Frosti Logason Eitt mesta ævintýri lífs míns

top augl

„Þetta sýndi mér alveg nýja hlið á íslenskum sjávarútvegi. Við sem erum í landi – í Reykjavík og víðar –  þegar við heyrum orðið „útgerð“; þá er það orð sem maður tengir bara við Satan sjálfan; sérstaklega útgerð með kvóta. Það er í raun bara djöfullinn sjálfur og fólk sem stelur peningum. En svo kemur maður um borð í bát sem er gerður út af þessari prýðilegu fjölskylduútgerð sem heitir Einhamar Seafood í Grindavík. Þarna eru hjón sem eiga útgerðina og mér skilst að þetta hafi byrjað bara á trillu hjá karlinum fyrir um 20 árum og eru þau komin núna með þrjá plastbáta. Allir á kvóta og bara þrælduglegt fólk sem mokar inn tekjum í þjóðarbúið. Þetta er allt selt til Bretlands og Bandaríkjanna minnir mig. Strangheiðarleg vinna sem býr til ótrúleg verðmæti. Ég hef aldrei verið að búa til raunveruleg verðmæti í mínum störfum þannig,“ segir Frosti Logason í viðtali við Reyni Traustason. Frosti er þekktur fyrir fjölmiðlastörf en fór í sumar í sinn fyrsta túr á línubátnum Vésteini GK.

Það er öðruvísi að vera fjölmiðlamaður eða rokkari. Það eru öðruvísi verðmæti; þess má geta að Frosti var gítarleikari í hljómsveitinni Mínus á sínum tíma.

Virðing mín fyrir þessari atvinnugrein hefur aukist verulega.

„Þetta eru áþreifanleg verðmæti. Það er alltaf verið að tala um að það verði að vera sátt um sjávarútveginn. Ég sé þetta einhvern veginn þannig að útgerðir sem eru að gera vel, eru að skaffa gjaldeyri fyrir þjóðina og skaffa fullt af fólki störf og eru reknar fyrir eigið fé og áhættu; ég meina – þetta er eini sjávarútvegurinn í heiminum sem er ekki niðurgreiddur af ríkinu. Mér finnst þetta gleymast; þetta er fáránlega vel rekið batterí. Þegar maður var ungur var þetta eini atvinnuvegurinn sem skaffaði okkur gjaldeyri í raun og veru á Íslandi. Sem betur fer erum við búin að dreifa eggjunum í fleiri körfur núna en samt sem áður er þetta ennþá einn sá stærsti. Og virðing mín fyrir þessari atvinnugrein hefur aukist verulega eftir að hafa kynnst þessu svona frá fyrstu hendi.“

 

Vésteinn GK

Hvað rak Frosta á sjóinn?

„Það er góð spurning. Þetta hefur verið á þessum svokallað bucket-lista mínum eiginlega alla mína ævi en mig hefur langað til að prófa að fara á sjóinn. Þröstur, fóstbróðir minn í Mínus, bassafanturinn, er mikill sjóari; hefur verið á togurum og var lengst af á Barðanum fyrir austan hjá Síldarvinnslunni. Ég hef heyrt ævintýralegar sögur hjá honum í gegnum tíðina. Mig hefur alltaf langað til að prófa þetta en það hefur aldrei gefist neitt tækifæri, gat eða tími í mínu lífi til þess að geta hoppað í þetta. Lífið hefur verið að gerast og þetta hefur aldrei verið á boðstólum. Svo atvikaðist það þannig að ég er í löngu fæðingarorlofi og það hefur ýmislegt gengið á og margir sem héldu eflaust að ég væri orðinn atvinnulaus og ég fór að fá símtöl frá fullt af góðu fólki; góðum mönnum sem voru að spyrjast fyrir um hvernig ég hefði það og gá hvort ég hefði áhuga á að gera hitt og þetta.“

Ég hugsaði með mér að sumarið 2022 væri sumarið sem Frosti Logason færi á sjó.

Hugmyndin um að fara á sjóinn kom upp og leist Frosta vel á. „Ég hugsaði með mér að sumarið 2022 væri sumarið sem Frosti Logason færi á sjó.“

Hann talaði á þessum tíma við nokkra skipstjóra og svo var það gamall vinur hans frá Grindavík, Páll Hreinn Pálsson, sem í raun kom Frosta á sjóinn. „Hann er öllum hnútum kunnugur í íslenskum sjávarútvegi; er af þessari Vísis-fjölskyldu. Ég sagði honum að mig langaði til að prófa að fara á sjó og spurði hvort hann gæti hjálpað mér og hvort hann væri með einhverjar hugmyndir. Hann svaraði um hæl að hann væri með í huga fullkominn bát fyrir mig með fullkominni áhöfn. Hann sagði „farðu á netið og gúgglaðu Véstein GK“. Ég gerði það og þá kom upp þessi 30 tonna plastbátur, trefjalínubátur.“

Frosti segir að einn félagi sinn hafi sagt að hann yrði klárlega sjóveikur um borð í svona bát en að Páll hafi sagt að ef hann ætlaði að fara á sjó þá væri langbest að byrja í mestu hörkunni. „Og þú finnur ekki meiri hörku en á línubátunum,“ segir Frosti. „Ég hugsaði með mér að ég skyldi bara stökkva á þetta. Eftir nokkra daga sendi hann mér skilaboð og sagði að Teddi skipstjóri ætti von á símtali frá mér.“ Frosti og skipstjórinn, Theódór Ríkharðsson, töluðu svo saman. „Hann sagðist ætla að gefa mér séns í byrjun ágúst. Ég var búinn að bíða allt sumarið eftir þessu tækifæri. Og ég sló til og flaug austur 31. júlí síðastliðinn, hitti þessa menn sem ég hafði aldrei hitt áður og úr varð eitt mesta ævintýri lífs míns.“ Ævintýrið átti sér stað á 30 tonna yfirbyggðum plastbáti sem var byggður árið 2018.

 

Veðmál í gangi

Frosti segir að margir vinir sínir hafi í gegnum tíðina talað um að reyna að komast á sjó og þá hafi alla dreymt um að komast á uppsjávarskip: „Átta tíma vaktir og kannski þrjár milljónir í laun á mánuði og bara ekkert mál. En ég hafði oft heyrt líka af vinum mínum sem voru að reyna að fara á sjó,“ segir Frosti og telur upp nokkur komment sem hann hefur heyrt þá segja um reynslu þeirra: „Ég fékk bara pláss á línubáti og það er ógeð. Það er viðbjóður. Það gerir þetta enginn. Þetta er mesti viðbjóður sem þú getur boðið þér upp á.“ Jú, þetta segist Frosti oft hafa heyrt. „Ég vissi ekkert út á hvað línusjómennska gengur. Ég hafði bara heyrt að þetta væri andstyggilegt.“

Þetta er seigdrepandi veiðiskapur. Þú ert alltaf að í staðinn fyrir að á togurum þá koma tarnirnar og svo áttu frí á milli.

„Einmitt. Það er ekkert svoleiðis í boði á línunni.“

Ég einsetti mér það að ég ætlaði að fara þarna um borð og passa mig á að væla aldrei, kvarta ekki yfir neinu.

Hvernig var svo fyrir landkrabbann að leggja á haf út?

„Ég átti von á því að verða mjög sjóveikur. Það var búið að segja við mig að í fyrsta lagi þá verði eiginlega allir sjóveikir til að byrja með; sérstaklega á þessum bátum. Vaggið og veltingurinn er þannig einhvern veginn að það er mjög líklegt að maður verði sjóveikur. En það kom fljótt í ljós að ég fann enga sjóveiki. Svo liðu dagarnir og það gerðist aldrei. Þeir voru frekar hissa á því, skipsfélagar mínir um borð, að ég var alveg laus við þetta. Og þeir sögðu mér eftir á að þeir hafi verið með veðmál í gangi um hvort ég myndi endast í þrjá daga eða tvo. Mér er sagt að þegar menn verða sjóveikir og það rjátlast ekki af þeim strax þannig að þeir verða sjóveikir dag eftir dag þá ertu búinn að æla öllu upp sem þú átt og öll steinefnin í líkamanum farin og þá hefur þú enga orku. Þú gefst upp. Ég átti eins von á því að það myndi verða mitt tilfelli en það var aldeilis ekki. Ég einsetti mér það að ég ætlaði að fara þarna um borð og passa mig á að væla aldrei, kvarta ekki yfir neinu og gera bara eins og mér væri sagt og mér tókst að gera það eiginlega alveg 100%.“

 

Engin hvíld

Úthaldið tók 14 daga. Tvær vikur.

„Það er landað á svona tveggja daga fresti; maður nær að henda sér í koju á innstíminu og það er eiginlega eini tíminn sem þú færð að sofa og svo kemur þú að bryggjunni og fyrst heldur maður kannski að maður fái eitthvað breik þá og geti farið að anda léttar en það er aldeilis ekki. Þá þarftu að fara að landa upp úr helvítis dallinum. Það er hörkuvinna og ekki síst mesta púlið þar. Togarasjómennirnir koma ekki nálægt svoleiðis. Það er í öllum kjarasamningum sjómanna að þeir þurfa ekki að landa einu né neinu. En á línunni þá landar þú þessu öllu sjálfur. Svo þegar þú ert búinn að landa þá hefðir þú kannski líka haldið að þú fáir eitthvað breik; en, nei, nei, þá er farið beint í að ná í beitu og fylla dallinn af beitu. Það er líka helvítis púl. Svo þegar þú ert búinn að fylla dallinn af beitu þá er siglt strax aftur út.“

Þannig að þetta er ekki mikil hvíld.

„Nei, það er engin hvíld þarna. Og svo um leið og þú ert kominn út á miðin þá þarftu að fara að dæla út línunni. Þetta er 25 kílómetra löng lína og tekur marga klukkutíma að leggja. Og ég er bara á beitningavélinni alveg grænn og kann eiginlega ekki neitt; þannig að ég er settur á beitningavélina sem er frekar einfalt fyrirbæri. Ég þarf að mata vélina með síld, heilar síldar, og hún dúndrar út línunni og brytjar síldina niður um leið og hendir henni á króka; 20.000 króka á þremur klukkutímum. Og ég má ekki líta af; ég þarf að setja síld, síld, síld, síld.“

Og enginn sem leysir þig af í þrjá tíma.

„Nei, það er enginn. Og þú getur ekki litið frá þessu í eina sekúndu.

Hann var að elda lambahrygg og lambafille, nautakjöt, folaldakjöt og snitsel.

Svo var sá háttur um borð í þessum báti að þegar við vorum búnir að leggja þá yfirleitt var skipstjórinn með hátíðarmáltíð tilbúna. Hann eldar þarna um borð, Theódór Ríkharðsson. Þvílíkur kokkur. Og það er nú þannig að ég hafði ekki borðað kjöt í 10 ár. 2012 horfði ég á einhverja dýraverndunarheimildamynd og steinhætti að borða kjöt. Það var hryllileg framkoma við blessuð dýrin. En ég hugsaði þegar ég fékk þetta pláss að ég ætlaði ekki að fara að væla; að koma ekki um borð og segja „strákar, ég borða ekki kjöt; ég er grænmetisæta“. Það einhvern veginn var ekki að fara að ganga upp. Þannig að ég byrjaði að borða kjöt. Og borðaði kjöt þarna hvern einasta dag í 14 daga. Hátíðarmáltíð alltaf. Hann var að elda lambahrygg og lambafille, nautakjöt, folaldakjöt og snitsel.“

Þannig að skipstjórinn er líka kokkur.

„Já, þetta er örugglega besti kokkurinn í flotanum. Ég get svoleiðis svarið það. Þetta var hrikalega gott. Þannig að við vorum yfirleitt að borða um fjögur um nóttina; þá fáum við þessa fínu kjötmáltíð og þá var eins gott að næra sig vel. Og stundum fær maður að fara smá í koju eftir það og leyfa fiskunum að bíta á krókana. Síðan er byrjað að draga línuna. Og eins og ég segi; það tekur 10 klukkutíma að draga inn 25 kílómetra langa línu. Og þá var heldur ekkert stoppað. Ég er mest í því að blóðga fiskinn. Ég kann ekkert á uppstokkarann ennþá. Það eru alls konar handtök þar sem ég þarf að læra. Ég fékk stundum að fara aðeins á rúlluna.“

Á gogginn.

„Á gogginn. Af því að þyngdaraflið er nú þannig að þegar fiskurinn er dreginn upp og ef það er stór fiskur þá yfirleitt dettur hann af króknum þannig að þú þarft að vera tilbúinn að krækja hann með gogginum og það er svakalegt púl. Þú þarft að taka á öllum þínum kröftum til að kasta þeim inn. Svo þegar þeir detta í sjóinn; það fer enginn fiskur til spillis, þeir eru umsvifalaust kræktir upp og sveiflað upp í bátinn.“

 

Harðjaxlar

Frosti segir að þetta sé stöðug vinna.

„Þetta hljómar kannski eins og einhver þrældómur en þetta er ótrúlega skemmtilegt. Eins og þegar Páll Hreinn sagði við mig að hann væri með fullkominn bát fyrir mig til að fara á og fullkomna áhöfn; það reyndist heldur betur rétt því þessir strákar sem ég var með um borð: Ég trúði því ekki fyrstu dagana hvað þetta voru harðir jaxlar. Ég hef aldrei hitt eins mikla harðjaxla á ævi minni.“

Þeir hafa verið góðir við þig.

„Já, þeir voru góðir við mig allan tímann.“

Oft þegar viðvaningar eru að koma þá er verið að spila með þá.

Ein mín mesta gæfa í lífinu var að hætta að drekka brennivín á sínum tíma.

„Já, þeir sögðu að þeir hafi stundum látið viðvaninginn taka tannbursta til að þrífa alla krókana. Það eru þarna kannski 200.000 krókar. Þeir létu mig ekkert finna fyrir þessu. Og þeir voru líka svo skemmtilegir. Ég hef alltaf borið virðingu fyrir þessari starfsgrein og þessari stétt sjómanna en að fylgjast með þessum strákum, það var eitthvað annað, og svo eru þeir svo klárir. Þetta eru strákar sem eru búnir að vera á sjó síðan þeir voru kannski 16 ára en þeir eru samt svo klárir, vel máli farnir og ofsalega næmir á samfélagið og orðheppnir og einhvern veginn alveg með þetta. Þeir eru rosalega skemmtilegir og reyta af sér brandarana allan sólarhringinn og eru líka svo miklir vinir. Það er alveg dýrðlegt að fylgjast með þessu. Við eigum það líka sameiginlegt að vera allir edrúmenn. Ein mín mesta gæfa í lífinu var að hætta að drekka brennivín á sínum tíma og ég hef eignast í gegnum edrúmennskuna mína allra bestu vini; ótrúlega traustan og sterkan félagsskap. Og það bara bætist í hann núna. Það er eins og það sé lukkuský yfir mér að mér finnst. Ég kynnist þessum þremur núna orðinn 44 ára gamall og þetta eru einhverjir merkilegustu og bestu menn sem ég hef á ævi minni kynnst.“

 

Um 120 kílóa beinhákarl

Þeir mokveiddu í þessum túr.

„Já, ég held við höfum veitt vel. Ég held að þetta hafi verið tæp 90 tonn sem við tókum. Ég hef náttúrlega engan samanburð, þekki það ekki, en mér skilst að við höfum verið að veiða vel og við vorum líka að fylla dallinn nokkrum sinnum. Þá þurfum við að ná í aukakör upp á þak. Þessir strákar eru líka búnir að mastera þá kúnst að ná hámarksgetu bátsins einhvern veginn. Þeir troðfylla hann; þeir fylla hann svoleiðis af beitu að það er ekki þverfótað fyrir beitu um borð þegar við leggjum af stað. Það er til þess að geta lagt allavega tvisvar sinnum og þurfa ekki að fara í land. Fiskurinn er kældur með krapa til þess að halda aflanum ferskum á meðan við erum að veiða meira. Það er ekkert sem getur komið fyrir um borð í bátnum sem þessir strákar geta ekki ráðið við. Við fengum tvisvar sinnum hákarl í línuna. Strax á fyrsta degi kom um 1200 kílóa beinhárkarl í línuna alveg helflæktur. Og ég hugsaði hvað gerum við nú? Risaskepna. Ég hafði aldrei séð neitt þessu líkt og þeir náðu einhvern veginn að vefja honum út úr línunni og frelsa hann með einhverjum ótrúlegum kúnstum.“

Heldur þú að hann hafi lifað?

„Ég veit það ekki, þetta eru tignarlegar skepnur sem verða örugglega 300 ára gamlar og væri synd að þær endi ævina á línunni hjá Vésteini GK.“

Það væru svolítið snautleg örlög.

Frosti borðar ekki hákarl.

„Ég er handónýtur sjómaður. En ég hef verið að koma sjálfum mér á óvart þannig að það er aldrei að vita nema að ég fari að borða hákarl.“

 

Fær í flestan sjó

Sjórinn lokkar og laðar og Frosti Logason segist kunna vel við sig úti á hafi.

„Skipstjórinn hringdi í mig í gærkvöldi og bauð mér að fara í annað svona úthald. Það stóð ekki til; það áttu að vera þessar tvær vikur og búið. Þannig að mér þykir mér mikill heiður sýndur með þessu. Ég ætla að fara aftur um borð og taka aðrar tvær vikur með þeim.“

Þá færðu kannski að fara á uppstokkara. Gogginn.

„Þeir töluðu um það að þeir myndu koma mér betur inn í kerfin hjá þeim þannig að ég færi að gera meira gagn.“

Hvað kom þér mest á óvart á sjónum?

„Í fyrsta lagi var það dugnaðurinn og eljan í þessum strákum.“

Þetta eru greinilega jaxlar.

Það stærsta sem ég tek úr þessu er að hafa kynnst þessum strákum.

„Þetta eru ótrúlegir jaxlar. Að vera að ræsa sig upp klukkan þrjú á nóttunni til að byrja að draga línuna; ekkert hægt að sofa aðeins lengur. Þeir eru grjótharðir og á sama tíma eru þeir miklir öðlingar og almennilegar manneskjur. Það stærsta sem ég tek úr þessu er að hafa kynnst þessum strákum. Svo er það bara hvað bátur eins og þessi getur aflað mikið. Það kemur á óvart. Þeir troðfylla svona línubát og geta komið með í land upp í 50 tonn þegar allt er troðfyllt. Og það kom mér á óvart hvað þetta er ótrúlega skemmtilegt.“

Frosti segist ætla að halda áfram að gera það sem hann kann best. „Það eru fjölmiðlastörfin; blaðamennska og fjölmiðlastörf. En ég sé fyrir mér eins og til dæmis í vetur, að þá gera þeir bátinn út frá Grindavík, frá janúar og fram í maí þá skilst mér að sé vertíð. Þá er þorskurinn að hrygna og þetta eru þá risaaular sem er verið að draga um borð og þeir fylla bátinn í öllum veðrum. Og þá væri gaman að fá að fara einn og einn túr. Ekki úthald heldur fara kannski á sunnudegi og koma á þriðjudegi og geta síðan unnið hin hefðbundnu fjölmiðlastörf með. En það er allavega draumur og ég ræddi það við skistjórann og hann tók vel í þá hugmynd.“

Togarar berast í tal og segir Frosti að hann myndi líka vilja prófa að fara á togara en bendir á að þá séu túrarnir lengri. Frosta hugnast illa að vera fjarri fjölskyldu sinni í of langan tíma í senn til lengri tíma.

„En ég tel nokkuð gott að hafa fengið eldskírnina um borð í línubát. Þá er ég fær í flestan sjó.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni