Fimmtudagur 5. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Kortleggja ilmi í íslenskri náttúru

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sonja Bent og Elín Hrund Þorgeirsdóttir safna og skrá ilmolíur úr íslenskum villtum jurtum.

Sonja Bent og Elín Hrund Þorgeirsdóttir hjá Nordic Angan hafa unnið að rannsóknarverkefni sem felur í sér að kortleggja ilmi í íslenskri náttúru með því að eima jurtir.

Elín Hrund Þorgeirsdóttir og Sonja Bent standa að baki Nordic Angan.

Sonja og Elín Hrund kynntust fyrir nokkrum árum þegar þær voru báðar að selja hönnun sína á pop-up mörkuðum. Sonja er fatahönnuður og hefur starfað sem slíkur undanfarin fimmtán ár. Í nokkur ár hefur hún hins vegar verið að prófa sig áfram með að eima íslenskar jurtir til ilmolíugerðar. Faðir hennar, hafði mjög gaman af því að eima og stundaði það mikið, en hann lærði það af þýskum efnafræðingi þegar hann var staddur úti í Noregi í námi.

„Þannig að ég ólst upp við þetta og fannst þetta spennandi. Pabbi var alltaf að dunda sér við að búa til styrkt vín og snapsa í frítíma sínum. Þó svo að hann hafi verið mest verið að eima vín en ekki jurtir þá eru þetta náskyld ferli. Græjurnar eru líka svipaðar. Við aðlöguðum gamlar brugggræjur sem pabbi átti og þær notaði ég við fyrstu eimingartilraunirnar. Við prófuðum okkur svo áfram og fundum út úr því hvernig væri best að gera þetta. Þó þetta hafi byrjað sem skemmtilegt áhugamál þá varð ég bara spenntari eftir því sem ég eimaði meira.” Fyrir þremur árum ákvað Sonja loks að stofna nýtt vörumerki, Nordic Angan, og árið 2015 kom fyrsta kertið hennar á markað.

Elín Hrund er menntuð í heimspeki, hönnun og menningarmiðlun og undanfarin ár hefur hún komið að skipulagningu og framkvæmd ýmissa hönnunarverkefna ásamt því að hanna og markaðssetja eigin vörur. „Við Sonja náðum strax vel saman og urðum góðar vinkonur. Ég vissi að hún væri að vinna með Nordic Angan og fannst það mjög spennandi. Fyrir um það bil hálfu ári var verkefnið farið að verða of stórt fyrir hana eina og því kom upp sú hugmynd að ég gengi til samstarfs við hana,” segir Elín Hrund.

„Við aðlöguðum gamlar brugggræjur sem pabbi átti og þær notaði ég við fyrstu eimingartilraunirnar. Við prófuðum okkur svo áfram og fundum út úr því hvernig væri best að gera þetta. Þó þetta hafi byrjað sem skemmtilegt áhugamál þá varð ég bara spenntari eftir því sem ég eimaði meira.”

Sonja vill samt meina að Elín Hrund hafi verið viðriðin verkefnið mun fyrr. „Ég bar reglulega hluti undir hana og hún hlustaði alltaf á rausið í mér og kom með góð ráð. Hún hefur líka haft áhuga á jurtum nær allt sitt líf. Þannig að við smullum bara saman og þetta samstarf varð til á mjög lífrænan hátt.”

Þær koma með ólíka styrkleika inn í samstarfið, Sonja er menntaður hönnuður með góðan þekkingargrunn, þökk sé allri tilraunastarfseminni með föður hennar, en Elín Hrund kemur hins vegar úr markaðsmálaumhverfi og þekkir þá hlið mjög vel auk þess að vera líka hönnuður.

- Auglýsing -

Rigningin helsta hindrunin

Saman mótuðu Sonja og Elín Hrund rannsóknarverkefnið sem þær hafa unnið að. Það gengur út á að safna og skrá ilmolíur úr íslenskum villtum jurtum og búa þannig til íslenskan ilmbanka. Þær sóttu um styrki til verkefnisins og fengu úr Hönnunarsjóði Íslands og frá Atvinnumálum kvenna.

„Við söfnum olíunum og skrásetjum allt ferlið, bæði skriflega og með myndum. Helsta hindrunin hefur verðið vætan og íslensk veðrátta. Það er ekki gott að tína í rigningu, hvort sem það er fyrir eimingu eða þurrkun jurta. Jurtirnar gefa einfaldlega ekki jafnmikið af sér því í rigningunni eru þær að einbeita sér að því að taka upp vatn og næringu.

- Auglýsing -
Verkefnið gengur út á að safna og skrá ilmolíur úr íslenskum villtum jurtum og búa þannig til íslenskan ilmbanka.

Einnig höfum við þurft að glíma við heimildaleysi. Það er ekki mikil ilmhefð á Íslandi. Jurtir hafa aðallega verið að notaðar í lækningaskyni, í matargerð og svo framvegis. Þess vegna vantar upplýsingar, bæði um hvaða jurtir innihalda ilmolíur og hvernig sé best að eima þær. Við höfum lent í því að eima jurtir en það kemur engin olía, það er auðvitað svekkjandi en hluti af ferlinu. Þá athugum við hvort það sé hægt að ná ilminum með öðrum aðferðum – við gefumst ekki upp,” segir Elín Hrund.

Þetta er mjög yfirgripsmikið verkefni og Sonja segir að það muni kannski aldrei taka enda. „Það eru yfir átta hundruð mosategundir á landinu, bara svona til dæmis. Þannig að rannsóknarverkefnið hefur að mörgu leyti snúist um að sigta úr og ákveða hverju við viljum byrja á.”

Í dag eru þær búnar að safna tæplega þrjátíu ilmtegundum og hafa tínt út um allt land. „Sumar jurtir vaxa aðeins í ákveðnum landshlutum en ekki í öðrum, eins getur líka verið mikill munur á því hversu mikið er af jurtinni milli landshluta. Við reynum að koma á góðum samböndum við bændur og landeigendur til að fá að koma inn á jarðirnar þeirra til að tína, eða jafnvel fá þá til að tína jurtir og selja okkur,” segir Elín Hrund.

„Það er líka mjög mismunandi á hvaða tímabilum er best að tína jurtir. Sumar höfum við ekki getað tínt fyrr en núna í ágúst og við munum halda áfram út september. Síðan má ekki gleyma öllum barrtrjánum, en við eigum mjög margar tegundir þeirra eftir,” bætir Sonja við.

Þær passa að ganga aldrei á náttúru landsins og hafa meðal annars átt í góðu samstarfi við Skógrækt Íslands. „Nú eru allt í einu vaxnir upp skógar hér á landi sem þarf að grisja og viðhalda þannig að við höfum fengið greinar frá þeim.

Eins með jurtir og blóm þá reynum við að tína bara eins mikið og við þurfum en kannski meira af því sem er mikið af. Ef að planta er sjaldgæf þá er hvort eð er ekki grundvöllur til að nota ilminn úr henni í vörur því það er einfaldlega ekki nóg af henni.”

Hrein náttúra, hreinn ilmur

Það má segja að Sonja og Elín Hrund séu sannkallaðir brautryðjendur. „Það eru auðvitað mörg snyrtivörufyrirtæki að nota íslenskar lækningarjurtir en nota svo erlendar ilmkjarnaolíur því það hefur einfaldlega ekki verið hægt að fá íslenskar. Nú þegar hafa nokkur fyrirtæki haft samband við okkur og sýnt áhuga á samstarfi og við höfum hafið tilraunastarf með nokkrum þeirra,” segir Sonja.

„Íslensk náttúra er enn svo hrein og þar af leiðandi eru olíurnar líka hreinar og hágæða vörur. Við notum líka hreina íslenska vatnið til að eima á meðan erlendis nota þeir oft klórvatn.”

Að sögn Elínar hafa íslenskar jurtir ákveðna sérstöðu og eru að mörgu leyti ólíkar skyldum jurtum erlendis.

Íslenskar jurtir hafa einnig ákveðna sérstöðu og eru að mörgu leyti ólíkar skyldum jurtum erlendis. „Hér eru auðvitað líka jurtir sem finnast annars staðar í heimnum en flestar eru ólík afbrigði og lyktin af þeim getur verið allt öðruvísi. Til dæmis er mikill munur á íslensku blóðbergi og timjani annars staðar, svo eitthvað sé nefnt,” segir Elín Hrund. Það er því ekki að furða að þær hafa fundið fyrir miklum áhuga erlendis frá, til að mynda frá Asíu.

„Við munum svo halda áfram að finna nýjar tegundir íslensks ilms og prófa okkur áfram að nota þær í vörulínu okkar. Það er svo margt hægt að gera, ekki bara kerti og reykelsi. Ég hef til dæmis séð fyrir mér að búa til ilmolíur fyrir gufuböð heilsulinda. Hversu yndislegt væri að sitja í gufubaði umlukin angan íslenskrar náttúru,” segir Sonja.

„Það er ekki mikil ilmhefð á Íslandi. Jurtir hafa aðallega verið að notaðar í lækningaskyni, í matargerð og svo framvegis. Þess vegna vantar upplýsingar, bæði um hvaða jurtir innihalda ilmolíur og hvernig sé best að eima þær.”

„Það er líka annar vinkill á þessu sem okkur þykir spennandi. Skynjun okkar á ilmi er frábrugðin sjónskynjun okkar til dæmis. Það er auðvelt að mæla sjón og hvernig við sjáum hluti. Ilmur hins vegar er svo nátengdur tilfinningum og minni, og er því í raun sterkari en sjónin. Þegar fólk kemur til okkar og þefar af ilmi þá upplifir það ilmtegundir mjög mismunandi og tengir þær oft við eitthvað ákveðið úr sinni fortíð. Þetta er eitthvað sem okkur langar að rannsaka dálítið betur,” bætir Elín Hrund við.

Þær geta þess að þær reyni að setja alltaf myndir og tilkynningar á samfélagsmiðla þegar nýjar jurtir eða nýr ilmur er tilbúinn. „Það er gaman að sjá að sumir koma aftur og aftur,” segir Sonja að lokum.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -