Fimmtudagur 18. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Datt á allan leikarahópinn úr hæstu lyftunni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leik- og söngkonan Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir leikur Báru hafmeyju í glænýju verki Leikhópsins Lottu sem sýnt verður um land allt í sumar. Sýningunni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um allt ruslið sem það hendir út í náttúruna.

„Verkið í ár heitir Litla hafmeyjan og við fléttum söguna saman við ævintýrið um Hlina kóngsson. Leikritið er samið með það í huga að vekja fólk til umhugsunar um ruslið sem það fleygir frá sér, hafmeyjurnar eru jú að drukkna í öllu þessu sorpi sem fleygt í sjóinn,“ segir Thelma sem fer með hlutverk Báru hafmeyju í verkinu. „Hún er mikill kvenskörungur, sterk, hvatvís og hugrökk stelpa.“ Þetta er í annað sinn sem Thelma tekur þátt í uppsetningu hópsins, byrjaði síðasta sumar í Lottu í leikritinu Gosa.

Litla hafmeyjan. Leikritið er samið með það í huga að vekja fólk til umhugsunar um ruslið sem það fleygir frá sér, hafmeyjurnar eru jú að drukkna í öllu þessu sorpi sem fleygt í sjóinn,“ segir Thelma.

„Undirbúningurinn hefur gengið afar vel, leikritið er reyndar flóknara en sýningar sem Lotta hefur áður sýnt. Við erum yfirleitt öll á sviðinu á sama tíma, því þó að áhorfendur sjái bara tvær hafmeyjur að synda í hafinu á sviðinu, er restin af leikarahópnum skríðandi á hnjánum að reyna að láta þær líta vel út. Það getur verið ansi snúið að vera fastur í sporð á sviðinu og þurfum við mikla aðstoð. Það er mikið um lyftur og áhættuatriði í sýningunni og skiptir máli að hver aðili sé á réttum stað. Einu sinni datt ég á allan leikarahópinn úr hæstu lyftunni en sem betur fer var það á æfingu og við látum það ekki gerast aftur,“ segir hún brosandi.

Sjá um allt sjálf
Thelma er menntuð í sviðslistum og starfar aðallega sem söngkona. Áður en hún tók til starfa með leikhópnum Lottu lék hún í Þjóðleikhúsinu og hjá MAK, Menningarfélagi Akureyrar. „Munurinn á þessum leikhúsum og Lottu er auðvitað sá að við gerum allt sjálf, sex leikarar og leikstjóri, en í leikhúsinu eru tugir manns á bak við hverja sýningu og leikari er bara leikari, ekki markaðsfulltrúi, sviðsmaður, hljóðmaður, sviðshönnuður, starfsmaður í miðasölu, sætavísir, bílstjóri og svo framvegis. Sem betur fer erum við með búningahönnuð því ég gæti engan veginn saumað með mína tíu þumalputta,“ segir Thelma.

„Næstu mínúturnar fóru þá í að koma í veg fyrir að blóð færi á leikmynd og búninga.“

„Við sjáum um allt sjálf – setjum upp leikmyndina, undirbúum leikmuni, gjöllum til að láta fólk vita að við séum mætt á svæðið, seljum í sjoppunni og tökum á móti áhorfendum. Síðan kemur loksins að því að leika sjálfa sýninguna og eftir hana viljum við auðvitað tala við flesta og gefa fimmur eða taka myndir. Eftir það þarf svo að gera upp, taka niður leikmyndina og raða aftur í kerruna. Þetta er mikil vinna en við reynum að vera skipulögð og halda vel á spöðunum. Það er mikill kostur að fá að ferðast um landið og heimsækja falleg bæjarsvæði og kaupstaði. Auðvitað væri ég helst til í að taka fjölskylduna alltaf með, en stundum er svo brjálað að gera hjá okkur að það er bara ekki hægt, en það kemur fyrir að við getum boðið fjölskyldum okkar með okkur og þá er þetta alveg hreint dásamlegt.“

Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir tekur nú þátt í uppsetningu Leikhópsins Lottu í annað sinn. Mynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir

Veðrið hefur mikil áhrif
Henni finnst sýningarform Leikhópsins Lottu afar skemmtilegt enda sé engin sýning eins, undirlag ólíkt og veðráttan sjái til þess að þau þurfi að meta hverjar aðstæður fyrir sig.

„Nefnd innan hópsins sér til þess að hver sýning verði sem best. Hún ákveður nákvæma staðsetningu á grasinu og hvernig við snúum, undirlagið þarf jú að vera sem sléttast og sólin má ekki skína beint í augun á áhorfendum. Veðrið skiptir auðvitað svakalega miklu máli og er einn Lottumeðlimur skipaður veðurfræðingurinn og er í beinu sambandi við veðurguðina. Veðrið getur haft töluverð áhrif á sýninguna en á sólardögum fyllist dalurinn og áhorfendasvæðið og þá þarf að gera ráð fyrir fjöldanum og poppa nóg og mikið. Síðan á rigningardögum þurfum við að passa upp á rafmagnið og fleira sem við viljum ekki að blotni.“

- Auglýsing -

Í öllum hamaganginum getur síðan eitt og annað komið upp á. „Á sýningu um daginn gaf Sævar, bróðir Báru hafmeyju, henni einn á hann þegar hann ætlaði að veifa höndinni aðeins. Næstu mínúturnar fóru þá í að koma í veg fyrir að blóð færi á leikmynd og búninga,“ segir hún hlæjandi.

Höfundur Litlu hafmeyjunnar er Anna Bergljót Thorarensen en þetta er níunda verkið sem hún skrifar fyrir hópinn. Hún semur einnig lagatexta ásamt Baldri Ragnarssyni og er leikstjóri sýningarinnar. Lögin eru eftir Björn Thorarensen, Rósu Ásgeirsdóttur og Þórð Gunnar Þorvaldsson, dansar eftir Berglindi Ýri Karlsdóttur og búningahönnun er í höndum Kristínu R. Berman. Leikarar ásamt Thelmu eru þau Andrea Ösp Karlsdóttir, Árni Beinteinn, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Þórunn Lárusdóttir. Nánari upplýsingar eru á heimasíðunni leikhopurinnlotta.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -