum og minni raftækjum.

Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu

„Verksummerki sýndu greinilega að fleiri en einn var á ferðinni. Okkur grunaði strax að um væri að ræða erlenda brotamenn því við vorum með myndir af brotamönnum sem enginn okkar kannaðist við. Þýfi var heldur ekki að ganga kaupum og sölum. Við fundum reyndar þýfi hjá skartgripasala sem hafði keypt það í góðri trú,“ segir Skúli.

Ábendingar leiddu til handtöku
Slíkur var faraldurinn að lögreglan bað fólk að vera á varðbergi og fylgjast með mannaferðum. Árangurinn var góður og bárust lögreglunni ábendingar sem leiddu til þess að þjófagengið var handtekið í tveimur umfangsmiklum aðgerðum í Setbergshverfinu í Hafnarfirði og í Garðabæ. Átta til níu lögreglubílar voru notaðir við aðra handtökuna. Þýfi fannst á vettvangi auk muna sem stolið var úr sumarbústöðum á Vesturlandi og því ljóst að þjófarnir voru sökudólgarnir í innbrotum þar.

„Ég var mjög ánægður með það hvernig lögreglan stóð sig við handtökurnar. Þessir einstaklingar áttu enga möguleika á því að komast burt og voru handteknir á hlaupum,“ segir Skúli. Þegar þjófarnir voru handteknir voru tilkynningar um innbrot í sérbýli, einbýlishús og ráðhús, orðnar 70 talsins.

En hvernig á að komast hjá því að kaupa þýfi?

„Yfirleitt er það þannig að fólki er að bjóðast verðmætir hlutir á ótrúlega lágu verði. Þegar þannig háttar til þá á fólk að vera á varðbergi, gæti verið um þýfi að ræða. Fólk má ætla að um sé að ræða þýfi,“ segir Skúl aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Hér má sjá þróun innbrota í fyrirtæki/verslanir/stofnanir og heimili. Eins og myndin sýnir þá fjölgaði innbrotum talsvert á þessu ári. En hrinunni lauk snarlega þar sem grafið fer niður. Innbrot hafa verið á svipuðu róli síðustu árin og hefur lögreglan séð það verra, svo sem á árunum eftir hrun.

 

Ungliðapúki í Hveragerði

Stjórn framboðsins Okkar Hveragerði er ekki beint í skýjunum eftir að ungir sjálfstæðismenn í bænum keyptu lén framboðsins í lok mars.

Okkar Hveragerði er nýr listi skipaður fólki úr Samfylkingunni, Bjartri framtíð og óháðra sem ætlar fram í sveitarstjórnarkosningunum í lok mánaðar. Frambjóðendurnir stofnuðu Facebook-síðu Okkar Hveragerði 28. mars síðastliðinn. Daginn eftir tryggði stjórn Asks, félags ungra sjálfstæðismanna í Hveragerði sér hins vegar  lénið www.okkarhveragerdi.is og vísaði allri umferð þaðan yfir á vefsíðu Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði.

„Það kom okkur mjög spánskt fyrir sjónir að lénið væri virkilega laust á þessum tímapunkti og kom þá upp í einhverjum félagsmönnum örlítill ungliðapúki sem vildi setja fútt í kosningabaráttuna,“ segir Laufey Sif Lárusdóttir, formaður Asks. Hún bendir á að Askur og fleiri í Hveragerði hafi notað slagorð nýja framboðsins í sínu starfi í gegnum tíðina.

Laufey bendir líka á að undarlegt sé að stjórn framboðsins Okkar Hveragerði hafi ekki tryggt sér lénið fyrr. ,,Í nútímasamfélagi er þetta eitt af því fyrsta sem maður gerir við stofnun fyrirtækis eða pólitísku framboði. Þú finnur nafn og kannar hvort lénið sé laust. Ef maður gerir það ekki þá gerir einhver annar það,“ segir hún.

Spurð hvort stjórn framboðsins Okkar Hveragerði hafi haft samband við stjórn Asks til að þess að fá lénið segir hún svo ekki vera.

Aðalmynd: Laufey Sif Lárusdóttir segir fútt komið í kosningabaráttuna í Hveragerði.

 

Karlmenn mega allt – en samt mjög fátt

|||||
|||||

Trans mennirnir Alexander Björn Gunnarsson og Davíð Illugi Hjörleifsson Figved fengu úthlutað kvenkyni við fæðingu en létu leiðrétta kyn sitt og lifa nú loksins sem þeir sjálfir. Þeir segja mikinn mun á kröfum sem samfélagið gerir til kynjanna. Konur eigi að vera stilltar en karlmenn megi hafa hátt.

„Konur eiga að vera settlegar og ekki láta mikið fyrir sér fara. Ég er þannig frá náttúrunnar hendi en nú er meiri pressa á mig að vera sýnilegri og taka meira pláss. Ég upplifi það mjög sterkt að það voru gerðar miklu meiri kröfur til mín, áður en ég kom út sem strákur, að haga mér vel, standa mig vel og vera 110% fullkominn. Í dag er ég yfirleitt lesinn sem karlmaður og þá er mér alveg fyrirgefið ef ég geri mistök, því allir geri mistök. En ef maður er stelpa þá gera ekki allir mistök,“ segir Alexander. Alexander verður þrítugur í sumar og var mjög opinskár í fjölmiðlum um sitt kynleiðréttingarferli. Hann bloggaði til að mynda um typpið á sér á sínum tíma og hefur lagt sín lóð á vogarskálar þess að opna umræðu um transfólk.

Alexander Björn.

„Maður á bara að þegja og ekki vera fyrir,“ segir sessunautur Alexanders, Davíð Illugi eða Illugi eins og hann er oftast kallaður. Illugi er áratug yngri en Alexander en hann hefur verið búsettur í Noregi í um átta ár. Hann hefur spilað tölvuleiki um árabil og finnur vel fyrir kynjamisrétti og -mun í þeim heimi.

„Þegar að fólk leit á mig sem stelpu og ég skaut manneskju í byssuleik þá varð allt kreisí af fögnuði því fólk bjóst ekki við neinu af stelpu. En ef ég skýt fáa í byssuleik núna verð ég bara skammaður og dissaður, það þykir ekki nógu gott. Í tölvuleikjaheiminum eru karlmenn sem spila tölvuleiki kallaðir gamers, en konur heita gamer girls. Það var alltaf verið að adda mér þegar var litið á mig sem stelpu og alltaf verið að tala um útlitið mitt en ég fann að ég var ekki einn af hópnum. Strákarnir voru ekkert að spá í taktíkinni minni í leiknum og buðu mér í alls kyns teymi bara af því að ég var stelpa. Svo var mikið talað um kynlíf og ég spurður oft hvort ég ætti kærasta,“ segir Illugi, en Alexander fann ekki mikið fyrir kynferðislegri áreitni þegar hann lifði lífinu sem kona

„Ég kom út sem lesbía þegar ég var 16 ára og hef alltaf verið á karlmannlegri hlið, útlitslega séð. Karlmenn töluðu aldrei mikið um útlitið mitt en fann ég meira fyrir því að þeir komu til mín og sýndu mér gellur. En ég hef séð svo mörg dæmi um kynferðislega áreitni í kringum mig og það er fáránlegt að karlmenn leyfi sér svona hluti,“ segir Alexander.

„Já, eins og áreiti á vinnustað,“ skýtur Illugi inn í. „Það að þú þurfir að umbera að karlmaður sem er yfirmaður þinn sé að káfa á þér á vinnustað þar sem þú þarft að vera á hverjum degi er hræðilegt. Það er mjög algengt og konur bara taka því. Ég hef oft orðið vitni að slíku og stundum langar mig að fara til kvenna og segja þeim að standa upp fyrir sér sjálfum.“

Og Alexander bætir við: „Ég held að konur upplifi sig oft vanmáttugar og varnarlausar gagnvart karlmönnum.“ Illugi segir að það tengist uppeldinu.

„Þær eru bara aldar upp þannig. Karlmenn mega vera eins og þeir eru. Þeir mega vera háværir og haga sér eins og fífl. Ég er rosalega oft fúll yfir því að vera karl. Stundum þoli ég það ekki en svo er ég líka mjög glaður að hafa geta upplifað þá hlið að vera kvenmaður. Það gerir mig að betri manneskju. Pældu í því ef ég hefði byrjað að skilgreina mig sem karlmann þegar ég var fjögurra ára og hefði verið alinn upp sem karlmaður. Ég hefði orðið allt önnur manneskja en ég er núna. Ég er ánægður að hafa upplifað hlið kvenmanna svo ég sé ekki þessi manneskja sem maður er alltaf að forðast,“ segir hann og Alexander slær á létta strengi. „Já, það hjálpar mér mikið í samskiptum við aðrar stelpur og kærustuna mína. Bara það að vita hvernig það er að vera með túrverki. Ég held að það myndi hjálpa rosalega í mörgum samböndum,“ segir hann og hlær.

„Það er jákvætt að vita um líkamlegu hlutina en líka þá samfélagslegu,“ bætir Illugi við.

Hluti af karlmennsku er að vera með mótþróa

Davíð Illugi.

Okkur er tíðrætt um þessi rótgrónu, samfélagslegu gildi að karlmenn megi allt og hafi leyfi til að taka mikið pláss. Fyrir stuttu spratt upp bylgja í kjölfar #metoo sem gekk um samfélagsmiðla undir kassamerkinu #karlmennskan. Það átak reis ekki nærri því jafnhátt og forveri þess, og á mikið inni, en þá kom í ljós að karlmönnum leyfist alls ekki allt, eitthvað sem hugtakið eitruð karlmennska nær mjög vel utan um.

„Karlmenn mega margt en það er samt mjög þröngt skilgreint hvað þeir mega. Við megum til dæmis ekki vera í kjólum. Það virðist að við megum gera það sem við viljum á hlut kvenna en ekki á hlut annarra karla,“ segir Alexander.

„Hluti af karlmennskunni er að vera með mótþróa. Ef það er verið að biðja karlmenn um að opna sig þá skilja þeir ekki að þeir geti það og vilja það ekki. Þeir hafa verið aldir upp svo lengi við það að þeir megi ekki opna sig og tala um tilfinningar. Þetta hefur með uppeldi og kynjahlutverk að gera,“ segir Illugi og Alexander er sama sinnis.

„Þetta á eftir að taka mjög langan tíma. Margir karlmenn eru aldir upp við það að gráta ekki, verða ekki veikir, sýna ekki tilfinningar. Sem betur fer virðast bara eldri kynslóðirnar vera enn í þeim pakka. Mér finnst þetta vera hægt og rólega að breytast með yngri kynslóðina. Strákar sem til dæmis vilja vera með naglalakk mega það þótt það sé „stelpulegt“. Við erum í millibilsástandi núna þar sem gamlar hefðir og yngri kynslóðin, með ný gildi og venjur, mætast.“

Illugi bætir því við að karlmönnum þyki auðveldara að opna sig fyrir honum, því þeir halda að hann sé hommi, og þá sérstaklega á skemmtistöðum eftir nokkra drykki. „Gagnkynhneigðir, sískynja karlmenn koma oft til mín og byrja að tala um tilfinningar. Þeim líður eins og það sé meira viðurkennt frá manneskju eins og mér sem er ekki gagnkynhneigður, sískynja karlmaður,“ segir Illugi.

„Ókei, ég lendi aldrei í því,“ segir Alexander.
„Ég lendi oft í því en ég djamma mjög mikið,“ segir Illugi og brosir.
„Ég djamma aldrei,“ segir Alexander og glottir.

„Það koma menn til mín á djamminu og opna sig. Sumir hafa kannski aldrei talað um tilfinningar en það er viss þjálfun að gera það. Ég gat það ekki áður en nú er ég rosalega opin manneskja. Karlmenn hafa almennt mjög sjaldan þá þjálfun,“ segir Illugi og bætir við að talað sé niðrandi um karlmenn sem tali um tilfinningar, sem hjálpi alls ekki.

„Þú ert hommi ef þú talar um tilfinningar. Þú ert stelpa, í niðrandi meiningu. Það er mesta óvirðing gagnvart karlmennsku að líkja henni við eitthvað kvenlegt. Karlmennska er svo mikilvæg hjá karlmönnum en í flestum tilvikum er hún það því þeim finnst að hún eigi að vera mikilvæg.“

Alexander skýtur inn í að það sé mikilvægt að útrýma þessari niðrandi orðræðu, bæði fyrir konur og karlmenn. „Þessi orðræða um að eitthvað sé kerlingarlegt, að einhver slái eins og stelpa, að einhver sé hommalegur, hefur svo slæm áhrif á sjálfsmyndina hjá konum, stelpum, hommum og börnum. Það hefur mjög sterk áhrif að tala um það sem þú ert í niðrandi tilgangi. Það er bara hreint út sagt hræðilegt.“

Vilja ekki vera ógnandi karlmenn

Alexander og Illugi hafa að sjálfsögðu ekki farið varhluta af #metoo þar sem athygli var beint að kynferðislegri áreitni og ofbeldi gagnvart konum. Þeir fagna þessu átaki, eins og öðrum þar á undan, en segja að á sama tíma skapi þetta ákveðinn vanda fyrir karla.

Alexander og Illugi segja mikinn mun á því hvaða kröfur séu gerðar til kynjanna.

„Það er óþægilegt fyrir konur ef karlmaður gengur á eftir þeim í myrkri. En það er líka óþægilegt fyrir okkur sem karlmenn að hafa áhyggjur af því að konunni líði illa. Ég vil ekki að fólk sé hrætt við mig. En ég skil að fólk vilji hafa varann á. Það eru konur sem er ráðist á í myrkri og það eru karlmenn sem gera það,“ segir Alexander.

„Mér fannst óþægilegt að ganga í myrkri þegar það var horft á mig sem kvenmann og ég var skíthræddur. Núna er ég það ekki. Sem manneskja sem hefur upplifað að vera kona, en er nú maður, þá er ég alltaf að passa mig á að vera ekki þessi ógnandi manneskja sem lætur konum líða svona,“ segir Illugi.

„En þessar bylgjur, eins og #metoo, mega ekki deyja. Við þurfum að halda áfram að ýta undir þær og ekki leyfa þeim að deyja út,“ segir Alexander og Illugi er því hjartanlega sammála.

„Það að barátta verði svona hávær finnst mér æðislegt. Við erum ekki komin mjög langt í kynjajafnrétti þó að við viljum trúa því. Þegar svona byltingar fæðast þá verður fólk háværara og fólk meðtekur eitthvað smávegis af því sem baráttufólkið segir. Svo kemur önnur barátta og fólk meðtekur örlítið meira og svo framvegis. En þá má ekki hætta. Við verðum að vera hávær.“

Óþægilegt að brosa og vinka til barna

Þeir Alexander og Illugi eru báðir miklar barnagælur en finna sterkt fyrir því að litið sé öðruvísi á þeirra samskipti við börn eftir að fólk byrjaði að upplifa þá sem karlmenn.

„Ég er með eina neikvæða sögu í kollinum,“ segir Alexander djúpt hugsi. „Ég var að koma úr ræktinni og var að bíða eftir strætó. Þá kom hópur af leikskólakrökkum og einn strákur vinkaði mér. Ég brosti og vinkaði en þá kom leikskólakennari og stóð á milli okkar. Ég fann fyrir því að þetta mætti ekki og að samstundis kviknaði grunur um að ég væri barnaperri,“ segir hann og Illugi, sem vinnur á leikskóla, kinkar kolli.

„Ég elska börn. Ef fólk spurði mig hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór sagði ég alltaf pabbi. Fólk hélt að ég væri að meina að mig langaði að vera eins og pabbi minn en mig langaði bara að vera faðir. Ég brosi alltaf til barna þegar ég sé þau og nú finn ég svo sterklega fyrir því að ég held því inni því ég vil ekki að einhver haldi að ég sé barnaperri. Það er mjög skrýtið, því áður var það ekki þannig,“ segir Illugi og vísar í tímann áður en hann lét leiðrétta kyn sitt.

„Það hefur vissulega neikvæðar hliðar að vera karlmaður og vinna á leikskóla. Ef barn myndi segja eitthvað sem myndi hljóma eins og ég hefði gert eitthvað rangt þá væri tekið öðruvísi á því en ef um konu væri að ræða,“ segir Illugi.

„Það væri tekið alvarlegra á því,“ segir Alexander. „Og ég skil alveg af hverju.“

Þurfti að vera karlmannlegasti karlinn á svæði

Alexander hefur ætíð verið mjög opinn með sitt kynleiðréttingarferli og vakti bloggið hans um ferlið, phalloiniceland.tumblr.com, mikla athygli.

Vegferðir Alexanders og Illuga að því að gera sér ljóst að þeir væru í raun karlmenn, þó að þeir hefðu fengið úthlutað kvenkyni við fæðingu, voru mjög ólíkar.

„Ég vissi ekki að það væru til trans gaurar þannig að ég kom fyrst út sem lessa,“ segir Illugi. „Ég vildi vera mjög karlmannlegur og var mjög upptekinn af því. Ég til dæmis elska söngleiki en hefði aldrei nefnt það á þessu tímabili. Skilurðu mig?“ spyr hann Alexander sem brosir kankvíslega.
„Upp að vissu marki. En ég var alltaf mjög opinn með það að ég elska söngleiki,“ segir Alexander og hlær.

„Það er samt ímynd sem fólk hefur um að karlmenn eigi ekki að elska söngleiki. Eða ballet. Ég elska ballet. Og á þessu tímabili þegar ég var mjög upptekinn af því að vera karlmannlegur, eða stereótýpan af karlmennsku. Ég byrjaði að vera háværari, því karlmenn mega vera háværari en konur, tala djúpri röddu og hnykkla vöðvana í speglinum. Þangað til ég byrjaði á hormónum. Þá byrjaði mér að vera skítsama um karlmennsku,“ segir Illugi og Alexander skýtur inn í að vissulega hafi hann upplifað slíkt tímabil þar sem hann í raun aðhylltist einhvers konar ofurkarlmennsku, þótt það hafi verið mun styttra tímabil en hjá Illuga.

„Ég hafði ekki alveg jafnmiklar áhyggjur af þessu en það tengist örugglega því að ég upplifði mig ekki alltaf sem strák. Ég upplifði mig sem stelpu en síðan breyttist það yfir í að ég upplifði mig sem strák. Það er frekar lýsandi fyrir það hve flæðandi kynvitund getur verið. Í um það bil ár upplifði ég að ég þyrfti að vera karlmannlegasti karlmaðurinn á svæðinu og mátti til dæmis ekki horfa á bleikan lit og því um líkt.“

Laminn fyrir að vera trans maður

Við stöldrum aðeins við þá staðreynd að þeir báðir séu trans menn, en trans menn hafa verið minna áberandi í samfélaginu en trans konur síðustu ár. Af hverju halda þeir að svo sé?

„Á meðan það er svona mikil trans fóbía í samfélaginu þá er líklegt að þeir sem geta falið sig geri það. Það er engin ástæða fyrir okkur að koma í viðtöl og segjast vera trans menn, nema sú staðreynd að við viljum vera sýnilegri og við viljum opna umræðuna,“ segir Alexander.

Illugi hefur fundið fyrir fordómum gegn trans fólki á eigin skinni, í bókstaflegri merkingu. „Ég hef verið laminn fyrir að vera trans, með hnúajárni. Ég lenti á spítala. Það er brútal,“ segir hann og það tekur greinilega mikið á hann að rifja það upp. „Fólk heldur að við séum komin langt, sem er rétt. Við erum komin langt í hinsegin baráttunni. Samt er mikið sem þarf enn að vinna í. Samkvæmt regnbogakortinu þar sem farið er yfir hve langt lönd eru komin í réttindum hinsegin fólks í lagalegum skilningi, stöndum við mjög illa. Það eru til dæmis engin lög sem banna það að hinsegin manneskja sé rekin úr starfi út af því að hún er hinsegin,“ segir hann og bætir við að fordómarnir birtist í ýmsum myndum.

„Ég er ekki laminn á hverjum einasta degi en það hefur gerst og ekki bara einu sinni. Svo eru þessi litlu atriði endalaust. Fólk heldur að það megi spyrja mig um allt sem tengist minni kynhneigð, og jafnvel kynlífi. Þannig að ég þarf alltaf að vera búinn undir að fá alls kyns spurningar um það.“

Sjö milljarðar og eitthvert kyn

Þeir Alexander og Illugi eru reyndar báðir sammála um að það sé ekki hægt að skipta heiminum í tvær fylkingar út frá kyni.

„Fyrir kynþroska eru allir eins, fyrir utan kynfærin. Hins vegar tengist allt einhverju kyni í samfélaginu. Og ef það tengist ekki kyni þá tengist það kynfærunum þínum. Kyn er hins vegar svo persónubundið. Þú ert bara þitt kyn. Ég vil meina að það séu til jafnmörg kyn og það eru manneskjurnar eru í heiminum. Það er enginn annar með þín sérkenni,“ segir Illugi.

Illugi er búsettur í Noregi og er mjög virkur innan tölvuleikjasamfélagsins. Hann hefur verið laminn fyrir að vera trans og segir mikla fordóma í samfélaginu í garð trans fólks.

„Það eru til sjö milljarðar og alls konar kyn. Hver er sitt eigið kyn. Við erum til dæmis báðir trans gaurar, en erum ekki á nokkurn hátt eins. Heilinn okkar vill svo mikið flokka í hlutum. Því færri flokka sem þú ert með, því þægilegra er það fyrir heilann. Þannig að ef þú getur flokkað allan heiminn í tvo flokka þá er það mjög einfalt. En hvernig er hægt að setja rúmlega sjö milljarða manna í tvo kassa? Við flokkum til dæmis ávexti í einn flokk en bananar og epli eru samt ekki eins. Ég vil meina að þessir tveir flokkar kynja séu yfirflokkar og síðan séu margir undirflokkar, skörun og alls konar,“ segir Alexander.

Þolir ekki karlmennsku

Það myndi taka okkur marga daga að ná utan um hugtakið karlmennska, birtingarmyndir karlmennskunnar og hvað sé til ráða til að útrýma eitraðri karlmennsku. En áður en ég kveð þá Illuga og Alexander verð ég að spyrja hvaða merkingu þeir leggi í sína eigin karlmennsku í dag.

„Ég reyni að vera rosalega góður pabbi,“ segir Alexander en hann á átta mánaða stúlku með unnustu sinni. „Það vill svo skemmtilega til að mér finnst gaman að fara í ræktina og lyfta þungum lóðum. Svo finnst mér gaman að þrífa, baka og elda,“ segir hann og Illugi tekur við.

„Núna get ég sagt að ég þoli ekki karlmennsku. Ég vil ekki vera þessi karlmaður sem öðrum finnst ógnandi. Ég er skíthræddur við eitraða karlmennsku. Ég leik mér að því að vera ekki karlmannlegi karlinn í kringum karlmenn. Ég tala oft um eitthvað sem karlmenn myndu aldrei tala um til að sjá viðbrögðin frá öðrum karlmönnum. Meðan karlmennskan er enn eitruð þá verður mér illa við hana.“

Hvað er eitruð karlmennska?

Hugtakið eitruð karlmennska er notað í sál- og kynjafræði og vísar til vissra viðmiða karlmannlegrar hegðunar í Norður-Ameríku og Evrópu, sem tengjast samfélagsskaða og þeim skaða sem karlmenn sjálfir verða fyrir. Hefðbundnar staðalímyndir karlmanna sem æðri vera sem og kvenhatur og hinseginfælni geta verið álitnar sem eitraðar sökum þess að þær ala á ofbeldi, þar með talið kynferðislegu ofbeldi og heimilisofbeldi.

Aðrir eiginleikar sem fylgja þessum staðalímyndum eru að karlmenn séu tilfinningalega lokaðir, en tengsl eru á milli þess og sálfræðilegra vandamála karlmanna, streitu og misnotkun á ávanabindandi efnum. Aðrir eitraðir eiginleikar eru mikil vinnusemi karlmanna og að þeir þurfi að sjá fyrir fjölskyldunni. Þessari eitruðu karlmennsku hefur oft verið kennt um að ofbeldi meðal karlmanna er talið eðlilegt. Stundum hefur því verið fleygt fram að eitruð karlmennska sé leið feðraveldisins til að skaða karlmenn.

Úr orðabókinni Hinsegin frá Ö til A

Að vera sís/sískynja
Sís er lýsingarorð og forskeyti sem er notað um fólk sem upplifir sig á þann hátt að það tilheyri því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Sís kona er til dæmis kona sem var úthlutað kyninu „stelpa“ við fæðingu og er sátt við það. Orðinu er oft stillt upp sem andheiti við orðið trans.

Að vera trans
Trans er regnhlífarheiti yfir fólk sem er með kynvitund sem samræmist ekki því kyni sem því var úthlutað við fæðingu.

Kynvitund
Kynvitund segir til um hvernig fólk vill lifa og vera í sínu kyni. Kynvitund vísar ekki til kynfæra, líffræði eða útlits heldur upplifunar fólks af eigin kyni. Allir hafa kynvitund því allir upplifa kyn sitt á einhvern hátt.

Kynhneigð
Kynhneigð segir til um hverjum fólk getur laðast að, orðið skotið í eða ástfangið af.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Sjö manna fjölskylda flúði stressið og flakkaði um Spán

||||||
||||||

„Við sem foreldrar berum ábyrgð á menntun barnanna og það er það sem ég vil gera með því að ferðast með þau um heiminn, og auðvitað allt Ísland, og kenna þeim í gegnum lífið, ekki í gegnum bækur, tölvur og fyrirlestra, mötun á námsefni og eyðufyllingar,“ segir Ágústa Margrét Arnardóttir.

Ágústa á fimm börn með eiginmanni sínum, Guðlaugi Birgissyni. Fyrr á þessu ári ákváð fjölskyldan að rífa sig upp frá heimili sínu á Djúpavogi og flakka um Spán í fimm vikur. Fjölskyldan hefur leyft almenningi að fylgjast með ferðum sínum á Facebook-síðunni Whattodoin og sneri nýverið aftur heim til Íslands. Ágústa segir að aðdragandinn að ferðinni hafi í raun verið langur. Elsta dóttir þeirra hjóna, Vigdís, fæddist árið 2006 og í kjölfarið eignuðust þau þrjú börn á rétt rúmlega þremur árum. Á sama tíma stofnaði Ágústa hönnunar- og framleiðslufyrirtæki og Guðlaugur byrjaði að kaupa sig inn í útgerð þar sem hann starfaði sem skipstjóri.

Börnin upplifðu alls kyns ævintýri.

Hraðinn bitnaði á fjölskyldunni

„Ég fékk mikið hrós fyrir dugnaðinn og eljuna, var þessi týpíska ofurkona sem hélt ég gæti allt. Ég elska að vinna mikið, elskaði reksturinn minn og börnin, og allt sem ég var að gera og langaði svo ógeðslega mikið að gera allt og láta allt ganga, en það var engan veginn að gerast, þetta var bara allt of mikið. Hraðinn og álagið bitnaði á fjölskyldunni og andlegri og líkamlegri heilsu minni auk þess sem upprunaleg markmið mín og lífssýn voru bara í dvala, nánast gleymd,“ segir Ágústa en meðal markmiða hennar í lífinu var að ferðast með börnunum og eyða meiri tíma með þeim. Hún segist hafa verið með einhvers konar fjölskylduferð í bígerð lengi en alltaf litið á skólagöngu barnanna sem hindrun.

„Svo gerðist það að sonur minn var kominn á algjörar villigötur, hafði illa stjórn á sér, brást reiður og illa við ýmsu og fúnkeraði bara ekki vel. Hann var settur í prógramm sem sneri að lærdómnum og hegðun í skólanum,“ segir Ágústa. Í framhaldinu varði hún tæpum fjórum mánuðum með syni sínum í skólanum, í 95% kennslustundanna, frímínútum, tómstundum og öðru.

„Ég hlustaði á ótal fyrirlestra, hljóðbækur, las rannsóknir og annað. Líf okkar allra gjörbreyttist þarna og sýn mín á menntakerfið og allt lífið breyttist algjörlega. Og eitt af því sem ég lærði á þessu er að skólaganga barnanna minna er ekki hindrun í að við sem fjölskylda ferðumst eða förum okkar leiðir í menntun þeirra.“

Fengu aldrei pásu frá hvert öðru

7 manna fjölskylda á ferðalagi.

Það var svo áhugi Ágústu á heimakennslu og menntun sem varð til þess að þau ákváðu að kasta sér ofan í djúpu laugina og ferðast, en Ágústa skipulagði ferðina í meira en ár. Þau sögðu börnunum frá ferðinni á aðfangadagskvöld í fyrra og tveimur og hálfum mánuði síðan fóru þau af stað á vit ævintýranna.

„Við höfum alltaf verið mjög samheldin fjölskylda og mikið saman en að vera saman í fimm vikur á stað þar sem við þekktum enga og vorum hvorki í skóla, tómstundum, vinnu, né hittum vini eða fjölskyldu var allt annað en við erum vön. Helstu kostirnir við svona lífsstíl eru að við kynnumst mun nánar og betur en hér heima, því það er engin truflun, ekki hægt að forða sér eða sækja í aðra ef eitthvað bjátar á. Auk þess hefur maður ótakmarkaðan tíma til að sjá „mynstur“ í börnunum og sjálfum sér – hvað er stressandi, hvað er slakandi, hvað hefur góð og hvað hefur vond áhrif. Og ókostirnir eru kannski að það er aldrei „friður“, við fáum aldrei pásu frá hvert öðru, sem hefur líka áhrif. Ef einn var í vondu skapi hafði það áhrif á alla og ef börnin eru pirruð, þreytt, svöng, leið eða eitthvað þá láta þau það bitna hvert á öðru,“ segir Ágústa og heldur áfram.

„Þetta var oft ofsalega erfitt og snéri þá aðallega að dagsformi hvers og eins. Hér heima get ég laumað mér í kaffi til vinkonu, þau leikið við vini eða heimsótt ömmu og afa, farið í göngutúr ein, kveikt á sjónvarpi eða farið tölvur ef það er þreyta og pirringur í gangi en þarna var ekkert svoleiðis í boði. Við reyndum alltaf að setja dagana upp sem streytulausasta og þægilegasta fyrir alla en það sem hentar 1 árs barni, 3 ára, 8, 10 og 11 ára sem og foreldrum á fertugsaldri er ekkert alltaf það sama. Málamiðlanir voru stór partur af ferðinni og að gefa öllum svigrúmið sem þeir þurftu þótt það væri nánast ekkert svigrúm eða tími. Maður metur tímann allt öðruvísi eftir svona ferð.“

Sáu fátækt og fjölbreytileika

Ógleymanleg ferð.

Fjölskyldan ætlaði fyrst að leigja íbúð í tvo til þrjá mánuði en vegna breytinga í útgerðinni hjá Guðlaugi þurfti þau að stytta dvölina niður í fimm vikur. Þá voru þau búin að festa íbúðina og þurftu að greiða fyrir hana 450 þúsund krónur. Flugið var hins vegar talsvert ódýrara en þau voru vön fyrir sjö manna fjölskyldu.

„Flugið fyrir okkur sjö kostaði um 120 þúsund krónur með millilendingu og gistingu í Gatwick á leiðinni út og 102 þúsund krónur í beinu flugi heim. Ég var búin að kynna mér staðsetningar og verð á nauðsynjum vel þannig að á svæðinu sem við vorum var allt meira en helmingi ódýrara en hér heima. Við leigðum bíl, fórum á söfn, í hellaferð og í garða sem kostuðu og þar húrraðist kostnaðurinn upp en þessu er alveg hægt að sleppa. Við nýttum okkur mikla ókeypis afþreyingu eins og almenningsgarða og ströndina og það er alveg endalaust hægt gera eitthvað án þess að taka upp budduna,“ segir Ágústa aðspurð um hvort þetta ævintýri hafi ekki kostað skildinginn. Hún segist aðhyllast mínimalískan lífsstíl og er ánægð með að leyfa börnunum sínum að upplifa ýmislegt sem kennir þeim virði peninga.

„Börnunum, sérstaklega þessari ellefu ára, finnst við oft lifa eins og fátæklingar en hún hefur þó lært það af þessu að það þarf að forgangsraða og hafa fyrir hlutunum. Í ferðinni upplifðu þau svo að gista á geggjuðu 4 stjörnu hótelinu niður í 0 stjörnu rottuholu, þau sáu fátækt, betlara og miklu meiri fjölbreytileika fólks en hér heima. Ég vil að þau kynnist þessu frekar en biðröðum í Disney-garðinum og peningaplokki í alls konar over prized-görðum og skemmtunum. Ég hef samt ekkert á móti því og allt í lagi að upplifa það líka, en við bjuggum oft til bestu stundirnar með nesti í almenningsgörðum og það var æði.“

Heimurinn opnaðist

En hvað stóð upp úr á þessu fimm vikna ferðalagi?

Lífið er ljúft á ströndinni.

„Það sem stendur upp úr er áhrifin á börnin, hvernig þau upplifðu hlutina, hvað þeim fannst merkilegt, hvernig þau þroskuðust og lærðu. Það var mikill munur á þeim fyrstu dagana og þá síðustu, veröldin stækkaði og heimurinn opnaðist einhvern veginn fyrir þeim. Í byrjun fannst mér þau bara frekar áhugalaus og hugmyndasnauð, vildu til dæmis alltaf fara í sama garðinn og á sama veitingastaðinn frekar en að kanna svæðið og prófa eitthvað nýtt. Þetta pirraði mig en svo fattaði ég að þau höfðu engin viðmið, þau vissu ekkert hvað var handan við hornið, þau eru alin upp í pínulitlum bæ þar sem allt er alltaf eins, rútínan, viðburðir, fólk, staðir og dýr. Þannig að við fórum meira og meðvitað að kanna ný svæði, prófa nýja hluti, tala meira um allt sem mögulegt er í heiminum og leyfa lífinu að koma okkur á óvart án þess að hafa plön eða vera afturhaldsöm. Þetta skilaði sér í því að undir lokin var þessi 10 ára farinn að skipuleggja ferð til Týndu borgarinnar, 11 ára til Hawaii og við hin roadtrip um Bandaríkin. Þetta opnaði heiminn fyrir þeim, og okkur,“ segir Ágústa og bætir við að ferðin hafi haft góð áhrif á fjölskylduna í heild.

„Við erum klárlega samheldnari, það er meira umburðarlyndi eða alla vega þekking og skilningur á hinum.“

Sápukúlustuð.

Allir tilbúnir að koma heim

En hvernig var svo að koma aftur í raunveruleikann á Djúpavogi?

„Við vorum síðustu dagana í Barcelona, borgin var troðin af fólki, mikil umferð, hraði og allt miklu dýrara en á hinum stöðunum og miklu heitara og óþægilegra veður. Það voru því allir frekar tilbúnir að koma heim, spenntir og ánægðir. Þannig að heimferðin og allt eftir það hefur gengið vel. Við fundum svo rosalega vel hvað útivera, birta og gróður er ólýsanlega miklivægt þannig að nú er markmið að halda þessum „úti“ lífsstíl áfram, en hingað til hef ég verið kuldaskjóða og nenni alls ekki út í vondu veðri eða myrkri. En nú þurfum við bara að læra að lifa með því, því það er líklegra að ég geti breytt um hugarfar en veðurfar.“

Fjölskyldan heldur úti vefsíðu samfara fyrrnefndri Facebook-síðu, þar sem hún ætlar að fara vel og vandlega yfir ferðalagið á næstunni. Ágústa mælir hiklaust með svona flótta úr hversdagsleikanum fyrir hvern sem er.

Skemmtileg mynd.

„Já, maður verður svo samdauna samfélaginu og fer ósjálfrátt í farveginn sem hinir eru í eða farveginn sem í boði er ef maður er alltaf á sama staðnum, sérstaklega litlum stöðum. Að fara í burtu, núllstilla allt, tengjast á annan hátt og upplifa annað er góð byrjun til að rjúfa rútínuna sem maður er í ef maður kýs það.“

Myndir / Úr einkasafni

Leikkonur fljúga á vit ævintýranna

Útskrift flugfreyja hjá Icelandair fór fram í vikunni. Meðal þeirra sem útskrifuðust voru leikkonurnar María Heba Þorkelsdóttir og Laufey Elíasdóttir og mega því flugfarþegar búast við því að njóta flugsins með þessum tveimur kjarnakonum í nánustu framtíð.

María Heba er ein ástsælasta gamanleikkona ársins og hlaut meðal annars Edduverðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni Okkar eigin Osló. María er hins vegar líka mjög slungin dramaleikkona, eins og þekkt er með gamanleikara, og hefur til að mynda leikið í sjónvarpsþáttunum Föngum, Pressu og Hamrinum sem og kvikmyndinni Eiðum.

Laufey er hluti af leikhópnum RaTaTam sem setti síðast upp verkið Ahh… sem hlaut einróma lof gagnrýnenda. Þá ættu kvikmyndahúsagestir einnig að kannast við hana úr kvikmyndunum Brúðguminn, Desember og Vonarstræti.

Þær María Heba og Laufey eru langt því frá að vera fyrstu leikkonurnar til að bregða sér í hlutverk flugfreyja þar sem landsþekktar listakonur hafa áður látið ljós sitt skína í háloftunum, þar á meðal Edda Björgvinsdóttir, Helga Braga Jónsdóttir, Heiða Ólafsdóttir og Svandís Dóra Einarsdóttir.

Aðalmynd / Leikkonan María Heba / Ljósmyndari: Aldís Pálsdóttir

Mikilvægt að gleyma tímanum og símanum

||
Ingibjörg Halldórsdóttir

Ingibjörg Ýr Óskarsdóttir starfar sem ljósmóðir en segir áhugann á starfinu hafa kviknað í sveitaheimsókn þegar hún sá afkvæmi í fyrsta skipti koma í heiminn.

„Ég var í heimsókn í sveit hjá langömmusystur minni þegar ég sá lamb fæðast. Frænka mín aðstoðaði kindina við að koma lambinu í heiminn og mér fannst þetta magnað.”

„Þetta var mín fyrsta upplifun af því að sjá afkvæmi fæðast og ég er viss um að það kviknaði á einhverjum ljósmóðurfrumum inni í mér við sauðburðinn.”

„Ég var samt ekki ákveðin í að verða ljósmóðir fyrr en ég var á þriðja árinu mínu í hjúkrun. Þá var ég í verknámi á fæðingardeild fjórðungssjúkrahúsins á Akureyri og ljósmæðurnar þar leyfðu mér að fylgjast með fæðingu. Eftir að ég gekk út af spítalanum eftir að hafa séð þessa fyrstu fæðingu þá vissi ég að það væri ekki aftur snúið, ég vissi hvað ég vildi verða, ég ætlaði að verða ljósmóðir.”
Ingibjörg segir ljósmóðurstarfið ákaflega fjölbreytt. „Margir halda að ljósmæður séu eingöngu í því að taka á móti börnum en raunin er sú að þær sinna líka konum og fjölskyldum á meðgöngu, í sængurlegu og ungbarnavernd. Ljósmæður sinna einnig allskyns fræðslu og forvarnarstarfi sem kemur að heilsu kvenna, barna og fjölskyldunnar í heild.
Órjúfanleg tengsl verða til á fyrstu mínútunum eftir að barn fæðist og mikilvægt er að aðskilja ekki foreldra og barn nema þörf þykir. Ingibjörg segir mikilvægt að foreldrarnir gleymi tímanum og símanum og njóti þess að skoða og kynnast barninu sínu fyrstu klukkustundirnar og njóti stundarinnar.

„Þetta er mögnuð stund sem kemur ekki aftur.”

Það er gott er að minna sig á að hver og ein fæðing er einstök og upplifun kvenna af fæðingu er líka mismunandi. Að koma barni í heiminn er erfitt en erfitt á jákvæðan hátt og erfiðleikarnir breytast yfirleitt í þína stærstu og fallegustu stund sem þú munt muna um ókomna tíð, augnablikið sem þú varðst mamma.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson.

Ofurfínt hús skapar ekki hamingjusamt heimili

Eva Laufey Hermannsdóttir Kjaran er fyrir löngu orðin þjóðþekkt en hún haslaði sér fyrst völl sem ástríðubakari.

Fimm árum síðar hefur hún gefið út tvær matreiðslubækur og tíunda sjónvarpsþáttaröðin nú þegar í pípunum. Hún segir það sjálfskipaða kröfu að vilja vera fullkomin öllum stundum.

„Ég er langt frá því að vera fullkomin en ég viðurkenni að áður en ég eignaðist seinni dóttur okkar leið mér oft eins og ég væri hamstur á hjóli. Ég veit hreint út sagt ekki hvað gerðist en ég róaðist mjög mikið. Eftir að hafa verið stanslaust á út opnu, í vinnu, að klára BS í viðskiptafræði, mæta í ræktina, vera dugleg mamma og góð eiginkona, passa að elda alltaf góðan mat og halda heimilinu í standi. Með öðrum orðum, reyna að vera fullkominn öllum stundum. Vera alltaf á trilljón en á sama tíma alltaf að biða eftir því sem gerist næst, að njóta ekki þess að vera á staðnum með fólkinu mínu, róleg í eigin skinni.

„Mér fannst ég of oft vera alveg við það að bræða úr mér en í raun var ég bara í keppni við sjálfa mig.”

Satt best að segja veit ég ekki hvað gerðist en dag einn fór ég að hugsa um þetta. Ætli það hafi ekki verið þegar ég sat með eldri stelpu minni inn í herberginu hennar í staðinn fyrir að leika við hana þá nýtti ég frekar tímann til þess að taka til en að leika við hana, sem er auðvitað alveg þveröfugt við það sem maður ætti að gera. Maðurinn minn hefur hjálpað heilmikið til við að róa mig í þessum efnum. Hann segir að þegar ég verð eldri að þá muni ég ekki hugsa til þess hversu hrein herbergin hafi verið heldur frekar hugsa til stundanna saman með stelpunum. Ofurfínt hús er ekki það sem skapar hamingjusamt heimili og það gildir í öllu.

„Ætli ég hafi ekki bara sætt mig við það að vera alls ekki fullkomin og með því móti hafi allt róast.”

Svo lengi sem ég sinni því sem ég geri vel og fólki mitt finni að ég elski það heitt, þá skiptir annað engu máli þó svo að heimilið eða annað bíði. Það má strauja eða bóna gólfið seinna. Í dag gæti ég ekki verið þakklátari því ég veit að það eina sem skiptir máli er dagurinn í dag. Ég er satt best að segja svo dauðfegin að vera ekki eins stressuð og ég var um að allt yrði að vera tipp topp öllum stundum en þvílíkur léttir að vera laus við þá kvöð. Ég er farin að taka miklu betur eftir öllum hlutum og hugsa á hverju kvöldi um eitthvað þrennt sem veitti mér mikla ánægju yfir daginn. Þetta hef ég látið heimilisfólkið mitt gera sömuleiðis og ég trúi því að með þessum hætti komi maður í veg fyrir að hugsa um eitthvað neikvætt sem átti sér stað eða í besta falli minni mann á hvað lífið er skemmtilegt.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.

Texti / Íris Hauksdóttir

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Förðun / Björg Alfreðsdóttir

Nístandi frá upphafi til enda

Leikritið Fólk, staðir, hlutir segir frá leikkonunni Emmu sem er alkahólisti og lyfjafíkill. Áhorfendur fylgjast svo með ferðalagi hennar í gegnum tólf sporin í leit að sátt við sjálfa sig.

Verkið er skrifað af hinu margverðlaunaða leikskáldi Duncan Macmillan en leikrit hans hafa notið gríðarlegra vinsælda um heim allan.

Þetta er þriðja leikverkið sem sett er upp eftir skáldið hér á landi en það fyrsta, Andaðu sló eftirminnilega í gegn þegar það var sett upp í Iðnó. Duncan skrifaði jafnframt leikgerð að verkinu 1984 sem sýnt var í Borgarleikhúsinu fyrr í vetur.

Titillinn, Fólk, staðir, hlutir vísar í það sem fíklum beri að forðast eftir að hafa leitað sér hjálpar. Þrennan sem triggerar fíknina. Það er óhætt að segja verkið tali beint inn í íslenskan samtíma því biðlistar hafa aldrei verið lengri eftir meðferðarúrræðum.

Fíknisjúkdómar fara ekki í manngreiningarálit en helmingur leikhópsins fer með fleira en eitt hlutverk. Þannig mynda sögupersónurnar hliðstæður af hinu fjölbreytta litrófi mannlífsins.

Vesturport hefur fyrir löngu skapað sér sérstöðu og þó umfjöllarefnið sé þungt og viðkvæmt í vöfum notar hópurinn húmor óspart til þess að koma sögunni skemmtilega frá sér. Leikstjórinn Gísli Örn Garðarson hefur fyrir löngu sannað snilli sína og bregst honum ekki bogalistinn fremur venju.

Hirðleikmyndahönnuður hópsins, Börkur Jónsson hannaði leikmyndina en hún er ílöng og vekur ósjálfrátt hugrenningartengsl við töfluhylki. Þórður Orri Pétursson sá um að flóðlýsa innantómt hylkið ásamt því að láta blikkljós og aðrar ljósalausnir endurspegla líðan fíkilsins hverju sinni. Tónlistin magnaði svo atburðarrásina og aðskildi snöggar skiptingar á milli atriða. Garðar Borgþórsson sá um hljóðmynd og búninga hannaði Katja Ebbel Fredriksen.

Mest mæðir á aðalleikkonunni Nínu Dögg Filippusdóttur en hún leikur fíkilinn Emmu sem neydd er í meðferð. Í afneitun sinni reynist Emma afar óþekkur sjúklingur en smám saman flysjast lygalögin af fjölbreyttum frásögnum hennar. Áhorfendur fylgjast með neyslunni, fráhvörfunum og meðferðardvölinni þar sem Emma líður vítiskvalir.

Leikur Nínu er hreint út sagt stórfenglegur en hún túlkar þessa margræðu og eldkláru konu af mikilli sannfæringu og öryggi.

Samleikur þeirra Nínu og Björns Thors var töfrandi og trúverðugur en í upphafi kynna þeirra er hann fíkill sem neitar að yfirgefa meðferðarstofnunina en tekur við starfi meðferðarfulltrúa eftir því sem líður á leikritið.
Hannes Óli Ágústsson skapaði sömuleiðis eftirminnilegan karakter sem hinn kómíski meðferðarfulltrúi er annaðist Emmu í fyrstu innlögn sinni. Þær Edda Björg Eyjólfsdóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir leika bæði hjúkrunarfræðinga og fíkla og gera báðar vel. Jóhann Sigurðsson og Sigrún Edda Björnsdóttir fara með hlutverk foreldra Emmu en auk þess túlkar Jóhann tvo ólíka fíkla. Sigrún fer sömuleiðis með hlutverk læknis og meðferðarfulltrúans sem leiðir Emmu í gegnum sporin tólf. Sigrún var sannfærandi að venju og samtal mæðgnanna í lokin hreint út sagt ógleymanlegt.

Umfjöllunina er að finna í 17.tbl Vikunnar.

Svona gerirðu fullkomið hátt tagl

Hárgreiðslumaðurinn Kahh Spence er gestur Denise Bidot í nýjasta þætti af YouTube-seríunni The Beauty Lounge á vegum tímaritsins Cosmopolitan.

Í þættinum kennir Kahh áhorfendum að gera fullkomið, hátt tagl. Þá fer hann einnig yfir það hvernig á að fela teygjuna með hárlokk. Það sem kemur einna mest á óvart er hve ótrúlega einfalt það er.

The Beauty Lounge með Denise Bidot er vinsæll þáttur á YouTube-rás Cosmopolitan og er nýr þáttur ávallt frumsýndur á miðvikudögum. Hér fyrir neðan má sjá þáttinn þar sem farið er vel og vandlega yfir taglgerð:

Spánn vinnur Eurovision ef marka má Google

|
|

Lönd eins og Ástralía, Spánn, Ítalía, Hvíta-Rússland, Ísrael, Frakkland og Noregur gætu náð langt í Eurovision, ef marka má hve oft er leitað að framlögum þessara landa í leitarvél Google.

Google safnaði þessum leitargögnum einnig í fyrra og náði að sjá fyrir hvaða lönd skipuðu sér í efstu sæti og hver bæri sigur úr býtum, en það var eins og margir vita Portúgalinn Salvador Sobral.

Nú er hægt að glugga í gögn Google fyrir Eurovision-keppnina í ár, sem fer fram í næstu viku. Samkvæmt þeirra gögnum er mest leitað að framlagi Spánar, en það eru þau Amaia og Alfred sem flytja lagið Tu canción fyrir landið sitt. Hinn hvít-rússneski Alekseev með lagið Forever er í öðru sæti og þriðja sætið vermir ítalska lagið Non mi avete fatto niente sem flutt er af Ermal Meta & Fabrizio Moro.

Á botninum á þessum lista er því miður að finna Ara okkar Ólafsson með lagið Our Choice, en einnig Rúmeníu, Georgíu og Svartfjallaland.

Sjá einnig: Það sem býr á bak við brosið.

Þess má geta að margir af þeim sem leita eru búsettir í löndum sem mega ekki einu sinni kjósa í Eurovision. Þannig eru margir í Papúa Nýju Gíneu og Vanuatu sem leita að hinni áströlsku Jessicu Mauboy og fjöldinn allur af fólki í Suður-Ameríku sem leitar í gríð og erg að spænska framlaginu.

Hin ísraelska Netta Barzilai er talin sigurstrangleg í veðbönkum, og hefur verið lengi, en hún er í fjórða sæti á þessum lista frá Google. Annars sigurstranglegur keppandi, Norðmaðurinn Alexander Rybak, er í sjötta sæti, en Frakkar ná að troða sér á milli þessara tveggja flytjenda.

Sjá einnig: Alexander Rybak heillaði Eurovision-heiminn á fyrstu æfingu.

En þetta eru ekki einu gögnin sem Google tekur saman. Leitarvélin greinir einnig hvar mestur áhugi er fyrir Eurovision út um allan heim. Þar trónir Ísland á toppnum og er langt á undan þeirri þjóð sem skipar annað sætið, sem er Kýpur. Í þriðja er Eistland, því fjórða Malta og svo er það Grikkland sem vermir fimmta sætið. Minnstur áhugi fyrir keppninni er í Brasilíu, Bandaríkjunum, Argentínu, Mexíkó og Kanada.

Í gögnunum sést einnig að áhugi fyrir Eurovision stigmagnast í maí, en mestur áhugi á keppninni samkvæmt Google var í maí árið 2014 þegar dragdrottningin Conchita Wurst færði Austurríksimönnum sigurinn.

Magnea glímir við fæðingarþunglyndi: Erfiðast að elska sjálfa mig

|||
|||

„Ég viðurkenndi ekki þunglyndi mitt strax. Ég átti mjög erfitt með það en eini sem fékk að sjá það var maðurinn minn. Ég reyndi allt til að fela það. Ég vildi bara hafa það fyrir mig. Þegar ég var komin rúmlega tuttugu vikur þá var ég komin á lyf við vanlíðan,“ segir Magnea Hildur Jónsdóttir.

Magnea eignaðist dóttur sína Talíu Líf, fyrir tæplega tveimur árum síðan. Magnea byrjaði að finna fyrir fæðingarþunglyndi á meðgöngu og hefur talað opinskátt um það á Snachat-reikningi sínum undir nafninu magnea8.

Magnea og litla Talía Líf.

„Ég var bara ekki að höndla þessar breytingar og ég var með mjög slæman bjúg sem varð sífellt verri. Ég er svo þrjósk að ég lét mig hafa það lengur en ég átti að gera. Ég passaði ekki lengur í neina skó nema einhverja ljóta inniskó úr Rúmfatalagernum sem ég tróð mér í. Ég fékk meðgöngusykursýki sem greindist allof seint og ég þurfti að fara í mikið tjékk seinni hluta meðgöngunnar,“ segir Magnea. Ekki bætti úr skák að hún lenti í óhappi á fyrri hluta meðgöngunnar.

„Það versta var að ég datt á leið í vinnuna í steyptum tröppum. Ég var rétt komin sautján vikur á leið og skall í tröppuna með hnakkann undir, mitt bakið og grindina í. Ég var það þrjósk að ég lét ekki kíkja á mig né athuga með barnið,“ segir Magnea, sem hélt áfram að mæta í vinnu þó hana verkjaði.

„Ég sé eftir því en málið var að ég vildi ekki lýta út eins og einhver aumingi því það sást ekkert á mér. Þannig hugsaði ég allt, að ef það sést ekki þá er ekkert að mér, sem var svo rangt og ég er enn þann dag í dag að læra það. Að sýna tilfinningar og elska mig, sem mér finnst erfiðast af þessu öllu.“

Brotnaði niður og gafst upp

Magnea segir að hversdagurinn sinn hafi einkennst af hæðum og lægðum í baráttunni við fæðingarþunglyndi.

„Stundum vil ég bara ekki gera neitt, bara liggja uppi í rúmi og sofa eða bara vera ein og ekki tala við neinn. Ég er nánast alltaf þreytt sama hvað. Það er kannski svona mánuður síðan ég hætti að segja við sjálfa mig: Ég legg mig bara þegar ég kem heim, á hverjum einasta morgni. Ég gerði það sjaldan en þetta var eitthvað sem ég sagði við sjálfa mig til að komast í gegnum daginn,“ segir Magnea. henni er eitt atvik sérstaklega minnisstætt þegar hún fer yfir þennan tíma í sínu lífi.

„Þegar stelpan mín var ekki orðin tveggja mánaða var ég ein heima með hana og hún byrjar að gráta um sjö leytið um kvöld. Ekkert sem ég gerði var nógu gott til að fá hana til að hætta að gráta. Þetta var ekkert venjulegur grátur, það var hreinlega eins og einhver væri að drepa hana. Maðurinn minn var að vinna og foreldrar mínir í heimsókn. Ég hreinlega brotnaði bara gjörsamlega niður og gafst upp. Ég hringdi í manninn minn og spurði hann hvort hann gæti komið heim. Ég var grátandi í símanum og sagði að ég gæti ekki huggað hana. Hann kom heim stuttu seinna og spurði mig að því versta sem hægt er að spyrja grátandi móður: Hristirðu hana? Ég missti andlitið. Ég myndi aldrei meiða litla barnið mitt, sama hvað. En hann sá eftir þessu. Hann hélt bara að eitthvað hræðilegt hafi gerst. Hann átti lika erfitt á þessum tima, hann var að vinna svo mikið og var mikið frá, hann varð paranojaður yfir öllu. Sem bætti ekki mína andlegu líðan.“

Skömmin var mikil

Magnea segist hafa verið mjög góð í að fela fæðingarþunglyndið frá ljósmæðrum í kringum fæðingu litlu hnátunnar.

„Ég man eftir því þegar ljósmóðir kom heim að athuga með okkur mæðgur. Hún spyr mig hvernig mér liði. Litla systir mín sat í sama sófa og eina sem ég hugsaði var að ég ætti bara að segja að allt gengi vel og að ég hefði það fínt. Ég vildi ekki að systir mín myndi vita hvernig mér liði. Þá myndi mamma min vita það og þá myndi hún byrja að tala við mig, sem hefði ekki verið slæmt, en skömmin var bara svo mikil og mig langaði ekki að mistakast,“ segir Magnea, sem tárast nánast við tilhugsunina.

„Þegar ég hugsa um þetta núna langar mig að gráta því ég hefði þurft svo mikið á því að halda að tala við einhvern. En þrjóskan og skömmin var svo mikil hjá mér. Ég var, og er, mjög klár að setja upp grímu og láta eins og ekkert sé að.“

Erfið fæðing frumburðarins

Hér leikur Talía Líf á alls oddi. Lífsglöð stúlka.

Magnea er 28 ára gömul og býr í Kópavogi ásamt unnusta sínum, litlu Talíu Líf og kettinum þeirra. Hún vinnur sem stuðningsfulltrúi á einhverfudeild í grunnskóla í Kópavogi og er nú hægt og bítandi að koma andlegu heilsunni í lag eftir þennan erfiða tíma.

„Ég reyni að borða hollt, taka lyf og hætta að vera svona neikvæð, og þá sérstaklega við mig. Gera eitthvað sem mér finnst gaman að gera og að hreyfa mig eitthvað. Ég set mér markmið, til dæmis að labba sex þúsund skref á hverjum degi. Og segja við mig að þetta tekur tíma, margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Magnea sem stefnir á frekari barneignir í framtíðinni.

„Það sem ég ætla mér núna er að koma mér í mitt fyrra horf líkamlega og andlega. Númer 1, 2 og 3 er að læra að elska sjálfa mig aftur. Og já, þrátt fyrir þetta allt saman þá langar mig í annað barn, en kannski eftir svona tvö ár,“ segir Magnea, en fæðing frumburðarins tók á.

„Stelpan mín kom mánuði fyrr í heiminn og það sem situr í mér er að það fór ekki eins og ég hefði viljað að það færi. Mamma mín var í útlöndum með systkinum mínum hja ömmu minni en hún átti að vera með inni á fæðingardeildinni. Stelpan var skökk og ég festist í níu í útvíkkun og endaði í bráðakeisara. Ég þurfti að vera svæfð vegna blóðflögugalla hjá mér. Stelpan endaði inná vökudeild því hún átti erfitt með að anda og taka næringu. Hún blánaði þrisvar sinnum en ég sá það aldrei gerast. Maðurinn minn sá það hins vegar í eitt skipti. Við vorum inni á spítala í tíu daga og var hún á vökudeild í átta daga þar til hún fékk loksins að koma til okkar og vera með okkur í tvær nætur áður en við fengum að fara heim. Ég var undir eftirliti vegna hás blóðþrýstings og svo ég myndi ekki fá blóðtappa.“

Engin skömm að líða illa

Magnea er þakklát fyrir þann stuðning sem hún hefur fengið eftir að hún opnaði á sína vanlíðan.

„Þrjóskan í mér lokaði á allt og alla. Maðurinn minn stendur 100% við bakið á mér í dag og hefur gert seinustu mánuði. Mamma mín og tvíburasystir eru mér líka allt.“

Eins og áður segir opnar Magnea á sinn raunveruleika á Snapchat, en af hverju?

Magnea er dugleg að snappa um sinn raunveruleika.

„Að því að mér leiddist, mig langaði að sýna hvernig dagarnir væru hjá mér. Hvað ég borða. Hvernig það er að vera með stelpuna enn á brjósti þó hún sé að verða 2ja ára. Margir spyrja af hverju ég hætti ekki bara með hana á brjósti en það er ekki svo auðvelt, ekki eftir það sem ég upplifði fyrir og eftir meðgöngu. Mér fannst hún ekki vera mín fyrst en ég elska þessar stundir okkar. Lífið er ekki alltaf dans á rósum og ég nota stundum kassamerkið #enginglansmynd. En ég snappa líka um mat og hef gaman af því að elda og baka. Svo snappa ég líka mikið af stelpunni minni,“ segir Magnea.

Áður en ég sleppi henni verð ég að spyrja að því hvað hún vill segja við foreldra sem glíma við fæðingarþunglyndi.

„Það er engin skömm að líða illa, það er betra að tala um það hvernig manni líður en að halda því fyrir sig sjálfan. Sama hversu erfitt það er.“

Myndir / Úr einkasafni

Plöntur sem hreinsa andrúmsloftið

Grænar plöntur njóta mikilla vinsælda um þessar mundir, enda einstaklega sniðugar til að lífga upp á rými. En plöntur eru ekki aðeins augnayndi, heldur hafa margar hverjar góð áhrif á andrúmsloftið. Við tókum saman upplýsingar um nokkrar plöntur sem bæði gleðja augað og bæta loftgæði heimilisins.

 

 

Friðarlilja

Einstaklega falleg planta og auðveld í umönnun. Friðarliljan er samkvæmt NASA öflugasta plantan þegar litið er til hreinsunar andrúmsloftsins og aukins súrefnisflæðis innandyra. Við mælum með að minnsta kosti einni friðarlilju á hvert heimili.

 

 

 

 

 

Best á baðherbergið 

Bergfléttan hefur notið mikilla vinsælda á íslenskum heimilum undanfarið. Hún er sérlega

gagnleg inni á baðherbergi þar sem hún hreinsar meðal annars formeldanhýð og svífandi saurgerla úr loftinu.

 

 

 

Fíkus

Fíkusinn er þeim eiginleikum gæddur að hafa hljóðeinangrandi áhrif. Hann er því tilvalinn á skrifstofuna eða í önnur stór rými.

 

Indíánafjöður

Einstaklega auðveld í ummönnun og vilja sumir meina að Indíánafjöður sé ódrepandi planta. Hún hefur mjög jákvæð áhrif á loftgæði, en getur verið hættuleg sé hún innbyrt. Því skal varast að hafa hana í rýmum sem gæludýr eða ung börn hafa aðgang að.

 

Pálmi

Frábær leið til að jafna rakastig heimilisins eða skrifstofunnar. Pálma er hægt að fá í ýmsum stærðum og gerðum en allir eiga þeir það sameiginlegt að stuðla að auknu súrefnisflæði. Þeir krefjast heldur ekki mikillar umönnunar og eru því góður kostur fyrir þá sem hafa hug á að fjárfesta í sinni fyrstu plöntu.

 

 

 

Þessi grein birtist fyrst í 16.tölublaði Vikunnar

Alexander Rybak heillaði Eurovision-heiminn á fyrstu æfingu

Tónlistarmaðurinn Alexander Rybak keppir fyrir Noregs hönd í Eurovision í næstu viku með lagið That’s How You Write a Song. Margir muna kannski eftir því að Alexander rústaði keppninni árið 2009 með laginu Fairytale og þurfti Jóhanna okkar Guðrún að sætta sig við annað sætið með lagið Is It True?

Lítil spenna hefur verið fyrir þessu nýjasta útspili Alexanders og fór myndbandið við lagið, og raunar lagið sjálft, misvel ofan í Eurovision-spekinga. Því hefur Alexander ekki verið talinn líklegur til að blanda sér í toppbaráttuna, fyrr en eftir fyrstu æfingu sína í gær.

Er það mál manna að æfingin hafi gengið stórvel og eru aðdáendur og spekúlantar afar ánægðir með sviðssetningu norska atriðisins. Alexander mundar að sjálfsögðu fiðluna og með honum á sviðinu eru nokkrir hressir dansarar. Ekki skemmir fyrir að Norðmenn bjóða upp á smá gullregn, sem hefur aldrei þótt leiðinlegt í Eurovision.

„Nokkrir blaðamenn hafa nú þegar spáð honum sigri. Hann á allavega mikla möguleika á að gera það gott,“ skrifar William Lee Adams hjá Wiwibloggs eftir fyrstu æfinguna. Mandy Pettersen hjá aðdáendasíðunni ESC Norge tekur í sama streng.

Sjá einnig: Segja atriði Ara gamaldags

„Þetta er enn ferskara og flottara en í undankeppninni. Mjög gott rennsli hjá Noregi.“

Sjálfur segir Alexander vera hæstánægður með æfinguna í samtali við NRK, norska ríkissjónvarpið.

„Það er eins og ég hafi losnað við fjörutíu kíló af herðunum. Tilfinningin sem ég fékk þegar ég horfði á þetta er það sem ég lifi fyrir,“ segir hann og bætir við að það sé ekkert aðalatriði að komast áfram í úrslit, hann sé sáttur við þá vinnu sem hefur nú þegar farið í atriðið.

Sjá einnig: Golfkúlur, innkaupakerrur og stigar bannaðir á Eurovision

Eurovision-keppnin fer fram dagana 8., 10. og 12. maí næstkomandi. Alexander freistar gæfunnar í seinni undanriðlinum þann 10. maí og ef allt gengur að óskum kemst hann í úrslitin þann 12. maí.

Mynd / Thomas Hanses (Eurovision.tv)

Svona líta leikararnir í Handmaid’s Tale út í alvörunni

|||||||||
|||||||||

Fyrstu tveir þættirnir úr annarri seríu af The Handmaid’s Tale voru frumsýndir á Hulu og í Sjónvarpi Símans í síðustu viku, en beðið hefur verið eftir þessari seríu með mikilli eftirvæntingu eftir velgengni þeirrar fyrri.

Þættirnir eru byggðir á samnefndri skáldsögu eftir Margaret Atwood frá árinu 1985 og fjallar um örlög ambátta sem neyddar eru til að ganga með börn háttsettra hjóna einhvern tímann í framtíðinni.

Persónurnar í þáttunum eru einstaklega vel túlkaðar af hinum ýmsu leikurum, og eru gervin meistaralega vel unnin. Vefmiðillinn Cosmopolitan fer vel yfir það hvernig nokkrar af aðalpersónunum líta út í raun og veru, og er áhugavert að sjá það.

Offred/June (Elisabeth Moss)

Aunt Lydia (Ann Dowd)

Ofwarren/Janine (Madeline Brewer)

Ofglen/Ofsteven/Emily (Alexis Bledel)

Serena (Yvonne Strahovski)

Luke (O-T Fagbenle)

Ofrobert/Alma (Nina Kiri)

Sylvia (Clea DuVall)

Beth (Kristen Gutoskie)

Efnislitlar gallabuxur á 17 þúsund krónur

Bandaríska tískufyrirtækið Camar er búið að setja í sölu glænýja týpu af gallabuxum sem eru hugsanlega ekki fyrir alla.

Buxurnar eru afar efnislitlar og hanga bókstaflega saman á saumunum. Þær myndu því líklegast ekki vera mikið notaðar á norðlægum slóðum eins og Íslandi, en þessi efnispjatla sem kölluð er gallabuxur er seld á 168 dollara, eða rétt rúmlega sautján þúsund krónur.

Grín hefur verið gert að buxunum á samfélagsmiðlum eins og sést hér fyrir neðan:

En sem betur fer er Camar duglegt á Instagram og stingur uppá aðstæðum þar sem vel er hægt að nota buxurnar.

Til dæmis í tívolíi:

Nú, eða á ströndinni:

BRING IT ON ? #day2 #carmardenim #saturdaze

A post shared by CARMAR Denim (@carmardenim) on

Jafnvel í góðri gönguferð:

Desert heats got nothing on us ?? #carmardenim #day3 #slayallday

A post shared by CARMAR Denim (@carmardenim) on

Möguleikarnir eru endalausir!

Þú gætir grætt fúlgur fjár með því að veðja á Our Choice

Aðeins nokkrir dagar eru í að Eurovision-keppnin hefjist þar sem Evrópulönd og Ástralía keppa um hvaða lag og flytjandi er bestur.

Fyrri undanúrslitin eru þann 8. maí, þar sem Ari Ólafsson er meðal keppenda með lagið Our Choice, þau seinni þann 10. maí og úrslitin loks þann 12. maí.

Keppnin fer fram í Lissabon í Portúgal eftir að Portúgalinn Salvador Sobral kom, sá og sigraði í fyrra. Portúgal kemst því sjálfkrafa áfram í úrslitin ásamt stóru þjóðunum fimm sem greiða talsvert fé fyrir keppnina, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Spáni.

Veðbankinn William Hill heldur utan um líkurnar þegar kemur að Eurovision, eins og svo margir aðrir veðbankar, en samkvæmt tölum frá William Hill lítur út fyrir að hin ísraelska Netta Barzilai beri sigur úr býtum þann 12. maí. Önnur lönd sem eru sigurstrangleg samkvæmt líkum veðbankans eru Búlgaría, Frakkland, Ástralía og Eistland.

Það lítur alls ekki vel út fyrir gestgjafana Portúgala, en samkvæmt líkunum verður fulltrúi þeirra, Cláudia Pascoal, einhvers staðar fyrir miðju þegar að kosningu lýkur þarnæsta laugardagskvöld.

Við Íslendingar eigum ekki eftir að hrósa sigri, ef marka má líkur William Hill, en Ari Ólafsson er meðal sjö fulltrúa sem lenda í neðstu sætunum, og komast ekki upp úr undanriðlunum. Hin löndin sex sem sitja eftir á botninum eru Króatía, Slóvenía, Svartfjallaland, Rúmenía, San Marínó og Sviss.

Hér eru þau tíu lönd sem verða efst í Eurovision samkvæmt líkum William Hill þann 30. apríl:

1. Ísrael 6/4
2. Búlgaría 6/1
3. Frakkland 9/1
4. Ástralía 10/1
5. Eistland 12/1
6. Noregur 20/1
7. Svíþjóð 20/1
8. Belgía 25/1
9. Grikkland 33/1
10. Spánn 33/1

Þess má geta að öll lögin í seinni undanriðlinum eiga eftir að æfa í Lissabon þegar þessar tölur eru teknar saman, og því gæti þessi listi breyst mikið næstu daga. Flytjendur sem keppa í fyrri undanriðlinum luku fyrstu æfingu í gær.

Mynd / Eurovision.tv

Sjö ávanar para sem lifa frábæru kynlíf

||
Mynd úr myndabanka

Því er oft haldið fram að kynlífið sitji á hakanum í langtíma samböndum, enda þarf að vinna að því að halda neistanum lifandi í svefnherberginu.

Í grein á vefsíðunni Huffington Post tala kynlífsþerapistar um sjö ávana para sem hafa verið saman lengi en lifa enn mjög góðu kynlífi.

1. Þau leyfa sér að verða spennt saman, jafnvel þegar ekki á að stunda kynlíf

Stephen Snyder, kynlífsþerapisti í New York, segir að pör sem ná að halda neistanum lifandi lengi stríði oft hvort öðru á almannafæri þegar ekki er hægt að stunda kynlíf.

„Fyrir ástríðufyllstu pörin er kynlíf bara toppurinn á ísjakanum. Þau njóta þess að örva hvort annað, jafnvel þegar ekki er möguleiki að stunda kynlíf eða fá fullnægingu,“ segir Stephen.

2. Þau prufa nýja hluti á hverju ári

Pör sem kunna að halda hitastiginu háu í svefnherberginu eru sífellt að leita nýrra leiða til að stunda kynlíf og njóta hvors annars.

„Eitt par sem við unnum með sagði: Á hverju ári verðum við meira kinkí,“ segir Celeste Hirschman, kynlífsþerapisti. „Þú þarft að hafa vilja til að vera frumlegur til að kynlífið sé frábært til lengri tíma litið og festist ekki í viðjum vanans. Talið sóðalega. Prófið eitthvað nýtt. Gerið það sem þið þurfið til að halda kynlífi fersku og skemmtilegu og kynlífið þitt verður sjóðheitt löngu eftir að aðrir brenna út,“ bætir hún við.

3. Þau hugsa vel um sig

Pör sem lifa geggjuðu kynlífi skilja að gott sjálfstraust er hluti af því. Þess vegna passa þau vel uppá sig sjálf og rækta sig sjálf, jafnmikið og þau rækta sambandið.

„Stórkostlegt kynlíf snýst ekki bara um samband þitt við makann. Það snýst líka um samband þitt við þig sjálfan. Þú verður að hugsa um þig. Það getur þýtt að taka frá tíma fyrir dekur, að koma vel fram við líkamann, komast yfir skömm eða sektarkennd í svefnherberginu eða læra eitthvað nýtt, eins og hvernig á að láta fullnægingu endast lengur,“ segir Vanessa Marin, kynlífsþerapisti.

Það er svo mikilvægt að hlæja saman.

4. Þau hlæja í svefnherberginu en líka utan þess

Stundum gerast fyndnir hlutir þegar tveir líkamar slást saman í hita leiksins. Svo ekki sé minnst á öll fyndnu hljóðin sem fylgja kynlífi. Þess vegna er mikilvægt fyrir pör að geta hlegið saman, að sögn kynlífsþerapistans Kimberly Resnick Anderson.

„Húmor er frábært frygðarlyf. Hlæjið á meðan þið stundið kynlíf. Pör sem skilja streituna eftir á svefnherbergisþröskuldinum og njóta kynlífs sem athafnar sem er skemmtileg og tímabundinn flótti úr raunveruleikanum eru fullnægðari en þeir sem geta ekki skipt um gír og skilið streitu, reiði og óánægjuna í daglega lífinu eftir frammi.“

5. Þau fróa sér í kynlífi

Sálfræðingurinn og kynlífsþerapistinn Shannon Chavez segir að sjálfsfróun sé skemmtilegri þegar aðrir eru með. Þá er það frábært tækifæri fyrir makann að sjá hvernig best sé að fullnægja elskhuga sínum.

„Pör sem fróa sér saman, haldast saman,“ segir Shannon.

6. Þau kanna fantasíur hvors annars

„Pör sem hafa verið lengi saman og lifa æðislegu kynlífi vita að hver manneskja er með sjálfstætt, erótískt ímyndunarafl,“ segir fyrrnefnd Celeste Hirschman. Hún bætir við að þessi pör geri það sem þarf til að uppfylla fantasíur hvors annars og leggi mikið á sig til að gleðja elskhugann.

7. Þau kyssast og snertast yfir daginn til að sýna væntumþykju

Shannon Chavez segir það skipta miklu máli að pör sýni hvort öðru ást sína á öllum tímum sólarhringsins, hvort sem það er á sófanum yfir fréttunum eða yfir fyrsta kaffibollanum á morgnana. Innilegir kossar og snerting er mjög mikilvæg.

„Þegar þið snertið hvort annað eruð þið nánari og sýnið hvort öðru meiri ást. Þetta sýnir að þið viljið vera náin maka ykkar. Í stuttu máli er fólk sem snertir, heldur í hendur, kyssir, nuddar, strýkur og kjassar hvort annað án þess að búast við kynlífi rólegra, meira kynferðislega örvað og tengdara í sambandi.“

Oft getur lítill koss eða faðmlag gert kraftaverk.

Harry prins hættir í kolvetnum til að léttast fyrir brúðkaupið

Meghan og Harry

Rúmlega tvær vikur eru þar til Harry prins og leikkonan Meghan Markle játast hvort öðru í konunglegu brúðkaupi sem beðið er eftir. Herlegheitin fara fram 19. maí næstkomandi, og verða að sjálfsögðu í beinni útsendingu í sjónvarpi, og ef marka má frétt Daily Mail vill Harry vera í toppformi þegar hann kvænist Suits-stjörnunni.

Sjá einnig: Allt sem við vitum um konunglega brúðkaupið.

Samkvæmt fréttinni er Harry búinn að fjarlægja öll kolvetni úr mataræði sínu, fyrir utan kínóa, ávexti og grænmeti. Þá er hann líka búinn að draga úr kjötneyslu og drekkur safa reglulega til að passa línurnar.

„Þau eru búin að kaupa háklassa safavél og hún lætur hann drekka ávaxta- og grænmetissafa. Hún lætur hann líka draga úr kjötneyslu,“ segir heimildarmaður Daily Mail.

Harry hefur misst rúmlega þrjú kíló síðan hann breytti um mataræði, en Meghan hefur talað opinskátt um að hún treysti á kolvetnasnautt fæði til að halda sér í góðu formi.

Sjá einnig: Sendi giftingar- og trúlofunarhringana í pósti við skilnaðinn.

Vissulega hefur lágkolvetna mataræði þau áhrif að fólk léttist en margir næringarfræðingar mæla frekar með því að fólk borði rétt tegund af kolvetnum í litlu magni, frekar en að sneiða algjörlega framhjá þeim. Þá hafa safakúrar einnig verið þekktir fyrir að láta kílóin renna af fólki, en oft er þetta þyngdartap tengt við tapi á vöðvamassa en ekki fitu. Hins vegar mæla margir næringarfræðingar með því að sleppa vissum fæðutegundum í takmarkaðan tíma til að gefa líkamanum hvíld inná milli.

Glæsilegt og rómantískt einbýli í Þingholtunum

Í Þingholtunum, nánar tiltekið á Fjölnisvegi, stendur þetta glæsilega og rómantíska einbýlishús. Húsið er á þremur hæðum og hver hæð hefur sinn sjarma, en húsið er 290,7 fermetrar að stærð. Rýmið nýtist vel og skipulagið verður eins best verður á kosið.

Tvær stórar og glæsilegar samliggjandi stofur eru í húsinu sem gerir húsið afar skemmtilegt til að taka á móti gestum. Einnig er þar rúmgóð borðstofa sem laðar að. Hvíti liturinn er allsráðandi í húsinu, hurðar hvítar með gylltum hurðarhúnum og listar í loftum sem gera mikið fyrir rýmið. Í elhúsinu er sérsmíðuð, stílhrein, sprautulökkuð innrétting sem kemur vel út með svörtum borðplötum.

Stórfenglegt útsýni

Húsið hýsir fjögur rúmgóð herbergi sem njóta sín vel. Parketlagður stigapallur er í húsinu og þaðan er hægt að ganga út á svalir sem bjóða upp á stórfenglegt útsýni yfir borgina. Hvað er rómantískara en að vakna á fallegum sumarmorgni og horfa yfir Þingholti þar sem þau skarta sínu fegursta, þannig er tilfinning þegar staðið er úti á svölunum á Fjölnisveginum. Einnig er geymsluris yfir rishæð og kemur sér ákaflega vel.

Lóð til suðurs

Aðkoman og aðstaðan við eignina er til fyrirmyndar, hiti er í innkeyrslu og stéttum og einnig er yfirbyggt bílaport sem er mikill kostur. Húsið að utan var viðgert og málað árið 2014. Húsinu fylgir stór ræktuð lóð sem snýr í suður þar sem sólarinnar nýtir og er tilvalin fyrir garðveislur og gleði. Lóðin er um 631,9 fermeter að stærð með trjágróðri. Einnig fylgir eigninni tvöfaldur bílskúr sem er um 39,6 fermetrar að stærð., þar er sá möguleiki fyrir hendi að gera stúdíóíbúð.

Þetta glæsilega og rómantíska einbýli í Þingholtunum er til sölu hjá fasteignasölunni Fasteignamarkaðinum. Það er ekki á hverjum degi að sem að eign sem þessi er í boði í hjarta miðborgarinnar.

Fjölbreytt og mikið úrval náttúrulegra Aloe vera hágæða vara hjá Alvogen

Náttúrulegar munnhirðu- , húð- og bætiefnavörur sem innihalda Aloe vera í hágæðaflokki. Aloe vera-plantan er græðandi, róandi, bólgueyðandi, sótthreinsandi og næringarrík.

Vörurnar koma frá fyrirtækinu Optima sem er þekkt fyrir heilsuvörur og nýtingu gæðaefna frá náttúrulegum innihaldsefnum. Allar Aloe vera vörurnar eru með gæðastimpla og vottaðar af IASC fyrir gæði (The Internati­onal Aloe Science Council) fyrir gæði í framleiðslu á Aloe vera hráefninu.

Aloe Vera gel.

Meðal þeirra vara sem í boði eru:

Aloe Vera gel mýkir
og endurnýjar

Mýkir hjálpar til við að endurnýja þurra og -skemmda húð. Hentar vel til að bera á húðslit, ör, þurra, skorpnaða eða brennda húð.

Gelið er úr 100% lífrænu Aloe vera, inniheld-ur ekki SLS (Sodium Lauryl Sulfate), lanolin eða paraben og er ekki prófað á dýrum. Framleitt úr hreinu Aloe vera hlaupi og í því næst hámarks-næringarvirkni Aloe vera. Aloe vera hlaupið sem er notað í Aloe vera gelið er með alþjóð-legan stimpili frá „The Aloe Science Council“ fyrir gæði og hreinleika.

_____________________________________________________________

Aloe Vera hrásafi inniheldur yfir 75 tegundir næringarefna

Aloe Vera hrásafi.

Hrásafi sem er 99,9% hreinn úr Aloe vera
plöntunni.

Aloe vera er án efa einn fullkomnasti næringar-drykkur náttúrunnar. Aloe vera safinn inni-heldur yfir 75 tegundir næring–arefna: vítamín, steinefni, amínósýrur, ensím og jafnvel B-12- vítamín sem sjaldan finnst í jurtum.

Með djúsnum fylgir 25 ml glas, 1-2 glös af hrein-um Aloe vera safa á dag getur haft marga kosti fyrir heilsuna eins og að:

  • Hjálpa til við ýmsar meltingatruflanir.
  • Hjálpa til við að styrkja ónæmiskerfið með
    andoxunarefnum.
  • Hafa bólgueyðandi eiginleika sem getur hjálpað til við magaverki.
  • Hjálpa til við að detoxa líkamann, stuðla að góðri heilsu og auka venjulegar -þarma-hreyfingar.
  • Hjálpa til að viðhalda heilbrigðum
    meltingarvegi.

_____________________________________________________________

Sensitive Aloe Vera tannkrem fyrir vegan lífsstíl.

Sensitive Aloe Vera tannkrem

fyrir vegan lífsstíl

Hágæða tannkrem sem er milt, náttúrulegt og hentar fólki sem kýs vegan lífsstíl. Varan er ekki prófuð á dýrum, inniheldur ekki SLS
(Sodium Lauryl Sulfate) og engin gerviefni (litarefni og bragðefni). Ásamt þessu hafa neyt-endur þann valkost að geta valið tannkremið með eða án flúors.

Tannkremið er fullt af náttúrulegum innihaldsefnum svo sem tea tree-olíu
sem hjálpar til við að berjast gegn bakter-íum, silica sem er náttúrulegt
steinefni og not–að til að koma í veg fyrir tannskemmdir.

_____________________________________________________________

Aloe Vera Gentle Action-töflur
– fyrir meltingartruflanir.

Aloe Vera Gentle Action-töflur
– fyrir meltingartruflanir

Skammtímalausn á hægðatregðu og meltingartruflunum.

Töflurnar eru úr 95% ekta lífrænu Aloe vera sem náttúru-lega inniheldur vítamín, steinefni, ensím, amínósýrur og fjölsykrur. Aukalega er bætt við magnesíum, rabba-bara, lakk-rís og anís sem eru þekkt náttúruleg innihaldsefni sem hafa ýmsa kosti fyrir melt-inguna og einnig vingjarnlegu bakteríuna Lactobacillus acidophilus sem hefur jákvæða eiginleika á magaflóruna.

Mælt er með 2 töflum á dag fyrir neytendur með meltingartruflanir:

  • Hjálpar við ýmsar meltingatruflanir.
  • Hefur bólgueyðandi eiginleika sem getur hjálpað við
    verkjum í maga.
  • Góður valkostur fyrir fólk sem vill prófa náttúruleg innihaldsefni.

_____________________________________________________________

Aloe Vera Charcoal tannkrem
– tann­hvíttandi og án flúoríð.

Aloe Vera Charcoal tannkrem
– tann­hvíttandi og án flúoríð

Djúphreinsandi, tannhvíttandi og náttúrulegt tannkrem án flúoríð.

Tannkrem með einstökum viðarkolum (Charcoal) og -íslenskum fjalla-grösum. Þau hafa þann einstaka eiginleika að djúphreinsa og losa óhreinindi. Tannkremið er svart á lit og freyðir vel við notkun, rispar
ekki tennur né eyðir gler-ungnum.

Varan er ekki prófuð á dýrum, inniheldur ekki SLS (Sodium Lauryl Sulfate) og engin gerviefni (litarefni og bragðefni).

Inniheldur aðeins náttúruleg inni-haldsefni: Aloe Vera, Charcoal, Tea tree olíu, Silica, Íslensk fjallagrös, Escin, Menthol, Steviu, Xylitos og Sorbitol.

Fæst í öllum helstu
apótekum og heilsuhúsum.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Alvogen.
Myndir / úr einkasafni Alvogen

 

Raddir