Grétar Rögnvarsson er farsæll skipstjóri: „Alli ríki hringdi og sagði eina og eina gamansögu“

top augl

„Það var kolsvarta myrkur. Ég var vel klæddur og það bjargaði,“ segir Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Jóni Kjartanssyni SU, um þann háska sem hann lenti í djúpt út af Norðurlandi þegar hann féll fyrir borð á nótaveiðum. Grétar á að baki farsælan feril sem skipstjóri. Hann var aðeins 24 ára þegar tækifærið kom og hann hefur verið í brúnni síðan.

Hann gleymir því aldrei þegar hann féll útbyrðis

„Það situr nú fast í minni mínu. Ég átti þá litla dóttur sem var eins og hálfs árs, fædd 1978, og ég hugsaði allan tímann á meðan ég var í sjónum: Á ég aldrei eftir að sjá hana aftur? Svo fékk ég björgunarhring og komst í hann.“

Svo kom stærra tækifærið.

„Alli ríki, Alli Jóns, bauð mér að taka við Jóni Kjartanssyni um áramótin 1988. Og það var að hrökkva eða stökkva og ég ákvað að stökkva. Ég fór með Þorsteini Kristjánssyni skipstjóra sem var að fara í land; fór með honum tvo túra bara til að átta mig á aðstæðum og sjá skipið. Ég var búinn að vera á Sæljóninu svolítið mikið á nót en engar hliðarskrúfur eða neitt svoleiðis þar. Svo einhvern veginn gekk það upp þarna fyrsta veturinn; við vorum á loðnu og svo vorum við á trolli á sumrin. Og grálúðu mikið. Og rækju. Á vorin fórum við yfirleitt á grálúðu og frystum um borð.“

Þetta hefur allt gengið að óskum.

„Já.“

Síðan ertu búinn að vera á Jóni Kjartanssyni.

„Já, síðan 1988.“

Þetta eru orðnir nokkrir bátar. Fjórir bátar.

Er þetta ekki met?

„Ég veit það ekki. Sama skipsnafnið; þetta eru orðnir nokkrir bátar. Fjórir bátar.“

Fyrst var það gamli Narfinn sem var svo breytt í nótaskip. „Svo fórum við með hann tvisvar til Póllands í breytingar; sett í hann stærri vél og byggður nýr framendi á hann. Síðan fór ég yfir á Hólmaborgina þegar hún var skýrð Jón Kjartansson. Aðalsteinn Jónsson var þá keyptur og ég fór þá yfir á hann. Svo sóttum við þennan til Skotlands fyrir fimm eða sex árum sem ég er á núna.“

Alli ríki nýtur mikillar virðingar og sagan fer vel með hann.

„Já, hann var einstaklega skemmtilegur maður og þægilegur og það var gott að vinna fyrir hann. Hann hringdi mikið um borð eftir að símarnir komu og fylgdist með og sagði manni eina og eina skemmtisögu stundum í leiðinni. Hann var mikill sögumaður.“

Það er líklega gæfan hjá ykkur á Eskifirði; þetta hefur aldrei farið neitt. Það var smáuppnám á sínum tíma þegar var skipt upp. En Þorsteinn er líklega með sömu elementin og Alli; það er að fyrirtækið er fyrir bæinn.

Örugglega eitt flottasta uppsjávarfrystihús í Evrópu.

„Fyrirtækið er fyrir bæinn og fólkið og það er búið að vera að byggja þetta fyrirtæki upp. Þetta er orðið mjög flott fyrirtæki; örugglega eitt flottasta uppsjávarfrystihús í Evrópu og skipin góð. Það hefur verið byggt upp og það er mjög flott. Þorsteinn hefur gert þetta mjög vel með sínu fólki.“

Hann hugsar þetta eins og Alli.

„Hann hefur lært eitthvað af tengapabba sínum.“

Grétar er spurður hvernig hann sjái framtíðina á Eskifirði.

„Ég held að hún sé nokkuð björt. Ég vona það. Ég held að svona fyrirtæki fari aldrei neitt eins og er búið að byggja það upp svona mikið. Þau fara ekkert. Þau geta kannski farið í einhverra annarra eigu. Allavega sé ég ekki fyrir mér að þetta sé neitt að fara.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni