Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Ást er ást

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Myndir sem sýna lesbísk ástarsambönd á heiðarlegan og fallegan hátt eru fágætar en hafa allar vakið töluverða athygli.

Kvikmyndaiðnaðurinn hefur oft verið gagnrýndur fyrir það að sýna aðeins gagnkynhneigðar ástarsögur og þegar fjallað er um samkynhneigð sambönd er það yfirleitt á mjög steríótýpískan, jafnvel neikvæðan, hátt. Hér eru nokkrar undantekningar sem sýna lesbísk ástarsambönd á heiðarlegan og fallegan hátt, enda hafa þær allar vakið töluverða athygli.

Eitthvað vantaði
La Vie d’Adèle, eða Blue is the Warmest Color eins og hún kallaðist á ensku (sjá mynd hér að ofan), fjallar um ósköp venjulega fimmtán ára stúlku, Adele, sem hefur áhuga á öllu því sem unglingsstúlkur hafa áhuga á; vinum, skóla, tónlist og strákum. Þegar hún byrjar með einum vinsælasta stráknum í skólanum áttar hún sig á að ekki er allt eins og það á að vera. Samkvæmt bekkjarfélögum hennar er hann hinn fullkomni strákur en henni líður sem það vanti eitthvað. Þetta veldur ruglingi hjá henni og hún fer að velta fyrir sér hvað geti verið að. En þegar hún hittir fyrir tilviljun hina bláhærðu Emmu finnur hún það sem hingað til hefur vantað. Hrá og hreinskilin mynd sem vann Gullpálmann í Cannes árið 2013.

Í The Kids are Alright er sagt frá parinu Jules og Nic sem hafa verið saman í næstum tuttugu ár og eiga tvo unglinga.

Framsækin fjölskylda
Í myndinni The Kids are Alright er sagt frá lesbíska parinu Jules og Nic sem hafa verið saman í næstum tuttugu ár og eiga tvo unglinga, Joni og Laser, sem þær eignuðust með hjálp tæknisæðingar. Þær hafa alltaf verið hreinskilnar við börnin sín og sagt þeim hvernig þau komu til. Þær bjuggust þó aldrei við að þau myndu vilja kynnast föður sínum en dag einn ákveða þau að hafa uppi á sæðisgjafanum, Paul,  sem kemur þeim skemmtilega á óvart. Þau stofna til sambands við hann og bjóða honum meðal annars í heimsókn, sem kemur mæðrum þeirra í dálítið uppnám.

________________________________________________________________

My Summer of Love fjallar um afdrifaríkt sumar í lífi tveggja ungra stúlkna, Tamsin og Monu.

Ólíkar en líkar
Eins og titillinn gefur til kynna þá fjallar My Summer of Love um afdrifaríkt sumar í lífi tveggja ungra stúlkna, Tamsin og Monu. Þrátt fyrir að vera úr ólíkum stéttum samfélagsins þá laðast þær strax hvor að annarri. Þær eiga það sameiginlegt að fjölskyldur þeirra eru fremur brotnar, en bróðir Monu er fyrrum afbrotamaður sem snerist til kristni í fangelsi og faðir Tamsin heldur fram hjá móður hennar. Þær byrja að njósna um fjölskyldumeðlimi og komast að ýmsum leyndarmálum en þau leyndarmál binda þær fastar saman. Áhugaverð og falleg mynd sem gerist í sveitum Bretlands en þarna má sjá Emily Blunt unga taka sín fyrstu skref í kvikmyndaleik.

________________________________________________________________

- Auglýsing -
Á milli Carol og Theresu kviknar dálítill neisti.

Af litlum neista
Theresa er ung kona sem fær tímabundna vinnu um jólin 1952 hjá stórverslun á Manhattan en hún er áhugaljósmyndari sem dreymir um að komast að sem atvinnuljósmyndari hjá einhverju traustu tímariti eða dagblaði. Dag einn kemur í verslunina hástéttarkonan Carol og á milli þeirra kviknar dálítill neisti. Eitt leiðir síðan af öðru og smám saman fer samband þeirra að þróast. Það á þó eftir að draga dilk á eftir sér því Carol á í deilu við eiginmann sinn en hann hefur hótað að nota samkynhneigð hennar sem rökstuðning fyrir því að hann eigi að fá fullt forræði yfir börnum þeirra. Carol er glæsileg mynd sem lýsir viðhorfum til samkynhneigðar á þessum tíma. Báðar leikkonurnar, Cate Blanchett og Rooney Mara, eiga stórleik í myndinni.

________________________________________________________________

Kvöld eitt liggja leiðir Elinar og Agnesar saman og upp frá því þróast óvænt samband.

Unglingsárin erfið
Unglingsstúlkurnar Elin og Agnes eru í sama skóla en eiga annars litla sem enga samleið. Elín er hress og vinsæl á meðan Agnes er vinafá og niðurdregin. Þær eru samt báðar komnar með upp í kok á lífi sínu, en Elínu dreymir um að flýja smábæinn Åmål en Agnesi dreymir bara um Elínu. Kvöld eitt liggja leiðir þeirra saman og upp frá því þróast óvænt samband sem gæti reynst lausnin á vanda þeirra beggja. Spurningin er þó hvort þær séu nógu kjarkaðar til að standa uppi í hárinu á vinum sínum og samnemendum. Fucking Åmål var langt á undan samtíð sinni, eins og svo margar skandinavískar myndir eru, og fjallaði opinskátt um samkynhneigð samhliða því að sýna hversu erfitt það er að vera unglingur.

- Auglýsing -

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -