2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Enn einn bletturinn á hina fögru íþrótt

Það hefur löngum verið vitað að spilling grasserar í knattspyrnuhreyfingunni. Spillingin holdgervist meðal annars í þeirri ákvörðun að næsta heimsmeistarakeppni fer fram í Katar, landi þar sem ógerningur er að spila fótbolta á þeim tíma sem mótið fer alla jafna fram. Þýska blaðið Spiegel hefur á undanförnum vikum opinberað kerfisbundna spillingu í æðstu lögum knattspyrnuhreyfingarinnar. Umfjöllunin á rætur að rekja til grasrótarhreyfingarinnar Football Leaks og byggir á stærsta gagnaleka sögunnar. Blaðamenn Spiegel, ásamt 80 manna teymi frá 15 af helstu fjölmiðlum heims, hafa undanfarna mánuði farið yfir um 70 milljónir skjala sem sýna hvernig stærstu og ríkustu félög heims, í krafti gríðarlegs fjármagns, svínbeygja reglur og gildi íþróttarinnar til þess að moka enn meiri fjármunum undir sig. Lykilmenn innan hreyfingarinnar eru ýmist virkir þátttakendur eða líta undan. Umfjöllunin varpar meðal annars ljósi á leynilegar fyrirætlanir stærstu liða Evrópu um stofnun ofurdeildar og hvernig olíufurstar í Persaflóa svifust einskis til að gera algjört miðlungslið í Bretlandi að einu besta liði í heimi á aðeins nokkrum árum.

Framlenging af Sepp Blatter

Einhverjir hafa eflaust talið að þegar Sepp Blatter hrökklaðist úr forsetastól FIFA vegna yfirgengilegrar og lítt duldinnar spillingar að betri tímar væru í vændum. Eftirmaðurinn, Gianni Infantino frá Sviss, boðaði enda nýja og bjartari tíma en gögn Spiegel sýna að Infantino er lítið annað en framlenging á forvera sínum, jafnvel ívið óforskammaðri. Eitt hans fyrsta verk var að reka þá aðila sem voru að rannsaka innri mál FIFA, þar með talið hans eigin, og skipta þeim út fyrir manneskju sem hreinsaði nafn hans áður en hún tók til starfa. Hann skipaði svo aðalritara sem hafði aldrei komið nálægt fótbolta. Undir hans stjórn hefur FIFA dælt út milljónum dollara til aðildarsambandanna að því er virðist án nokkurrar ábyrgðar eða eftirfylgni. Lúxusbifreiðar, einkaþotur og dekurferðir til vilhollra koma oftar en ekki við sögu.

Velgengni í skjóli olíuauðs

AUGLÝSING


Stór hluti uppljóstranna snýr að enska stórliðinu Manchester City, enda hefur uppgangur þess liðs á síðustu árum verið ævintýralegur. Manchester City var í besta falli miðlungsklúbbur þegar hann var keyptur af fjárfestingasjóði í eigu konungsfjölskyldunnar í Abu Dhabi árið 2008. Peningarnir flæddu inn í klúbbinn og sýna gögn Spiegel hvernig stjórnendur félagsins fóru kerfisbundið á svig við fjárhaldsreglur FIFA til að fegra bókhaldið. Manchester City spilaði eftir eigin leikreglum og gátu þannig, ólíkt keppinautum þeirra, gert ævintýralega styrktarsamninga við tengda aðila sem síðan tryggðu þeim aðgang að bestu knattspyrnumönnum og -stjórum heims. Þegar UEFA tók sig til og ætlaði að refsa Manchester City og franska liðinu PSG, sem einnig er í eigu moldríkra olíufursta, beitti títtnefndur Infantino, þá aðalritari UEFA, sér persónulega fyrir því að refsingarnar yrðu einungis til málamynda.

Sýna deildum og landsliðum fingurinn

Í tölvupóstum Football Leaks er að finna leynileg plön stærstu klúbba Evrópu um að koma á fót svokallaðri ofurdeild sem myndi gjörbreyta landslagi fótboltans til langframa. Planið er að 20 bestu (og ríkustu) lið álfunnar kljúfi sig frá eigin knattspyrnusamböndum og stofni eigin deild. Þessi lið myndu svo skipta með sér gríðarlegum tekjum sem fengjust í formi sjónvarpsréttarsamninga, sölu aðgöngumiða og styrktarsamninga. Þetta eru lið eins og Bayern München, Real Madrid, Barcelona, Manchester United, Liverpool, Juventus, PSG og fleiri. Gögnin sýna einnig að forráðamenn þessara liða hafa leitað leiða til að tryggja að leikmenn þessara liða þyrftu ekki að spila leiki með sínum eigin landsliðum.

Stórgræða á afrískum vonarstjörnum

Gögnin gefa sömuleiðis innsýn inn í hvernig stærstu lið heims notfæra sér unga leikmenn frá fátækari löndum sér til hagsbóta. Þannig hefur Manchester City starfrækt knattspyrnuakademíur í nokkrum Afríkulöndum um árabil. Þar fá ungir leikmenn aðgang að þjálfun og menntun sem þeir ættu alla jafna ekki völ á, sem vissulega er jákvætt, en framtíð þeirra er þó ekki eins glæst og ætla mætti. Félagið lítur á þessa drengi eins og hvern annan varning og samningarnir sýna að Manchester City hefur fullan yfirráðarétt yfir þeim. Ef þeir eru ekki nægilega góðir fyrir félagið eru þeir lánaðir, stundum þvert gegn eigin vilja, til smærri liða í Evrópu. Manchester City veit að fæstir þeirra muni nokkurn tíma spila leik fyrir félagið en akademían þarf ekki að skila nema einni stjörnu svo að fjárfestingin borgi sig, samanber þegar City seldi Kelechi Iheanacho til Leicester á 28 milljónir evra.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is