Fimmtudagur 18. júlí, 2024
13.8 C
Reykjavik

Margt sem situr eftir ósvarað

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigrún Ásta Jörgensen hafði nánast kvatt drauminn um að verða móðir en bíður nú fæðingar tvíbura sem væntanlegir eru í heiminn á hverri stundu.

Hún segist sannfærð um að stress og kvíði hafi mikið haft að segja en röð áfalla setti andlega heilsu hennar úr skorðum, einkum og sér í lagi sjálfsvíg bróðurins sem var hennar besti vinur. „Bróðir minn dó í maí árið 2015, rétt eftir 27 ára afmælisdaginn sinn. Það var rosalega erfitt en hann hafði glímt við eiturlyfjafíkn lengi auk þess að vera þunglyndur og félagsfælinn.“

„Í dag skil ég hvers vegna hann fór þessa leið og hef lært að virða hans ákvörðun, en það tók mig langan tíma. Um langt skeið var ég bæði reið og sár út í hann fyrir að hafa farið frá okkur öllum á þennan hátt. Það var svo margt ósagt á milli okkar og mikið sem situr eftir.“

„Hann framdi sjálfsvíg heima hjá ömmu okkar og afa en ég gisti líka hjá þeim þessa nótt. Við höfðum öll miklar áhyggjur af honum enda hafði hann ítrekað látið í ljós vanlíðan sína. Klukkutíma eftir að við lögðum af stað í vinnuna um morguninn var hann dáinn. Þegar hann svaraði ekki símanum hringdi amma í lögregluna því hún fann strax á sér að eitthvað væri að. Lögregluþjónarnir mættu fyrstir á svæðið en við amma komum skömmu síðar. Þegar annar lögregluþjónninn gerði sig líklegan til að faðma mig við útidyrahurðina ýtti ég honum harkalega í burtu og hljóp upp. Þeir höfðu komið Bent fyrir í rúminu þar sem hann lá í friðsælli stellingu.“

„Ég sá hann dáinn heima en ekki í þeim aðstæðum sem hann dó í, það hefði sennilega eyðilagt mig að eilífu.“

Sigrún Ásta leitaði allra lausna til þess að skilja hvers vegna bróðir hennar hafði ákveðið að fara þessa leið en hún skoðaði meðal annars fartölvu hans og þær síður sem hann hafði síðast skoðað. „Ég sá fljótt að hann hafði gert ítarlega leit að upplýsingum um hvernig hægt væri að blanda of stóran skammt, dauðaskammt. Hann vildi klára þetta og alls ekki eiga á hættu að mistakast. Eftir að hafa lesið dánarskýrsluna nokkrum mánuðum síðar fékk ég það svo staðfest. Það að missa nákomna manneskju sem fremur sjálfsvíg er að mínu mati ekki sambærilegt við það að missa manneskju með öðrum hætti. Sorgin sem tekur við er öðruvísi en sú sem við þekkjum flest. Stuttu síðar lést afi minn, sem bróðir minn var skírður í höfuðið á, en afi var okkur systkinunum mikil föðurímynd. Hann hafði þó náð 86 ára aldri og lifað góðu lífi. Þó að það hafi auðvitað verið erfitt var það ekki sambærilegt á nokkurn hátt.“

„Bent bróðir var besti vinur minn og fyrirmynd mín í lífinu. Ég hafði gengið í gegnum allt með honum. Það sem hann kenndi mér er fyrst og fremst þakklæti fyrir það sem ég hef. En ég hef líka lært að skilja fólk sem er á þessum stað.“

„Það kljást margir við erfið geðvandamál og svo mörgu er ábótavant í geðheilbrigðismálum á Íslandi.“
Mæðgurnar reyndu nokkrum sinnum að fá innlögn fyrir Bent en Sigrún Ásta lýsir viðmótinu sem þær mættu sem því versta sem þær hefðu báðar upplifað. „Upplifun manns er sú að öllum standi hreinlega á sama. Við urðum fyrir svo miklum vonbrigðum því á þessum tíma hafði Bent talað mikið um það hversu illa honum leið og margoft sagt að hann ætlaði að klára þetta.“

„Eftir að hafa beðið á biðstofunni tímunum saman kom loksins röðin að honum en eftir örstutt spjall við lækninn var hann sendur út með þeim skilaboðum að ekkert væri hægt að gera.“

„Ég óskaði í kjölfarið eftir samtali við yfirlækni á staðnum og benti henni á þá bláköldu staðreynd að bróðir minn væri í mikilli sjálfsvígshættu. Hún ítrekaði sitt fyrra svar, að það væri ekkert hægt að gera. Mér leið eins og hún hreinlega nennti ekki að tala við mig. Mánuði seinna var Bent dáinn. Kannski hefði verið hægt að hjálpa, við vitum það ekki fyrir víst, en þeirri spurningu er engu að síður enn ósvarað.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

- Auglýsing -

Mynd / Aldís Pálsdóttir.
Förðun / Sara Dögg Johansen.
Hár / Katrín Sif Jónsdóttir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -