Björn Leifsson, eigandi World Class, segist í viðtali við Vísi íhuga það nú alvarlega að reka alla starfsmenn á mánudaginn. Þeir séu nú 350 talsins. Þeir kosti 90 milljónir á mánuði. Hann segist hafa tapað ríflega milljarð króna vegna faraldsins og svo virðist sem hann geti ekki opnað á ný á næstunni.
Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og sósíalisti, segir að í ljósi þessa þá sé eina vitið að ríkið taki yfir reksturinn. Hann sé hvort sem er oftast tengdur sundlaugum á vegum hins opinbera. Hann segir áherslur sem fylgja World Class auk þess óheilbrigðar. Ljóst er að hugmyndin er ekki óvinsæl meðal meðlima hópsins.
Inn á Facebook-hópi Sósíalista er þessari hugmynd varpað fram, að ríkið taki stöðvarnar til sín. Því svarar Gunnar Smári. „Löngu tímabært. Heimskulegt að láta Bjössa í World class selja líkamsrækt sem eitthvað sexí og smart við sundlaugarnar. Þær voru byggðar upp sem almannaþjónustu og þar á að vera heilsurækt sem gengur út á hollustu og heilbrigðan lífsstíl, ekki einhver Gillzenegger-þvæla. Burt með Wold class – inn með Náttúrulækningafélagið, eða eitthvað slíkt sem á djúpar rætur í heilbrigðum hugmyndum um hollustu og heilsu.“
Annar bendir á að 90 milljónir deilt með 350 starfsmönnum sé ekki há laun. Því svarar Gunnar Smári: „Um 200 þús. kr. útborgaðar eftir skatta og gjöld á mann. Þrælakista. Frábært að verið sé að loka henni. Til hamingju Ísland.“