Þriðjudagur 15. október, 2024
6.7 C
Reykjavik

Borgarfulltrúinn „Loftslags Lóa“ er hagsýn – Er með sitt eigið hringrásarhagkerfi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Borgarfulltrúinn Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er neytandi vikunnar. Hún er af þingeysku og sunnlensku bergi brotin og er alltaf kölluð Lóa. Lóa er alin upp í Breiðholti og hefur búið þar og í Árbæ, en svo er hún skógarbóndi í Suður-Þingeyjarsýslu á sumrin. Lóa er gift Pétri Jónssyni rekstrarhagfræðing og eiga þau þrjú uppkomin börn. Þau eru ný orðin amma og afi en dóttir þeirra eignaðist á dögunum eineggja þríburastelpur sem allt þeirra líf snýst um þessa dagana. Lóa er forseti borgarstjórnar og oddviti Viðreisnar í Reykjavík. Hún hefur verið borgarfulltrúi í 5 ár en þar á undan hefur hún víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, af hagsmunabaráttu og stjórnun stærri og minni fyrirtækja ásamt því að hafa í áratug stýrt velferðarþjónustu í Reykjavík. Henni finnst mjög gaman að vinna með ólíku fólki og þrífst vel í pólitík og allskyns atgangi.

Gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu?

Já, ég geri verðsamanburð og finn mér síðan birgja eða þjónustuaðila sem bjóða uppá góð verð og góða þjónustu. Ég skoða alltaf verð og þjónustu í samhengi og ef mér líkar vel þá stend ég mig að því að vera ótrúlega trúr viðskiptavinur.

Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?

Mesti sparnaðurinn hjá mér í matarinnkaupum var þegar ég fór að versla kvöldmat hjá Eldum rétt, við það sparast innkaup af allskyns matvöru sem gjarnan dagaði uppi inní skáp hjá mér. Núna kaupi ég reglulega allan kvöldmat í gegnum fyrirtæki eins og Eldum rétt og þá er mun minni sóun, ég fer sjaldnar í búðir og mun minna fer til spillis.

Ég veiði mikið silung, lax, gæs og hreindýr og á því alltaf mikið af mat í frystikistunni. Mér finnst mjög gaman vinna með mat í samræmi við Slow Food aðferðafræði og rækta því alltaf mikið af grænmeti og kryddjurtum. Við erum nýbúin að setja niður smá af kartöflum því það er svo gaman á haustin að fá smá uppskeru þrátt fyrir að kartöfluneysla fjölskyldunnar hafi gjörbreystá undanförnum áratugum. Ég var alin upp  við það að það væri ekki kvöldmatur ef það voru ekki kartöflur með en í dag er það algjör undantekning, en nýjar kartöflur eru svo svakalega góðar með nýveiddum silung að ég stenst ekki mátið að setja niður smá af útsæði á vorin. Nýjasta sparnaðarráðið mitt er nátengt markmiðum mínum sem Loftslags-Lóa. Sem er stöðug áminning um að allt sem ég geri hefur áhrif á samfélagið og á loftslagið. Þess vegna versla ég nú í auknum mæli allan mat á netinu og læt senda hann heim til mín. Það spara mér skyndikaup og allskyns útúrdúra af innkaupum sem ég gjarnan dett í ef ég fer í búðina en um leið er það betra fyrir loftslagið og umferðina að fá matarinnkaupin send heim. Það er þá bara einn aðili sem keyrir heim til margra í stað þess að margir ferðist í búðina.

- Auglýsing -

Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?

Já ég er uppalin við hið svokallaða hringrásarhagkerfi fjölskyldunnar sem hefur verið við líði í marga áratugi. Föt, húsgögn, leiktæki, hjól og allskyns tól og tæki færast á milli okkar í stórfjölskyldunni. Ég og systir mín, Hera Björk, skiptumst á fötum þannig að ég sendi til hennar föt í fóstur og fæ frá henni föt sem ég fóstra. Svo líða margir mánuðir og möguleg ár þangað til við skiptum aftur og þá er eins og maður hafi eingast nýjan fataskáp. Auk þess þá er ég með eigið hringrásarkerfi, ég kaupi föt sem ég nota í vinnuna, þegar búið er að nota fötin um langan tíma í vinnunni þá breytast fötin í hverdags- og heimaföt eða sveitaföt og þannig næ ég að eiga fötin mín og nota í mörg ár. Langflest mín föt enda svo í sveitinni þar sem ég og næstu kynslóðir notum þau í mörg ár í viðbót. Við tökum jafnan ástfóstri við ótrúlegustu flíkur, þannig hefur síðerma íþróttabolur af mér farið marga hringi í fjölskyldunni. Liverpool bolur sem keyptur var á Anfield fyrir margt löngu síðan hefir líka orðið að „icon“ sveitabol sem stórfjölskyldan notar á sumrin pabba til mikillar gleði. Mitt ráð til annarra er að gefa fötum og allskyns tækjum og tólum mörg líf, og þegar búið er að nota allt lengi og vel að gefa þá á nytjamarkaði. Svo tek ég alltaf tímabil sem gengur undir nafninu „kláraðu kremið Lóa“ þá kaupi ég engin ný krem til dæmis dagkrem, rakakrem eftir sund og íþróttaferðir og nota allt sem ég á þangað til allt er búið, þá má kaupa ný krem.

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?

- Auglýsing -

Ég hef alltaf í huga að gjafir að fólk geti notað það, gef líka mikið af bókum þó það væri ekki nema til að styðja við útgáfur og rithöfunda. Í matarinnkaupum hugsa ég í dag að „less is more“ reyni að kaupa minna en meira, því það er svo mikil sóun í að kaupa of mikið af mat.

Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?

Mér finnst erfiðast að draga úr tækjakaupum, ég er alveg hrikalegur tækjanörd, þarf alltaf að eiga það nýjasta en ekkert endilega það besta.

Skiptir umhverfisvernd þig máli?

Já loftslagið skiptir mig miklu og undanfarin misseri er ég í þematengdum verkefnum sem ég kalla „Loftslags Lóa“. Þetta eru verkefni sem snúa að því að draga úr umhverfisporinu mínu með mörgum litlum skrefum. Fyrir 10 árum byrjuðum við fjölskyldan að flokka og vorum með moltukassa útí garði bæði hér í borginni og í sveitinni, en nú er þetta eðlilegur þáttur af daglegu lífi hjá langflestum. Einnig tók ég ákvörðun um að ástunda fjölbreyta samgöngumáta og fara ekki alltaf allt á bílnum. Þannig fór ég að taka strætó sem var mjög auðvelt því ég er alvön almenningssamgöngum frá þeim árum sem ég hef búið erlendis og þar sem ég var alin upp í Strætó á mínum yngri árum í Breiðholtinu þar sem við fórum allar ferðir okkar í strætó. Síðan byrjaði ég fyrir 4 árum að hjóla í vinnuna ofan úr Árbæ ca. 2-3 svar sinnum í viku ca.5-6 mánuði ársins og síðan hef ég aukið það og eftir því sem við á.

Annað sem þú vilt taka fram?

Neytenda og umhverfisvitund hefur tekið miklum stakka skiptum í mínu lífi á undanförnum 20 árum. Slow food aðferðafræði, veiði og ræktun, endurnýting á fötum sem er inngróin í fjölskylduna, fjölbreyttir samgöngu mátar og flokkun er í dag bara eðlilegur þáttur af mínu daglega lífi. Það sem í fyrstu virtust vera stór og erfið skref eru í dag ósköp venjulegir og litlir hlutir. Þannig að ég hugsa alltaf skref fyrir skref, eitt stór skref í dag er lítið skref á morgun.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -