2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Flugfarþegar þurfa í sérstök viðtöl til að komast til Bandaríkjanna

Bandarísk flugmálayfirvöld herða öryggiskröfur enn frekar.

Að kröfu bandarískra flugyfirvalda (TSA) eru öll flugfélög skyldug til þess að framkvæma öryggisskimun á farþegum sem fljúga til Bandaríkjanna áður en þeir fara um borð sem felst í stuttum viðtölum þar sem farþegar eru meðal annars spurðir út í ferðatilhögun þeirra.

Þessi skimun hófst í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík í október sl. og er enn unnið að innleiðingu hennar. Þetta eru kröfur sem TSA setur á öll flugfélög sem fljúga til Bandaríkjanna. Þetta fyrirkomulag hefur verið til staðar fyrir önnur svæði í heiminum í nokkurn tíma og hefur nú verið innleitt fyrir öll félög.

„Þetta er krafa á flugfélögin en ekki flugvöllinn og það eina sem við gerum er að útvega pláss og aðstöðu til handa þeim sem framkvæma viðtölin. Ef þörf er á aðstoðum við flugfélögin með flæðið á farþegunum,” segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi ISAVIA, í samtali við Mannlíf.

Talsmenn íslensku flugfélaganna WOW air og Icelandair staðfestu í samtali við Mannlíf að skimun væri hafin á farþegum sem fljúga beint frá Íslandi og að unnið væri að því að innleiða slík viðtöl fyrir tengiflugsfarþega þar sem það ætti við.

AUGLÝSING


Segja engum gögnum safnað um farþega

„WOW air hefur falið svissnesku öryggisfyrirtæki, sem hefur áratugareynslu af flugöryggismálum, yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins bæði hér heima og á erlendum flugvöllum,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs WOW air. Hún útskýrði jafnframt að í viðtölunum sé beitt spurningaaðferð sem samþykkt hefur verið af bandarískum yfirvöldum og tók fram að engum gögnum sé safnað um flugfarþega félagsins.

„WOW air hefur falið svissnesku öryggisfyrirtæki, sem hefur áratugareynslu af flugöryggismálum, yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins bæði hér heima og á erlendum flugvöllum.“

Icelandair hefur einnig byrjað slíka viðtalsskimun á farþegum sem hefja ferð sína í Keflavík. „Í nóvember mun Icelandair einnig láta taka viðtöl við farþega sem hefja ferð sína í Evrópu eða Bretlandi og skipta síðan um vél í Keflavík áfram til Norður- Ameríku. Viðtöl við þessa tengifarþega munu að mestu vera framkvæmd í Evrópu og Bretlandi en þar sem það er ekki hægt verða viðtölin framkvæmd í Keflavík. Viðtöl við farþega sem hefja ferð sína í Keflavík fara fram í innritunarsal fyrir þá sem eru með innritunarfarangur en við öryggisleit fyrir þá sem ekki eru með innritunarfarangur. Viðtöl við tengifarþega í Keflavík munu annaðhvort fara fram fyrir aftan landamæri eða við hlið,“ segir Lea Gestsdóttir Gayet, almannatengill hjá Icelandair, og bætir við að félagið kaupi þá þjónustu sem felist í að þessar öryggiskröfur séu uppfylltar. Þessi viðbót hafi því ekki áhrif á starfsmannaveltu félagsins.

Unnið að því að fyrirbyggja tafir

TSA krefst sérstakrar þjálfunar starfsfólks sem framkvæmir viðtölin svo þau geti náð markmiðum þessara öryggiskrafna. Að sögn Leu hefur slík þjálfun þegar farið fram hjá þeim sem sinna þessum störfum fyrir hönd Icelandair.

„Ákveðinn kostnaður fylgir hverju verkefni en öll flugfélög sem fljúga til Bandaríkjanna verða að fylgja þessu eftir,“ segir Lea og bætir við: „Þessi viðtöl tryggja enn frekar öryggi farþega um borð.“

Þá leggur Lea áherslu á að í samstarfi ISAVIA hafi flugfélagið unnið að því að koma í veg fyrir að farþegar til annarra svæða en Bandaríkjanna verði ekki fyrir töfum vegna viðtalanna og almennar tafir á brottförum. Jafnframt sé reynt að tryggja að flæði innan vallarins sé ekki truflað.

Þegar flugfélög í Evrópu og Asíu innleiddu þessar sömu breytingar beindu þau þeim tilmælum til farþega að mæta tímanlega á flugvöllinn til að fyrirbyggja tafir, allt frá 90 mínútum upp í þrjár klukkustundir fyrir brottför. Nú þegar er mikill erill á álagstímum í Leifsstöð og á næstu vikum mun koma í ljós hvort og þá hvaða áhrif þessar nýju reglur hafa á brottfarartíma frá Keflavík.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is