Laugardagur 27. apríl, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Fjöldi skotvopna fluttur til landsins með ólöglegum hætti – Stórhættuleg vopn ganga kaupum og sölum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölmörg skotvopn eru flutt inn til landsins í hverjum mánuði samkvæmt heimildarmanni Mannlífs. Innflutningurinn nær allt frá sexhleypum yfir í fjölskota skammbyssur og hríðskotabyssur. Eru þær seldar á svörtum markaði, meðal annars með hjálp samskiptaforrita á borð við Signal og Telegram, með gríðarlegum hagnaði. Samkvæmt heimildarmanni Mannlífs koma þær nær allar frá Austur-Evrópu, en þar eru skotvopn víða aðgengileg almenningi. Leiðirnar sem notaðar eru til þess að flytja inn skotvopnin eru jafn ólíkar og þær eru margar, en heimildarmaður Mannlífs talar þó einna helst um eina aðferð og þau skotvopn sem flutt eru inn með þeim hætti eru oftar en ekki nefndar „lyklakippubyssur“. 

„Þetta er í raun mjög sniðug aðferð og nánast ómögulegt fyrir tollverði að koma í veg fyrir þennan innflutning,“ segir heimildarmaður Mannlífs, sem ekki vildi láta nafns síns getið af ótta við hefndaraðgerðir þeirra sem flytja inn skotvopnin. Hann segist sjálfur hafa staðið í slíkum innflutningi í tæpt ár, en hætt því þar sem hann hefði nýverið stofnað fjölskyldu og vildi ekki eiga á hættu að verða tekinn og þannig missa af því tækifæri að sjá barn sitt stíga sín fyrstu skref.

„Ég er ekki sá fyrsti sem talar um þetta en blaðamaðurinn Atli Már ræddi þetta til að mynda í útvarpsþætti hjá Harmageddon fyrir ekki svo löngu,“ segir heimildarmaðurinn, en þar vísar hann til hlaðvarps Mána og Frosta sem aðgengilegt er á Tal.is. Þar ræddi Atli Már Gylfason við þá félaga en sá fyrrnefndi var staddur í Búdapest þegar viðtalið átti sér stað og lýsti þar meðal annars umræddri aðferð.

„Í grunninn er þetta mjög einfalt. Það eina sem þú þarft er að þekkja einhvern í undirheimum Austur-Evrópu og það er ekki mikið mál. Það eru svo margir glæpamenn frá þessum löndum sestir að hérna á Íslandi og ef þú hefur eitthvað verið viðriðinn fíkniefni eða glæpi hérna á klakanum, þá þekkir þú einhvern Litháa eða Pólverja. Það eru þeir sem redda þessu. Reyndar eru Rússarnir líka ansi úrræðagóðir þegar það kemur að því að redda skotvopnum. Skammbyssa kostar kannski tuttugu þúsund íslenskar krónur þarna úti og sama skammbyssa, komin hingað til lands, hækkar í verði um að minnsta kosti eitt núll,“ segir heimildarmaðurinn sem heldur áfram og tekur dæmi: „Ef ég kaupi eina skammbyssu þarna úti á tuttugu þúsund krónur, þá er hún færð byssusmið þarna úti sem tekur 200 evrur eða um það bil þrjátíu og tvö þúsund krónur fyrir að taka hana í sundur. Þarna er kostnaðurinn kominn upp í tæpar fimmtíu þúsund krónur. Þessi byssusmiður tekur hana alveg í sundur, hvern einasta part sem hægt er að taka í sundur og vittu til að það kemur manni á óvart hvað hægt er að taka þessar helvítis byssur mikið í sundur, og hefst þá áhugaverða vinnan sem gerir tollvörðum algjörlega ómögulegt að átta sig á þessu,“ segir heimildarmaður Mannlífs.

„Í alla þessa parta sem eru teknir í sundur er borað pinkulítið gat með eins litlum bor og mögulegt er. Þetta er í raun eins lítið gat og hægt er að gera, svo lengi sem lítill lyklakippuhringur kemst í gegnum það. Af hverju lyklakippuhringur? Jú, því þegar þetta litla gat er komið þá er litlum lyklakippuhring komið fyrir. Þegar upp er staðið þá ertu með kannski þrettán parta af skammbyssunni sem einir og sér líta bara út eins og lyklakippur. Þetta er svo sent til landsins í pósti, hver og einn partur sér og yfir eitthvert ákveðið tímabil. Þannig lítur þetta bara út eins og lyklakippa og tollvörðurinn hefur ekki hugmynd um það,“ segir heimildarmaðurinn.

Jónas Hafsteinsson, lögreglufulltrúi í leyfadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í viðtali við Reykjavík síðdegis, í fyrra, að lögreglan yrði ekki mikið vör við smygl á skotvopnum til landsins. RÚV greindi frá því í fyrra að fjögur þúsund skammbyssur væru í einkaeigu á Íslandi, en áður hefur komið fram að skotvopn á landinu séu rúmlega 70 þúsund talsins.

- Auglýsing -

Samkvæmt könnun sem gerð var í Sviss árið 2017, og bar yfirskriftina Small Arms Survey, er Ísland númer 12 í heiminum yfir byssur á hverja 100 íbúa, miðað við höfðatölu eða 31,7 á hverja 100 íbúa, en könnunin gerir ráð fyrir óskráðum sem og skráðum skotvopnum.

Jónas sagði í viðtalinu að svokallaðar kindabyssur væru rúmlega þúsund talsins hér á landi, en langflestar skammbyssurnar séu notaðar til íþróttaiðkunar.

Sagði hann einnig ómögulegt að segja til um fjölda óskráðra skotvopna á Íslandi.

- Auglýsing -

„En ég held að við sleppum ekkert við það frekar en aðrar þjóðir, að vera með eitthvað af slíku,“ segir hann. „Það er þó þannig að í húsleit og heimsóknum til góðkunningja okkar þá erum við ekki að leggja hald á óskráðar, smyglaðar byssur, það eru frekar stolnar byssur sem hefur þá verið stolið hérna heima.“

Bætti hann því við að það væri sjaldfgæft að tollgæslan legði hald á skotvopn.

Mannlíf hafði samband við Tollgæsluna og spurði hvort hún hefði tekið eftir aukningu á skotvopnasmygli undanfarið og var svarið stutt og skorinort. „Tollgæsla hefur ekki fundið fyrir aukningu á smygli á skotvopnum eða íhlutum skotvopna til landsins.“

Einnig fékk Mannlíf upplýsingar frá Ríkislögreglustjóra um tíðni skotárása á Íslandi síðustu ár. Eftirfarandi svar barst:

„„Skotárásir“ eru ekki skráningarflokkur í málaskrárkerfi lögreglu og eru ekki skráðar með þeim hætti að hægt sé að skoða fjölda þeirra út með einföldum hætti.
Meðfylgjandi eru tölur yfir hversu oft sérsveit Ríkislögreglustjóra hefur verið kölluð út á tímabilinu 2014-2021, vegna skotvopna. Það getur verið vegna þess að tilkynnt er um að skotvopn sé á staðnum, skothvellur hafi heyrst eða annað sem gefur til kynna að skotvopn geti verið á staðnum. Sérsveitin er ávallt kölluð til þegar um slík mál er að ræða.“

Eins og sjá má á tölfræðinni hefur tilkynningum um vopn á vettvangi fjölgað um 469% á síðustu sjö árum. Þá hefur tilkynningum um skotvopn á vettvangi fjölgað um 234% síðan 2014.

Mannlíf bað Ríkislögreglustjóra einnig um tölfræði yfir vopnaárásir á lögreglumenn síðustu árin.

„Það sama á við um ofbeldi gegn lögreglumönnum, ekki er hægt með einföldum hætti að taka út tölfræði yfir þessi tilvik sem óskað er eftir. Ofbeldi gegn lögreglumönnum er ekki skráð eftir verknaðaraðferð.

Meðfylgjandi eru tölur yfir brot gegn valdstjórninni, nánar tiltekið ofbeldi gegn lögreglumönnum (óháð verknaðaraðferð). Einnig fylgja með tölur yfir fjölda manndrápa þar sem skotvopni var beitt.“

Líkt og sjá má á tölunum fyrir ofan má sjá að tilfelli brota gegn lögreglumönnum rokka svolítið upp og niður á milli ára. Meðaltal árása gegn valdstjórninni á síðustu tuttugu árum er 92,35 tilfelli. Manndráp þar sem skotvopnum er beitt eru ekki mörg eða fjögur frá árinu 2000.

Umfjöllun þessi er að finna í nýjasta tölublaði Mannlífs sem finna má ókeypis í verslunum Bónus, Hagkaupa og á N1. Einnig má lesa það á vefnum. Hér má sjá blaðið í heild sinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -