Þriðjudagur 3. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Boléro og pabbi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst
Eftir / Óttar M. Norðfjörð

Pabbi elskaði klassíska tónlist. Hann var arkitekt og rak stofuna sína frá efri hæðinni heima hjá okkur og ef Gamla gufan var ekki á hlustaði hann á Bach, Mozart, Beethoven – og auðvitað Ravel.

Ég man enn þá þegar ég heyrði Boléro eftir Ravel í fyrsta sinn uppi á stofunni hans heima. Ég var lítið í klassískri tónlist en kolféll fyrir verkinu – sama endurtekna stefinu spiluðu aftur og aftur í magnaðri stigmögnun. Þetta var snemma á tíunda áratugnum, ég var á kafi í eletróník, en einhvern veginn tókst mér að finna samhljóm á milli þess og tónverksins.

Um daginn spilaði ég Boléro fyrir rúmlega árs gamlan son minn. Ég held að hann hafi kunnað að meta það, þótt hann sýndi reyndar símanum sem spilaði það meiri áhuga og reyndi ítrekað að borða hann. En að hlusta á fimmtán mínútna langt tónverkið með son minn í fanginu kom af stað alls kyns minningum um pabba, um hvernig hann elskaði að sitja á arkitektastofunni sinni að vinna með klassíska tónlist undir, og þegar hann setti Boléro á var það eins og lítil athöfn. Hann hækkaði vel í græjunum svo ég heyrði tónlistina niður í herbergið til mín. Á þeirri stundu varð hann unglingurinn á heimilinu.

Á meðan ég hélt á syni mínum og hlustaði á Boléro og hugsaði um pabba leið mér eins og við þrír værum tengdir, jafnvel þótt pabba hefði ekki gefist tækifæri til að kynnast syni mínum, og jafnvel þótt syni mínum gæfist aldrei tækifæri til að kynnast afa sínum, þeim yndislega manni. Ég komst við og hugsaði um tímann, um hringrásina, um kynslóðir og endurtekninguna og tónlistina sem brúar bilið. Þegar strákurinn minn brosir sé ég stundum brosið hans pabba, því allt fer í hringi, lífið og dauðinn, eins og lúppan í Boléro.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -