Fimmtudagur 6. október, 2022
6.8 C
Reykjavik

Guðni Pétur var aðeins 31 árs er hann lést í Sundhöllinni: „Það elskuðu hann allir“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Guðni Pétur Guðnason var aðeins 31 árs þegar hann fannst meðvitundalaus á botni Sundhallarinnar í Reykjavík síðastliðinn fimmtudag. Fjölskyldan syrgir nú einstakan vin. Vin dýra, manna og náttúru, sem fór alltof fljótt.

Fjölskylda Péturs tók af miklu hugrekki á móti blaðamanni Mannlífs í dag. Falleg mynd af honum brosmildum stendur á borðinu og tvö logandi kerti við hlið hans. Sorg fjölskyldunnar er augljós og áþreifanleg á fallegu heimilinu í Grafarvoginum.

„Veröldin er fátækari eftir að hann er farinn.“

Guðni Pétur, sem oftast var kallaður Pétur, eða Pési af kjarnafjölskyldunni, var barnlaus og ókvæntur er hann lést. Hann fæddist 10. nóvember 1989, daginn eftir að Berlínarmúrinn féll og var hann því stundum kallaður því viðurnefni af eldri bróður sínum. Í náttúruperlunni við Geldingarnes gekk Bjarki, litli bróðir, oft með Pétri bróður sínum þar sem Pétur, eða Buddi eins og Bjarki kallaði hann á yngri árum, veitti litla bróður ómetanleg ráð fyrir framtíðina. „Kennarar Péturs í leiklist sögðu hann svo hæfileikaríkan að hann ætti að verða leikari. Hann var svo flinkur í erfirhermum og það kom alltaf eitthvað fyndið hjá honum þegar maður var að spjalla við hann. Við vorum búnir að plana saman ferðalag um heiminn, til dæmis til Japan. Við fórum oft saman í labbitúra og það var það eitt það skemmtilegasta sem ég gerði með honum Pésa mínum. Þá gat ég rætt hvað sem er og aldrei dæmdi hann mig. Hann kenndi mér svo margt,“ segir Bjarki.

Þessi hæfileikaríki maður fór alltof snemma. Blessuð sé minning Guðna Péturs.

Pétur lauk námi í listabraut í Borgarholtsskóla enda var honum margt til lista lagt, meðal annars við teikningar og húsgagnasmíði sem hann hóf nám í eftir að námi í Borgarholtsskóla lauk. Hann fór í kristilegan skóla í Kanada á braut sem kallaðist „School of Hearts“ og var iðinn í skátastarfi á sínum yngri árum. Síðasliðin þrjú ár starfaði Pétur á heimili fyrir geðfatlaða á Flókagötu. „Þar var Pési alveg elskaður og dáður af skjólstæðingunum. Hann var svo einstaklega góður við skjólstæðinga sína, hann kallaði þá alltaf strákana sína þó þetta séu fullorðnir karlmenn,“ segir Guðni Heiðar Guðnason, faðir Péturs.

Jens Ívar, yfirmaður Péturs á heimilinu á Flókagötu, minnist einstaks starfskrafts. „Pétur var frábær starfskraftur, jákvæður og glaðlyndur í fasi. Hann var þolinmóður gagnvart íbúum og nálgaðist þá með virðingu og auðmýkt. Hann var með mikla hæfileika á þessu sviði. Erfiðir hlutir litu út fyrir að vera auðveldir í hans höndum. Hann hafði þetta í sér. Hann var elskaður og dáður af íbúum. Við munum öll sakna hans,“ segir Jens Ívar.

Hinn örlagaríka fimmtudag síðastliðinn var Pétur, eins og oft áður, með einum af skjólstæðingum sínum í sundi. Hann fannst meðvitundarlaus á botni laugarinnar en þar hafði hann legið í einar 6 mínútur þegar hann fannst. Pétur var svo úrskurðaður látinn síðastliðinn föstudag og treystir fjölskyldan nú á rannsókn lögreglu til að fá svör við hvað olli þessu sviplega slysi.

„Alltaf þegar hann kom tók hann utan um okkur og þegar hann kvaddi gerði hann það líka, kyssti og sagðist elska okkur.“

„Pétur var með svo fallegt bros, sem náði til augnanna. Hann var ofboðslega handlaginn, í raun algjör þúsundþjalasmiður og gat gert við hvað sem er. Ef eitthvað brotnaði eða bilaði þá lagaði hann það. Þannig gerði hann líka við fötin sín sjálfur, fyndist honum þörf á en nýtni og nægjusamur lífstíll var eitthvað sem hann tileinkaði sér. Ef eitthvað var að hjá fjölskyldunni, þá fengum við það í hans hendur og það brást aldrei. Pétur var alveg frábær strákur,“ segir Sigrún Drífa Annieardóttir, móðir Péturs. Fjölskyldan beið í klukkutíma á bráðamóttökunni á meðan allt var reynt við endurlífgun. Þegar fjölskyldunni bárust tíðindin af vonlausri stöðu Péturs hefur Sigrún þetta að segja:

- Auglýsing -

„Hann var alltof lengi ofan í, það var of seint að bjarga honum. Það var gjörsamlega óraunverulegt þegar við fengum fréttirnar. Okkur fannst þetta óhugsandi, alveg eins og eins þungt högg í andlitið. Sorgin okkar er svo mikil að því er ekki hægt að lýsa henni. Veröldin er fátæk og hefur misst ljóma sinn núna eftir að hann er farinn.“

„Það sem stendur er er minningin um þennan vel gerða, hjartahlýja og kæreiksríka dreng sem öllum vildi vel. Hann var svo mikill vinur allra, Pétur var gæði út í gegn,“ segir fjölskyldan sorgmædda.

Framundan hjá Pétri voru flutningar þar sem Aron, æskuvinur hans, sem nýlega hafði fest kaup á íbúð ætlaði að leigja honum herbergi og var tilhlökkun hjá þeim báðum mikil, enda miklir mátar. Sjálfur var Pétur nýlega búinn að finna sátt eftir að hafa orðið fyrir miklu áfalli fyrir nokkrum árum er einn hans besti vinur, Snorri, tók eigið líf.

Að sögn fjölskyldunnar var Pétur mikill grúskari og ákaflega fróðleiksfús. Það var sama hvað það var, listir eða handíðar, það lék allt í höndunum á honum. „Pétur var með límheila og var algjör svampur hvað varðar fróðleik. Ef við vissum ekki eitthvað, þá spurðum við bara hann. Ef hann hafði áhuga á einhverju þá sökkti hann sé í það. Pétur var alveg einstakur húmoristi og hafði svo gaman af öllum húmor. Þess utan var hann svo hlýr og góður við alla, vinir hans leituðu mikið til hans til að tala og það elskuðu hann allir. Pétur var alveg einstakur sonur og bróðir,“ segir Guðni Heiðar.

- Auglýsing -

Áður en Pétur hóf störf á heimilinu í Flókagötunni, sinnti hann ævintýraþörfinni, sinnti hjálparstörfum í Kaliforníu, ók flutningarbifreið í Noregi og ferðaðist um óbyggðir Kanada. „Pétur var mikið náttúrubarn og hafði alltaf mikinn áhuga á henni. Þar var hann alltaf í essinum sínu og hvílíkur útivistarmaður,“ segir Sigrún.

Þrátt fyrir að vera með ofnæmi fyrir hundum hugsaði Pétur svo vel um Nóa.

Edgar Smári, eldri bróðir Péturs, minnist þess þegar Pétur tók við hvolpinum hans, Nóa, sem nú er 11 ára. Þrátt fyrir að vera með ofnæmi fyrir hundum tók Pétur ekki annað í mál en að hafa hann hjá sér. „Ég var búinn að vera með hvolpinn í viku en Pétur var svo hrifinn af honum að ég bauð honum að eiga hann. Í gegnum allt þá var hann alveg ofboðslegur mann- og dýravinur. Hlýja hans gagnvart dýrum var einstök og hið sama átti við um gagnvart fólki. Hann var mikill vinur vina sinna og við bræðurnir erum með Pétri að missa okkar besta vin,“ segir Edgar og heldur áfram:

„Við bræðurnir hlógum mikið saman og gerðum grimmt grín að hvorum öðrum. Við ræddum einmitt saman fyrir skömmu þar sem við gerðum upp allt grínið í gegnum árin og fyrirgáfum allt saman. Þá tók hann við stundum við fötum sem ég hætti að nota eftir nokkur skipti. Ég var að fara yfir skápinn hans áðan og þar sá ég fullt af mínum gömlu fötum. Í dag sótti ég líka bakpokann hans í vinnuna og það var svo fallegt að finna þar alla hlutina sem lýsa viðgerðarmanninum og náttúrubarninu Pétri svo vel.“

Sigrún segir það ómetanlegt við minningar um Pétur sú tilhugsun að hann kvaddi fjölskylduna ávallt með faðmlagi og ástarjátningu. „Pétur var alveg yndislegur og var svo lifandi karakter. Ég hringdi oft í hann og við spjölluðum jafnvel í einn eða tvo tíma. Þá var líka svo gaman að koma til hans í heimsókn því hann var svo mikil grúskari. Þá var hann ofboðslegur kærleiksbolti. Alltaf þegar hann kom tók hann utan um okkur og þegar hann kvaddi gerði hann það líka, kyssti og sagðist elska okkur. Hann fór aldrei án þess og ég man vel eftir síðustu kveðjustundinni. Þá vorum við búin að faðmast en héldum svo áfram að spjalla. Þegar hann svo fór tók ég aftur utan um hann,“ segir Sigrún vot um augun.

Nú er rannsókn á hinu sviplega andláti í höndum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Framundan er réttarkrufning til að skera úr um dánarosök Péturs sem var í fantaformi að sögn fjölskyldunnar. „Okkur mislíkaði því verulega þegar virtist eiga afgreiða andlát hans með þeirri skýringu að hann hafi verið með einhver undirliggjandi veikindi. Hann var ekkert veikur og glímdi ekki við neitt sem skýrir þetta. Hann hjólaði allt sem hann fór og hafði gert í mörg ár. Það er mörgum spurningum enn ósvarað og þau svör viljum við fá,“ segir Guðni Heiðar í samtali við Mannlíf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -