Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Múlakaffi lifir á fornri frægð: „Maturinn var einfaldlega vondur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Saga Múlakaffis er stórmerkileg, um það verður ekki deilt. Þegar hjónin Stefán Ólafsson og Jóhanna Jóhannesdóttir opnuðu staðinn árið 1962 í Hallarmúla, þar sem hann er enn þá til húsa, fannst mörgum það fáránleg hugmynd. Á þeim tíma var mikill uppbygging á svæðinu, en það þótti hálfgerð sveit í Reykjavík. Þau hjónin hlógu þó allan leið í bankann og varð matsölustaðurinn fljótt vinsæll og þekktur fyrir góðan mat og sanngjarnt verð.

Árið 2023 sér Jóhannes Stefánsson, sonur þeirra hjóna, um staðinn og hefur gert í áratugi. Óhætt er að segja að á tímanum frá stofnun hans hafi staðurinn skapað sér sérstakan stað í hjarta margra íbúa Reykjavíkur, en ásamt því að bjóða upp á upp á mat í Hallarmúla rekur Múlakaffi veisluþjónustu og sér um mat í nokkrum stórum fyrirtækjum. Það eru örugglega fáir Íslendingar á höfuðborgarsvæðinu 25 ára og eldri sem hafa aldrei borðað mat frá Múlakaffi, hvort sem þeir vita af því eða ekki.

Þó að ég hafi vissulega borðað mat frá Múlakaffi, þá hafði ég aldrei komið inn á matsölustaðinn í Hallarmúla, þrátt fyrir að hafa unnið og búið í nágrenni við staðinn til lengri tíma. Ég skellti mér því þangað tvisvar sinnum með stuttu millibili. Í fyrra skiptið fékk ég mér lambalæri með kartöflum í bearnaise-sósu og hið seinna Tikka Masala-kjúkling með hrísgrjónum. Stemmingin á staðnum var eins og ég bjóst við. Iðnaðarmenn á fertugs- og fimmtugsaldri og karlmenn sem eru sennilega hættir að vinna. Ég sá aðeins eina konu borða á staðnum, en báða dagana var fullt hús. Andrúmsloftið var afslappað og fínt að sitja inni á staðnum. Konan sem afgreiddi mig var svo indæl að mig langaði helst til að bjóða henni að setjast með mér og ræða um lífið og tilveruna.

En þrátt fyrir huggulegt andrúmsloft, þá er ekki hægt að líta fram hjá því að maturinn var einfaldlega vondur. Jú, sósurnar og meðlætið voru allt í lagi en lambið og kjúklingurinn voru nánast óæt. Stórfurðuleg áferð á kjötinu, sem var seigt í þokkabót, og ég er ekki viss um að ég gæti greint milli lambsins og kjúklingsins ef um blindsmökkun væri að ræða. Þá verð ég líka að setja spurningarmerki við skammtastærðina. Ég á einhvern veginn erfitt með að trúa því að smiður sem er að vinna úti í frosti og 15 metrum á sekúndu sé sáttur við hálfan disk fyrir þrjú þúsund krónur. Sérstaklega í ljósi þess að fyrir sömu upphæð á Salatbarnum er hægt að fá aðgang að hlaðborði þar sem er meira úrval af mat og sá matur er talsvert betri. Það sem stingur líka er að Múlakaffi gefur sig út fyrir að maturinn sé fullur af ást. „Eins og maturinn heima hjá mömmu,“ sagði Stefán um stefnu staðarins og á það vera stefnan í dag. Maturinn sem ég borðaði á ekkert skylt ljúffengan heimilismat sem er eldaður af ást og umhyggju. Kannski var það raunin fyrir einhverjum árum, en nú er annað uppi á teningnum.

Gagnrýni þessi birtist fyrst í nýjasta blaði Mannlífs sem hægt er að lesa hér

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -