Föstudagur 26. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Grét gleðitárum og hélt að hann væri deyja: „Sem betur fer sá hún hvorki símtölin né skilaboðin“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kjartan Þórisson, stofandi nýsköpunarfyrirtækisins Tímatal, lýsir á Twitter þeirri skelfilegu reynslu sem hann varð fyrir nýlega. Hann var að undirbúa mikilvægan fund þegar hann fann skyndilega fyrir einkennum heilablóðfalls. Stuttu síðar lá hann á gólfinu, sannfærður um að nú væru dagar hans taldir.

„Ég var að vinna í mikilvægustu kynningu lífs míns þegar ég fann eitthvað „poppa” inni í höfðinu mínu, rétt hjá hægra gagnauganu. Á innan við sekúndu fann ég dofa streyma frá svæðinu yfir allan líkamann og hugsanir mínar urðu að leðju. Bæði algeng einkenni heilablóðfalls,“ lýsir Kjartan.

í ætt Kjartans er að finna nokkur dæmi um að fólk hafi fengið heilablóðfall og glímt við alvarleg eftirköst. „Smá baksaga. Þegar mamma var á mínum aldri og nýbúin að eignast mig fékk hún heilablóðfall sem hún lifði sem betur fer af, og afi hennar, einn stærsti útgerðarmaður landsins á sínum tíma, lamaðist á besta aldri af sömu ástæðu. Þessar sögur þekkti ég vel,“ lýsir Kjartan.

Skilaboð sem enginn maki á að þurfa að fá

Það eina sem honum datt þá í hug var að gúggla málið og hafa samband við unnustu sína. „Ég var viss um að það sama væri að gerast við mig. Ég man að ég náði að opna Google og slá inn “Stroke symptoms”. Dofi og skyndileg hugsanaþoka komu þar ofarlega á lista, sem gerði mig bara vissari um að eitthvað væri að. Ég hringdi í @ranisold sem var úti í göngutúr með vinkonu sinni. Hún svaraði ekki. Ég hringdi aftur. Ekkert svar. Ég sendi henni þá skilaboð sem enginn maki á að þurfa að fá. Sem betur fer sá hún hvorki símtölin né skilaboðin fyrr en eftir að hún var komin heim,“ segir Kjartan.

Því næst upplifði hann furðulega kyrrð. „Ég lá á gólfinu og var viss um að ég væri að deyja. Vinatóninn hennar, Strawberry Swing eftir Frank Ocean, sem ég hafði heyrt svo oft áður og tengdi svo sterkt við hana og allar minningarnar sem við áttum saman, fékk tárin til að streyma. Skyndilega, liggjandi á gólfinu viss um að minn tími væri kominn, áttaði ég mig á því að ég var að gráta gleðitárum. Ég fann að ég var brosandi. Jafnvel smá flissandi. Ég var ennþá viss um að ég væri að deyja, en ég fann að ég var ekki hræddur lengur. Ég var þakklátur,“ segir Kjartan.

Fékk hugljómun

Þarna á gólfinu fékk hann hugljómun. „Ég hugsaði um allt fólkið í lífi mínu og fann að ég hafði haft jákvæð áhrif á alla sem voru mér næst. Ég fann að það góða í mér myndi halda áfram að lifa í gegnum þau og það veitti mér einstaka sálarró. Ég fann og skildi loksins að það eina sem við skiljum eftir í þessum heimi eru áhrifin sem við höfum á annað fólk. Það er það eina sem skiptir máli þegar allt kemur til alls,“ segir Kjartan og bætir við:

- Auglýsing -

„Í fyrsta skipti í langan tíma bað ég til Guðs, eins og fólk gerir oft á augnablikum eins og þessum, og lofaði honum að ef ég kæmist í gegnum þennan dag myndi ég lifa lífi mínu fyrir aðra, með það að markmiði að hafa eins mikil jákvæð áhrif og ég gæti.“

Heilsukvíði ekkert djók

Sem betur fer reyndist þetta ekki heilablóðfall. „Núna, 8 mánuðum seinna (og að mestu kominn yfir heilsukvíðann sem fylgdi mér í nokkra mánuði eftir þetta atvik), trúi ég því innilega að eina leiðin til að finna langvarandi innri frið og hamingju sé að hjálpa öðrum og hafa jákvæð áhrif á fólkið í kringum sig. Þegar Rán kom heim var ég í símanum með 112 að lýsa fyrir þeim hvað ég hafði upplifað. Þeim fannst ólíklegt að þetta hefði verið heilablóðfall og seinna lærði ég að þetta hefði líklega verið ennisholustífla að losna, sem hafi triggerað mitt fyrsta ofsakvíðakast,“ segir Kjartan.

Eftir þetta fór Kjartan að upplifa heilsukvíða og segir hann það ekkert grín. „Í kjölfarið af þessari upplifun var ég lengi ofurnæmur fyrir öllu inni í líkamanum mínum og fékk nokkur vægari kvíðaköst þegar ég hélt að ég væri að fá hjartaáfall eða “annað” heilablóðfall. Heilsukvíði er ekkert djók og ég stend með öllum þarna úti sem eru að glíma við hann,“ segir Kjaran.

- Auglýsing -

Hamingjan kemur með að hjálpa fólki

Að lokum beinir hann orðum sínum að þér, lesanda. „En ég skrifa og sendi út þennan þráð því við munum öll deyja einhverntíman. Sum okkar munu upplifa svona augnablik, þar sem allt rennur saman í eitt, og þá mun skipta máli hvernig þú lifðir lífi þínu – og þá helst hvernig þú komst fram við fólkið sem þú mættir á leiðinni.

Svo ég skil þig eftir með þetta: „Ef þú ert alltaf að leita að hamingju fyrir sjálfa/n þig mun hún alltaf flýja þig. Ef þú hjálpar öðrum að finna hamingju mun þig aldrei skorta hana.” Eigðu frábæran dag, ég vona að þessi (of langi) þráður hafi haft jákvæð áhrif á þig.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -