Föstudagur 19. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Rómantískur draumur sem varð að veruleika

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einn góðan sumardag héldu blaðamaður og ljósmyndari í sveitaleiðangur með það að markmiði að upplifa íslenskan mat beint frá bónda og fræðast í leiðinni um smáframleiðslu bænda og hugsjónir fólks sem stendur í slíku. Við vorum á leið í Friðheima í Reykholti þar sem hjónin Knútur Hrafn Ármann og Helena Hermundardóttir tóku á móti okkur en þau eiga og reka staðinn.

 

Knútur og Helena rækta tómata, reka veitingahús ásamt matar-minjagripabúð og stunda að auki hrossarækt. Þau eru með um 40 vinnumenn allt árið og en fleiri starfa hjá þeim yfir sumartímann en búskapurinn hefur ekki alltaf verið svona yfirgripsmikill.

Þau byrjuðu bara tvö árið 1996 þá bæði nýútskrifuð úr skóla og uppfull af hugmyndum og áhuga á garðyrkju og hrossahrækt. Það sem átti að vera lítil aukabúgrein hjá þeim varð sú stærsta og aldrei hefði þau órað fyrir því árið sem þau byrjuðu að þau ættu eftir að taka á móti 160 þúsund gestum yfir árið í 100 km fjarlægð frá höfuðborginni.

„Ferðafólk sem kemur hingað getur ekki ímyndað sér hvernig við förum að því að rækta grænmeti allt árið um kring á Íslandi,“ segir Knútur.

Knútur sagði okkur sögu þeirra hjóna, fallega rómantíska drauminn um að flytja upp í sveit sem varð svo að veruleika.

„En hér hafði enginn búið í 4-5 ár og var staðurinn í mikilli niðurníðslu þegar við keyptum hann.“

„Við erum bæði úr Reykjavík og kynntumst 17 ára gömul. Okkur langaði til að geta ræktað grænmeti og geta verið með hesta líka og áttum þann draum um að flytja upp í sveit. Það var einhver sveitarómantík í okkur og við stefndum að þessu mjög ung. Helena hafði mikinn áhuga á garðyrkju og ég hafði verið í sveit frá því ég var polli. Helena fór svo í garðyrkjuskólann og ég í búfræðinám. Síðan ári eftir að við útskrifuðumst árið 1995 fórum við að líta í kringum okkur og fundum þennan yndislega stað Friðheima til að byrja okkar búskap sem er í grunninn gömul garðyrkjustöð sem stofnuð var árið 1946 og var eitt sinn myndarlegt garðyrkjubú. En hér hafði enginn búið í 4-5 ár og var staðurinn í mikilli niðurníðslu þegar við keyptum hann,“ segir Knútur.

Að sögn Knúts voru þau heppin að ná þessum stað því hann var fyrst og fremst ódýr og þau nýútskrifuð úr námi og því hentaði hann vel til að byrja búskap. Þau ætluðu að byggja staðinn upp í rólegheitum og leggja áherslu á garðyrkjuna.

- Auglýsing -

Þau byrjuðu að rækta gúrkur, tómata og paprikur en fóru fljótlega að leggja áherslu á tómatana. Í dag rækta þau þrjár tegundir af tómötum og framleiða eitt tonn á dag að meðaltali allan ársins hring og eru næststærst á Íslandi í tómataræktun. Neytendur geta oftast keypt tómatana þeirra sama dag og þeir eru tíndir af plöntunum og eru þeir merktir Friðheimum.

Gengur út á matarupplifun

Hugmyndin að veitingastaðnum fengu þau fyrir um 10 árum og átti að vera hliðarbúgrein hjá þeim hjónum. „Við höfum verið með hesta frá upphafi en fengum svo hugmynd fyrir um 10 árum síðan að opna hér veitingasölu og bjóða gestum til okkar. Fólk fengi að komast í návígi við íslenska hestinn, kíkja inn í gróðurhúsin og borða. Við vildum líka sýna gestum hvernig Íslendingar fara að því að rækta grænmeti allt árið. Ferðafólk sem kemur hingað getur ekki ímyndað sér hvernig við förum að því að rækta grænmeti allt árið um kring á Íslandi,“ segir Knútur.

„Við vildum líka sýna gestum hvernig Íslendingar fara að því að rækta grænmeti allt árið.“

- Auglýsing -

Allir gestir fá stutta kynningu á tómataræktuninni hvort sem þeir koma í hóp eða ekki. Starfsfólkið er þjálfað til að geta kynnt starfsemina vel.

Tómatar leika aðalhlutverkið á matseðli Friðheima.

Allur matseðilinn er unninn út frá tómataplöntunum sem fólkið situr við hliðina á þegar það borðar. Boðið er upp á tómatsúpu, pasta og pestó, tortillur, bláskel, ís, bökur og ostakökur þar sem tómatar leika að sjálfsögðu aðalhlutverkið.

Basilíkuplanta er á hverju borði og gestirnir geta tekið sér af plöntunni eins og þeir vilja til að krydda matinn með. Að sögn þeirra hjóna hafa þau átt farsælt og gott samstarf við meistarakokkinn og vin, Jón K.B. Sigfússon, sem á heiðurinn af flestum uppskriftum Friðheima.

Lengri umfjöllun um Friðheima birtist í 10 tölublaði Gestgjafans 2018.

Myndir / Unnur Magna

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -