Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Dulið ofbeldi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Fyrir nokkrum árum var ég beðin að hjálpa 12 ára bróðurdóttur minni sem stríddi við mikla vanlíðan, ekki síst í skólanum. Eftir að við fundum í sameiningu rót vandans breyttist allt til hins betra.

 

Frænka mín bjó ein með pabba sínum og tveimur yngri systkinum. Þegar pabbi hennar þurfti að taka vinnutarnir, sem gerðist stundum, kom þessi yndislega og hæfileikaríka frænka mín og dvaldi hjá mér. Systkini hennar fóru til ömmu þeirra og afa.

Ári áður hafði ég hjálpað henni, að beiðni bróður míns, að breyta viðhorfi sínu gagnvart náminu. Þar sem henni leið svo illa í skólanum fannst henni allt námsefnið leiðinlegt og þar af leiðandi gekk henni mjög illa. Það tók hátt í ár að fá hana til að hugsa að þetta væri ekki leiðinlegt, heldur mismunandi skemmtilegar þrautir. Einkunnir hennar hækkuðu mikið í kjölfarið og henni fannst lítið að fá 8, hún var oftast með 8,5 til 10 í einkunn.

Ríkar stelpur, fátækar stelpur

Þrátt fyrir aukna velgengni í námi var vanlíðanin enn til staðar og bróðir minn var ráðalaus. Því leitaði hann til mín aftur og bað mig um að aðstoða hana í gegnum þetta erfiða tímabil. Hún var þá byrjuð í áttunda bekk.

- Auglýsing -

Við hittumst oft þennan vetur og hún talaði mikið um hvað henni liði illa í skólanum. Hún átti samt mjög erfitt með að koma orðum að því hvað væri svona erfitt og mér fannst aldrei næg ástæða til þess að hún skipti um skóla en það þráði hún heitast af öllu.

Í samtölum okkar kom þó ýmislegt í ljós. Stelpurnar í bekknum hennar voru frá mismunandi heimilum og frænka mín hélt að þær sem áttu ríku foreldrana, eins og hún orðaði það, hefðu sjálfsagðan rétt á því að ráða öllu.

Það tók mig tíma að leiðrétta það að þótt þær ættu allt til alls og væru flottar í tauinu, með flottar töskur og rándýra síma hefðu þær ekki meiri rétt á nokkru en aðrir. Allir væru jafnir og hefðu sama rétt. Mér virtist á þessu að skrítinn mórall ríkti innan bekkjarins.

- Auglýsing -

Bróðir minn barðist í bökkum en börnin voru aldrei svöng og alltaf sómasamlega til fara, ekki í merkjafötum þó. En hann hafði ekki efni á að borga skólamáltíðir fyrir þau svo þau komu með nesti í skólann sem hefði auðvitað átt að vera allt í lagi en var stór hluti vandans hjá frænku minni. Hún upplifði sig fátæka, útundan og alveg glataða þar sem hún var eina barnið í bekknum sem ekki var í skólamatnum.

Veturinn sem frænka mín var í áttunda bekk ákvað ég að borga sjálf fyrir skólamáltíðir hennar og það breytti miklu fyrir líðan hennar.

Ég hafði reynt að berjast með bróður mínum fyrir því að hann fengi styrk fyrir máltíðunum en án árangurs, bærinn þurfti að fara að lögum og reglum og viðmiðunarupphæðin var ótrúlega lág á meðan ekkert tillit var tekið til skulda, það var bara horft á það sem hann fékk útborgað. Hins vegar, ef hann hefði verið tilkynntur til barnaverndar og málið orðið að barnaverndarmáli, hefði þetta verið greitt fyrir öll börnin ásamt tómstundum en það var engin ástæða til að tilkynna neitt, allt gekk vel nema peningamálin. Samt er ekki hægt að segja að börnunum hafi liðið vel með að vera ekki í skólamat og vera án þess að stunda tómstundir. Þau fóru aldrei í bíó með pabba eða í aðra afþreyingu, það var aldrei afgangur.

Trúði því að hún væri ömurleg

Þessi vetur gekk alveg ágætlega til að byrja með en vanlíðanin hvarf aldrei hjá frænku minni. Hún fór ekki ofan af því að sér liði illa í skólanum og eina lausnin sem hún sá var að skipta um skóla.

Hún sagði að einn daginn væru flestar stelpurnar hinar almennilegustu en þann næsta voru þær leiðinlegar við hana og vildu ekkert með hana hafa. Þær settu út á allt sem hún sagði og gerði og hún tók mark á því og trúði því að hún væri ömurleg. Þrátt fyrir að sumir kennararnir yrðu vitni að þessu gerðu þeir aldrei athugasemdir og heldur ekki þær stelpur sem ekki tóku þátt, enginn tók upp hanskann fyrir hana. Hún fékk skrítin svipbrigði og augngotur sem henni fannst verst og þjáðist yfir því.

Einn daginn þegar við ræddum vanlíðan hennar bað ég hana um að reyna að lýsa þessu betur fyrir mér því ég velti fyrir mér hvað gerðist á góðu dögunum hennar. Þá loks fékk ég skýringuna sem ég þurfti. Hún sagði að þegar hún sæti hjá stelpunum eins og í matartímum og í frímínútum, segði ekki orð og léti ekkert í sér heyra fengi hún frið. Ef hún hló fékk hún athugasemdir frá þeim um að hlátur hennar væri asnalegur eða hávær. Ef hún reyndi að taka þátt í samræðunum, setti einhver upp svip eða sagði henni hreinlega að þegja. Hún vogaði sér einu sinni að segja að einhver frægur, sem barst í tal hjá þeim, væri skyldur sér og svo aftur seinna varðandi þekkta söngkonu sem er líka skyld henni. Það var nóg til að hneyksla þennan leiðinlega stelpnahóp og hún fékk að heyra að það væru nú bara allir skyldir henni.

Á þessum tíma byrjuðu strákarnir að veita henni meiri athygli og það virtist fara illa í stelpuhópinn, enda fannst þeim hún ekki hafa rétt á neinu, bara þær.

Komu af fjöllum

Þetta varð til þess að ég pantaði viðtal hjá skólastjóranum og fór með frænku minni á hans fund. Á fundinum var einnig einn af kennurunum hennar. Þau komu alveg af fjöllum þegar þau heyrðu þetta og héldu að þetta gæti nú varla verið rétt.

Þau spurðu hvers vegna ekki hefði verið búið að tala um þetta áður og voru hissa þegar ég sagði að það hefði oft verið talað við umsjónarkennarann hennar þegar hún var á miðstiginu en það hefði aldrei borið árangur. Mér fannst sá kennari raunar nota sömu taktík og sumar stelpurnar og reyna að halda henni niðri. Henni mátti ekki finnast neitt, hvorki fyndið né sorglegt. Hún mátti ekki einu sinni hlæja án þess að sett væri út á það. Ef þetta væri ekki einelti þá væri ekkert einelti, sagði ég.

Á fundinum var ákveðið að frænka mín skipti um skóla. Það tók nokkra daga og þeir dagar voru notaðir í að reyna að laga það sem fram kom á fundinum. Það gekk ekki betur en svo að það virkaði eins og að stelpurnar héldu að þær hefðu hefðu fengið skotleyfi á frænku mína. Þær ásökuðu hana um að vera að ljúga upp á þær, þær legðu hana ekkert í einelti, hún væri algjör lygari. Þær tvær stelpur sem voru stundum í sambandi við hana hættu alveg að vilja tala við hana og hún var algjörlega útskúfuð.

Í nýja skólanum hóf frænka mín nýtt og hamingjuríkt líf. Hún eignaðist strax vinkonur og hafði þekkt eina stelpuna áður og það mjög vel. Sú stelpa var ástæðan fyrir því að hún valdi þennan skóla sem var mjög langt frá heimili hennar.

Strákarnir í nýja skólanum slógust um félagsskap hennar og góð vinátta á milli hennar og margra þeirra myndaðist. Þetta voru bara vinir hennar, hún var alls ekki tilbúin til að fara á fast.

Þessari vinkonu sem hún þekkti áður datt í hug einn daginn að útiloka frænku mína og byrjaði á að búa til lygasögur um hana. Sem betur fer sagði frænka mín mér strax frá því, hringdi grátandi í mig og fannst allt vera hrunið, nú væri eineltið að byrja aftur og hún væri bara ömurleg og einskis virði. Ég hringdi í kennarann hennar sem tók strax á málunum. Þetta er yndisleg kona með mikla reynslu og hún var ekki lengi að stoppa þetta. Í ljós kom að þessi stúlka lét stjórnast af afbrýðisemi út í vinsældir frænku minnar. Frænka mín ákvað að fyrirgefa vinkonunni en ég ráðlagði henni samt að segja henni ekki hvað sem væri og alls ekki hvaða strák hún væri skotin í.

 Nýi skólinn frábær

Þessi tæpu þrjú ár í nýja skólanum voru yndisleg. Frænka mín fann sig vel innan hópsins og það allir voru vinir, ekki bara strákahópar og stelpuhópar eins og í hinum skólanum. Enginn var meiri eða minni en hinir þrátt fyrir mismunandi stöðu foreldranna og allir höfðu sama rétt á að vera til. Einkunnir hennar héldu áfram að vera háar og hún var alltaf jafnvinsæl.

Í dag er frænka mín á þriðja ári í framhaldsskóla og stendur sig vel. Hún fékk góða vinnu með skólanum og í stað þess að eyða öllu í föt og sælgæti heimtaði hún að fá að borga skólamáltíðirnar fyrir yngri systkini sín og býður þeim reglulega í bíó, keilu eða á skauta einu sinni í mánuði.

Í dag er pabbi hennar kominn í betra starf, hann vinnur minna en fær hærri laun. Honum tókst að nurla saman fyrir tómstundum fyrir yngri börnin vegna mikils þrýstings frá frænku minni.

Krakkarnir í hinum skólanum fóru að líta frænku mína öðrum augum þegar þau sáu hversu vinsæl hún var í nýja skólanum og sumar stelpurnar fóru að reyna að nálgast hana. Frænka mín er ekki langrækin, hún tók þeim vel en með fyrirvara og samskiptin gengu oftast vel. Ef frænku minni fannst eitthvað slæmt vera að fara í gang lét hún sig hverfa og kom þeim ekki upp á neitt. Hún hefur lært mikið á þessu og lætur engan kúga sig lengur. Hún er afskaplega heilsteypt, dugleg og falleg að utan sem innan. Ég skammaðist mín um tíma fyrir að hafa ekki gripið fyrr í taumana, ég hlustaði ekki nógu vel og hélt að frænka mín ætti mikinn þátt í þessu, að hún byði bara upp á þetta án þess að átta sig á því sjálf. Í raun var hún mjög óheppin með bekkjarsystur sem of margar kunnu ekki þá góðu reglu að farsælast sé að koma fram við aðra eins og maður vill láta koma fram við sig.

Með þessari frásögn minni vil ég alls ekki setja út á kennara eða annað starfsfólk í skólum en finnst samt að það þurfi að finna betri leið til að uppræta svona kúgun og hljóðlaust einelti eins og frænka mín lenti í.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -