Laugardagur 27. apríl, 2024
6.8 C
Reykjavik

Konur með penna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ekki er langt síðan að það þótti ekki hæfa konum að skrifa bækur. Þetta hljómar fáránlega og jafnvel ótrúlega en þannig var það engu að síður. Margar merkar konur gáfu út bækur sínar undir karlmannsnöfnum. Til allrar lukku er sá tími liðinn og konur eiga sér fulltrúa í flestum ef ekki öllum bókmenntagreinum.

 

Stórvirki Óínu Þorvarðardóttur

Í bókinni Lífsgrös og leyndir dómar fjallar dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir um viðleitni mannsins til að lækna sjúkdóma og finna leiðir til að lina þjáningar. Leitin að læknisdómum er örugglega jafngömul mannkyninu og Ólína kemur vel inn á að alþýðuþekking og reynsluvísindi eru síður en svo kukl og kerlingarbækur. Á miðöldum voru menn hins vegar hræddir við þekkingu og þá voru lunknar ljósmæður og grasakonur iðulega brenndar á báli fyrir galdra.

Lífsgrös og leyndir dómar eftir dr. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur.

Hér á landi hafa menn einnig haft fleiri og fjölbreyttari not af grösum en nokkurn grunar. Ólína skrifar fallegan texta og á mjög auðvelt með að miðla. Þetta er fróðleg, áhugaverð og bráðskemmtileg bók. Vaka Helgafell gefur út.

Í tilfinningaumróti

Tilfinningabyltingin eftir Auði Jónsdóttur leiðir okkur í gegnum umrót, óöryggi og óeirð fyrstu áranna eftir skilnað. Vinkona hennar segir henni að tvö ár sé hæfilegur tími til að jafna sig og finna nýtt sjálf. Auður er einstaklega áhugaverður og skemmtilegur höfundur. Textinn er persónulegur, hlýr og dregnar eru upp dásamlegar myndir af persónum, atvikum og umhverfi. Fólkið í bókunum hennar er svo einstakt og venjulegt í senn að það er ekki hægt annað en að láta sér þykja vænt um það. Hún er kímin á lágstemmdan og einstaklega smellinn hátt.

- Auglýsing -
Tilfinningabyltingin eftir Auði Jónsdóttur

Tilfinningabyltingin ber öll höfundareinkenni hennar og auk þess tekst Auði að leiða lesendur í gegnum sína eigin persónulegu upplifun og vanlíðan þannig að hún verulega skiptir þá máli, þeir spegla sig í henni og fá færi á að læra sömu lexíur og höfundurinn. Mál og menning gefur út.

Í hefndarhug

Huldar lögreglumaður og Freyja sálfræðingur takast í sameiningu á við erfitt morðmál því í raun ekkert bendir til þess hver gæti hafa framið morðið og hvers vegna. Lesandinn fær þó að vita ögn meira en lögreglan, en ekki of mikið þó, eins og um föðurinn í hefndarhug eftir að hafa misst dóttur úr mislingum.

- Auglýsing -
Þögn eftir Yrsu Sigurðardóttur.

Samband Huldars og Freyju fer leynt en Freyja er farin að vinna fast hjá lögreglunni, innsýn hennar er mikilvæg og hún fær að taka meiri þátt í rannsókninni en hún þorði að vona. Hér eru margar sögur og óljósar tengingar á milli en hið sanna kemur fram jafnt og þétt. Þetta er fínasti krimmi sem aðdáendur Yrsu eiga án efa eftir að taka fagnandi. Veröld gefur út.

Kærleiksrík manneskja

Systa eftir Vigdísi Grímsdóttur er bernskusaga Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur, kennara og sálfræðings. Þær stöllur skrifast á og vinna saman úr minningum og minningarbrotum af því hvernig var að alast upp í Skipasundi í Reykjavík á sjöunda áratug síðustu aldar. Bókin er afburða vel skrifuð og lýsir kærleiksríkri, umburðarlyndri og bráðskemmtilegri manneskju.

Systa eftir Vigdísi Grímsdóttur

Sigrún, eða Systa, er einstakur persónuleiki og ber greinilega hag barna mjög fyrir brjósti. Hún hefur líka mjög næman skilning á tilfinningalíf og viðhorf barna. Dásamleg bók sem allir ættu að lesa. Útg. Benedikt.

Afburðasnjöll saga

Delluferðin eftir Sigrúnu Pálsdóttur er afburðasnjöll saga af íslenskri alþýðustúlku sem leggur árið 1896 upp í ferð yfir hafið til New York. Hún er staðráðin í að upplifa ævintýri og ræður sig sem skrifara og aðstoðarmann hjá fræðimanni með sérstakan áhuga á íslenskum fornritum.

Delluferðin eftir Sigrúnu Pálsdóttur.

Margt fer þó öðruvísi en ætlað er og Sigurlína Brandsdóttir lendir í margvíslegum og ótrúlegum hremmingum í stórborginni áður en örlögin leiða hana aftur þangað sem hún á heima. Sigrún Pálsdóttir er afar snjall höfundur, textinn er lifandi, lipur og skemmtilegur og fléttan vel unnin og þétt. Hún er sagnfræðingur að mennt og tekst einkar vel að endurskapa andrúmsloft þessara daga bæði í Reykjavík og New York. Þessa bók ætti enginn lestrarhestur að láta fram hjá sér fara. Útg. JPV.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir og Guðríður Haraldsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -