Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

Paradísin í borgarjaðrinum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Náttúran er okkur flestum hugleikin en sennilega hugsum við flest um krókóttar leiðir og fallegt víðsýni á íslenska hálendinu þegar hún kemur okkur í hug. Blaðamaður þekkir ekki vel til íslenskrar náttúru fyrir utan að hafa verið í sveit norður á Ströndum í barnæsku, en átti þar upplifanir sem skutu rótum. Ólafi Ólafssyni náttúruunnanda fannst nóg um um fáfræði hans um nágrenni höfuðborgarsvæðisins og tók hann í góðan bíltúr um Krýsuvík og Reykjanesskagann.

Ólafur Ólafsson, ferðalangur og náttúruunnandi. Á bak við hana er fúll pyttur en lyktin vísar til brennisteins sem kemur frá hverunum.

Blaðamaður varð gjörsamlega heillaður af þessu umhverfi, sem var stórkostlegt, svona rétt í bakgarðinum hjá honum. Hann ákvað í samráði við Ólaf að að hafa samband við Kristínu Jónsdóttur jarðskjálftafræðing og tala um jarðskjálftanáttúru almennt og svo auðvitað Reykjaneshrygginn. Kristín hefur haft mikinn áhuga á náttúrunni frá því hún man eftir sér.

,,Ég ólst upp í Breiðholtinu í nágrenni við móa og læk sem ég lék mér mikið við sem barn. Ég var líklega sjö ára þegar ég sagði öllum sem heyra vildu að ég ætlaði að verða stjörnufræðingur. Ég safnaði plöntum, þurrkaði og pressaði og límdi inn í stílabók með hjálp pabba þegar ég var smástelpa. Ég fletti plöntunum upp í Íslenskri flóru og merkti þær með nafni samviskusamlega í bókina mína. Ég var líka heilluð af hrauni og gjám og safnaði steinum. Mamma og pabbi voru kennarar og mamma var sérstaklega ötul við að kenna nöfnin á fjöllunum og útskýra fyrirbæri eins og gervigíga og hraunreipi.

Í skóla hafði ég mikinn áhuga á náttúrufögum og mestan áhuga hafði ég á ferlum og myndunum, ég vildi skilja hvernig fyrirbærin mynduðust, en hafði minni áhuga á fögum þar sem áherslan var lögð á upptalningar og skilgreiningar. Ég var á eðlisfræðibraut í menntaskóla og fór svo í jarðeðlisfræði í Háskóla Íslands. Þar er margt skemmtilegt kennt og m.a. grunnur í jarðskjálftafræði. Ég var heppin að fá góða kennara og leiðbeinendur og í gegnum þá fékk ég sumarvinnu í tengslum við jarðskjálftamælingar. Ég fór síðar í nám til Svíþjóðar í jarðskjálftafræði. Doktorsverkefnið fjallaði að mestu um jarðskjálfta í eldstöðinni Kötlu. Í dag vinn ég í náttúruváreftirlitinu á Veðurstofu Íslands þar sem við m.a. fylgjumst með jarðskjálftavirkni á öllu landinu.“

„Ég hef mikið dálæti á Búrfellsgjá og fer þangað iðulega með erlenda gesti. Hraunmyndanirnar þar eru einstakar og gjáin sjálf, þó að hún sé um átta þúsund ára, í raun ekkert mjög ólík þeirri sem myndaðist í Holuhrauni fyrir fjórum árum.“

Fjölbreytt starf en um leið sérhæft
En hverjar skyldu megináherslurnar í starfi jarðskjálftafræðingsins vera? ,,Jarðskjálftafræðin er mjög breitt fag og tiltölulega gömul fræðigrein. Yfirleitt eru jarðskjálftafræðingar frekar sérhæfðir þar sem námið er langt og fræðin flókin. Eitt meginverkefni jarðskjálftafræðinnar er að rannsaka upptök jarðskjálfta, reikna staðsetningu, stærð og hreyfingu í upptökum. Við getum ekki enn spáð fyrir um jarðskjálfta en hugsanlega verður það hægt í framtíðinni. Við getum líka nýtt okkur jarðskjálfta til að átta okkur betur á innri gerð jarðar og sér í lagi til að skoða byggingu jarðskorpunnar. Sem dæmi þá er hægt að nota jarðskjálftagögn til að fá upp mynd af innri gerð eldstöðva, nánast eins og sónarmynd af fóstri, til að átta okkur á því hvort og þá hvar og hversu mikil kvika er inni í fjallinu. Í dag er ég að vinna í rannsóknarverkefni sem notar samfelldan jarðóróa eða jarðsuð til að reikna hvort og þá hvernig jarðskorpan breytist á stuttum tíma (milli mánaða). Hugsanlega verður hægt að nota aðferðina við að greina upphaf eldgosa, þegar kvikuflæði inn í eldstöðina eykst og kvikuþrýstingur byggist upp.“

Skiptir það miklu fyrir eldfjallaland eins og Ísland að hafa jarðskjálftafræðinga og þá hvernig?
,,Það skiptir miklu máli fyrir Ísland að hafa menntaða jarðskjálftafræðinga. Á Íslandi eru þrjátíu og tvær virkar eldstöðvar og að meðaltali eldgos á fimm ára fresti. Þá eru tvö brotabelti, Suðurlandsbrotabeltið og Tjörnesbrotabeltið, þar sem geta orðið skjálftar sem geta valdið miklu tjóni. Jarðskjálftafræðin hefur reynst mjög vel við að greina forboða eldgosa, nú síðast í Bárðarbungu þegar eldgos braust út í Holuhrauni. Veðurstofa Íslands ber ábyrgð á náttúruváreftirliti, þar með að reka jarðskjálftamæla um allt land og greina forboða náttúruváratburði, ekki bara vegna eldgosa heldur líka vegna skriðuhættu og flóðahættu en þar hafa jarðskjálftamælar nýst vel. Það segir sig sjálft að þekking verður að vera til staðar til að reka jarðskjálftakerfi og mæla forboða.“

Reykjanesskaginn er mjög áhugaverður
En aftur að Reykjanesskaganum. Hvað er vitað um myndun hans, hversu gamall er hann, hvenær gaus þar síðast, er það vitað? Er enn virkni í honum og hvar þá. ,,Reykjanesskaginn er mjög áhugaverður. Eftir honum liggur gos- og rekbelti sem liggur allt frá Reykjanestá og norðaustur eftir til Þingvalla. Þetta belti markar flekaskil milli Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans. Þessir flekar færast í sundur um 2 cm á ári að meðaltali. Flekaskilin eru í raun framhald af Atlantshafshryggnum sem má segja að gangi á land við Reykjanestána.

„Ég var líka heilluð af hrauni og gjám og safnaði steinum. Mamma og pabbi voru kennarar og mamma var sérstaklega ötul við að kenna nöfnin á fjöllunum og útskýra fyrirbæri eins og gervigíga og hraunreipi.“

- Auglýsing -

Jarðskjálftasprungur sem liggja nánast í norður-suður, liggja einnig eftir Skaganum og krossa sums staðar gossprungurnar. Þessi fyrirbæri eru tiltölulega aðgengileg og augljós þegar manni er bent á þau og njóta sín vel í gróðursnauðu umhverfinu.
Það má segja að Reykjanesskaginn sé einstakt sýnidæmi um landrek og gosvirkni. Mikil gosvirkni gekk yfir Reykjanesskagann fyrir um þúsund árum sem hófst skammt frá Henglinum og færðist hægt suðvestur eftir Skaganum. Hrinan stóð yfir í um tvö hundruð ár. Virknin í dag lýsir sér í jarðhitavirkni á nokkrum stöðum (Krísuvík, Svartsengi, Reykjanes) og jarðskjálftavirkni eftir öllum Skaganum. Á hverju ári verða nokkrir jarðskjálftar á Reykjanesskaganum sem finnast vel í byggð. Tímabil gosvirkni mun endurtaka sig aftur í framtíðinni en engin merki eru um að það muni gerast á næstunni.

Á Reykjanesskaganum eru mjög áhugaverðir staðir sem vert er að skoða. Ég hef mikið dálæti á Búrfellsgjá og fer þangað iðulega með erlenda gesti. Hraunmyndanirnar þar eru einstakar og gjáin sjálf, þó að hún sé um átta þúsund ára, í raun ekkert mjög ólík þeirri sem myndaðist í Holuhrauni fyrir fjórum árum. Eldvörpin eru einnig falleg og hjúpuð dulúð. Undanfarin sumur höfum við fjölskyldan gengið að Gömlu Krísuvík sem ég get líka mælt með. Auðveld ganga og áhugaverð saga um byggð sem varð frá að hörfa vegna eldvirkni og hraunstraums.“

Unnur blaðamaður og Ólafur, ferðafélagi og náttúrunnandi, þakka Kristínu kærlega fyrir þessar áhugaverðu upplýsingar og hlakka þegar til næstu ferðar á Reykjaneskaganum með þær í farteskinu sem og á aðra staði sem hafa haft gosvirkni. Það tekur aðeins um 15 mínútur að komast í paradísina frá Völlunum í Hafnarfirði. Það er svo mikið að skoða og fyrir höfuðborgarbúa er þessi stórkostlega náttúra hreint og beint í bakgarðinum við heimili þeirra.

- Auglýsing -

Höfundur / Unnur Hrefna Jóhannesdóttir
Aðalmynd er af Kristínu Jónsdóttur jarðskjálftafræðing.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -